Bloggið
Vegna agavesírópsumræðu
Mér finnst umræðan um agavesíróp alltaf jafn fyndin. Eða um heilsuvörur svona yfirleitt. Í fyrsta lagi er sykur óhollur og óþarfur. Hefur alltaf verið það, mun alltaf vera það. Sæta gerir lífið bara aðeins sætara....svona í smákökunum og svoleiðis og mér finnst gaman að hlakka til þess að fá mér kökusneið með kaffinu, eða heimatilbúinn konfektmola þegar ég er svöng. Ég hef ekki borðað sælgæti síðan ég var 12 ára en ef ég ætti að taka út döðlur, hlynsíróp, agavesíróp, rúsínur, pálmasykur, rapadura hrásykur o.fl. þætti mér lífið litlausara. Það þarf lítið til að gleðja mig.
Sykur í sinni hvítustu mynd er gjörsneyddur næringarefnum, steinefnum sem og vítamínum. Hann hefur líka verið bendlaður við ýmsar tegundir krabbameins og auðvitað sykursýki (langtíma samanburðarrannsóknir á mannfólki, ekki einungis á rottum). Sykur í sinni hvítustu mynd er hreinsaður með beinamulningi dýra (og er ástæða þess að t.d. þeir sem eru jurtaætur ættu ekki að neyta sykraðra gosdrykkja frá risaframleiðundunum). Það gerir hann auðvitað ekki óhollari, heldur gerir hann sykurinn í mínum huga ógeðfelldari. Ég borða hvort sem er ekki hvítan sykur svo það skiptir ekki máli.
Það sem mér svo fyndið er að stundum koma fram vörur eins og agavesíróp og allir, bæði kóngar, prestar og pöpullinn nota agavesíróp. Svo fara einhverjir fræðingar að rannsaka vöruna og með einangruðum tilfellum (yfirleitt á rottum) er hægt að sýna fram á að maður geti, eins og drykkjusvolarnir fengið skorpulifur við að neyta agavesíróps. Þá svitnar pöpullinn og kastar sírópinu eins og brennandi kolamola í ruslið, fussar og sveiar og tekur upp Dansukker, hrærir í bollann sama magni og síðustu 20 árin. Sigri hrósandi mælir pöpullinn og segir að hvort sem er sé öll hollusta af hinu slæma, það sé betra að borða bara hvítan sykur, þetta hafi alltaf verið ljóst. Það sem er reyndar mjög skýrt er að þeir sem neyta ruslfæðis og drekka mest af áfengi, reykja o.fl. lifa skemur en hinir sem borða hollan mat (þ.m.t. agavesíróp), drekka minna áfengi, reykja síður o.fl. Hmmm ætli sé samasemmerki á milli? Það er fyrrnefndi hópurinn sem þyngist á ofurhraða. Fólkið sem borðar ekki agavesírópið og goji berin, lucuma duft og spirulina. Er það vegna þessa heilsuvara sem fólkið lifir skemur? Nei nei, ekkert endilega...það eru alls kyns breytur að hafa þarna áhrif. Punkturinn hér er að orsakatengslin eru óljós. Þó að tengsl séu á milli frostpinnaáts og morða þýðir það ekki að frostpinnarnir orsaki morð...það þýðir að í hita hækki hjartslátturinn og örari hjarsláttur veldur meiri streitu, streita kallar á ofsafengnari viðbrögð. Og svo framvegis. Sem dæmi.
Það er alltaf óhollt að borða of mikið, af öllu. Hvort sem það er agavesíróp eða eitthvað annað. Það er þetta með hófið og það er þetta með að OF-nota ekki hluti. Ég nota agavesíróp en ég nota það ekki eingöngu. Ég nota hrísgrjónasíróp, hlynsíróp, hunang, döðlusíróp, pálmasykur, hrásykur, rapadura hrásykur, muscovado sykur....og svo framvegis. Allt eftir því hvað mér finnst henta í uppskriftina. Ég nota ekki eingöngu agavesíróp eða eingöngu hlynsíróp. Það er eins og að nota alltaf sama garnið, hvort sem maður væri að hekla sæta heimferðarskó af fæðingadeildinni, eða stóra peysu á útivinnandi smið.
Í gegnum árin hef ég séð auglýst á vefsíðum (sem m.a. hafa stolið uppskriftum af vefnum mínum, orðrétt með kynningartexta og öllu) að agavesíróp sé sykurlaust. Mér fallast stundum hendur yfir heimsku fólks. Auðvitað er agavesíróp ekki sykurlaust. Það sem skiptir allra mestu máli með uppskriftirnar mínar er að sykurmagnið er TÖLUVERT minna en í öllum öðrum uppskriftum. Sem dæmi þá ætti eplakaka að innihalda 200 g af sykri en ég myndi nota 80-100 g af rapadura hrásykri og jafnvel nota döðlur með. Ég blanda saman sætu, eftir því hvað hentar. Ég nota líka ávexti og ávaxtamauk sem sætugjafa, og döðlur og rúsínur. Agavesíróp er ekki gott fyrir líkamann ef maður neytir þess í lítratali á degi hverjum. Enginn gerir það hvort sem er. Þetta er alltaf spurning um meðalhófið. Það sem fer mest í taugarnar á mér er að hvergi hefur komið fram rannsóknir á öðru en dýrum (og við vitum öll hvernig tilraunir á dýrum eru)....og hvergi hefur komið fram dose-response effect þ.e. þú þarft að neyta x mikið af agavesírópi áður en áhrifin verða x mikil. Þetta er grundvallaratriði í vísindalegum rannsóknum, að hægt sé að bera saman og meta áhrif. Einnig hefur hvergi komið fram munurinn á hvernig þetta baneitraða agavesíróp er unnið þ.e. það er mikill munur á high-fructose agavesírópi eins og það er oft framleitt í USA (og er að drepa allt og alla) eða agavesírópi beint af plöntunni sem hitað undir 47°C (og er í eðli sínu hráfæði sem þýðir að öll ensími haldast heil). Svo er líka ágætt að vita að helstu styrktaraðilar (dýra)rannsókna á agavesírópi eru sykurframleiðendur. Mér leiðist svona letifréttamennska.
Eigum við að hætta að borða agavesíróp? Hmmmm ekki finnst mér það. Eigum við að hætta að borða sykur? Nei en endilega minnka magnið töluvert (og venja sig á að borða minni sykur t.d. 2 matskeiðar en ekki 200 grömm). Hvaða sykur á maður að nota? Þann sem hentar uppskriftinni og þann sem er minnst unninn. Ef maður ætlar ekki að taka út sykur 100% í mataræðinu (sem er dálítið leiðinlegt og tilgangslaust ef maður má borða sætu á annað borð), á maður að nota skynsemina og það sem manni líður best af að nota.
Lokað vegna veðurs
Hurðin að bókasafni skólans var lokuð vegna kuldans í dag..... Hitastigið var 8°C. Bretar myndu líklega deyja ef þeir þyrftu að upplifa vetur á Íslandi.
Duplo-einhverfa
...þetta er ástæðan fyrir því að eldra Afkvæmið nennir helst ekki að kubba með mömmu sinni....sú síðarnefnda VERÐUR að flokka kubbana eftir litum, áður en byrjað er að kubba...annars „líður henni illa inni í sér”. Mjög erfitt að útskýra fyrir rúmlega 2ja ára sem er löngu búin að missa áhugann á því að kubba þegar mamman hefur lokið sér af í Duplo-einhverfu. Ég er farin að kvíða pínulítið fyrir Lego.....
P.s. til að fyrirbyggja allan misskilning, þá er ég ekki að gera lítið úr þeim sem eru einhverfir....
...og þess vegna, gott fólk, drekk ég ekki kaffi
Ég hef ekki drukkið kaffi í mörg, mörg ár. Mig minnir að síðasti kaffibollinn minn með alvöru kaffi hafi endað þannig að ég þurfti, að fara hlaupandi frá Kaffitári Kringlunni, á salernið. Kaffið frá Kaffitári fannst mér alltaf svolítið sterkt í grunninn og ég lenti allavega í óvart-detoxi í hvert skipti. Ég byrjaði í tvöföldum latte, fór svo yfir í einfaldan latte, svo yfir í koffeinlausan, svo yfir í einfaldan koffeinlausan (fyrirgefðu Elsku Jóhannes *roðn*). Þess vegna er ég hrifin af Starbucks kaffinu því það er ekkert kaffibragð af því hahahhaa allavega ekki eins og ég panta það. Mér finnst best ef mjólkurdrykkurinn (eins og Jóhannes kallar kaffipöntunina mína) er með litlu kaffibragði en þeim meira af mjólkurbragði því mér líður ekki vel ef ég finn kaffibragð (er orðin svo skilyrt he he).
Ég byrjaði að drekka kaffi 11 ára og drakk mikið af því. Svo mikið, að stundum fór ég með lítra yfir daginn. Sem er ekki hollt fyrir 12 ára ungling. Mér var bara alltaf kalt og stundum var þetta það eina sem var í boði í hesthúsinu (fyrir utan gamalt Melroses te og Swiss Miss en hvorugt drakk ég). Svo byrjaði ég í framhaldsskóla og háskóla o.fl. og eftir hvern einasta kaffibolla hugsaði ég, æi, blóðsykurinn að hrapa, andskotinn, verð að hætta að drekka kaffi. En ég hætti ekki og þó mér þætti það ekkert sérstaklega gott, drakk ég það samt, af vana. Það fyndna við stöðuna þá er að Jóhannes drakk ekki kaffi, fyrr en eftir tvítugt (þegar ég var búin að drekka kaffi næstum því í 10 ár). Það var ekki fyrr en með fyrsta (pínulitla) Kaffitári í Kringlunni (Sonja var við vélina) sem hann smakkaði fyrsta espressoinn sinn (án mjólkur því hann hatar mjólk í kaffi) og eftir það var ekki aftur snúið. Rest is history eins og sagt er.
Skapið mitt verður (hóst) frekar stirt ef blóðsykurinn fellur og það veit Jóhannes best af öllum en hann neitaði í mörg ár að fara með mig út fyrir hússins dyr nema ef hann gáði í töskuna mína fyrst, hvort ég væri ekki örugglega með eitthvað neyðar-snarl. Ég átti það til að borða óreglulega og lítið, drekka bara kaffi og vera stressuð og skilja EKKERT í því þó ég væri að skjálfa, með niðurgang, sjáandi stjörnur, svitnandi köldum svita og vera brjálæðislega pirruð. Ég átti það svo líka til að gleyma að taka með mér nesti svo ég gat endað einhvers staðar hálf bjargarlaus í blóðsykursfalli. Ég man eftir því eitt skiptið, þegar ég var um 13 ára, var ég að keppa í hindrunarstökki og ég flaug 4 sinnum af hestbaki (braut engin bein í það skiptið, ótrúlegt en satt). Það var orðið framorðið, klukkan var um 22 og ég skildi eeeeekkkkert í því hvað ég tolldi illa á baki en fattaði svo þegar ég kom heim að ég hafði ekkert borðað allan daginn og drukkið örugglega 1,5 lítra af kaffi.
Svo þegar skynsemi tók völd (og Jóhannes sagðist myndi skilja mig eftir fyrir utan búð í eitthvert skiptið, eins og gert er við litla frekjustrumpa) hætti ég að drekka kaffi og leið 1000 sinnum betur að öllu leyti. Ég hef ekki drukkið kaffi í einhver 10 ár. Stundum fæ ég sopa af espresso hjá Jóhannes (finnst gott að fá bragðið í munninn) en að öðru leyti snerti ég ekki á kaffi né neinu með koffeini í (ekki heldur grænu tei né svörtu tei). Af því ég er þetta viðkvæm fyrir örvandi efnum þá verð ég að passa mig á kakói og borða ekkert með kakói í eftir hádegi (ég hljóma eins og eeeeeeldgömul kerling). Ef ég borða t.d. dökkt súkkulaði (meira kakó en í ljósu), nálægt kvöldmat, sofna ég seint, sef illa, vakna oft og á erfitt með að sofna aftur, dreymi illa og er að drepast daginn eftir. Þess vegna er carob himnasending fyrir svona ræfla eins og mig. Það bragðast auðvitað ekki eins og kakó en ef mann virkilega langar t.d. í súkkulaðibitakökur án súkkulaðis, getur maður notað carob í staðinn og í því eru engin örvandi efni. Ég nota það líka fyrir ungviðið því eldra afkvæmið hefur t.d. ekki enn smakkað kakó/súkkulaði en fær carob í allt sem annars myndi vera með kakó/súkkulaði og það svínvirkar enda þekkir hún ekkert annað.
Í gær, hitti ég Maríu vinkonu mína (áströlsku-grísku sem rak eitt sinn kaffihús hérna í London). Við hittumst yfirleitt einu sinni í viku og það er alltaf gaman því við höfum þekkst lengi, elskum báðar mat (hún er örugglega með öll óþol í heimi) og sérstaklega hráfæði o.þ.h. Í gær höfðum við ekki hist í dálítinn tíma og vorum því báðar niðursokknar í kjaftagang þar sem við sátum á Vantra (hráfæðis-vegan staðurinn sem ég hef bloggað um). Ég pantaði mér soja vanilla no caf (again....elsku Jóhannes, fyrirgefðu *roðn*). Borgar bróðir segir að no caf bragðist eins og sokkasafi, af blautum, skítugum ullarsokkum en Jóhannes neitar auðvitað að smakka drykkinn svo ég veit ekki hans mat..en er líklega í sama dúr. No caf er reyndar gert úr hickory (veit ekki íslenska nafnið), malti, byggi o.fl. Ágætis drykkur og það er 100% pottþétt að maður fær engin koffeináhrif af honum. Svo ég pantaði mér bara þennan ljómandi drykk (já Jóhannes mér finnst hann góður) og af því klukkan var bara 13, ákvað ég að vera svolítið „villt” og pantaði mér súkkulaði trufflu (hráfæðis konfekt, massi af kakói, kókosolíu og agavesírópi). Ég var ekki búin að borða það mikið yfir daginn og ákvað að það væri gott að fá svolitla kókosolíu/fitu í kroppinn. 
Mér fannst no caf drykkurinn minn dálítið sterkur (og það var ekkert vanillubragð af honum) en hugsaði ekki út í það meira því við vorum svo uppteknar í blaðrinu. Við sátum í góða klukkustund og mér var orðið svolítið kalt, en var pínulítið sveitt líka. Pældi ekkert meira í því og labbaði af stað með Maríu því ég þurfti að fara og gera innkaup á jólapappír og jólatréi (janúar jól sjáið til). Ég vissi að það var 75% útsala í einni af uppáhalds búðinni minni, Paperchase. Ég kvaddi Maríu á götuhorninu og lagði af stað þessar 5 mínútur sem ég átti eftir í verslunina. Þessar 5 mínútur breyttust í 20 mínútur. Allt í einu fór ég að skjálfa og hristast, kaldur sviti lak eftir bakinu, mér var illt í maganum, mig svimaði, ég sá stjörnur, mér var flökurt, hjartslátturinn var á milljón en púlsinn veikur. Ég hélt að þetta væru mínar síðustu mínútur. Einhvern veginn náði ég að koma mér upp á 2. hæð verslunarinnar (án þess að ég muni eftir því hvernig ég komst þangað) og fór rakleiðis á salernið, eiginlega með hitabeltisniðurgang (þið sem hafið verið í hitabeltislandi vitið hvað ég er að tala um). Ég sat þar í góðar 10 mínútur og hugleiddi hvernig ég gæti komið mér úr þessu klandri. Annað hvort myndi ég hringja á sjúkrabíl en þá myndi ég lenda í vandræðum því ég þurfti að sækja Afkvæmið á leikskóla, eða hringja í Jóhannes (ég var þó það skýr í kollinum að ég ætlaði að hafa símanúmerið hans tilbúið í símanum fyrir þann sem kæmi að mér þar sem ég væri í dái á gólfinu). Ég beið svo aðeins og ákvað svo að harka af mér og verslaði svolítið af jólapappír, jólatré, merkimiða o.fl. (sem er súrrealískt að kaupa inn í janúar). Ég studdi hönd undir kinn þegar ég rétti debetkortið mitt skjálfandi höndum yfir borðið. Það voru svitaperlur á enninu á mér og ég horfði ofan í gólfið. „Uuuuuu er allt í lagi með þig?” spurði afgreiðslumaðurinn. Það eina sem ég gat stunið upp úr mér var „had a no caf, wasn’t no caf”. Ég er MJÖG hissa á að hann hafi ekki hringt á sjúkrabíl þar og þá, eða lögregluna. Þar sem ég sat á dollunni rifjaðist nefnilega upp fyrir mér að sveimhuga hrífuskaftið sem afgreiðir okkur stundum á Vantra lætur mann ALDREI fá það sem maður pantar. Ég hef sem sagt verið að gæða mér á svörtu kaffi á ekki mjög mettan maga og borðandi kakótrufflu með. Þessi blanda er BANEITRUÐ fyrir mig.
Ég tók dótið og það eina sem ég hugsaði um var að komast í Planet Organic heilsubúðina því ég yrði að fá einhvern sykur í kroppinn (5 mínútna labb á milli). Þeir eiga alls kyns góða djúsa alveg þegar maður kemur inn í búðina og ég stefndi þangað. En hægt, því mér leið illa. Heimilislausa, grútskítuga, tannlausa konan með hækjuna sem selur Big Issue blöð á horni Tottenham Court Road og Torrington Place horfði á mig með augað dregið í pung. Hún hallaði undir flatt og spurði „Awrigh dea?” (lagi með'i ‘skan?). Ég brosti skakkt til hennar og hélt áfram. Þegar ég kaupi af henni blaði læði ég stundum að henni orkustöngum á leið minni frá heilsubúðinni og við kinkumst yfirleitt á. Hún er svona kona sem blessar mann í bak og fyrir og þó að ég sé trúleysingi þykir mér alltaf vænt um að hún geri það, hún er jú bara að gera það sem hún telur að komi mér best. Í þetta skipti leist henni eeeeekkert á blikuna. Ég staulaðist inn í heilsubúðina, fór rakleitt að kælinum og sturtaði í mig smoothie. Mér leið strax betur (eða eftir um 1 mínútu) og var svo heppin að verið var að kynna orkustangir hvers kyns (ekki með kakói, ginsengi, grænu tei eða neinu…las vel utan á) sem ég tók lófafylli af og leið enn betur. Ég týndi svo til eitt og annað og borðaði jafnóðum. Ég var næstum orðin söm en eftir 10 mínútur eða svo, var mér farið að líða illa, næringin uppurin, orkan farin úr líkamanum og kaldur svitinn lak niður bakið. Afgreiðslufólkið horfði furðu lostið á alls kyns umbúðir af vörum sem nú voru annað hvort étnar eða drukknar, og skannaði inn. Mér var orðið aftur illt í maganum og ég þurfti að hlaupa á kaffihúsið við hliðina á. Á salerninu jafnaði ég mig nóg til að geta sótt Afkvæmið og ég dreif mig heim. Þegar heim var komið borðaði ég samfleytt í nánast 6 klukkustundir (jafnt og þétt á um 15 mínútna fresti). Ég var ofvirk, hlaupandi um, en leið samt betur þó að ég væri með hausverk (ekkert til að kvarta yfir). Ég sofnaði 4.30 síðustu nótt, eftir að hafa legið andvaka frá um 22.30. Það vottaði ekki fyrir þreytu þ.e. ég geispaði en ekki fræðilegur séns á því að ég myndi sofna. Eftir að ég sá það að það væri enginn að gera neitt af viti á Facebook kl 2 að nóttu, hvarflaði að mér að baka bara….
Þetta, dömur mínar og herrar, er ástæðan fyrir því að ég drekk ekki kaffi né borða kakó eftir hádegi (og alls ekki saman). Það er víst til eitthvað sem heitir koffeinofnæmi (sumir fá reyndar ofskynjanir og geðraskanir sem fylgifisk koffeins) en ég ætla ekki að láta á það reyna hvort ég enda þar. Sumir ná einhvers konar mörkum sem þeir komast aldrei yfir þ.e. ef þú ert kominn að þínum mörkum varðandi koffein, kemstu ekkert fram fyrir þau.
Þetta kenndi mér líka að spyrja ALLTAF hvort að drykkurinn sé ekki ÖRUGGLEGA koffeinlaus. Ég kyrki helvítis hrífuskaftið líklega næst þegar ég fer á Vantra. 
Jól í janúar
Ég er komin með upp í kok af lestri námsbóka. Mér finnst efnið reyndar skemmtilegt en það hefði verið enn skemmtilegra ef prófin hefðu verið í desember. Svo eru ritgerðarskil líka svo ég er algjörlega búin að vera á haus. Ég skil ekki þetta fyrirkomulag en það er mjög algengt í Bretlandi, sérstaklega á efri stigum menntunar. Það verða þess vegna jól nr. 2 næstu helgi þegar ég er búin að öllu. Við ætlum að elda góðan mat, baka smákökur og opna pakka...kannski að maður setji jólalög á fóninn. Ég fer alveg bráðum að eiga líf aftur en ég get ekki kvartað þar sem þetta er jú mitt val, enginn að pína mig til að leggja þetta á mig. Sem betur fer eru Afkvæmin enn nógu lítil til að fatta ekki neitt og finnst þetta eflaust bara hið besta mál að fá svona aukajól. Kannski að þetta verði nýja trendið? Janúar jól?
Að öðru, þá er ég búin að opna detox flokkinn svo nú má hefja nýárshreingerningu á kroppinum.
Að lokum langaði mig að deila þessari mynd með ykkur sem ég tók á símann minn um daginn. Það gengu allir fram hjá þessum fallega einkagarði sem var eins og úr einhverju ævintýri. Hann var svo sem ekki áberandi en ef maður leit aðeins annað en beint fram fyrir sig, blasti hann við. Flestir eru bara að flýta sér svo mikið (ég svo sem líka en ég kíki alltaf í kringum mig, ef ég myndi sjá eitthvað svona skemmtilegt). Ég gat ekki annað en stoppað og tekið myndir, vildi að ég hefði verið með alvöru myndavél. Það var kalt og napurt þennan morgunn og enginn í garðinum.
Snjór og sleifar
Við erum búin að hafa það gott í snjónum. Reyndar erum við komin til London aftur. Flugferðin gekk vel, engin seinkun og íslenskir flugmenn hlæja bara framan í snjóstorminn sem ferðalangarnir dönsku sögðu að hefði næstum kostað þá lífið. „Við vorum næstum dáin, við sáum bara snjó og hann fór mjög hratt...svona að okkur“ og svo kom svúpp hreyfing með höndunum. Ungi maðurinn sagðist næstum því hafa farið að gráta úr hræðslu. Ferðalangarnir voru í Reykjavík þar sem var pínulítill skafrenningur og nokkrir skaflar. Svipaða sögu er að segja um grísk-ástralska vinafólk okkar sem heimsótti okkur árið 2004 í smá snjó. Eftir að hafa lent í vindhviðu og skafrenningi í 10 stiga frosti héldu þau að dagar þeirra væru taldir. Það er víst að maður myndi ekki sjá breskar mæður vaða skafla upp í mitti, ýtandi barnavagni á undan sér. Ég var hissa að sjá ekki keðjur á hjólum barnavagnanna, kannski að þau hafi verið negld.
Það var ekki boðið upp á sælgætispoka fyrir börnin í þessari vél (stór poki fullur af sykri og E-efnum). Þegar við flugum til Íslands var sælgætið „jólagjöf frá jólasveininum“ og tilkynning sigri hrósandi flugfreyjunnar þar að lútandi í hátalarakerfi flugvélarinnar. Til að þetta færi nú örugglega ekki fram hjá einu einasta (sykurþurfandi) barni....í bók Afkvæmisins um flugferð Topsy og Tim (söguhetjanna) eru flugfreyjurnar að gefa börnunum „jarðarber og grænar baunir” (grænt og rautt sælgæti) og aldrei hefur hún kollvarpað þeirri útgáfu  móðurinnar. Afkvæmið spurði reyndar ekki um baunir og jarðarber en ég sagði flugfreyjunni að dóttirin þyrfti ekki sælgæti, hún vissi ekki hvað það væri. Það lyftist augabrúnin á konunni. Afkvæmið var líka með lífrænt ræktaða þurrkaða ávexti og var nýbúin að troða í sig heilum hellingi af sushi-i.
Flugferðir með börn eru alltaf lengri en flugferðir án barna. Reyndar gekk mjög vel mað Afkvæmið 6 mánaða til Afríku. Enda ekki byrjuð að taka tennur að ráði og var því ekki með þrýsting í gómnum, sem hlýtur að vera sárt. Afkvæmi Nr. 2 var ekki sérlega ánægður með að vera að fá 3ju tönnina (sem eiginlega braust fram í fluginu). Hef einu sinni verið með þrýsting í tönnum vegna kvefs og mig langaði að rífa úr mér tennurnar. Hefði ég haft töng, hefði ég gert það sjálf. Það var ekki einu sinni langt flug (frá Nairobi til Mombasa eða öfugt, man það ekki) en flugtak og lending var h.e.l.v.í.t.i. Lögmál barnafólks er að börnin kúki í flugferðum og að maður hafi ekki nægar bleiur. Sem betur fer áttu Flugleiðir bleiur frá 1970 (að sögn flugfreyjanna) þegar bæði Afkvæmin ákváðu að nú væri stundin til að kúka (sem það eldra gerir aldrei nema eftir lúr, eins og nákvæmt, svissneskt úr nema akkúrat auðvitað í fluginu). Auðvitað byrgja foreldrarnir sig upp af bleium fyrir næstu flugferð (20 bleiur á barn og pakki af blautklútum til að vera viss) og aukaföt og allar græjur og enginn kúkar. Auðvitað. Bleiurnar frá 1970 voru mjög funky og litu hvorki út fyrir að vera rakadrægar né var loforð um að þær myndu auka hreyfigetu barnsins. Þær voru líka með hallærislegum myndum. Það vita það allir foreldra sem reynt hafa að skipta á 2ja ára gömlu barni á flugvélasalerni að auðveldara er að reyna að troða sér í hanskahólf bíls og dansa fugladansinn, á hjólaskautum.
Þegar maður er tveggja ára jafnast ekkert á við að borða snjó, velta sér í snjóskafli, vera á sleða, gera snjóbolta, fara á hestbak, sópa hesthúsið, gefa hestunum hey, leika í hlöðunni, drekka heita mjólk með kaldar kinnar, sitja í bílnum hans afa í bílskúrnum (og fá að fikta í öllu), leika með jólakúluna hennar ömmu, skreyta jólatréð/afskreyta jólatréð, skreyta hunda, kyssa hunda og hesta (og fá blautan koss á móti), elta frænkur og frændur skríkjandi og rennandi sveitt í boltaleik í jólaboði, borða góðan mat..... Þegar maður er 6 mánaða er gaman að naga sleif.
Þetta var jólafríið í hnotskurn :)
Gleðileg jól
Nú eru líklega mörg börnin orðin ofurspennt :) Yngra afkvæmið liggur á gólfinu og reynir að komast yfir púðann sem situr í vegi hans eins og risastórt bjarg (hann er nýbyrjaður að skríða). Eldra afkvæmið týnir jólaskrautið af trénu og setur undir borð, eða stól. Þetta eru jólin í hnotskurn þetta árið. Jólatréð er reyndar eina skrautið hér því við erum ekki í eigin húsnæði þessi jólin (því við erum í fríi á Íslandi).
Ég óska ykkur gleðilegra jóla og vonandi ná allir að metta magann sinn. Passið samt að metta hann ekki um of og auðvitað bara með hollustu (ef þið hafið tök á). Ég verð með tölvuna opna ef einhverjar á-síðustu-stundu spurningar varðandi uppskriftirnar mínar skjótast upp í kollinn :)
Bestu jólakveðjur
InSpiral kaffihúsið á Camden
Ég hafði ekki heyrt af InSpiral kaffihúsinu þó ótrúlegt megi virðast, fyrr en María vinkona mín benti mér á það fyrir nokkru síðan. Síðan þá hef ég farið nokkrum sinnum og aldrei orðið fyrir vonbrigðum. Það er boðið upp á blöndu af vegan og hráfæðis allskonar og kökurnar og konfektið og ísinn og smoothie-arnir eru þannig að ég legg á mig strætóferð, í nístingskulda til þess eins að lauma einhverju góðgæti í magann.
Camden er um margt breytt síðan einhver hluti þess brann fyrir nokkrum árum. Það var svo sem tími til kominn til að hreinsa aðeins til og stokka upp og ég er nokkuð viss um að InSpiral, sem liggur við Camden síkið dregur ófáa „öðruvísi” einstaklinga til sín. Þetta er nefnilega sá staður sem beinlínis ER skilgreiningin: „krönsjí granóla”. Ef þið eigið leið hjá Camden skuluð þið endilega kíkja inn. Staðurinn er á brúnni, hægra megin þegar maður labbar í átt að „hesthúsunum”. Væri SVO til í eina kökusneið frá InSpiral núna. Eini gallinn við staðinn er að hann er svo innilega ljótur að innan. Þá er ég að meina stíllaus og eiginlega fráhrindandi. Bretar hafa ekki enn þá lært þá list að gera kósí kaffihús....Dæmi um kósí kaffihús er t.d. Kaffismiðjan, Kárastíg og það þarf ekki að kosta til miklu svo að verði huggulegt. Neon ljósin á InSpiral, hvíta, ljóta málningin, veggspjöldin á veggjunum, bekkirnir og borðið, minnir mig allt á „opið hús” í Gaggó.....Það nær ekki að skemma matarlystina auðvitað og ætti ekki að stoppa neinn í að fara á staðinn.
Athugið að myndirnar eru teknar á litlu imbavélina því ég nenni ekki að burðast með 4ra kílóa myndavélina + linsuna með mér í strætó þegar ég er að drösla Afkvæminu líka :)
InSpiral séð að utan
Séð InSpiral séð að innan
Horft í átt að Inspiral, séð yfir Camden síkið. Fólk að borða hádegismat....
Horft yfir síkið í átt að InSpiral
Afkvæmið horfir út um gluggann. Nýbúin að borða cashew- og vanilluís
Guð-dóm-leg hnetusmjörs og súkkulaðikaka
Cashew- og vanilluís....ekki beint fallegur í pappamálinu
Það er alltaf nóg af skrýtnu fólki á Camden.
Jólamaturinn
Ég er búin að fá þessa spurningu 100 sinnum. Hvað borðar CafeSigrun á jólunum? Þetta er góð spurning þar sem ég er grænmetisæta en Jóhannes ekki (en hann borðar reyndar alla grænmetisrétti og finnst þeir mjög góðir. Hann borðar kjöt eiginlega spari)! Ég ákvað að setja saman smá matseðil yfir það sem ég borða svona yfirleitt á jólunum....ekki tæmandi þó. Allt er af vefnum mínum nema það sem ekki er tengt (með tengli).
Forréttur:
- Asparssúpa og brauð (snittubrauð)
Aðalréttur:
- Karríhnetusteik
- Eitthvað rosa gott salat (með hnetum, ávöxtum, blönduðum salatblöðum, grænmeti o.fl., o.fl.)
- Villisveppasósa (geri líka oft rauðu sósuna af Grænum kosti eða sinnepssósu)
Fyrir Jóhannes (sem reyndar borðar sæll og glaður hnetusteikina en finnst kjöt líka gott).
- Eitthvað kjötmeti (naut, kalkúnn, reykt villibráð o.fl.)
- Sushi (ef hafa verið afgangar úr Þorláksmessuboði, fer eftir því hvað ég var crazy það árið í sushigerðinni)
- Hreindýr/gæs (skotið af bróður mínum)
Eftirréttur:
Eftir-eftirréttur: :)
- Konfekt með góðu kaffi/tei
- Ískonfekt
- Óáfengt jólaglögg
- Piparkökur
Annars er ég búin í prófum og ritgerðum þangað til eftir áramót (strax í fyrstu vikunni).....og svo er það Ísland á morgun...nóg að gera.
Hvernig....
...dettur konu með tvö börn (2ja ára og 4ra mánaða) að hefja mastersnám í sálfræði og reka uppskriftavef samhliða því. Ég held að það ætti að loka mig inni, í burtu frá öllum námsbókum, Internetinu og öllu sem gæti freistað mín. Málið er að allar þessar greinar sem birtar eru, í þessum vísindatímaritum og allar þessar bækur um málefni heilsu og sálfræði eru svo hroðalega spennandi. Ég hreinlega tími ekki að vera ekki í skóla (vissuð þið t.d. að karlmenn eru 8 sinnum líklegri til að slasa sig á prjónum sem notaðir eru til að borða með? Og að breytingarskeið kvenna (það er líka til breytingaskeið karla sem er vægara) er líklega eitthvað sem er bundið menningu og félagslegum þáttum því japanskar konur t.d. finna fyrir kulda, höfuðverk og stífni í öxlum (en ekki nætursvita og hitakófi) og Maya konur ljúka breytingaskeiðinu 10 árum fyrr en konur á Vesturlöndum og að þær konur sem þyngjast Á breytingaskeiðinu (en voru ekki of þungar áður) eru líklegri til að fá verri einkenni???)).
Það eru 3 hættir í bekknum mínum, vegna álags. Ein sagðist gráta á hverjum degi (sú er í fullu námi, ég er í hlutanámi). Það er helv. mikið álag, það verður að viðurkennast. Og ég er oft utan við mig...(og ég er ekki sérlega lítið utan við mig á góðum degi). Eins og þegar sá litli er að naga tölvusnúruna og ég sé það útundan mér en fatta ekki neitt....og svona eins og þegar maður heyrir eitthvað aftur og aftur endurtekið í fjarska en er ekki að kveikja á perunni....t.d. þegar maður heyrir út undan sér: "patta i gósetti" (pasta í tonnatali að enda í klósettinu því það er gaman að henda því ofan í), eða "gaman a ita me vaggit á veddinn víííí!!!!!" (gaman að lita með vaxlitum á veggina víííí). Og svo koma tímar þar sem manni fallast hendur...eins og þegar tvö börn af tveimur eru veik í miðjum próflestri (núna) og allir fjölskyldumeðlimir eru að hósta og tvö af tveimur börnum þurfa að fara til læknis vegna veikinda. Og þegar þarf að mauka mat handa yngra eintakinu til að frysta og mat handa afganginum af fjölskyldunni (sem borðar sem betur fer allt það sem ég bý til, svo gott sem). Það er á svoleiðis stundum sem ég baka muffinsa til að halda geðinu á floti. Eða ég hendi í eplaböku með kanil og valhnetum, eða ég geri biscotti. Það er nefnilega þannig að maður hefur alltaf tíma til að baka. Núna stendur yfir próflestur og ritgerðarvinna og henni þarf að halda áfram eftir jól. Það finnst mér vera brot á "stúdentamannréttindum" (bara svo það sé á hreinu þá eru þau mjög ólík grunn-mannréttindum). Ég vil frekar klára allt í desember og eiga frí yfir jólin heldur en að standa í svona bulli.....Ég er heppinn að eiga eiginmann sem getur hannað og prentað jólakortin (annars væru engin jólakort í ár), tekið úr þvottavélinni (annars gengi fjölskyldan í plastpokum), sinnt afkvæmunum um helgar (annars væri líklega búið að hringja á Barnaverndaryfirvöld..eða ég segi svona). Án hans væru þetta líklega afskaplega sorgleg jól.
Eftir prófið í næstu viku tekur við 2.5 daga jólafrí áður en næsta próflesturs-og-ritgerðarskrifar-lota hefst (sem verður á Íslandi því við verðum þar yfir jólin). Jóhannes heimtar piparkökur og hótar að loka CafeSigrun ef hann fær þær ekki.....held að ég verði að fara að skella í eina sort.