Bloggið

Að vera eða ekki vera daðla

Fyrir þá sem hafa búið erlendis, í stórborgum eins og London, Kaupmannahöfn, Berlín o.fl. stöðum þá er einn af stóru kostunum að geta keypt ávexti- og grænmeti af þeim sem eru að selja slíkt á förnum vegi. Þeir eru með fastan samastað og alltaf er biðröð eftir einhverju til að kaupa. Svo er misjafnt hvað er verið að selja, allt eftir því hvað er „in season”. Á hverjum degi rölti égi með eldra Afkvæmið úr leikskólanum og kem við og kaupi eitthvað til að gogga í á leið heim og gríp svo ávexti/grænmeti með fyrir daginn. Það er góður siður finnst mér því flest börn sem ég sé halda á einhverju drasli eins og ostastrimlum (cheese strings), sælgæti eða Mc Donalds á leið heim úr skóla/leikskóla. Það sem Chris selur er reyndar ekki alltaf lífrænt ræktað en í staðinn þá reynir hann yfirleitt að kaupa beint af bændum í Englandi.

Í síðustu viku var Chris að selja döðlur. Hér má sjá myndir af döðlum eins og þær eiga að líta út og svo döðlum eins og þær eru seldar út íbúð....nánast óþekkjanlegar frá sínu ferska formi, þurrar, litlar og harðar. Fersku döðlurnar eru svo mjúkar að þær nánast bráðna í munninum. Ferskar döðlur þarf ekki að leggja í bleyti t.d. ef maður notar þær í kökur eða muffinsa og smoothie-a og þær eru svakalega góðar sem sætugjafi, það þarf töluvert minni sykur/hrásykur. Þessar þurrkuðu eru ágætar til síns brúks en ekki samanburðarhæfar hvað bragð og áferð varðar.

Ferskar döðlur

Fersk og þurrkuð daðla

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Litla gersemin Pollock's Toy Museum í London

Það eru margir staðir í London í uppáhaldi. Til dæmis heilsubúðirnar og öll þessi frábæru kaffihús í kringum okkur (aðallega rekin af Áströlum eða Ný Sjálendingum því Bretar kunna bara að reka Starbucks, Costa og Nero‘s og svoleiðis keðjur) þar sem allir eru farnir að þekkja okkur og heilsa (enda fastagestir). Garðana grænu og British Museum (ásamt National Gallery, National Portrait Gallery o.fl., ofl.) elska ég líka. Einn staður á þó sérstakan stað í hjarta mínu en það er Pollock‘s Toy Museum. Algjörlega týndur staður og ekki í alfaraleið túrista. Ég labba fram hjá honum á hverjum degi þegar ég fer með eldra Afkvæmið á leikskólann og þó að hann sé svona týndur er fólk sem kemur alls staðar að úr heiminum til að skoða hann. Einn hópur kom sérstaklega frá Bandaríkjunum einungis til að skoða þetta pínulitla safn í húsi sem er skakkt og bogið. Ég hef leitt hópa af ítölskum skólakrökkum þangað (því ég er týpan sem er alltaf spurð til vegar...veit ekki hvers vegna), og í fyrradag var það fjölskylda frá Frakklandi sem var áttavillt og var að reyna að finna Pollock‘s Toy Museum. Að innan er staðurinn jafnvel sætari en að utan. Hann er svo þröngur að maður þarf að smokra sér fram hjá varninginum. Það er hvergi Disney að sjá, né Mattel, né Fischer Price, ekkert Barbie og ekkert BabyBorn. Einungis vörur frá litlum framleiðendum, oft handgerðar eru í boði og einungis alvöru leikföng, trébílar, xylophone-ar, dót sem snýst í vindi (litlar myllur eins og maður átti í gamla daga), alls kyns dót til að setja saman sjálfur, trépúsl, handgerðar dúkkur o.fl., o.fl. Varningurinn er alls ekki dýr heldur sem er með ólíkindum miðað við hversu lítill lagerinn er.

Á efri hæðinni er leikfangasafn og það kostar ekki nema 5 eða 6 pund inn. Fyrir fólk sem hefur gaman af sögu eða leikföngum, eða brúðuleikhúsum þá er þetta staðurinn sem þið ættuð að heimsækja. Ef þið finnið Habitat á Tottenham Court Road eruð þið ekki langt undan en Pollock‘s Toy Museum er bara í 1 mínútu göngufjarlægð. Svo þegar þið eruð búin að fara í leikfangabúðina sætu (sem fékk Brighter London Award árið 1973 eins og sést á verðlaunaplaggi fyrir utan búðina og er ótrúlega sætt að sjá þó að 40 ár séu liðin frá verðlaununum) þá getið þið annað hvort fengið ykkur te á Yuumcha kaffihúsinu eða farið í Planet Organic heilsubúðina og fengið ykkur að borða eða smoothie eða kaffi eða eitthvað annað gott. Þetta horn hefur verið á leið minni á mínum daglega göngutúr í langan tíma og ég brosi alltaf þegar ég labba fram hjá. Frábær staður fyrir fólk með börn (mínus plássleysið en geyma má kerrur fyrir utan) eða bara fólk sem langar að vera barn í sér í smá stund.

Hér eru nokkrar myndir af húsinu (reyndar bara teknar á iphone-inn).

Pollock's Toy Museum að utan

Pollock's Toy Museum að utan

Pollock's Toy Museum, gluggi

Mynd af glugga Pollock's Toy Museum

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Um gildi þess að hlusta vel....

Ég er mjög gjörn á að koma mér í pínlegar aðstæður, alveg án þess að ætla mér það auðvitað. Eins og til dæmis í gær á hárgreiðslustofunni. Ég sat í stólnum og eins og venjulega var ég að lesa útprentaðar vísindagreinar. Sem þýðir að ég var djúpt niðursokkin. Sem þýðir líka að ég var ekki alveg að heyra allt sem hárgreiðslukonan sagði. Hún talar reyndar ekki mikið en enskan er svo stirð að ég skil ekki allt. Þó ég leggi mig mjög mikið fram. Þó ég stafi nafnið mitt þegar ég panta tíma hjá þeim, fyrir framan þær, skrifa þær það vitlaust. Og ég reyni ekki einu sinni eftirnafnið, bara fyrra nafnið. Það er yfirleitt svona: (ég segi) „It‘s S for Sierra“ (hún skrifar F), „I for India“ (hún skrifar M), „G for Golf“ (hún skrifar K) o.s.frv. Ég kann ekki við að leiðrétta þær, því ég veit að önnur þeirra er búin að vera í enskuskóla allan síðasta vetur. Þrátt fyrir að þær hafi búið hérna síðatliðin 17 ár og séu giftar Bretum.

Allavega, Í gær sat ég hin rólegasta í stólnum, og eins áður sagði var ég niðursokkin. Tania segir svo „heyrðu ég var að kaupa hana, hún var rosa dýr“ og ég leit út um gluggann og horfði á aðstoðarstúlkuna sem stóð krókloppin og var að reykja. Mér fannst þetta skrýtið og óþægilegt. En ég sagði „já er það?“. Og svo sagði Tania líka „finnst þér hún ekki falleg?“ og ég leit út um gluggann og horfði á unga stúlku, ljóshærða, voða sæta. Og ég sagði „jú, voða sæt?“ Og mér fannst þetta voða skrýtið. En svo hélt ég áfram að lesa greinarnar mínar, og gleymdi umræðunni. Nema klukkutíma síðar (ég var að fá strípur í hárið), sagði hún „hún er rosa loðin“. Ég roðnaði og hætti að anda í smástund og stakk mér ofan í pappírana mína...og stamaði vandræðalega: „Nei hvað segirðu? Er það?“ (gúlp). „ Já“ svaraði Tania „og ferlega mjúk líka“. „Hún er líka með ofboðslega blá augu“. Og þarna var ég orðin mjög ringluð því ég tók eftir að aðstoðarstúlkan var með græn augu (augu heilla mig alltaf og það fyrsta sem ég tek eftir í fari fólks, er augnlitur þeirra). Hefði þetta verið á hvaða hárgreiðslustofu sem væri nema þessarri hefði ég orðið hissa en á þessarri, samanber fyrri umfjöllun mína um þessa tilteknu stofu, var ég ekki hissa, heldur skelkuð. Það sem hún sagði svo kom mér úr jafnvægi. „Sko hún er bara svo mjúk að hún er bara þess virði, það er æði að liggja hjá henni“. Ok ég dæmi aldrei fólk en ég ég var bara svo ringluð. Svo það eina sem mér datt í hug að segja var (vandræðalega): „Ég hélt að þið væruð systur?“ (eru mjög líkar)..... og Tania svaraði harkalega „NJET! Systur? Þú rugluð! Af hverju þú halda það“? Og svo sagði hún eitthvað á rússnesku við astoðarstúlkuna sem hló.

Þegar ég var á leiðinni út kom fastakúnni inn og það fyrsta sem Tania gerði var að taka upp gimsteinaskreytta iphone-inn sinn og sýna honum. Mynd af litla, loðna, sæta, bláeygða kettlingnum sem var mjög dýr, en þess virði því það var svo gott að liggja hjá honum.

Þetta var í gær. Í dag setti ég bók í póst en gleymdi að skrifa heimilisfangið utan á.
 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Páskahugmyndir

Þar sem margir eru farnir að huga að páskaeggjainnkaupum þá langar mig að deila með ykkur þessum hugmyndum hér fyrir neðan. Það er nefnilega fátt eins verulega óhollt eins og páskaeggin sem standa keik í stífu plastinu í tonnatali í verslunum landsins þessa dagana. Þau eru voða falleg og verksmiðjuframleidd, það vantar ekki. Skreytt alls kyns plastfígúrum (til að börnin suði meira), með alls kyns sykurblómum og fyllt alls kyns emmmm „góðgæti“.

Elsku fólk (sérstaklega foreldrar). Áður en þið kaupið eggin, lesið þá utan á innihaldslýsingu þeirra. Metið hvort að ykkur finnist þess virði að börnin borði aukaefni, gerviefni, litarefni, bragðefni, hreinan sykur o.s.frv. Eða bara yfir höfuð hvort ykkur finnsit í lagi að borða innihaldið sjálf (þó þið eigið engin börn). Ef svarið er já, hættið þá að lesa hér. Ef svarið er nei, getið þið lesið áfram.

Sko. Það væri allt í lagi ef börnin borðuðu óhollustu EINU SINNI á ári, að leyfa þeim að borða öll þessi efni. En börn borða drasl allan ársins hring, í afmælum, á jólunum, í fjölskylduboðum, í búðinni, á nammidögum, í miðri viku, í skólanum, á leikskólanum. Allan.ársins.hring. Það er sykur í skinku og rotvarnarefni í kjúklingi, aspartam í jógúrti og þúsund og átta ógeðs-efni í sælgæti. Páskaegg eru drasl og eiga ekki að fara inn fyrir varir barna (eða okkar). Punktur. Og það er engin afsökun. Ég á tvö lítil kríli, hef minni en engan tíma og á meðan þau hanga í fótum eða handleggjum, er samt hægt að henda í hollara páskaegg. Tekur svo til enga stund. Og lokafurðin er heimatilbúið góðgæti sem inniheldur hrásykur, dökkt súkkulaði eða carob (mín borða carob eingöngu) og ekkert drasl. Ekkert rusl. Engin skrýtin efni. Ég er ekki að mæla með því að fólk segi nei við börnin um að fá páskaegg....bara ekki DRASL páskegg. Og börn og fullorðnir eru himilifandi með afraksturinn.

Af því að ég ákvað að ekki væri nóg að þrusa yfir ykkur, heldur yrði ég að sýna það í verki líka, henti ég (bókstaflega) saman þessum hérna hugmyndum fyrir neðan á meðan 21 mánaða stubburinn lúrði og sú þriggja ára var lasin heima, ekki nógu lasin til að liggja í sófanum en nógu lasin til að vera hundúrill í skapinu (en að fá að sleikja skeið af carobi getur bjargað miklu). Svo það var ekki einu sinni besta ástandið á heimilinu. Síðasta myndin var tekin um það leyti sem stubburinn var að vakna úr lúrnum (1.5 klst) svo þið sjáið að þetta þarf ekki að taka tíma. Það geta allir fundið 1-2 klst. Galdurinn er að búa ekki til sjálft páskaeggið, sem er þó hægt ef þið nennið (og ég hef oft gert mitt eigið páskaegg líka). Hér er ég búin að kaupa nokkur páskaegg sem voru til skrauts og fylla þau af góðgæti. Athugið að ekki þarf að gera konfekt eða neitt slíkt ef þið viljið ekki, það má hreinlega brjóta nokkra mola niður af góðu súkkulaði og nota þurrkaða ávexti. Upplagt fyrir þá sem eru með t.d. einhvers konar óþol, þá má vandlega stýra því sem fer ofan í eggið. Svo má skrifa persónulegan málshátt og setja með.

Carobið sem ég nota er án alls sykurs, hreint, lífrænt framleitt og er frá Siesta. Ég mæli með að þið kaupið af netinu ef þið viljið prófa það. Súkkulaðið sem ég nota er frá Green & Black's en ég hef líka notað önnur með góðum árangri. Það getur virkað kostnaðarsamt að kaupa inn í framleiðsluna hér fyrir neðan en athugið að allt þetta dót getið þið notað aftur og þarf bara að kaupa einu sinni (nema hráefnið auðvitað en páskaegg keypt út úr búð eru jú fokdýr hvort sem er).

Innkaupalistinn:

  • Carob eða súkkulaði, hvítt, ljóst, dökkt  (magn fer eftir smekk) - lífrænt framleitt og með hrásykri
  • Páskaegg úr pappa eða öðru, eða páskapokar eða eitthvað slíkt sem má finna víða (fengust minnir mig í Tiger eða álíka verslunum)
  • Siliconmót fyrir lítil páskaegg eða konfekt (fást í Hagkaupum held ég)
  • Þurrkaðir ávextir, hnetur, ristuð fræ eða hvað sem ykkur dettur í hug
  • Páskaeggjamót ef þið viljið gera ykkar eigið páskaegg (fengust í Pipar og Salt)
  • Páskaungar, páskaborðar eða annað páskalegt dót
  • Ef til vill málsháttur

 

Páskanammi

Páskakonfekt

Einfaldar súkkulaðiskeljar úr hreinu 70% lífrænt framleiddu súkkulaði með hrásykri

Páskakonfekt

Páskakonfekt í eggi

Heimatilbúið konfekt úr mjólkursúkkulaði, hvítu súkkulaði og 70% súkkulaði (allt lífrænt framleidd, með hrásykri).

Páskakonfekt í páskaeggi

Páskakonfekt heimatilbúið

Páskakonfekt heimatilbúið

Páskanammi í poka skreyttum ungum

Heimatilbúna konfektið í páskapoka.

Páskaegg með hollu sælgæti innan í

Hollasta páskanammið

Hollasta páskaeggið, með þurrkuðum ávöxtum (aprikósum, bönunum, döðlum), cashewhnetum og dökku og ljósu súkkulaði (lífrænt framleitt með hrásykri). Upplagt fyrir þá sem eru með óþol en einnig fínasta páskagjöf fyrir einhvern sem manni þykir vænt um.

Nú er bara að bretta upp ermarnar!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

MSc rannsóknarverkefnið mitt

Jæja. Nú er komið að því....ég er að undirbúa MSc rannsóknarverkefnið mitt í Heilsusálfræði frá University of Westminster sem vill svo til að er á Regent Street fyrir þá sem þekkja til (beint á móti stóra Starbucks-inum, rétt hjá BBC húsinu). Það er ekki hægt að hugsa sér skemmtilegri stað til að vera á í skólanum og tíminn hefur verið frábær. Mér hefur gengið mjög vel og allt hefur hjálpast að, ég er með frábæra aðstoð í formi Sigríðar barnapíu sem hjálpar mér hálfan daginn, Jóhannes gerir mér kleift að sinna náminu og börnin fara snemma að sofa og sofa í 12 tíma (nema þegar þau eru lasin). Og talandi um svefn. Rannsóknin mín snýst einmitt um svefnhegðun 3-12 ára barna. Og mig langar að biðja foreldra barna á þessum aldri (aðeins þarf að fylla út fyrir eitt barn og má velja barn af handahófi til að taka þátt). Rannsóknina má finna hér:http://tinyurl.com/ctstq47 og hún er að sjálfsögðu nafnlaus. Innilegar þakkir til ykkar sem eruð nú þegar búin að taka þátt.

Í þakklætisskyni setti ég inn uppskrift á FB síðuna mína sem þið getið kíkt á.  Myndina sem fylgdi uppskriftinni sjáið þið hér að neðan.....

Dásamlega góð smákökuuppskrift

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ný mynd: Eplakaka

Var að taka mynd af þessarri köku sem var myndalaus og hálf allsber á vefnum :) Kakan er glúteinlaus og mjólkurlaus og mjög einföld í framkvæmd :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ávanabindandi draslfæði og hin ótrúlegu vísindi á bak við það

Notandi vefjarins sendi mér þessa stórgóðu grein The Extraordinary Science of Addictive Junk Food sem fjallar um upphaf skyndibitansog draslfæðis í Ameríku; efnafræðingana, eðlisfræðingana, sálfræðingana, fókushópana, markaðsöflin og síðast en ekki síst neytendurna. Hvers vegna sækir fólk í draslfæði og skyndibita? Þeirri spurningu er svarað í greininni. Hún er löng, en á mannamáli og vel þess virði að lesa. 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Hrósið

Maður er alltaf að uppgötva leynda hæfileika (eins og t.d. að teikna, elda mat o.fl.). Í fyrradag varð eg mjög impressed varðandi það hversu hratt ég hugsa. Á leifturhraða má segja. Ég fékk mér nefnilega kaffi á „staðnum sem ekki má nefna á nafn“. Það misskilja mig allir og halda að ég fíli Starbucks af því mér þyki kaffið þar gott. Ástæðan fyrir því að ég fer á Starbucks er einmitt af því það er ekkert kaffibragð. Jóhannes vill ekki (eða þykist ekki vilja) skilja það. Og fussar og sveiar. Ég fæ mér mjólkurdrykk með kaffibragði...frekar en kaffi. Og það er minnsta kaffibragðið á Starbucks. Þar hafið þið það.

Mér finnst alltaf jafn gaman að koma sem „fastakúnni“ á þessa staði hér í kring því í 8 milljón manna borg er ekkert sjálfgefið að afgreiðslufólkið þekki mann og heilsi kumpánlega. Allir staðirnir hér í kílómetra radíus eru svona staðir þar sem við erum fastagestir. Af þessum sökum finnst mér ég ekki búa í útlöndum....nema um daginn þegar ég var lokuð inni í 5 daga frá morgni til kvölds með tvö lítil og veik börn sem voru gagngert að reyna að myrða hvort annað....og komst ekki einu sinni út með kúkableiurnar......það var ekki hápunktur lífsins verð ég að segja. Á 6. degi fór ég út og fannst ég vera í útlöndum. Meira að segja var heimilislausi nágranni okkar (þessi í svefnpokanum) fluttur.

En já, ég var að kaupa mér kaffi. Þetta var einmitt stuttu eftir að ég gat loksins losnað út (með aðstoð Sigríðar barnapíu)....börnin voru ekki búin að sjá hana í 2 mánuði en föðmuðu hana (dauðfegin að sjá annað andlit en mitt) og ég hljóp út, 30 mínútum síðar. Fyrsta stopp var kaffi, alein. Ég stóð fyrir framan afgreiðsluborðið og litli brúnhærði Ítalinn með grænu augun og eyrnalokkinn horfði á mig. Hann sagði brosandi, flagaralega og orðrétt.....“Vá, þú lítur út eins og grísk gyðja í dag“. Eftirfarandi fór í gegnum kollinn á mér á 0,6 sekúndum: „Já, vá, hárið er nú ekki allt í heysátu, OG ég setti á mig eye-liner, OG ég er með maskara, OG ég er ekki í neinum blettóttum fötum í dag, ég er reyndar með sólgleraugun svo hann sér ekki eye-linerinn og maskarann en það skiptir engu máli, vá frábært að honum finnst þetta því það er svo gaman að heyra svona hól, æ hvað hann er sætur í sér og ég verð að vera duglegri að taka hrósi" (sem ég held alltaf að sé leynt háð)......áður en ég sagði „Takk fyrir! Og brosti hringinn“. Núll-komma-einni sekúndu síðar sá ég að afgreiðslumaðurinn varð vandræðalegur og svo stamaði hann...„öhhhhh.....já...uuuuuhhhh ég var að meina sko......eða....þú lítur vel út í dag líka“..... Og ég kíkti aftur fyrir mig. Þar stóð kona sem var eins og grísk gyðja. Og það var mun eðlilegra að hann teldi hana grísk gyðja heldur en mig. Það var greinilegt. En ég ákvað að vera jákvæð. Og dást að því hversu fljót ég var að hugsa um allt þetta sem ég var að hugsa áður en ég þakkaði fyrir hólið. Ég var kannski ekki eins og grísk gyðja og það voru kannski allir að flissa í röðinni.....En ég komst að því hversu fljót ég er að hugsa um eitthvað.....eins og elding eða blettatígur.......er það ekki eitthvað?

P.s. Í gær fór ég aftur og var að kaupa mér vatn og þá sagði þessi sami starfsmaður....„Vá aldeilis fallegur klútur sem þú ert með í dag (og ég leit aftur fyrir mig...enginn þar)”....„uuuujá takk, sagði ég...”...„ég gleymi andlitinu þínu alveg örugglega, en ekki klútnum”. Og hann meinti þetta í einlægni, honum fannst klúturinn það mikið fallegur. Ég er núna á því að hann þurfi kannski að fara á samskiptanámskeið.
 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Að vera eða ekki vera nautakjöts lasagna.......

Bretar eru þessa dagana að vakna upp við vondan draum. Þeir hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru búnir að vera að láta ofan í sig síðustu árin. Það er allt á öðrum endanum í Bretlandi vegna hrossakjötshneykslisins. Það er nefnilega þannig í Bretlandi að hrossakjöt þykir ekki hæft til manneldis. Ekkert frekar en hundar eða kettir. Hrossakjöts er almennt ekki neytt. Svo það eru margir sem eru að kúgast þessa dagana. Nú er komið upp úr krafsinu að líklega hafa Rúmenar verið að verki. Eða rúmönsk (og jafnvel ítölsk) glæpakeðja og jafnvel með samverkamenn í Bretlandi. Ekki eru þó öll kurl komin til grafar. Nú síðast fréttist af því að börnum hefur verið gefinn þessi tilbúni matur og að í matnum hafi verið alls kyns ógeðs hrossalyf.....

Ég labba nú með bros á vör fram hjá hillunum sem áður seldu þessar tilbúnu vörur og eru nú tómar með skilaboðum frá verslunum um að í gangi sé rannsókn á orsökum þess að hrossakjöt komst í mat. Ég hef nefnilega aldrei á ævinni keypt svona tilbúinn mat. Aldrei. Einkennisorð CafeSigrun eru og hafa alltaf verið: „Hollustan hefst heima“ og það er akkúrat það sem langflestir Bretar (og örugglega Íslendingar) eru að klikka á. Ég hef ekki alltaf tíma til að elda dýrindis máltíðir með góðu jafnvægi próteina, fitu og kolvetnis....til dæmis í kvöld var ég með grjónagraut úr hýðishrísgrjónum og lífrænt framleiddri mjólk. Ég hef ekki komist út í heila viku því börnin eru veik. En frekar gef ég þeim heimatilbúinn grjónagraut heldur en tilbúinn draslmat á bakka. Það má sjóða grautinn að morgni þegar allir eru að hafa sig til og hann er tilbúinn þegar heim er komið. Það hefði verið „auðveldara“ að kaupa 10 svona tilbúna rétti á 2 fyrir 1 og frysta en ég myndi frekar bjóða börnunum upp á kryddaðan og niðurskorinn pappakassa.

Í UK er fólk í eilífu basli með heimatilbúinn mat því samgöngur eru þannig að fólk er kannski 1.5 tíma í og úr vinnu. Húsnæðisverð er afar hátt í miðborginni og t.d. er fjölskyldufólk nánast alltaf fyrir utan miðbæinn. Einn vinnufélagi Jóhannesar var 3 tíma í og úr vinnu. Hann tók rútu frá Kent og svo til baka. Samtals 6 tímar. Hvern dag. Ég þekki marga sem eru 2 tíma í og úr vinnu, það telst eðlilegt. Að hætta í vinnunni kl 18 og vera kominn heim kl 20. Ef lestarnar ákveða að þola rigningu, frost, laufblöð, hita og snjó (sem þær gera ekki alveg alltaf). Tíminn sem ætti að fara í eldamennsku fer í samgöngur. Tíminn sem ætti að fara í að vera með börnunum fer í samgöngur. Búðir eru opnar seint á kvöldin, fólk kemur þreytt heim, grípur með sér bakka af lasagna með nautakjöti (eða 100% hrossakjöti öllu heldur) og hendir í örbylgjuna. Bretar vinna lengri vinnudag en Íslendingar almennt og eyða í kringum 1 ári af hverju 10 árum í lest. Heilu ári í lest. Yfirmaður minn til margra ára átti 2 börn sem hann sá næstum því aldrei (þó hann væri enn kvæntur konunni og byggi í húsinu). Hann hafði ekki hugmynd um hvað þau voru gömul „en líklega eitthvað í kringum 13 og 15 ára“. Bretar vinna reyndar ekki tvöfalda vinnu eins og margir Íslendingar því allur tíminn fer í samgöngur (og það er heldur ekki verðtrygging á lánum svo Bretar ná að greiða niður lánin sín ólíkt Íslendingum).

Mér finnst þetta háalvarlegt mál. Þetta með hrossakjötið. Ekki af því hestar eru gæludýr fyrst og fremst hér í UK heldur af því að FÓLK VEIT EKKI HVAÐ ÞAÐ LÆTUR OFAN Í SIG. Hugsið ykkur bara að við séum komin svo langt frá uppruna matvöru og að maturinn sé svo mikið unninn (með sykri, hveiti, gerviefnum, aukaefnum, rotvarnarefnum, litarefnum, erfðabreyttu fóðri, hormónaviðbótum, vatni, salti) að fólk viti ekki lengur hvort að um sé að ræða nautakjöt eða 100% hrossakjöt. Nú hefur einnig komið í ljós að (litað og bragðbætt) svínakjöt er selt sem nautalundir o.s.frv. og hefur verið gert í mörg ár.

Þetta er akkúrat, í hnotskurn það sem Jamie Oliver er búinn að vera að berjast fyrir í öll þessi ár. Þetta er það sem ég er búin að vera að berjast fyrir öll þessi ár (ok ég er ekki að líkja mér við Jamie Oliver en við eigum þetta sameiginlega áhugamál). Að við þekkjum hvað er í matnum okkar, að við getum útbúið dýrindis máltíðir með hreinu og einföldu hráefni. Helst komið beint frá bóndanum. Síðast en ekki síst að börnin fylgi fordæmi okkar. Að við séum fyrirmyndin hvað hráefnisval, hráefniskaup og þekkingu á hráefni varðar. Það gerir þetta enginn fyrir okkur. Hollustan hefst heima.

Og höfum í huga að það er fullorðna fólkið sem hefur peningavöldin í matvörubúðinni og stýrir innkaupunum. Fjögurra ára gamalt barn veit hvað það vill í búðinni en foreldri hefur peningana og ákvörðunarvaldið. Við skulum ekki gleyma því.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Bollur vs. pönnukökur

Fjörutíu og sjö dögum fyrir Páskasunnudag er Pönnukudagur í Englandi. Það má klína goðsögnina um Jesú við allt, líka pönnsur. Pönnukökudagur heitir svo af því að fyrir föstuna þurfti að hreinsa út úr búrinu það sem til var og oftar en ekki var það hveiti, egg og sykur en þetta þrennt má finna í öllum verslunum þessa dagana...ásamt páskasælgæti, og Valentínusarsælgæti og gott ef ekki er þegar byrjað að troða Haloween sælgætinu fram....þeir eru ekkert að grínast með árstíðaskiptar hitaeiningar hér í UK. Sjöunda janúar fann ég nefnilega páskaegg inn á milli súkkulaðijólasveinanna sem voru á tilboði.

En spurningin er þá. Gerir maður bollur (að íslenskum sið) eða gerir maður pönnukökur að breskum sið. Jóhannes segir að sjálfsögðu að maður eigi að gera bæði (halda í hefðina á hvorum stað) en það er aðeins of mikið af hinu góða held ég. Svo í ár er ég að hugsa um að halda mig við íslensku hefðina....og gera vatnsdeigsbollur.

Ef þið eruð í sömu hugleiðingum (og hvort sem þið gerið glúteinlausar bollur eða ekki) þá eru hér tvær uppskriftir fyrir neðan sem þið getið prufað. Ég þurfti næstum því að selja bílinn okkar þegar ég gerði tilraunir á bollunum hér fyrir nokkrum árum því egg eru jú dýr á Íslandi og það fóru mörg, mörg, mörg egg í þær!

En að öðru þá er merkisdagur í dag en íslensku vefverðlaunin fóru fram við hátíðlega athöfn. Fyrir 2 árum fékk CafeSigrun verðlaun fyrir besta blogg/myndefni/efnistök og ég verð ævinlega montin yfir því. Ekki bara af því það er kúl að fá viðurkenningu á vefinn sinn (í vinstra horni neðarlega á síðunni) og verðlaunagrip úr gleri sem ég hef ekki enn náð að handfjatla (hann er á góðum stað á Íslandi) heldur af því að einn félagi okkar tók upp á símann sinn þegar úrslitin voru tilkynnt og sendi okkur (ég var hérna úti). Ég hef aldrei fengið svona mikla gæsahúð af neinu eins og því. Salurinn bókstaflega rifnaði af fagnaðarlátum. Fyrst dauðaþögn meðan salurinn beið í ofvæni (það voru samtals 5 vefir tilnefndir) og svo var tilkynnt um sigurvegarann og fólk sem ég hef aldrei hitt, aldrei séð, aldrei talað við var að fagna......litlu mér....og mínum vef. Það var flautað og klappað og stappað og í þessar 10 sekúndur var ég drottning alheimsins. Hefði þetta verið á segulbandi hefði það orðið falskt í endann því ég spilaði svo oft.

Í ár var ég í dómnefnd íslensku vefverðlaunanna (nei var ekki í dómnefnd árið sem vefurinn minn var valinn og hef ekki hugmynd um hver var í dómnefnd þá) en gat því miður ekki séð um að afhenda verðlaunin....en það gerði forsetinn í staðinn....ágætt að hafa fólk til að hlaupa í skarðið fyrir sig.

En ég hefði svo þurft eitthvað hvetjandi í dag því á hárgreiðslustofunni í morgun sagði stúlka sem sat í stólnum að henni fyndist hún vera hrikalega gömul...."þúst alveg fertug ea eikka mar" (talaði arfavonda ensku). Hefði ég haft verðlaunagripinn í höndunum hefði hann farið ofan í kok á henni......

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It