Að hlusta á umhverfið og fleira

Hafið þið einhvern tímann prófað að "hlusta á umhverfið"? Ég er eins og flestir, alltaf stressuð, það er alltaf brjálað að gera, ég er alltaf í 150% vinnu og alltaf að hrúgast meira og meira á mig. Ég næ sjaldan að slaka á og þær mínútur sem ég hef tækifæri til þess finnst mér gott að vera að stússa eitthvað. Í öðrum orðum sagt finnst mér vont að sitja kyrr og hef andstyggð á því að gera ekki neitt. En í 10 sekúndur á dag finnst mér gott að loka augunum og bara hlusta. Við erum svo vön því að horfa á umhverfið, nota bara augun en gleyma því að nota eyrun líka. Í London geri ég þetta mjög gjarnan. Það besta sem ég veit er að sitja í Covent Garden þar sem er mikið líf og fjör. Maður heyrir hróp, hlátur, grátur, alls kyns tungumál, alls konar umræður.... Að loka augunum í sólskini á dásamlegum stað og einbeita sér að því að hlusta er frábært. Maður getur líka hlustað á Reykjavík, hún getur sagt manni margt. Ekki sakar að draga að sér andann djúpt of finna lyktina í kringum mann. Þó ótrúlegt megi virðast þá getur maður dregið andann djúpt í miðri London og ekki kafnað he he. Það er reyndar engin höfuðborg í heiminum sem hefur jafn mikið af "grænum svæðum" eins og London og það hefur skilað sér seinni árin ásamt takmörkun á umferð.. every little helps.

Mér dettur þetta í hug af því við fórum í gönguferð áðan. Við stefndum á Móskarðshnúka í Mosfellsdal/Kjalarnesi en fundum ekki tindinn sökum þoku (vorum ekki alveg viss um hvar við áttum að fara upp). Það skipti engu máli því við löbbuðum í frábæru veðri upp á nálægan tind. Þar settumst við niður og nutum útsýnisins. Ég hafði útbúið fullt af hollu nesti sem við mauluðum þarna uppi. Ég var með banana-möndlu og döðlustöng, kraftaköggul (hnetur, fíkjur, carob o.fl.), bananamöffinsa með pecanhnetum o.fl., o.fl. Það jafnast ekkert á við að njóta útsýnisins og borða hollt og gott heimatilbúið nesti (sem það er nú reyndar alltaf). Mér finnst ég njóta algjörra forréttinda að geta prílað svona við góða heilsu. Anyways. Ég lokaði augunum í smástund til að hlusta á náttúruna og heyrði þá rosalegan drun. Ég opnaði augun og þar var fugl að steypa sér niður nálægt okkur. Mér sýndist þetta vera kjói en er þó ekki viss. Hávaðinn var ótrúlegur. Þetta heyrir maður ekki í bíl og meira að segja varla á hestbaki þó maður sé uppi á fjöllum. Maður missir af ótrúlegustu hlutum ef maður er innilokaður í járnkassa á gúmmídekkjum.

Við löbbuðum aðeins lengra en tindurinn náði...fórum hálfpartinn hring og enduðum svo niður við Leirvogsá (held það sé hún frekar en Skarðsá). Við þurftum að vaða yfir ána og við vorum bæði búin að gleyma því hvað það er FRÁBÆR tilfinning að vera ííííííísjökulkaldur á fótunum upp á miðja leggi...þurrka fæturnar og fara svo aftur í sokka og skó. Ohhhhh það er svo goooootttt. Ég hélt FAST í skóna mína minnug þess þegar við gengum Laugaveginn fyrir 2 árum síðan og ég að fara yfir beljandi jökulá og MISSTI annan skóinn minn í helvítis ána. Það var ótrúleg stund. Við vorum um það bil hálfnuð, vorum á leið í Álftavötn og vorum búin að ganga í um 10 tíma (fórum Laugaveginn á 2 í stað 3ja daga sem rústaði hnénu he he). Já ég sem sagt missti skóinn í ána og ég horfði á hann sigla á jökulánni, niður eftir og í átt til sjávar. Ekki góð stund. Jóhannes...hetja hljóp berfættur meðfram ánni en skórinn var kominn á fullan fart með sokkinn hálfan upp úr. Ég stóð alveg frosin (í orðsins fyllstu merkingu) úti í ánni og vissi ekkert hvað ég átti að gera. Haldið þið ekki að á þessarri sömu stundu hafi hermaður úr bandaríska hernum verið kominn á fleygiferð eftir bakkanum og hermaðurinn þessi var með staf. Hann var kominn hálfur út í ána og náði að pota í skóinn minn. Hann náði á ótrúlegan hátt að veiða skóinn minn upp úr ánni. Við horfðum öll dolfallinn á manninn í ánni með skóinn. Hann rétti skóinn upp sigri hrósandi og var svo æstur sjálfur að sokkurinn flaut úr..Sokkurinn sigldi hraðbyr í átt til sjávar en það var allt í lagi, skórinn náðist á þurrt land. Ég hefði getað öskrað úr gleði. Þó að hefði heyrst skvasppshsh, sksksskkskhsp, skhkskwasp í hverju skrefi inn að Álftavötnum þá var ég samt alsæl. Skóinn náðum við að þurrka og morguninn eftir var hann orðinn þurr og tandurhreinn. Hermanninum var hampað mikið og frægðarsól hans skein skært í skálanum. Hann var hluti af hópi hermanna af vellinum sem í orðsins fyllstu merkingu hljóp fram úr okkur á leiðinni frá Landmannalaugum og var kominn langt á undan okkur í Álftavötnum...þó þau hefðu lagt af stað mun seinna en við. Óþolandi fólk í óþolandi góðu formi. En já það var sem sagt enginn skór sem sigldi í dag en við fengum ægilega góðan göngutúr. Það er nefnilega svo gott að brjóta aðeins upp gym-rútínuna og gera eitthvað svona. Maður reynir líka á allt aðra vöðva. Við fórum upp á Keili og Esjuna um daginn og það var frábært. Það er Snæfellsjökull næst (reyndar fer ég á vélsleða) og svo er það vonandi Fimmvörðuháls eða Laugavegurinn aftur.

En svona talandi um að hlusta á umhverfið þá sakna ég Indverjabúðanna í London. Það er bara ekki sami fílingur að fara í Vísi á Laugaveginum.....það er enginn sem segir "hello my dear" (þó þeir þekki mann ekki neitt), það er engin reykelsislykt og engin indversk tónlist. Þegar ég var í London um daginn fór ég spes ferð í Indverjabúðina "okkar" á horninu og beið eftir "hello my dear". Ég lokaði augunum og brosti og aumingja maðurinn hefur haldið að ég væri svolítið 'special'. Kannski að ég biðji þau í Vísi að klæða sig í Sarí og kveikja á reykelsum!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Barbietec
11. jún. 2007

skemmtileg frásögn :)

Ertu með Rss á bloggið þitt ?