Fjölmiðlafár, hestaferð og London

Augað hans Hrafns align=Jæja, vel heppnaðri 6 daga hestaferð um Kjöl frá norðri til suðurs er lokið. Það var svakalega gaman og allt heppnaðist svo vel. Ég var að aðstoða Jónu (bæjarstjóra á Blönduósi) í eldhúsinu og við skemmtum okkur konunglega. Það var gott að hún var hress og skemmtileg...hefði annars verið erfitt mál því við þurftum að vinna vel og mikið saman. Það er ekkert grín að elda ofan í 19 svanga hestamenn og aðstoðarfólk. Það þarf að halda ferðalöngum glöðum og söddum sem og aðstoðarfólkinu því það er mikil vinna að halda utan um 69 hross svo vel eigi að vera. Fólk verður að hafa orku og úthald. Maturinn var svona hefðbundinn íslenskur heimilismatur sem Jóna var búin að skipuleggja og mæltist hann vel fyrir hjá öllum. Svo gerði ég 2 kökur af vefnum mínum sem hurfu eins og dögg fyrir sólu. Ég bjóst ekki við því að Þjóðverjarnir myndi borða heilsukökur en það gerðu þeir og lofuðu þær meira að segja í hástert. Ég útbjó líka hollt konfekt sem virtist fara ljúflega niður. Við fengum mikið hrós fyrir matinn í lokin og allir í raun fengu mikið hrós, meira að segja hestar og landslag. Þetta hefði ekki getað heppnast betur.

Það var bæði galli og kostur að ég gat ekki verið á hestbaki. Gallinn var sá að ég var ekki á hestbaki auðvitað en kosturinn var sá að ég gat dundað mér í eldhúsinu sem mér finnst voða gaman og ég gat líka tekið myndir og af hestum get ég tekið myndir alveg endalaust, allan liðlangan daginn þess vegna. Ég tók myndina hérna fyrir ofan af 6 vetra hesti sem heitir Hrafn en hann á kona að nafni Oddný (einn meðhjálparinn í ferðinni). Ákaflega fallegur hestur. Ef vel er að gáð sést ég speglast í auga hestsins þ.e. þegar ég er að taka myndina.

Nú já fjölmiðlafárið....Á föstudaginn fyrir rúmri viku síðan kom viðtal í Morgunblaðinu vegna CafeSigrun. Daginn eftir kom grein í Morgunblaðinu sem ég hafði sent fyrir langa löngu síðan en hún var vegna vinnu minnar og með mynd og öllu. Viku síðar, þ.e. síðasta laugardag kom svo viðtal við Jóhannes í Morgunblaðinu vegna kaffiáhugans. Inn um lúguna áðan datt svo Vikan síðan einhvern tímann (sem greinarhöfundur hjá Birtingi hafði verið svo sætur að senda mér) með einhverri umfjöllun um heimasíðuna mína og fljótlega mun birtast eitthvað í flottu tímariti hér í bæ. Allt í gangi sem sagt he he en það er nú bara gaman. Ég sagði líka við einhvern í ferðinni að við værum að flýja til fjalla vegna fjölmiðlafársins...eða þannig. Ég frétti reyndar af því að það hefði verið fjallað um vefinn minn og uppskriftir birtar í einhverri sjónvarpsdagskrárblaði en það var án minnar vitunar og án leyfis. Það kann ég illa við. Ég segi yfirleitt alltaf já en ég þoli ekki þegar eitthvað er birt án þess að ég viti af því. Það kostar ekkert að spyrja og það er í rauninni bara kurteisi.

Þá er það bara London en við erum að fara í skreppitúr á fimmtudaginn og verðum yfir helgina. Það verður fínt enda er sólin farin að skína þar og byrjað að rigna hér, vel skipulagt. Við ætlum að stússa aðeins en stefnum að því líka að hitta vini okkar Marie og Pete, fara í útivistarbúðir og kaupa það sem vantar, þræða heilsubúðir og grenja pínulítið og almennt láta fara vel um okkur í "heimaborginni okkar".

Annars er það Kenya næst á dagskrá en það er ekki fyrr en í byrjun september. Við verðum bara að fara í göngur eða gera eitthvað skemmtilegta þangað til, ætlum að reyna að fara að minnsta kosti Fimmvörðuhálsinn. Við hlökkum mikið til að fara aftur til Afríku...maður verður órólegur í beinunum ef maður hefur ekki komist þangað í langan tíma. Veit núna hvað Borgar bróðir og Elín voru alltaf að tala um.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Hrundski
01. ágú. 2007

Við komum heim á morgun með rigninguna með okkur svo þið getið nú sólað ykkur í London. Góða ferð og kíkið nú útfyrir zone 1 svona til tilbreytingar :D

CafeSigrun.com
01. ágú. 2007

Heyrðu mig nú......svona skot sko he he. Við nennum ekkert út í sveit sko. Kannski að við förum í zone 2 but that's it. Þegar við komum fyrst til London fórum við einu sinni út á Hammersmith þar sem lestin stoppaði. Við héldum að við værum komin á heimsenda...að lestarnar í London færu ekkert lengra. Við vorum alveg komin upp í sveit sko ha ha. Okkar mottó...ef við getum ekki labbað það á innan við 10 mínútum....er það of langt í burtu he he. Allt of góðu vön.

Áslaug
02. ágú. 2007

Sæl Sigrún!

Langar að spyrja þig að einu, ég var að flytja til London og vantar nauðsynlega að kaupa mér alvöru safapressu. Hef ekkert fundið, en datt í hug að tékka á þér - ætti að vera þín sérgrein; safar og London ;-)

Takk fyrir frábæra síðu!

Kv, Aslaug

CafeSigrun.com
02. ágú. 2007

Hae Aslaug. Er einmitt stodd i London. Eg keypti mina Philips safapressu i John Lewis og eg er mjog anaegd med hana. Thu getur skodad urvalid a heimasidunni theirra og latid senda ther heim jafnvel. http://www.johnlewis.com/Search/Search.aspx?SearchTerm=juice&Offset=1&re... Eg a svona eins og er tharna haegra megin "Philips Pro Aluminium Juice Extractor HR1861". Hun pressar nanast allt nema hveitigras en madur tharf hvort ed er alltaf ser pressur fyrir thaer.

Kvedja

Sigrun