Purple Rain

Við fórum í berjamó í fyrradag..... á leyn-berjamóstaðinn okkar. Leynistaðurinn er frábær því hann er í cirka 30 mínútna akstursfjarlægð frá borginni en samt eru þar aðalbláber auk bláberja og krækiberja. Ekki slæmt. Nú við týndum smávegis af bláberjum, svona til að eiga í muffinsa og svoleiðis sem ég svo frysti og ég ákvað að halda eftir 125 gr í bláberjamauk. Mér var nefnilega send uppskrift frá tryggum notanda CafeSigrun, henni Melkorku en hún hafði sent mér þessa uppskrift um daginn. Uppskriftin er sem sagt að bláberjamauki fyrir ung börn. Mjög sniðugt og frábært að fá svona berjauppskriftir í berjavertíðinni.

Nú ég hófst handa í gær við að sjóða bláber í vatni og setti svo innihaldið úr pottinum beint í Kitchenaid blandarann minn. Óljóst í huganum skaust upp "er ekki betra að kæla vökvann fyrst" en ég hlustaði ekki á það og skellti þessu af stað. Ehemmm....þið munið eftir atriðinu í Bridget Jones þegar hún setur malarann af stað með blágræna gumsinu í og allt fór út um allt? Já það sem sagt SPRAKK allt í loft upp hjá mér vegna hitans í bláberjamaukinu. Það er að segja, lokið skaust af og það varð ALLT fjólublátt, veggir, eldhúsborð gólf, eldavél, skápar, gardínur, bækur, föt og svo mætti lengi telja. Ég var sem sagt í fjólubláu regni. Mér fannst þetta ekki eins fyndið og í bíómyndinni því ég þarf að mála hluta eldhússins aftur þar sem bláberjaliturinn næst ekki úr. Ég þarf líka að pússa og lakka borðplötuna að hluta aftur. Þetta var rosalegt. Annars gerði ég líka bláberjalummur sem tókust mjög vel og ég birti uppskriftina að þeim á vefnum innan skamms (ásamt bláberja-skaðvaldinum).

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It