Stolist í sushi

Sushi nammi namm align=Hvað gerir maður þegar eiginmaðurinn er í útlöndum...jú maður stelst í sushi. Sko það er annað hvort að horfa inn í ísskápinn og dæsa og gleyma svo að borða (og þá skammar Jóhannes mig) eða bjarga sér á annan hátt. Ég hafði þetta sterkt í huga þegar ég stakk upp á því við Elvu vinkonu að fara á Domo í hádeginu og fá okkur sushi...Okkar rök voru þau að við þyrftum að æfa okkur pínulítið fyrir afmælið hennar á laugardaginn. Ég ætla að búa til sushi í afmælið hennar og mig langaði að sjá hvort að það væri eitthvað nýtt sem ég gæti búið til. Það er auðvitað ömurleg afsökun því það eru margar vikur síðan ég ákvað hvað ég ætlaði að búa til og hvernig og búin að útbúa sushiið hundrað sinnum í huganum (og borða það líka reyndar). En þetta bendir bara til þess að ég sé fíkill...Í síðustu viku var ég nefnilega með sushiveislu fyrir stelpurnar í vinnunni..... og daginn eftir var ég farin að hugsa alvarlega um að útbúa meira sushi.

Við gerum sushi nánast mánaðarlega (og eiginlega oftar) og magnið er svo rosalegt að fyrir fjóra gerum við ráð fyrir um 200 bitum...sem er c.r.a.z.y. Ég reyni að finna hvaða afsökun sem ég get til að búa til sushi. Ég keypti meira að segja brilliant grjónapott um daginn til að flýta fyrir framleiðslunni og gera hana auðveldari. Ég gæti núna næstum því búið til sushi í svefni. Svona hér um bil. Dæmi um framleiðsluna (man ekki hvenær við gerðum þetta sushi en þetta er nú bara svona hefðbundið) má sjá á myndinni hérna fyrir ofan.  

Elva og Óli vinir okkar eru annars að verða álíka fíklar og óhljóðin í Elvu þegar hún borðar sushibita eru þannig að ég er glöð að við erum ekki á veitingastað. Það væri svona "When Elva met Sushi" móment :) Það er reyndar skemmtilegast að gefa svoleiðis fólki sushi og þau eru definitely í "elite-sushi klúbbnum okkar" en svona hljóð eru nauðsynleg. Það er ekkert leiðinlegra en að standa í nokkra klukkutíma að útbúa þennan dýrindis mat og fá fólk sem segir "já þetta er alveg ágætt" og borðar svo sushiið með gaffli (sem er ultimate móðgun). Við erum ströng....við í sushi elítunni (áðurnefnd Elva og Óli, Jóhannes, Borgar og Elín og nokkrir fleiri) en það þýðir ekkert annað sko. Við höfum nokkrar kríteríur sem við gefum ekki uppi hér varðandi það hver kemst inn og hver ekki ;)

Við fengum annars afbragðs sushi á Domo. Þjónninn gat útskýrt hráefnið sem er alltaf kostur og hann klóraði sér ekki í hausnum yfir spurningum okkar Elvu. Hann var líka til í að breyta pöntuninni eins og við vildum. Sushiið á Domo var afar ferskt, bragðgott, ofboðslega vandaðir bitar, fiskurinn algjörlega spriklandi nýr OG rúsínan í pylsuendanum...þeir eru með flugfiskahrogn. Þeir eru líklega eini sushistaðurinn enn sem komið er sem að hafa slíkt en sushi er alveg ómögulegt nema að það séu flugfiskahrogn með... þau gefa ekstra kikk eða það finnst mér a.m.k. og þannig var það í Japan á þeim stöðum sem við fórum (og auðvitað í London líka). Ég mæli með sushiinu á Domo.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

gestur
06. júl. 2007

Hæ Hvenær fæ ég sushi? ég á blöð, grjón ofl í það bara kaupa hráefnið þú mátt koma hvenær sem er og laga fyrir okkur (gömlu) þú getur æft þig á okkur (ef þú þarft æfingu.) Kv mamma