Bloggið

Hugmyndir fyrir útileguna

Hugmyndir fyrir útileguna

Skemmtilegasti partur ferðalaga og útilega finnst mér að undirbúa hvað á að borða, setja saman morgunmat, kvöldmat, hádegismat, snarl o.fl., o.fl. Það er auðvitað ekkert betra en að borða heimatilbúið nesti úti í náttúrunni, í góðu veðri. Það er reyndar kósý líka að heyra rigninguna dynja á (vatnsheldu) tjaldinu en aðeins leiðinlegra reyndar þegar fötin eru öll blaut í upphafi göngu....maður hefur svo sem prófað þetta allt og er ekki verri fyrir vikið.

Ef þið eruð í útivistar- og ferðalagapælingum þá eru hérna gagnlegir tenglar fyrir ykkur:

Fræðsla um mat fyrir útivist

Orkubitar, upplagðir í göngur eða bílferðir (í staðinn fyrir sjoppustopp)

Göngunasl (reyndar nemandanasl en er upplagt orkuskot í gönguferðinni)

Á þessarri síðu eru svo alls kyns pottréttir og fleira fyrir útileguna

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Sjaldan fellur eplið langt frá.......

Sá stutti reynir að ná í græna drykkinn

Er ekki bara góðs viti ef sá stutti (rétt orðinn eins árs) reynir að teygja sig í grænan drykk á eldhúsborðinu?

Þið verðið að afsaka draslið í eldhúsinu (það er reyndar alltaf svona svo þið fáið ágæta mynd af hvernig það lítur út....nema þegar ég tek til). Það kennir margra grasa...lífrænt framleidd jógúrt, heimabakað brauð, spirulina, hunang, salat með reyktum laxi, heimatilbúin sinnepsdressing o.fl., o.fl.........Almáttugur draslið....oh well.

En sá stutti var ánægður með drykkinn svo ég þarf að fara að fær allt enn þá fjær brúninni því hann getur teygt litlu pylsuputtana sína aaaansi langt inn fyrir! Ef hann ætlar sér.

Í hægra horni sést í handlegg pabbans sem var að reyna að forða því að græn sprengja myndi springa í eldhúsinu (sem væri þá ekki í fyrsta og örugglega ekki í síðasta skipti).

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

London fer í sparifötin

London er að verða spariklædd fyrir Ólympíuleikana. Nú er Oxford Street orðin svo fínt malbikuð að maður þorir ekki að þvera hana af ótta við að maður skilji eftir rispu. Einnig er búið að taka gatnamótin Oxford Circus og Regent Street í gegn svo maður er ekki lengur í lífshættu við að labba meðfram handriðunum á meðan strætóarnir sleikja jakkalafið. Búið er að fjarlægja handriðin og setja upp niðurtalningu í sekúndum sem sýnir hvenær látlaus umferðin æðir stað og hversu mikinn tíma maður hefur til að trítla yfir.

Ólympíuleikarnir hafa líka sína galla....túristarnir flykkjast nú sem aldrei fyrr til borgarinnar og standa vinstra megin í rúllustiganum þegar maður fer í lestarnar. ALDREI standa vinstra megin, bara hægra megin!!!! Þeir flykkjast líka að dyrunum í lestunum þegar maður er að reyna að komast út. Sem dæmi vorum við fjölskyldan á ferð um bæinn síðustu helgi og hópur útlendinga stóð fyrir framan EINAR&;dyr lestarinnar, á meðan hægt er að komast inn um 5 á sama vagni. Þeir sem sagt tróðust inn á meðan við vorum að reyna að komast út. Fyrsta regla í lestunum er að HLEYPA fólkinu fyrst út og fara svo inn, tíminn er nægur. Nú vitið þið það, þið sem ætlið til London. Ef þið viljið ekki fá haug af blótsyrðum yfir ykkur eins og t.d. wanker, twat, idiot eða það ljótasta bloody tourist, er best að æfa þessar tvær grunnreglur.

Og ég get glatt Íslendinga með því að Primark (sú óskiljanlega verslun) er að opna aðra verslun á Oxford Street, alveg við Tottenham Court Road...eiginlega við útidyrnar hjá mér (eða um 7 mínútum frá). Það verður ekki minna af Íslendingum á Oxford Street geri ég ráð fyrir. Ein ábending fyrir ykkur sem eruð að heimsækja borgina. Forðist Oxford Street eins og heitan eldinn, verslið alls staðar annars staðar!! Sem dæmi eru kirsuber seld á 5 pund pundið (þ.e. um 250 grömm) hjá götusölunum á Oxford Street en fyrir utan Goodge Street lestarstöðina eru þau seld á 2 pund, sömu kirsuber. Covent Garden, Regent Street, Carnaby Street o.fl. götur eru mun skemmtilegri og líka miðsvæðis.

Talandi um það. Þið Íslendingar sem eruð að versla hér í London...(við erum hér allnokkrir Íslendingarnir sem búum hér)....við heyrum HVERT&;ORÐ sem þið eruð að garga á milli ykkar varðandi fatastærðir, skírnina sem ykkur var ekki boðið í, þyngdina á Lilju frænku, gjaldþrotið hjá Konna o.s.frv., o.s.frv. Þið eruð EKKI&;ein í heiminum, þrátt fyrir í alvörunni að halda það (að því er virðist). Ég hef nú oft verið að kíkja í kringum mig og Íslendingarnir eru þeir EINU sem garga veggjanna á milli, aðrar þjóðir gera þetta ekki...og ekki bara af því ég skil ekki málið, þetta hefur bara með hljóðstyrkinn að gera.

Anyways, hér eru nokkrar myndir af götum London....nokkrar af Oxford Street (fer aldrei á Oxford Street nema til að þvera hana). Svona til að sýna ykkur að London er ekki bara pússaðar götur og fánar, þá er hérna ein mynd af nágranna mínum...sem er alltaf voða þreyttur á daginn. Það glittir í bláa sokkinn hans undir húsinu. Afkvæmið er löngu hætt að kippa sér upp við manninn sofandi undir pappakössunum (við sjáum hann hvern dag á leið okkar í leikskólann). Hún kallar hann bara „þreytta manninn sem á heima í pappakössunum og er alltaf sofandi". Hún hefur reyndar stundum áhyggjur af því að honum sé kalt og gladdist mikið einn rigningardaginn þegar hún sá að hann var kominn með sæng.

Athugið að fólkið á myndunum tengist mér ekki á nokkurn hátt.

Oxford Street

Oxford Street

Regent Street

Regent Street

Nýmalbikuð og fægð Oxford Circus

Nágranninn

Ef þið eruð á leið til London yfir Ólympíuleikana og vantar einhver ráð eða upplýsingar, megið þið alveg senda mér línu.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Paleo pælingar


Myndin er fengin að láni af vef cavementimes.com

Í þau ár sem ég hef verið að borða eins og ég geri...þ.e. engan hvítan sykur, ekkert ger, lítið af mjólkurvörum, ekkert kjöt, takmarkaða fitu (nema úr hnetum, avocado, kókosolíu o.fl.) hef ég þurft að berja af mér alls kyns strauma og stefnur. Stundum finnst mér eins og ég sé með regnhlíf sem fólk lætur rigna á og ég kúri undir án þess að láta rigninguna hafa áhrif á mig (þó ég heyri vel í henni). Til dæmis hefur fólk í gegnum tíðina kynnt mér fyrir South Beach kúrnum, Herbalife kúrnum, Atkins kúrnum, makróbíótíska kúrnum, Scarsdale kúrnum, Weight Watchers kúrnum, safakúrnum, blóðflokkakúrnum, kristilega kúrnum o.fl. Eitthvað með endingunni „kúr“ (nema sófakúr) er ekki til í mínum orðaforða því mitt mataræði myndi flokkast undir dags daglegan lífsstíl. Nú síðast er mikið verið að fjalla um Paleo mataræðið (þar sem fólk borðar eins og steinaldarmennirnir gerðu) og kannski að einhverjir séu að velta fyrir sér hvaða skoðanir ég hafi á því. Ég er búin að lesa töluvert um Paleo, með opnum huga og ætla að reyna að vera eins hlutlaus og ég get.

Í stuttu máli:

Það er margt áhugavert og sniðugt í Paleo (t.d. áhersla á að borða óunna matvöru eins og kostur er, borða engan sykur) en annað finnst mér svolítið hæpið. T.d. getur of þungt kyrrsetufólk varla haft gott af því að borða feitt kjöt né rjóma?....og margir af þeim læknum sem ég þekki myndu líklega taka undir þær vangaveltur í kringum jólahátíðarnar á Íslandi..... (og áður en einhver segir eitthvað um saltmagnið og reykta kjötið þá eru einhverjar glænýjar rannsóknir sem benda til þess að salt sé allra meina bót og að við borðum of lítið af því Er AÐ UNDRA þó fólk sé ringlað á öllum þessum skilaboðum? Reyndar er ekki mælt með saltneyslu í Paleo svo ég er aðeins að snúa út úr.

Erfitt er að halda úti mataræði eins og Paleo og ef fólk er ekki þeim mun strangara, getur það endað með afar vont mataræði því maðurinn er smám saman að missa hæfileikann til að þekkja hungur/seddu tilfinningu. Ég hef ekki rannsóknir sem styðja þessa kenningu mína en miðað við að nánast allar Vestrænar þjóðir glíma við offþyngd, myndi ég halda að fólk almennt þekki ekki sitt magamál.....kannski hef ég rangt fyrir mér. Matur er heldur ekki eitthvað sem allir neyta til að viðhalda orkuþörf (eins og steinaldarmaðurinn) heldur borða sumir þegar þeir er daprir, uppstökkir, í sorg, þegar þeim leiðist o.fl. Það á auðvitað ekki einungis við um Paleo heldur allt mataræði. Að lokum þá finnst mér alltaf dálítið erfitt að lesa upplýsingar á vefsíðum fólks (eða bókum) sem er með nokkurs konar „ofstæki“ hvað mataræði varðar. Það á alveg eins við um Paleo eins og hráfæði og annað. Það truflar mig enn meira þegar fólk er með yfirlýsingar um að ALLT annað en Paleo sé hættulegt heilsu okkar og er í leiðinni að selja aðgang að upplýsingum og fróðleik o.fl. um Paleo á vefsíðu sinni.

Í mun, mun lengra máli:

Paleo er fyrir það fyrsta mataræði en ekki kúr og allt sem ekki er kúr er gott í mínum bókum. Paleo myndi flokkast undir lífsstíl, svipað og t.d. þeir sem tileinka sér hráfæðis- eða vegan lífsstíl en ólíkt t.d. Atkins þar sem það snerist að mörgu leyti um að innbyrða einungis prótein og fitu og sama sem engin kolvetni voru leyfð. Paleo hefur nokkur&; „stig“ eftir því hvað fólk vill vera „hreint“ og einhverjir „svindldagar“ eru leyfðir (að mati sumra, ekki allra fylgjenda). Það er margt í Paleo sem er sniðugt og finnst mér sértaklega þetta afturhvarf til óunninnar matvöru (ásamt áherslu á svefn og minnkaða streitu) gríðarlega mikilvægir punktar og eitthvað sem allir ættu að taka sér til fyrirmyndar. Ég hef sjálf, vegna náms míns mikið skoðað tengsl á milli svefns og offitu og eru þau tengsl ansi áhugaverð og síst öll kurl komin til grafar.&; Það eru afar sterk tengsl á milli of lítils svefns og það hvernig heilinn túlkar hungur og seddu. Nú er búið að sýna fram á (athugið að það er ekki það sama og að sanna eitthvað) að börn um 30 mánaða sem sofa lítið, eru líkleg til að verða of þung um 7 ára og börn um 6 mánaða og svo 2-4 verða of þung um 21 árs aldurinn, þó að hvar þau búi, uppeldisaðferðir og allt annað sé reiknað í burtu. Þarna er hægt að SPÁ fyrir um of þung börn út frá svefni óháð öðrum þáttum! Öll spjót virðast beinast að þessum tengslum en hins vegar eru ekki allir sannfærðir. Ég tel þó að þessi tengsl verði að taka alvarlega því þó að við gætum minnkað ofþyngd barna um einhver prósentustig með betri svefni, væri til mikils að vinna.

En áfram með Paleo. Hér má t.d. lesa um Paleo mataræðið og ég þýddi að gamni þessar 15 „reglur“ þannig að allir viti um hvað málið snýst:

  1. Samkvæmt Paleo á maturinn að innihalda mikla fitu, í meðallagi mikið af dýrapróteini og lítið eða í meðallagi af kolvetnum. Ekki á að telja hitaeiningar og ekki heldur passa upp á skammtastærðir.
  2. Borða skal ótakmarkað magn af mettaðri fitu eins og kókosolíu og smjöri (og ghee). Andafita o.þ.h. er líka talin æskileg og sama má segja um nauta- og lambafitu. Ólífuolía, avocado olía og macadamia olía er æskileg.
  3. Borða skal nokkuð mikið magn af dýrapróteinum, þ.m.t. rautt kjöt, fuglakjöt, egg, innyfli (lifur, nýru, hjörtu), villtan fisk og skelfik. Dýrafitu ætti ekki að sneiða hjá (ekki skera fitu af kjötinu).
  4. Borða skal vel af fersku eða frosnu grænmeti elduðu eða hráu og skal bera grænmetið fram með fitu. Sterkja eins og kartöflur og sætar kartöflur eru góð uppspretta óeitraðra kolvetna.
  5. Borða skal lítið eða miðlungs mikið af ávöxtum og hnetum. Helst skal borða ber (ekki eins sæt og ávextir) og hnetur háar í omega-3, lágar í omega-6 fitusýrum og lágar í fjölómettaðri fitu (eins og macadamia hnetur). Taka skal út alla ávexti og allar hnetur ef einhver meltingarvandamál, ónæmisvandamál eða þyngdarvandarmál eru til staðar.
  6. Taka skal allt kornmeti úr mataræðinu sem og baunir. Þar með talið hveiti, rúg, bygg, hafra, maís, hýðishrísgrjón, soja, hnetur (þ.e. jarðhnetur, sem eru í raun ekki hnetur heldur baunir), nýrnabaunir, pintobaunir, navy baunir og augnbaunir.
  7. Neytið kjöts sem kemur af skepnu sem ekki hefur verið alin á kornmeti. Hafið umhverfsvernd í fyrirrúmi og veljið beint frá bónda og reynið að kaupa ávallt lífrænt ræktað/framleitt hráefni.
  8. Taka skal út allar grænmetisolíur, hertar olíur og olíur hertar að hluta til (partially hydrogenated) þ.m.t. smjörlíki, sojaolíu, maísolíu, crisco, hnetuolíur, canola olíur, safflower (þistil) olíu og sólblómaolíu.
  9. Taka skal út sykur, gosdrykki, allar unnar vörur og safa. Þumalputtareglan er...ef varan er í boxi, skal ekki neyta hennar. Í matvörubúðinni skuluð þið einungis fara í kjöt- og fiskborðið og hrávörudeildina.
  10. Taka skal út allar mjólkurvörur aðrar en smjör og kannski rjóma. Þið þurfið ekki rjóma en ef þið getið ekki lifað án hans getið þið neytt hans í hráu formi og með fullu fitumagni.
  11. Borðið þegar þið eruð svöng og ekki stressa ykkur á því ef þið sleppið úr máltíð eða tveimur. Þið þurfið ekki að borða þrjár máltíðar á dag, borðið eins og ykkur finnst eðlilegt.
  12. Minnkið streitu og sofið eins mikið og þið getið. Reynið að vakna án þess að nota vekjaraklukku og farið að sofa þegar það er dimmt
  13. Ekki hreyfa ykkur of mikið, hreyfið ykkur í stutta stund en af fullri ákefð. Takið ykkur góða pásu frá hreyfingu ef þið eruð þreytt. Takið frekar stutta spretti heldur en langar æfingar.
  14. Íhugið að taka inn D vítamín og „probiotics“. Þið gætuð einnig þurft magnesíum, joð og K2 vítamín. Joð má fá úr þangi. Þið þurfið að öllum líkindum ekki fjölvítamín eða önnur vítamín.
  15. Leikið ykkur í sólinni, hafið gaman af lífinu, brosið, slakið á, uppgötvið, ferðist, lærið og njótið lífsins eins og um sé að ræða ævintýri.

Já og bókin sem þessi ráð eru byggð á er til sölu á vefsíðunni ásamt ýmsum öðru varningi.

Ég veit að grænmetisætur og hráfæðisfólk o.fl. selja ýmislegt á sínum sínum en fólk sem mælir með kjöti og rjóma, ekki of mikill hreyfingu o.fl. verður að vera helv..... sannfærandi og um leið hlutlaust að mínu mati.

Út frá þessum punktum hef ég nokkrar spurningar:

  • Er heilsa fólks línulega betri eftir því sem meira kjöts og meiri fitu er neytt?
  • Borðuðu steinaldarmenn ekki rætur og skordýr? Vantar þá ekki slíkt í mataræði nútímamannsins?
  • Hvað með t.d. kakó og andoxunareiginleika þess? Þó að steinaldarmaðurinn hafi ekki borðað kakó, eigum við þá ekki að borða það? Það er jú selt í pakkningum?
  • Górillur deila um 98% af genamengi mannsins....þær eru að megninu til jurtaætur (ég hef horft á górillu í frumskógi Virungafjalla í Rwanda bryðja sellerí og rymja úr ánægju eins og sumir sem ég þekki myndu rymja við að borða Snickers). Górillur eru að megninu til vöðvar og gætu brotið fótlegg okkar með því að kreista lúkuna....ég hef verið 1 metra frá górillu og trúið mér, hættan er fyrir hendi. Væri betra fyrir þær að borða kjöt? Myndu þær lifa lengur?
  • Lífslíkur manns á Paleolithic tímabilinu (fyrir um 2.6 milljónum ára) voru um 54 ár. Hvernig var hjarta þeirra og heilsa eftir þennan tíma?
  • Asíubúar t.d. Japanar lifa einna lengst en neyta samt byggs og tofus (í misosúpum), sojabauna og hrísgrjóna (með sushi) og hveitis (í sojasósu). Er þetta kannski spurning um magn og hóf (eins og ég er alltaf að segja)?
  • Hvað ef fólk hefði borðað magrar mjólkurvörur á dögum Paleo...væri það talið óhollt í dag? Er þetta einungis spurning um tímaþáttin frekar en hollustuþáttinn þannig séð? Ég velti þessu fyrir mér.

Glútein er oft sett fram sem eitt af því sem er mjög skaðlegt nútíma manninum. Þessi rannsókn á að sýna fram á að glútein sé skaðlegt þeim sem ekki hafa óþol eða ofnæmi fyrir því eða eru ekki með coeliac disease. Þátttakendur voru 6 og að hluta til var rannsóknin kostuð af Coeliac Disease Association of Madrid (Spain). Þessir annmarkar þurfa alls ekki að sýna fram á að tengslin séu ekki til staðar, aðeins að rannsóknin sjálf er kannski ekki skotheld og hana þyrfti að endurtaka af óháðum aðilum með fleiri þátttakendum.

Oft er mataræði Afríkubúa borið saman við Vesturlandabúa og talað um að Afríkubúar séu síður líklegir til að fá alls kyns lífsstílssjúkdóma eins og við á Vesturlöndum. Sannleikurinn er sá að fólk t.d. í Austur-Afríku þar sem ég hef ferðast hvað mest er stanslaust á hreyfingu þ.e. það gengur til og frá vinnu, til að sækja vatn, til að labba í skóla og til að gegna erindum í banka, búð o.fl. Meðfram vegköntunum er fólk að gangi frá kl 5 að morgni og langt fram eftir kvöldi. Oft er talað um að ýmsir ættbálkar borði einungis kjöt og þess vegna séu þeir svona hraustir og hafi svona fá hjartavandamál. Sannleikurinn er þó sá að þessar þjóðir neyta grænmetis og bauna (og reyndar hveitis og maíss) í miklu magni en ekki endilega kjöts. Kjöt er dýrt og fráleitt að allir hafi efni á því. Það er mín reynsla (og þarf ekki að vera algild) að fólk í þessum löndum er almennt í 1sta gír þ.e. allt gerist 10 sinnum hægar en t.d. á Íslandi eða í London. Ekki er óalgengt að ef maður fer út að borða í löndum eins og Uganda, Tanzaniu, Kenya og Rwanda að maturinn sé eldaður frá grunni (og kryddin möluð jafnóðum í mortéli, baunirnar soðnar og allt það)....pole pole (rólega, rólega) er sagt við mann ef maður er að spyrja út í matinn.

Í kringum kvöldmatarleytið hægir fólk verulega á sér því sólin sest almennt í kringum 19. Það er ekkert sjónvarp né internet almennt og fólk dundar sér í rólegheitum, spjallar um daginn og vegin (sem hugsanlega hefur góð áhrif á hjarta og æðakerfið). Ætli þessi rólegheit hafi eitthvað að segja varðandi lífsstílssjúkdóma sem hrjá Vesturlandabúa? Kíkið á British Medical Journal (www.bmj.com) og sláið inn t.d. stress + illness. Það er af nægu að taka. Ég hef auðvitað ekki lesið allar rannsóknirnar en ég hef nokkuð mikið skoðað áhrif streitu á líðan og heilsu fólks og það verður, að mínu mati að skoða þau áhrif á mataræði og þyngd fólks. Ef við sofum lítið, framleiðir líkaminn hormónið cortisol sem hefur beinlínis áhrif á hverja einustu frumu líkamans. Hækkun á cortisoli hefur m.a. áhrif á hvernig fita dreifist á líkamanum. Streita og aukið cortisol magn hefur þau áhrif að fita dreifist frekar á magann heldur en mjaðmirnar. Þessi fita er oft kölluð „eitruð fita“ (toxic fat) því fitusöfnum á magasvæðinu er sterklega tengd t.d. hjartaáföllum og heilablóðfalli. Borðum við of mikið af því við erum stressuð og erum við þess vegna að fá þessa sjúkdóma sem á okkur herja? Borðum við öðruvísi þegar við erum stressuð? Er það kannski ekki heimatilbúna, ristaða, grófkorna brauðið með mögru ostsneiðinni sem er að drepa okkur? Ég er einungis að velta þessu fyrir mér.

Annað sem brennur á mér er þetta: Eftir því sem ég læri meira um næringu, heilsu fólks almennt og hvernig hún er beintengd ekki aðeins mataræði heldur sálarástandi, umhverfi og aðstæðum, hef ég betur og betur komist að því að hvaða mataræði við fylgjum, er kannski minna mikilvægt heldur en magnið sem við borðum sem og í hvaða sniði maturinn er (unninn vs. óunninn). Ég þekki ótalmargar grænmetisætur (bæði sem reykja og ekki reykja) og grænmetisætan sem reykir gæti hugsanlega lifað álíka lengi og grænmetisætan sem ekki reykir af því sú sem ekki reykir er undir gríðarlegu álagi heima fyrir, býr við lélegan húsakost, hefur litla stjórn yfir aðstæðum á vinnu eða á heimili og er undir fjárhagslegum bagga. Ég er svo sannarlega ekki að mæla með reykingum (það er ekki til ógeðfelldari né heimskulegri ósiður að mínu mati), heldur er ég að segja að umhverfi, erfðir og aðstæður eins og streita og svefn hafa svo mikið að segja, kannski meira en komið hefur fram hingað til? Sama á við um fólkið sem borðar kjöt, rjóma, smjör o.s.frv. Sá stressaði sem borðar kjöt og rjóma í litlu magni, gæti allt eins lifað skemur heldur en sá rólegi sem borðar sama magn af kjöti og rjóma og jafnvel lengur en grænmetisætan sem er stressuð en reykir ekki!

Ég held að lausnin sé ekki að mæla með því að borða eins og steinaldarmaðurinn eingöngu því hlutina þarf að skoða í samhengi. Við borðum ALLT of mikið af unninni fæðu, allt of mikið af kolvetni í formi brauðs, morgunkorns, pasta o.fl. Við höfum ekki gott af þessu. Við borðum of mikið af hitaeiningum og við hreyfum okkur of lítið. Við fáum heldur ekki tækifæri til að fá útrás fyrir streitunni (í formi hreyfingar ÞEGAR við erum akkúrat undir álagi....t.d. næstum lent í bílslysi eða ef yfirmaðurinn fær brjálæðiskast) og hún safnast upp og hefur gríðarleg áhrif á hjarta og æðakerfi.

Getur verið að fólkið sem borðar kjöt, rjóma, smjör o.s.frv. og lifir samt til 100 ára sé fólkið sem aldrei var stressað? Er þetta fólk að fara sjaldnar og kaupa sér skyndibita af því það er ekki að flýta sér? Eldar það matinn frá grunni? Velur það hráefnið vel? Hvar falla þessar spurningar inn í allar þessar umræður um Paleo?

Sko. Ég er alltaf skeptísk á lækna eða fræðimenn sem ekki eru einungis að kynna niðurstöður á rannsóknum eða sína eigin sannfæringu heldur líka að selja eitthvað í leiðinni. Þeim mun meiri umræða sem skapast um málefnið, þeim mun betra fyrir auglýsingatekjur vefsíðu, sem dæmi. Ef ég myndi segja á vef mínum að allir þeir sem borðuðu kjöt væru bjánar (og vitna í alls kyns (ekki endilega góðar) rannsóknir), myndu umræður og heimsóknir á vefinn aukast töluvert og ég myndi græða meiri peninga í formi auglýsingatekna (ef ég væri að selja auglýsingar). Þetta á auðvitað ekki við um alla en það má vera ansi sannfærandi um ýmis málefni og vera með stór orð og fullyrðingar, sértaklega ef maður hefur fjárhagslegan ávinning af því.

Svo skal hafa í huga að þær rannsóknir sem gerðar hafa verið varðandi áhrif steinaldarmataræðis hafa oft fáa þátttakendur og þóknunaráhrif geta verið töluverð. Það er að segja að þátttakendur fá oft greitt fyrir þátttöku, vilja gera vel og ef tilgangur rannsóknar er vitaður, er hættan á þessum áhrifum mikil. Sumir segja tengsl milli glúteinneyslu og sjúkdóma eins og einhverfu, geðhvarfasýki og ofvirkni. Það má vel vera en hafa skal í huga að við öll inngrip er hætta á að mataræði og aðrir kvillar lagist sjálfkrafa. Yfirleitt er ekki einungis verið að einangra glúteinneyslu heldur er verið að taka mataræðið í gegn. Ef ekki er reiknað fyrir áhrif inngripsins sem slíks, eykst vandinn á túlkun. Sama á auðvitað við um rannsóknir á þeim sem neyta ekki kjöts eða glúteins en hættan er sú að af því umræðan um þessi mál eru ný af nálinni, að þóknunaráhrifin séu jafnvel meiri? Það er ekki hægt að neita því að fólk sem hættir að borða sykur og brauð MUN léttast (oft mikið) og það er heldur ekki hægt að neita því að um er að ræða AÐHALD og í lang flestum tilvikum mun aðhald leiða til þess að fólk léttist. Langtímaáhrif þessa mataræðis eru ekki þekkt (steinaldarmennirnir dóu jú um 50 ára) og þó að rannsóknir gefi til kynna jákvæðar niðurstöður, þarf að fara varlega í að túlka þær. Ég er ekki endilega að tala MEÐ næringarfræðingum eða á MÓTI þessum eða hinum, ég er einungis að benda á að það er ekki gott að alhæfa út frá rannsóknum þar sem áhrif eru mæld á nokkrum tímapunktum en ekki t.d. til margra ára eða áratuga.&; Hér er t.d. áhugaverð umræða á British Medical Journal:

Persónulega finnst mér vafasamt að mæla með einu mataræði fyrir alla hvað varðar þyngdartap og jafnvel að lýsa yfir að eitt og annað sé eitrað og að við verðum að borða kjöt til að hindra að við fáum sjúkdóma. Manneskja sem komin er yfir sextugt, sem dæmi, kyrrsetumaður sem þykir smjörið gott með feita kjötinu, verður líklega himinlifandi yfir því að geta borðað þessa tegund matar (sbr. félaga minn sem segist fá svimatilfinningu ef hann fær ekki kjöt). Hvernig mun heilsa þessa manns vera eftir 20 ár?&; Ég er forvitin og spennt að vita það.

Svo skal hafa í huga að oft er verið að tala um að grænmetisætur séu svo veiklulegar, líti illa út þegar þær fara að borða grænmeti, hafi enga orku, séu blóðlitlar o.fl. Hafa skal í huga að þeir sem fara á grænmetisfæði einhverra hluta vegna gætu verið veikir FYRIR og farið ÞESS VEGNA á grænmetisfæði, ekki öfugt. Sama með Atkins kúrinn (þó ég sé ekki hrifin af honum), oft var hugmyndasmiði Atkins stefnt fram sem skýru dæmi um að Atkins mataræðið væri banvænt (talsmaður þess fékk hjartáafall um 70 ára). Það sem hins vegar kom ekki fram var að hann hafði verið hjartveikur að einhverju leyti og hafði ÞESS VEGNA þróað Atkins kúrinn (ég endurtek....ég er ekki að mæla með Atkins).

Eins og ég hef svo oft sagt þá er meðalhófið best, hvort sem við borðum rjómasósur, kjöt, smjör, glútein eða hvað. Enginn hefur gott af því að borða of mikið og allra síst brauð, pasta o.þ.h. Hins vegar ætla ég að halda áfram að vera svolítið skeptísk þegar ég les yfirlýsingar, sérstaklega þegar sá hinn sami er að selja weight loss diet eða eitthvað annað slíkt.&; Sumir meira að segja viðurkenna að til þess að trekkja að á vefsíðunni (og fá meiri tekjur), noti þeir orðið „diet“ og „weigth loss“. Við hefðum öll gott af því að borða svolítið eins og steinaldarmenn þ.e. sneiða hjá sykri, unninni matvöru o.þ.h.....því öllu er ég algjörlega sammála....hins vegar er lífið yfirleitt ekki svona svart og hvítt. Lífið er fjölbreytilegt og aðstæður sem við lendum í mismunandi. Það eru sumir viðkvæmir fyrir t.d. glúteini og kornvörum (eða lauk eða mjólk) og aðrir ekki. Svo þess vegna gildir kannski meðalhófið best.....og það að vera ekki of stressaður og sofa vel og hreyfa sig. Svo má hafa í huga að 20-30% af æviskeiði okkar ræðst af erfðum sem við höfum enga stjórn yfir.

Vandamálið við hvernig fólk borðar í dag er að það stoppar ekki til að njóta matarins, það borðar of hratt, borðar skyndibita, drasl, í bílnum, við sjónvarpið, við tölvuna og borðar.allt.of.mikið. Við erum svo til búin að missa þessa tilfinningu sem t.d. ungbörn fæðast með. Að stoppa þegar þau eru södd, missa áhugann og neita meiru. Það er gaman að fylgjast með 1 árs syni mínum að borða (systir hans var eins á þessum aldri). Ég kenndi honum (og henni líka) að leggja hönd að munn ef hann væri saddur og þetta tákn hefur hann notað síðan hann var 11 mánaða og löngu áður en hann var byrjaður að segja annað en baba (fyrir banana). Hann segir algjörlega til með magnið og þannig á það að vera. Þegar maður er saddur, hættir maður að borða. En það er ekki svo einfalt hjá nútímamanninum og það er nú&; eitthvað sem er efni í heila bók.

Ég vona að þessi „greining“ mín hafi ekki móðgað neinn (ekki ætlunin og ég er ekki að stofna til rifrildis enda huuuuuuundleiðist mér slíkt) og vonandi er enginn sofnaður. Mig langaði bara að koma þessum hugsunum frá mér. Ég hvet sem flesta til að kynna sér þessi mál sem best og tala við lækna. Hins vegar legg ég til að þið spyrjið, áður en læknirinn virkar eiturharður í Paleo fræðum, hvort hann hafi fjárhagslegan ávinning af því að mæla með mataræðinu (er hann með vefsíðu sem selur auglýsingar? Búinn að skrifa bók?). Mér finnst að með svona 180°C vendingu á því sem fólk er vant að heyra, að það eigi rétt á því að fá algjörlega hlutlausar skoðanir. Að þessu sögðu, þó ég sé hlutlaus, er alls ekki víst að ég hafi rétt fyrir mér. Þó ég hafi vitnað í rannsóknir er ekki þar með sagt að þær séu fullkomnar eða algildar.

Það eru mörg hundruð bækur (og jafnvel rannsóknir) sem mæla með Paleo....en það eru líka mörg hundruð og jafnvel þúsund bækur (og rannsóknir) sem mæla með því að við borðum meira grænmeti, minna kjöt og sneiðum hjá mikilli fitu. Glænýjar rannsóknir á báða bóga. Hver spyr spurninganna skiptir máli sem og gæði rannsóknarinnar.

Ok...hef ekki meira að segja í bili.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Tíu þúúúúúúúúúúúsund likes!

Tíu þúsund likes á FB

Þetta er merkisdagur....10.000 likes á Facebook síðu CafeSigrun!!!!!! TÍU ÞÚSUND!!!!!&;Ég er eiginlega pínulítið orðlaus! Hvernig geta tíu þúsund manns vitað um vefinn minn og hvað þá like-að hann!!!!!! Mag-naaaaaaaað! Í tilefni dagsins setti ég inn nýja uppskrift á vefinn. Takk fyrir mig!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Sjáið þessa fegurð!

Rakst á þessa mynd á Facebook. Endalaus, dæmalaus fegurð :)

Litaspjald yfir ávexti og grænmeti

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ný mynd á gulrótar- og kökubrauðinu

Ég var að setja inn nýja mynd fyrir gulrótar- og kökubrauðið. Sú sem fyrir var er ein af gömlu myndunum (þegar ég tók myndir á imbavél og var eeeeeeeekkkkkert að pæla í því hver var að skoða myndirnar þar sem ég var að gera uppskriftirnar bara fyrir mig). Þessi er svo sem ekki sú fallegasta heldur, enda var ég að berjast við 20 litla fingur í leiðinni sem vildu annað hvort toga allt niður af borði, eða troða í sig aðal myndefnið.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Verð á leikskóla í UK (ef einhvern langar að bera saman við Ísland)

Ég hef stundum verið spurð að því hvort að það sé ekki dýrt að vera með barn í leikskóla í UK. Hér fyrir neðan sjáið þið verðið og þið getið dæmt fyrir ykkur sjálf. Áður en þið berið saman getið þið verið viss um að leikskólar hér eru ekki í þeim gæðaflokki sem við erum vön heima á Íslandi og meira að segja langt frá því. Þetta er enginn fínn einkaskóli eða neitt slíkt, bara ósköp venjulegur breskur leikskóli. Starfsfólkið er úr öllum heimsins hornum (sem er auðvitað frábært, gott að fá ólíka menningu og innsýn í menningarheima annarra) en gallinn er sá að ekkert af fólkinu talar góða ensku sem er bagalegt fyrir útlenskt barn sem er að reyna að læra málið. Þar fyrir utan, starfsfólkið sem er fætt hér, talar svo ljóta ensku að mér verður illt í eyrunum (það talar eins og ljóshærða bryðjan í Little Britain og segir Wooo'evaaaaaa'&; en ekki 'Whatever' eða 'Wooo'öööö' í staðinn fyrir 'Water' og 'Innn'iiiit' í staðinn fyrir 'Isn't it' ). Það þarf ekki neina menntun hér til að stýra leikskóla (bara nokkur námskeið, ekki neina sérhæfða menntun) og þó að leikskólarnir fari í gegnum eftirlitsskoðun, eru þeir látnir vita fyrir fram af heimsóknunum. Börnunum er auðvitað ekki misþyrmt eða neitt slíkt en ýmislegt má gagnrýna í sambandi við aðferðir til uppeldis o.fl. (t.d. kann einn starfsmaðurinn lítið annað en 'no' í ensku).

Allt plássið innandyra er álíka stórt og Kaffitár í Bankastræti (tek það sem dæmi því flestir þekkja það rými). Það er engin svefnaðstaða fyrir eldri börnin (bara sameiginlegt rými fyrir framan útidyrahurðina). Sem er ástæðan fyrir því að Afkvæmið fer ekki á leikskólann fyrr en eftir lúrinn sinn. Af því ég vinn og læri heima, gengur það upp. Annars væri ég með barn sem væri svo al-gjör-leg-a örmagna (hún þolir mjög illa að missa úr svefn) og ég er ein af þeim heppnu því ég hef tækifæri til þess að hún fái að sofa heima. Ég sé börn sem eru svo örmagna að þau stara fram fyrir sig, með bauga undir augum og bresta í grát af engu tilefni og svo gráta þau bara...Foreldrarnir koma svo um kl 18 og eiga þá eftir að ferðast í um 30-40 mínútur að meðaltali heim til sín, í lest...eða strætó (sum eru heppin og búa nálægt en margir vinna hér í nágrenninu og hafa þess vegna börnin á leikskóla nálægt vinnu). Úff...vesalings litlu stýrin.

Ef rigning er úti (þá verða börnin auðvitað að vera inni því við vitum öll að bleyta er „stórhættuleg” fyrir börn) og þá sofa yngri börnin ekki heldur því allir eru saman í einum graut inni í þessu litla rými. Það er útisvæði við leikskólann (sem þykir mjög gott í miðborg London) og það er reyndar mjög fallegt (en engin rennibraut eða vegasalt eða svoleiðis).

Íslenskir leikskólakennarar heimsóttu leikskólann fyrr í vetur og fengu hálfgert áfall yfir aðbúnaðinum. Það voru ekki einu sinni stólar fyrir starfsfólkið. Heimsóknin var áætluð í klukkutíma en þau voru farin eftir 20 mínútur og ég náði meira að segja ekki að hitta konurnar því þær flúðu af vettvangi hehe. Sem ég skil vel. Þetta er ekki einsdæmi og þessi leikskóli þykir „góður” eins og hann er metinn af óháðri nefnd (Ofsted). Þetta eru breskir staðlar. Ef að annar leikskóli væri mjög nálægt okkur (við erum jú ekki á bíl), myndum við skipta en þetta er sá eini sem kemur til greina eins og er. Við gætum flutt jú en eftir alla flutningana síðustu 2 árin er það dálítið erfitt (og dýrt) og skólinn minn krefst viðveru líka og gott að vera nálægt honum ef eitthvað kemur upp á (sbr. t.d. ef London fer í lockdown vegna sprengjuhótana o.s.frv.). Við verðum hér ekki að eilífu svo að Afkvæmið verður ekki skemmt fyrir lífstíð hehe. Á misjöfnu þrífast börnin best og allt það.

Mynd sem sýnir leikskólaverð í UK

En já, eins og þið sjáið á myndinni þér í grófum dráttum verðið svona (þið getið margfaldað allar upphæðir með 204):

Mánuður fyrir barn eldra en 2ja ára (frá kl 8-18) kostar: 1,100 pund

Mánuður fyrir barn undir 2ja ára (frá kl 8-18) kostar: 1,287 pund

Afsláttur fyrir systkini er 10% sem þýðir að systkini eru að borga 2,148 pund (tæplega hálfa milljón íslenskra króna). Mér finnst ég vera bara á ágætum launum þegar ég er hérna með þau ein á morgnana....

Þegar barn er orðið 3ja ára, fær það einhverjar 10 klukkustundir á viku ókeypis í dagvistun en það miðast við skólaárið því Afkvæmið sem er fætt í september fær ekki þessa ókeypis klukkustundir fyrr en í janúar á næsta ári. Hefði hún verið fædd í ágúst, hefði hún fengið þessar ókeypis klukkustundir næsta september.

Svona ef þið haldið að laun fólks séu í einhverjum milljóneraklassa þá er hérna fyrir neðan yfirlit yfir meðallaun. Athugið að þetta er fyrir allt Bretland en ekki bara fyrir London þar sem laun eru hærri að meðaltali. Ég tek laun yfir allt landið hér eins og heima á Íslandi (og flestir þeir sem eru með barn á leikskólanum búa fyrir utan London því það er svo dýrt að búa í miðbænum en af því að fólk vinnur í miðbænum þá notar það leikskólann þar eins og áður sagði). En já, það er auðvitað fáránlegt að skipta meðallaunum eftir kyni (svona upp á jafnrétti að gera) en hér eru

Yfirlit yfir meðallaun karla og kvenna í UK 2012:

  • Meðallaun karla í Englandi er um 30,000 pund (um 6 milljónir)
  • Meðallaun kvenna í Englandi er um 24,000 pund (4,8 milljónir)&;

Yfirlit yfir meðallaun karla og kvenna á Íslandi 2011:

  • Meðallaun karla á Íslandi eru um 4,5 milljónir
  • Meðallaun kvenna á Íslandi eru um 3,7 milljónir

Launin eru aðeins hærri í Englandi en hafa ber í huga að húsnæðisverð er eitt það dýrasta í heiminum miðað við fermetrafjölda. Það er umtalsvert dýrara en á Íslandi (sem dæmi er 3ja herbergja 90fm íbúð á um 3100 pund á mánuði (630,000 ISK) og 3ja herbergja 70fm íbúð á um 2100 pund (430,000 ISK). Sama má segja með rafmagn, vatn, hita og annað (ég hef búið á Íslandi og í UK til skiptis í rúmlega 11 ár svo ég er ekki bara að tala út úr rassinum á mér). Þetta er ástæðan fyrir því að mjög margt fólk hefur ekki efni á því að hafa börn í leikskólum hér og er frekar heima með þau (og það lendir jú yfirleitt á móðurinni því hún er með lægri laun…og svo framvegis).

Ég veit að margir á Íslandi eru í sömu sporum, að geta ekki haft börnin sín í dagvistun og ég er ekki að gera lítið úr því (svona ef einhverjum dettur í hug að snúa út úr orðum mínum). Það er hægt að fá alls kyns bætur auðvitað en þær eru dropi í hafið miðað við allan kostnað fyrir venjulegt launafólk.

Svo hér hafið þið það……verð á leikskóla í UK, ykkur til fróðleiks með grófum samanburði við Ísland. Athugið að dagmömmur kosta það sama og leikskólar.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Sykursætar pælingar: Seinni hluti

Síðan ég flutti til Bretlands 2001 hef ég mikið prufað af alls kyns sætu. Ég er yfirleitt hrifnust af sætu sem er með “flókið bragð” svona eins og byggmaltsírópi, hrísgrjónasírópi, mólassa, rapadura hrásykri, hunangi o.þ.h. Ég hef minna velt fyrir mér hvernig sætan er samsett þ.e. hvort að hann sé frúktósi eða glúkósi því ég hef frekar einbeitt mér að hvaða bragð sætan gefur mér miðað við uppskriftina. Agavesíróp (hrátt og með minna hlutfalli frúktósa en það sem er meira unnið) t.d. nýtist manni í mjög margt því það er hlutlaust í bragði. Maður þarf líka aðeins minna af því en af venjulegum sykri. Hlynsíróp hefur svolítið afgerandi bragð en hentar í ýmislegt og sama á við um hunang sem getur verið frábært í smoothie til að lyfta honum upp en hentar alls ekki í t.d. konfekt. Svona vegur maður og metur með hverja uppskrift en aðalatriðið er að nota minni sykur, hvort sem maður er að nota borðsykur, pálmasykur, Rapadura hrásykur eða eitthvað annað. Það er mikilvægasta skrefið (ásamt því að vera ekki að gúffa í sig sætu bakkelsi í tíma og ótíma) og svo getur maður byrjað að velta fyrir sér hvaða sætu maður á nú að nota. Ástæðan fyrir því að ég segi að uppskriftirnar mínar séu hollari en aðrar er EKKI af því ég nota agavesíróp eða hlynsíróp o.fl., heldur af því ég nota minni sætu OG ég nota eins lítið unna (og enga bleikta sætu) og ég get, miðað við hvað passar í uppskriftina, ÁSAMT fleiri atriðum eins og meiri trefjum, hollari fitu o.fl., o.fl. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.

Ef börn (og fullorðnir) myndu einungis neyta 1/4 úr tsk af hvítum sykri hvern dag það sem eftir væri ævinnar þá væri ekkert að því að borða hvítan sykur (þó hann sé bleiktur og hreinsaður o.s.frv.). Það væri margfalt betra en að borða 100ml af agavesírópi, hrísgrjónasírópi eða hunangi hvern einasta dag. Fjórðungur úr teskeið er kannski óraunhæft viðmið og þess vegna er gott að skoða hvaða milliveg er best að fara og hvar maður getur gert betur. Það er ALLTAF best að sleppa sykri, það er ótvírætt, og ávextir ættu að þjóna sykurþörf okkar fullvel. Hins vegar erum við svo miklar sykurtennur (þar með talin ég) að nauðsynlegt er að skoða hvernig við getum minnkað neyslu og breytt henni frekar en að hætta henni (þó að það sé auðvitað alltaf best). Það er reyndar ferlega leiðinlegt hvað verð á t.d. hrísgrjónasírópi (ef það þá fæst lengur) á Íslandi er mikið skaðræði og hið sama á við um mólassa og fleiri sætur. Það er örugglega hægt að þróa sykur úr íslensku byggi….hvernig væri nú að leggjast í smá tilraunavinnu??? Ég legg það í ykkar hendur.

En áfram með kókosolíuna…..hér er framhald af færslu Andrew Wilder á Eating Rules um sykur.  Vonandi hafið þið gagn af. Athugið að eitthvað af upplýsingum hans kemur af Wikipedia en það virðist vera nokkuð hlutlaus umfjöllun og vísað í margs kyns rannsóknir o.fl. (sem ég gat ekki séð að væru kostaðar af sykurframleiðendum o.þ.h.). Ef eitthvað í þýðingunni minni er vitlaust, endilega sendið á mig leiðréttingu.
Og já eins og áður þá eru mín innskot í hornklofum.

Athugið einnig að þessi færsla er í ólympískri lengd...hún nær líklega til tunglsins......
-----
Í fyrri hluta umræðunnar um sykur kynnti ég ykkur fyrir grunninum að sykri í alls kyns mynd og kynnti einnig nokkrar rannsóknir honum tengdum en þær bentu meðal annars til þess að að frúktósi gæti verið verri fyrir okkur en glúkósi.

En núna iða eflaust allir í skinninu og bíða eftir svarinu við stóru spurningunni: Hvaða sykur á ég að borða?

Skoðið innihaldslýsingu nánast hverrar einustu matvöru: Það eru góðar líkur á því að hún hafi einhverja tegund af unnum sykri í listanum. Sem sagt, þó að maður sé algjörlega staðráðinn í að sleppa sykri, er eina leiðin (a.m.k. í Ameríku) [og örugglega í Bretlandi og víðar] að elda allt frá grunni sjálfur. Það er auðvitað eitthvað sem allir ættu að stefna að! Það er í rauninni einfaldasta svarið en um leið svara ég heldur ekki spurningunni.

Þessi umfjöllun er ekki tæmandi yfirlit yfir allar gerðir sykurs, hún myndi jú fylla margar bækur - en þessa kynningu má nota til umræðna og frekari pælinga.

Ég ætti líka að benda á smáa letrið. Ef þið glímið við einhver sérstök heilsufarsleg vandamál, ekki síst ef þið eruð með sykursýki, talið þá við lækninn ykkar og leitið frekari ráðlegginga. Ástæða þess að ég nefni þetta er sú að mínar athuganir benda til þess að glúkósi sé að mörgu leyti betri en frúktósi en til langs tíma hafa læknar ráðlagt sykursjúkum að forðast glúkósa (því frúktósi veldur ekki þessum miklu sveiflum í blóðsykrinum eins og glúkósinn gerir) [og er ein af ástæðum þess að ég nota t.d. agavesíróp]. Punktur minn er þessi: Kynnið ykkur allar upplýsingar, spyrjið lækna og næringarfræðinga spurninga og lesið nýjustu greinar og rannsóknir um efnið.

(Úff, það virðist bara mun einfaldara hreinlega að borða bara minna af sætu!). 

Borðsykur (Granulated sykur, hvítur/unninn sykur, Cane sugar [veit ekki íslenska orðið en er Rørsukker á dönsku], Rófusykur (Beet Sugar))

Byrjum á borðsykrinum því hann er einn mest notaði sykurinn. Þessi hvíti sykur er alls staðar, í litlum bréfum á kaffihúsum, í 2ja kílóa pakkningum í búðinni, [sem og í hvítu glerkrukkunum á ódýrari veitingastöðum]. Þegar innihaldslýsing segir „sykur”, þá er það (líklega) þessi sykur sem þið eruð að innbyrða.

Borðsykur er yfirleitt unninn úr sykurrey eða úr sykurrófum. Eftir að sykurinn er fjarlægður úr plöntunni (með heitu vatni), er hann þéttur í síróp og úr því er hægt að gera kristalla úr súkrósanum. Ókristallaða sírópið sem verður eftir er svo fjarlægt með skilvindu (sjá mólassa hér fyrir neðan). Vinnsluferlið er mismunandi eftir því hvernig lokaafurðin á að vera en til að fá nánari upplýsingar um mismunandi vinnsluaðferðir á sykri er ágætt yfirlit á Wikipedia. Þegar sykurinn er fullunninn er erfitt að segja til um hvernig sykurinn var í upphaflegu formi og eiginlega ómögulegt svona heima í eldhúsinu.

Niðurstaðan: Borðsykur er hreinn súkrósi. Það þýðir að glúkósa- og frúktósasameindir hafa bundist og samsetningin er akkúrat 50% glúkósi og 50% frúktósi.

Upplýsingar um borðsykur á Wikipedia.

Brúnn sykur

Venjulegur „brúnn sykur" (sá sem fæst í boxum í matvörubúðinni) [eða í pokum á Íslandi] er yfirleitt unninn borðsykur með litlu magni (3.5%-6.5%) af viðbættum mólassa (sem er hliðarafurð í upphaflegu sykurferlinu). Mólassinn bætir sérstöku bragði og áferð við sykurinn en gerir hann ekki hollari. [Ég gat ekki betur séð að púðursykurinn íslenski væri svoleiðis eftir einhverja skoðun mína, hann er akkúrat ekkert hollari en venjulegur sykur, þó að hann sé notaður í „hollustukökur” á ýmsum kaffihúsum þar].

Niðurstaðan: Brúnn sykur er súkrósi.

Upplýsingar um brúnan sykur á Wikipedia.

„Náttúrulegur brúnn sykur” (Turbinado, Demerara, Muscovado)

Ég hef séð margar greinar vísa til þessarra sykurgerða hér að ofan sem „óunninna” eða „hrárra” en það er villandi. Þær eru hugsanlega hráar ef þær hafa ekki verið hitaðar en þær eru alveg örugglega ekki „óunnar” – heldur einfaldlega minna unnar en annar sykur í kristölluðum útgáfum. Byrjað er með sykurreyinn, vökvinn er pressaður úr honum, hitaður og látinn gufa upp. Þegar sykurinn hefur kristallast er hann settur í skilvindu (sem útskýrir nafnið turbinado) til að þurrka sykurinn frekar og fjarlægja óhreinindi. (Demerara sykur er svipaður, en er upphaflega nefndur eftir Demerara nýlendunni í Guyana. Hann er núna framleddur í Mauritius).

Muscovado sykur (líka kallaður „Barbados Sugar”) er svipaður en þurrkaður án skilvindunnar.

Staðhæfingar um ágæti þessarra ofangreindu gerða sykurs hvað heilsu varðar, geta verið ansi óþolandi (fyrir efasemdafólk eins og okkur). Til dæmis er vörumerkið Sugar In The Raw villandi (og notar algjörlega merkingarlausar) lýsingar eins og „Sykur frá náttúrinnar hendi, breytt gætilega í náttúrulega kristalla…”. Vörumerkið The Wholesome Sweeteners (bara nafnið eitt og sér er villandi) staðhæfir að „Lífrænt ræktaður Turbinado sykur sé gerður með því að pressa nýskorinn sykurreyinn í vítamín- og steinefnaríkan safa.” [sic].

Auðvitað segir næsta setning okkur að safinn sé látinn gufa upp og að hann sé settur í skilvindu – sem þýðir að þeir hafa einmitt fjarlægt eitthvað af þessum „ríku” steinefnum og vítamínum. (Ég gerði mér ekki grein fyrir því að sykurreyr væri svona svakalega ríkur af vítamínum og steinefnum. Uuu bíðið við – hann er það ekki).

Ef ég yrði nauðsynlega að velja á milli venjulega borðsykursins, brúna sykursins eða einhverra þeirra, myndi ég líklega nota Muscovado. Ekki vegna þess að hann innihald eitthvað meira af næringarefnum (sykurinn er sá sami, og það er ekki verulegt magn af vítamínum, steinefnum eða öðrum gagnlegum næringarefnum), heldur vegna þess að hann er minna unninn – sem þýðir að hann hefur ekki verið bleiktur eða soðinn – sem er líklega betra fyrir plánetuna. Ég hikaði meira að segja við að skrifa þessi síðustu orð, því ég er eiginlega ekki að mæla með honum – en það eru mismunandi stig af öllu, og ég held að Muscovado sé líklega framför umfram hina möguleikana, alveg sama hversu lítil sú framför kann að vera.

Niðurstaðan: Þessar gerðir sykurs hafa meira bragð og aðra æskilega eiginleika fyrir matreiðslu en ekki láta blekkjast af staðhæfingum um næringarinnihald. Þetta er allt súkrósi sem búið er að einangra frá náttúrulegum uppruna.

Upplýsingar um „náttúrulegan brúnan sykur” á Wikipedia.

Agave Síróp (Agave Syrup) [haldið ykkur fast!!!]

Oft kallað „Agave Nectar” (sem gefur því heilsusamlegra yfirbragð), og er unnið úr mismunandi tegundum af agave plöntunni.

Ég hef heyrt fólk syngja agave sírópi lof í lófa, og oft heldur fólk að það sé minna unnið en önnur sæta. Það getur vel verið rétt, því sykurinn er unninn með mismunandi aðferðum, eftir því hvaða agaveplanta um ræðir. Agave krefst meiri vinnslu heldur en t.d. hunang.

Kostirnir? Maður notar líklega ekki eins mikið. Agave er yfirleitt sætara en hunang og hefðbundinn sykur, svo líklega kemur maður til með að nota minna af því. Ég er líka mjög hrifinn af praktískri sýn Marion Nestle sem sagði: „Agave er dýrt svo líklega notar maður minna af því”. 

Niðurstaðan: Það er mismunandi eftir því hvaða agave síróp um ræðir en samsetningar eru breytilegar. Sumar innihalda 56% frúktósa og 20% glúkósa (og afgangurinn er annars konar sykur). Aðrar tegundir hafa allt að 92% frúktósa. [Þetta er það sem ég er búin að vera að reyna að útskýra í svo langan tíma, ekki allt agave síróp er það sama því vinnsluaðferð er svo mismunandi og mikið unnið agave síróp er meira að segja oft með viðbættu High Fructose Glucose Syrup...sem er ekki beint að gefa agave mjög gott orðspor].

Gott yfirlit LA Times frá 2009 yfir Agave.

Upplýsingar um agave síróp á Wikipedia.

Byggmalt (Barley Malt)

[Einn af mínum uppáhalds sætugjöfum en hef ekki notað hann mikið í uppskriftirnar á vefnum því hann fæst illa á Íslandi. Ég mæli samt með honum ef þið finnið hann].

Þessi sæta (yfirleitt í fljótandi formi) kemur yfirleitt úr spíruðu byggi (við vinnslu á malti), og er í útliti svipaður og mólassi. Aðalsykurinn er maltósi, og ég hef séð maltósa hlutfallið allt frá 42% til 65%. Maltósi er samsettur úr pörum glúkósasameinda (sem eru svo brotin niður af meltingarkerfinu í einstakar glúkósasameindir).

Hefðbundinn sykur er um tvöfalt sætari en byggmalt, svo að maður gæti haft tilhneigingu til að nota meira af byggmalti (sem þýðir fleiri hitaeiningar) [mér hefur ekki fundist það en kannski af því ég er ekki vön svo sætu bragði].

Hinsvegar hefur það djúpt „malt” bragð, svo manni gæti þótt þurfa minna af heðbundinni sætu því bragðið er dýpra. 

Ég hef prófað byggmalt þegar ég hef verið að hjálpa félögum mínum við brugg, en ég hef ekki hugleitt að nota það í matargerð. Næst þegar ég er í heilsubúð, mun ég íhuga það að kaupa krukku af Eden Organic’s Barley Malt Syrup.

Niðurstaða: Byggmalt inniheldur engan frúktósa og allt að 65% maltósa og er því efnileg viðbót í flóruna….ef ykkur líkar bragðið. [Ég nota byggmaltsíróp töluvert í muffinsa og kökubrauð og allt sem má vera svolítið klístrað við bakstur].

Upplýsingar um Byggmalt síróp og Maltósa á Wikipedia.

[Ég er ekki alveg klár á hvernig líkaminn vinnur úr maltósa en mér skilst að líkaminn brjóti hann niður í glúkósa bara eins og hann myndi gera með venjulegan sykur].


Hrísgrjónasíróp úr brúnum hrísgrjónum (Brown Rice Syrup)

Brúnt hrísgrjónasíróp verður til við að leggja brún hrísgrjón í bleyti/sjóða með ensímum (yfirleitt úr þurrkuðum byggspírum – sem þýðir byggmalt [og er þar af leiðandi ekki glúteinlaust…þau hrísgrjónasíróp sem ég hef notað, hafa reyndar verið glúteinlaus] til að brjóta niður sterkjurnar í sykrur sem líkaminn hefur aðgang að. Vökvinn er svo síaður burt og soðinn niður í síróp. Einnig er hægt að útbúa sírópið með því að sjóða hrísgrjónamjöl (eða hrísgrjónasterkju) með ensímum – svo að sú mynd sem þið hafið í hausnum af því að einfaldlega sjóða pott af brúnum hrísgrjónum er ekki alveg rétt.

Hvað sem öðru líður, er niðurstaðan sætt síróp sem er um 45% maltósi. Það er ekki ósvipað hunangi, en ekki eins sætt, og hefur svolítinn hnetukeim með eftirbragði sem er svipað og sojamjólk. Líkt og byggmalt, er hættan sú að maður noti meira af því þar sem það er ekki eins sætt og sykur [mér hefur persónulega ekki fundist það].

Niðurstaðan: Inniheldur engan frúktósa, og er um 45% maltósi. Hrísgrjónasíróp er efnileg viðbót líkt og byggmalt. Hafið þó í huga að hrísgrjónasíróp er mikið unnið og inniheldur hátt magn hitaeininga [líkt og allur sykur auðvitað].

Upplýsingar um brúnt hrísgrjónasíróp á Wikipedia.


Döðlusykur (Date Sugar)

Gerður úr þurrkuðum döðlum sem búið er að mala í duft, og virðist svipa til hins hefðbundna brúna sykurs. Þó að hann virðist við fyrstu sýn meira „náttúrulegur” (minna unninn), þá er niðurstaðan samt sykur úr döðlum sem er aðallega súkrósi.

Döðlusykur bráðnar heldur ekki eins og venjulegur sykur og leysist ekki upp í vökva – og myndi líklega ekki vera góður kostur í morgunkaffið. Hann virkar hins vegar vel sem skreytisykur ofan á það sem maður bakar. Og já, hann er yfirleitt dýr.

Niðurstaðan: Inniheldur aðallega súkrósaþykkni (concentrated sucrose) og er ekki góður valkostur. Hins vegar inniheldur sykurinn alla döðluna (sem er þurrkuð með sykrinum) [sem þýðir meiri trefjar og vítamín], og er kannski góður kostur í sumum tilvikum.

Upplýsingastubbur um döðlusykur á Wikipedia.

Viltu vita meira um döðlur? Skoðið þessa frétt frá 1993 um döðluafurðir frá The Food and Agriculture Organization of the United Nations.


Hlynsíróp (Maple Syrup)

Unnið úr vökva hlyntrésins (vökvanum er tappað af tré og hann soðinn niður), og er ferlið frekar svipað því sem það hefur verið um árabil. Kosturinn við hlynsíróp er að það er töluvert minna unnið en annar sykur – og inniheldur eitthvað aðeins af næringarefnum. En, af því sögðu er hægt að fá öll þessi næringarefni úr annarri fæðu sem er ekki eins hitaeiningarík [góður punktur að mínu mati] og maður myndi þurfa að neyta hlynsíróps í töluverðu magni til að maður væri virkilega að nýta sér næringarefnin úr þeim [en maður myndi líklega enda upp með önnur heilsufarsleg vandamál!].

Niðurstaðan: Inniheldur aðallega súkrósa og er best að takmarka neyslu á hlynsírópi.

Wikipedia Page on Maple Syrup.


Hlynsykur (Maple Sugar)

Hlynsykur er unninn með því að sjóða niður hlynsíróp þangað til það er orðið að föstu formi eða dufti. Hlynsykur er um 90% súkrósi (og afgangurinn glúkósi og frúktósi). Það er líklegt að það sé töluvert sætara en venjulegur borðsykur, og maður gæti því notað minna af því.

Niðurstaðan: Inniheldur aðallega súkrósa, svo það er best að takmarka neyslu á hlynsykri.

Wikipedia Page on Maple Sugar


Pálmasykur (Palm Sugar)

Gert úr safa mismunandi pálmatrjáa (svipað og hlynsíróp er unnið), og er pálmasykur notaður á svipaðan hátt og hefðbundinn borðsykur. Hann er oft kallaður „Coconut Palm Sugar” eða einfaldlega „Coconut Sugar” sem er villandi því sykurinn kemur ekki úr sjálfri kókoshnetunni. Hann er líka stundum kallaður „Palm Honey”.

Ég gat því miður ekki fundið upplýsingar um hvaða sykur er að finna í Pálmasykri (er einhver sem veit það?) [ég hef lesið mjög misvísandi upplýsingar varðandi það hvort að pálmasykur innihaldi mikinn frúktósa eða ekki. Sumir halda fram að pálmasykur innihaldi töluvert magn glúkósa, líkt og borðsykur en það stemmir ekki miðað við það sem sumir halda fram að hann hækki blóðsykurinn lítið (sem bendir til að hann sé hár í frúktósa]. Mér líkar sú staðreynd að hann er töluvert minna unninn – sumir framleiðendur sjóða ekki einu sinni sykurinn heldur láta vökvann gufa upp af honum. Eitt sem þarf að passa sig á þó er að sumir framleiðendur blanda saman venjulegum borðsykri við pálmasykurinn [skoðið ávallt innihaldslýsingu, pálmasykurinn ætti alltaf að innihalda 100% hreinan pálmasykur sem einungis er búið að vinna úr trénu sjálfu].

Tilfinning mín er sú að við munum sjá töluvert meira af þessum sykri sem „heilsu valkosti”, og finna svo út síðar að það var bull. Ég hef nú þegar fundið eina vefsíðu þar sem því er haldið fram að pálmasykur sé góður gegn „asthma og holdsveiki” og til að flýta fyrir vöxti ungra barna. (!?!). Annar framleiðandi notar slagorðin „Hinn fullkomni náttúru-sætugjafi”. Þetta hringir hjá mér viðvörunarbjöllum [ég er svo sammála!].

[Eitt sem ég ætla að bæta við er að pálmasykur svipar til Rapadura sykurs eða annarra gerða af svipuðum sykurtegundum sem eru minna unnar og heldur eitthvað eftir af næringarefnum (þó lítið sé). Pálmasykur hentar vel í bakstur og ég hef notað hann nokkuð].

Upplýsingar um pálmasykur á Wikipedia.

Niðurstaðan: Óljóst hver niðurstaðan er, en mér þykir líklegt að pálmasykur sé að mestu súkrósi.

[Hér eru upplýsingar sem ég fann um sykurinnihald í pálmasykri þar sem segir að pálmasykur sé að mestu súkrósi. Það er þó líklegt að innihaldið fari eftir vinnsluaðferð o.fl.]. Líklega er best að fara með pálmasykur eins og hlynsykur og neyta hans sparlega.


Þykkni úr ávaxtasafa (Fruit Juice Concentrate)

Ég verð mjög pirraður þegar ég sé þykkni úr ávaxtasafa í innihaldslista matvöru. Í fyrsta lagi er ekki talað um hvaða ávöxtur er notaður (yfirleitt epli, perur eða vínber). Það sem skiptir þó meira máli er að um er að ræða jafn mikið unninn sykur og annan sykur – en hann hljómar hollari því hann kemur jú úr ávöxtum!

Málið er, ef sykurinn kemur beint úr ávextinum, mun hann aðallega innihalda frúktósa og súkrósa. Þegar búið er að vinna hann (í formi safa) og svo sjóða hann niður, þá er það sem situr eftir, einangruðu sykrurnar (isolated sugars)

Niðurstaðan: Ekki láta gabbast af nafninu þó það hljómi hollara, þessi sæta er engu betri en venjulegur borðsykur. [Athugið að það gæti farið eftir vinnsluaðferðinni hvort að allur ávöxturinn er notaður og svo pressaður og þurrkaður. Athugið að þessi sæta er oft notuð t.d. í lífrænt framleitt kex fyrir börn].


Hunang (Honey)

Hvað bragð varðar er erfitt að skáka hunangi. Því miður er hunang um 38,5% frúktósi (og 31% glúkósi) – sem þýðir að hann er frekar svipaður frúktósa – glúkósa hlutfalli borðsykurs. Hunang hefur þó ýmislegt sér til málsbótar, sérstaklega ef það er óunnið og hrátt (raw).

Að þessu sögðu þá væri hægt að skrifa heilu bækurnar um hunang, svo það er erfitt að gera því skil hér. Hins vegar, ef ég ætlaði að borða hunang, myndi ég reyna eins og mögulegt væri að finna afurð sem kæmi beint úr býflugnabúinu. Uppáhalds tegundin mín er Really Raw – sem er rjómakennt, bragðmikið hunang sem meira að segja hefur bita úr frjókornunum og honeycomb (veit ekki hvað það heitir á íslensku) fljótandi á yfirborðinu. (Gallin er þó að það er frekar dýrt).

[Þegar Jóhannes var í Uganda í byrjun árs 2011 keypti hann handa mér hunang beint af bónda (nánast skafið ofan í dósina beint úr býflugnabúinu) og ég á erfitt með að bragða á öðru hunangi síðan!]

Niðurstaðan: Hunang getur verið „náttúrulegt” og getur haft ýmsa kosti, en því miður er eins mikið af frúktósa í því og í borðsykri.

Upplýsingar um hunang á Wikipedia.


Umbreyttur sykur,  Umbreytt sykursíróp (Invert Sugar, Inverted Sugar Syrup)

Það er ólíklegt að þið hafið sjálf notað umbreyttan sykur nema þið séuð bakarar – en þið gætuð samt sem áður hafa rekist á hann í innihaldslista matvöru. Umbreyttur sykur er einfaldlega sykur sem búið er að skipta (umbreyta) í einstakar glúkósa og frúktósa sameindir. Hann er sætari en hefðbundinn sykur því „laus” [free] frúktósi er sætari en súkrósa- eða glúkósaeiningarnar. Hann er oft kallaður „gervihunang”.

Niðurstaða: Nánast sami sykur og borðsykur.

Upplýsingar um umbreytt sykursíróp á Wikipedia.

Yfirlit yfir umbreytt sykursíróp á A Life Less Sweet vefsíðunni


Mólassi (Molasses)

Mólassi er þykkt síróp, hliðarafurð af hreinsunarferli sykurreys eða sykurrófa í borðsykur. Þar sem tilgangurinn er að ná sykrinum úr – og þetta er það sem verður afgangs – og er töluvert minni sykur í sírópinu.

Að sjóða sykur tekur allt að þrjú skipti og í hvert skipti verður mólasinn dekkri og dekkri, með æ minni sykri. Mólassinn sem kemur síðastur er “blackstrap molasses” [ég er mjög hrifin af honum].

Blackstrap mólassi hefur löngum verið boðberi sætu sem er raunverulega holl fyrir okkur – og ég hef átt í erfiðleikum með að finna eitthvað til að ganga gegn þessum staðhæfingum. Það er ríkt af mangan, kopar, járni, kalki og öðrum næringarefnum en er frekar lágt í sykri. Bragðið er hins vegar of sterkt fyrir suma. Mér finnst það persónulega gott ofan á ristað brauð – en ég myndi aldrei nota það í te og kaffi [mér hefur fundist það gott í alls kyns konfekt, kökubrauð og muffinsa].

Niðurstaðan: Hlutfallið á milli sykurs og næringarefna í mólassa – sérstaklega blackstrap mólassa – er langtum betra en í annarri sætu. Hins vegar hefur mólassi sérstakt og afgerandi bragð sem er ekki hægt að nota í alla matargerð.

Upplýsingar um mólassa og Blackstrap Mólassa á Wikipedia.

Upplýsingar um Blackstrap mólassa af The World Healthiest Foods vefsíðunni.


Maíssíróp og maíssíróp með háu frúktósahlutfalli (Corn Syrup & High Fructose Corn Syrup)

Ég geymdi maíssíróp þangað til síðast, auðvitað.

Framleitt úr maíssterkju og fyrsta stigið er yfirleitt mjög hátt í glúkósa (og með frekar háu magni af maltósa líka). Af því maíssíróp er mismunandi eftir því hvað á að nota það í, er ekki hægt að segja til um ákveðið hlutfall glúkósa. Hins vegar get ég sagt ykkur að hefðbundið maíssíróp er aðallega glúkósi.

Þess vegna er það minna sætt en aðrar sykurtegundir – og það gæti líka verið „minna slæmt” fyrir okkur.

Maíssíróp með hátt frúktósahlutfalli, er þá maíssíróp sem hefur verið umbreytt að hluta (með ensímum) úr glúkósa í frúktósa. Algengasta maíssírópið með háu hlutfalli frúktósa er um 55% frúktósi og 42% glúkósi (svona um það bil) – sem er nánast sama hlutfall af sykrum sem er að finna í borðsykri (það eru aðrar tegundir til og sumar þeirra fara alla leið í 90% frúktósa).

Almennt séð er „hátt hlutfall frúktósa” nokkuð villandi og er ástæðan fyrir því að þeir sem framleiða sætu úr maís, vilja breyta nafninu í maíssykur.  (Ég hef skrifað um maíssíróp áður og tekið óvinsæla afstöðu, en eftir því sem ég kemst næst, er það sú sem kemst næst staðreyndunum. Að sama skapi, vil ég minna ykkur á að ég nota ekki þessa sætu, hvað nafni sem hún kallast).

Það er auðvitað alls kyns önnur umræða sem tengist maíssírópi sem og maíssírópi með háu hlutfalli frúktósa. Erfðabreytt matvæli, maísniðurgreiðslur, ólífræn framleiðsla, risaframleiðendur [sem eyðileggja meðal annars skóglendi og náttúrulegt umhverfi ýmissa dýrategunda, mengun], ofvinnsla á hráefninu…allt eitthvað sem þarf að íhuga alvarlega. Hins vegar frá sjónarhorni næringarfræðingar, virðist ekki vera mikill munur á maíssírópi með háu hlutfalli frúktósa og hefðbundnum borðsykri [svo lengi sem það er með svipað hlutfall súkrósa og frúktósa].

Niðurstaðan: Ég get enn ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að við séum að færast nær því að glúkósi geti verið jafnvel skárri en frúktósi og þar af leiðandi myndi venjulegt maíssóróp (ekki með háu hlutfalli frúktósa) verið álitlegur kostur miðað við annan sykur.

Upplýsingar um maíssíróp og maíssíróp með háu frúktósahlutfalli.

[Athugið að umfjöllun um Rapadura Lucuma, Maca, Mesquite, Yacon og Stevia er mín viðbót]

Lucuma, Maca, Mesquite og Yacon

[Ég set hérna smá innskot um lucuma, maca, mesquite og yacon en allt eru þetta sætur sem hafa lægri sykurstuðul en hefðbundinn borðsykur, innihelda mikið magn næringarefna, vítamína og steinefna (ég finn ekki neinar upplýsingar sem ganga gegn því). Þær hafa allar sérstakt bragð og sæturnar henta misvel í matreiðslu en oft eru þær notaðar í hráfæðisgerð (lucuma er t.d. mikið notað í ísgerð). Þær eru samt góður kostur held ég og eitthvað sem við ættum að nota meira af. Þær eru yfirleitt hitaeiningaríkar og kannski er freistandi að nota meira af þeim svo maður þarf að hafa það í huga. Stevia hef ég ekki notað sjálf og það eru skiptar skoðanir varðandi ágæti þess. Maður þarf auðvitað mjög lítið af því en það er yfirleitt mikið unnið nema maður noti laufin beint (og jafnvel rækti laufin sjálfur).


Rapadura

Rapadura (stundum kallaður Raspadura) er útbúið með því að pressa sykurreyinn og svo er vökvinn látinn gufa upp yfir lágum hita (þangað til hann líkist múrsteini eða klumpi). Upprunalega var hann unninn á þennan hátt til að hægt væri að flytja hann auðveldlega. Hann er óbleiktur og hitaður við lágan hita og er því sú sykurtegund sem er með þeim minnst unnu. Hann myndi því flokkast með öðrum „Náttúrulegum brúnum sykri” eins og Demerara, Turbinado og Muscovado. Rapadura inniheldur eitthvað af næringarefnum (og á að vera sérstaklega járnríkur) en sykurinnihaldið er engu að síður aðallega súkrósi. Ég hef verið mjög hrifin af Rapadura í gegnum tíðina og nota hann í nánast allt sem má verða ljósbrúnt að lit. Ég nota hann t.d. ekki í ís eða ljósar smákökur sem eiga að vera ljósar. Hann hefur vægan karmellukeim og hentar því kannski ekki í alveg alla matargerð. Maður notar hann í sama magni og maður myndi nota sykur.

Upplýsingar á Wikipedia um Rapadura.]

Samantekt

Niðurstaðan er þessi: Við vitum ekki það sem við vitum ekki en það sem við vitum er, ef við drögum úr sykurneyslu almennt, hefur það gríðarlega jákvæð áhrif á heilsu okkar.

Við vitum líka að þegar við notum sætuþykkni (concentrated), eru góðar líkur á því að glúkósi og maltósi sé hugsanlega betri kostur en frúktósi eða súkrósi. En aftur er mikilvægt að hafa í huga að það er ekki til nægilega mikið af gögnum til að sannreyna þá staðhæfingu.

Ég hef á tilfinningunni að næstu árin muni mantra næringarfræðinga “sykur er sykur er sykur” þróast og verða sérhæfðari. Mér þykir líklegt að þeir muni einbeita sér að innri (intrinsic) sykrum (t.d. eins og hvað er í öllu eplinu) frekar en unnum sykri (t.d. þykkni/unnum safa úr epli), alveg eins og við erum að átta okkur á því að heilt korn er betra en unnið korn. 

Þangað til, legg ég til að þegar við notum sykur, prófum við byggmalt, hrísgrjónasíróp og Blackstrap mólassa [ég held að í þessum lista ætti að vera Rapadura, lucuma, maca, mesquite og yacon en það er bara mín persónulega skoðun]. Allavega erum við þá að prófa eitthvað nýtt sem er alltaf jákvætt.

[Þið sem lásuð alla leið hingað og eruð ekki sofnuð....vá, þið eigið skilið orðu!!!]

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Sykursætar pælingar: Fyrri hluti

Ég heyrði því fleygt fram um daginn (eða las einhvers staðar á Facebook) að ég væri (gott dæmi um þegar einhver virkilega veit ekki um hvað ég snýst) „heitasti talsmaður agavesíróps á Íslandi” (einhvers konar öfgamanneskja). Sem er auðvitað bölvuð þvæla því ég nota agavesíróp álíka mikið og ég nota aðra sætu eins og hlynsíróp, döðlur, barnamat, Rapadura hrásykur o.fl. Ég hef verið mjög hrifin af byggmaltsírópi og hrísgrjónasírópi í gegnum tíðina en það hefur ekki alltaf fengist á Íslandi svo ég neyddist til að breyta uppskriftunum mínum með það til hliðsjónar. Ég hef alltaf einsett mér að nota hráefni sem fæst auðveldlega frekar en að vera með hráefni sem fólk klórar sér í höfðinu yfir. Ég set samt yfirleitt neðanmáls ef mér finnst sniðugt að nota eitthvað annað í uppskriftina. Nýverið fór pálmasykur í sölu á Íslandi og gladdist ég mjög fyrir hönd Íslendinga því ég tel hann vera einna skárstan (kannski rétt að segja minnst vonda) sykurinn fyrir okkur og nú get ég farið að nota hann meira í uppskriftunum mínum en áður.

Ég hef sagt það milljón sinnum og segi það aftur að allur sykur er af hinu slæma og gerir okkur ekki gott. Og ég hef líka sagt að 2 msk af hvítum sykri væri margfalt betra fyrir okkur heldur en t.d. hálfur lítri af hlynsírópi á dag (þó að hlynsíróp sé selt í heilsubúð en hvítur borðsykur ekki). Það er þetta með magnið og að draga úr magninu sem skiptir svo miklu máli. Þegar ég tala um að uppskriftirnar mínar séu hollar þá meina ég einmitt það. Ég hef dregið úr sykurmagninu, nota meiri trefjar, minna unnið hráefni o.fl. Ekki VEGNA&;ÞESS að ég nota agavesíróp eða Rapadura hrásykur, heldur vegna þess að ég nota MINNA MAGN og aðeins MINNA&;UNNINN sykur en flestir nota í hefðbundið bakkelsi. Svo hvet ég líka fólk til að borða hóflega og hreyfa sig (ha ha helv...smáa letrið).

Ef að fólk myndi í fyrsta lagi draga úr sykurmagninu í hefðbundnum uppskriftum, væri stór sigur unninn í baráttu við sykurpúkann. Málið er að almennt gagnrýnir fólk ekki uppskriftir og setur það magn sem tilgreint er…þó að um sé að ræða 200 grömm af sykri + 200 grömm af súkkulaði + 100 grömm af flórsykri o.s.frv. Dóttir mín (tæplega 3ja ára) sá um daginn flórsykurskrem á cupcake (veit ekki hvað þær heita á íslensku) og sagði „nei mamma jógúrt á muffinsinum!!". Dæmi um hvað fólk ÞARF&;ekki á muffinsana. Það má útbúa hollara krem en úr flórsykri, þó svo að muffinsuppskriftinni sé haldið óbreyttri. Sem dæmi.

Ég er óttalegur kökugrís og get ekki (eða mig langar ekki til), lifað án þess að eiga kökusneið á borðinu eða konfekt í ísskápnum. En ég er líka búin að taka allar uppskriftir og umbreyta þeim, draga úr sykri, nota aðra sætu ef mögulegt er (þó að allt sé þetta sykur þá er misjafnt hvernig líkaminn vinnur úr sykrinum, trefjamagnið er ólíkt ef um er að ræða ávexti eða hreinan sykur o.s.frv.). Ef ég er að baka einhverja köku af vefnum mínum og finnst hún þola að vera minna sæt, dreg ég úr sætumagninu. Fyrir utan að ég borða ekki mikið af kökunni hvern dag, kannski eina sneið en ekki þrjár. Það er þetta með magnið.

Það er mikill ruglingur í kringum allt sem tengist sykri þessa dagana. Það er fjöldinn allur af sykurtegundum og listinn lengist (sbr. stevia, pálmasykur o.fl.). Það er mjög móðins að vera á móti high fructose corn syrup (HFCS), og eðlilega, en svo er álíka mikill styr í kringum agavesíróp og stjórnmálamenn (en mikið notað af hráfæðisfólki þ.e. agavesírópið, ekki stjórnmálamennirnir). Svo er hunang ekki notað af jurtaætum en sumir vilja meina að hrátt hunang sé allra meina bót en aðrir kenna hunangi um aukinn tannlæknakostnað (og getur verið eitrað og má ekki gefa ungbörnum o.s.frv.). Ég get persónulega vottað fyrir að lítið unninn sykur getur skemmt tennur eftir að hafa séð litla krakka með ónýtar tennur á Zanzibar eyju rétt fyrir utan Tanzaníu, naga sykurrey eins og hann kom beint af ökrunum. Þau borðuðu hann líka látlaust allan daginn. Fyrir fólk sem er að taka út sykur í mataræði sínu er líklega auðveldara að telja sandkorn í eyðimörk Sahara). Sem dæmi eru hér nöfn yfir mismunandi sykur (lesið utan á sykrað morgunkorn ætlað börnum til að sjá allt of mörg af þessum nöfnum):

  • barley malt
  • beet sugar
  • brown sugar
  • buttered syrup
  • cane-juice crystals
  • cane sugar
  • caramel
  • carob syrup
  • corn syrup
  • corn syrup solids
  • date sugar
  • dextran
  • dextrose
  • diatase
  • diastatic malt
  • ethyl maltol
  • fructose
  • fruit juice
  • fruit juice concentrate
  • glucose
  • glucose solids
  • golden sugar
  • golden syrup
  • grape sugar
  • high-fructose corn syrup
  • honey
  • invert sugar
  • lactose
  • malt syrup
  • maltodextrin
  • maltose
  • mannitol
  • molasses
  • rapadura
  • raw sugar
  • refiner's syrup
  • sorbitol
  • sorghum syrup
  • sucrose
  • sugar
  • turbinado sugar
  • xylitol
  • yellow sugar

Nú eru margir hverjir eflaust hissa og spyrja sig, já en notar CafeSigrun ekki agavesíróp, hlynsíróp, hrásykur o.fl.? Jú og hefur gert alla tíð. Ég hef aldrei á vefnum mínum haldið fram að uppskriftirnar mínar séu sykurlausar (þó að sumir haldi því ranglega fram þá er agavesíróp EEEEEKKKIIIIII sykurlaust) , einungis að ég noti ekki hvítan sykur (sem sagt hreinan súkrósa). Nú eru sumir sem vilja meina að súkrósi sé skárstur fyrir okkur og það getur vel verið rétt. Ég nota hann ekki af ýmsum ástæðum en meginástæðurnar eru þær að hvítur sykur er algjörlega gjörsneyddur þeim litlu næringarefnum sem minna unninn sykur inniheldur. Þó að næringarefnin séu ekki umtalsverð, eru þau samt til staðar og nóg til þess að ég kýs frekar Rapadura hrásykur eða pálmasykur en t.d. hvítan sykur. Einnig er hvítur sykur hreinsaður með beinamulningi dýra (bone char) og það finnst mér ógeðfellt. Svo er stefna mín að nota alltaf eins lítið unnið hráefni eins og kostur er og Rapadura hrásykur og pálmasykur fellur þar undir sem og hrátt agavesíróp með minna hlutfall af ávaxtasykri en meira unnið agavesíróp (nánar í næsta hluta).

Ég rakst af grein á Netinu á vefnum Eating Rules þar sem náungi að nafni Andrew Wilder tekur saman upplýsingar um sykur á auðlesanlegan og frekar hlutlausan hátt. Hann er ekki kostaður af stóru fyrirtæki eða neitt slíkt og er eins og ég, bara áhugasamur um heilsutengd málefni (en án þess að vera næringarfræðingur svo þið hafið það í huga). Ég fékk góðfúslegt leyfi hjá honum til að þýða greinina og fylgir hún hér á eftir í tveimur hlutum. Athugið að innskot mín eru í hornklofum:

Áður en við tölum um þann sykur sem í boði er, er best að kanna aðeins bakgrunninn því hann er mikilvægur fyrir skilning okkar á hvað sykur er.

Grunnsykur (Sugar Primer)

Það eru sex aðalgerðir sykursameinda. Þrjár þeirra eru einsykrur (monosaccharides).

Glúkósi (glucose) er algengastur. Hann er til einn og sér en er einnig aðalbyggingareining annarra afbrigða sykurs. Það er einnig sá sykur sem líkami okkar vill nota fyrir orku (oft talað um „blóðsykur” eða dextrosa).

Frúktósi (fructose) er svo í ávöxtum (eins og nafnið gefur til kynna) en mikilvægt er að taka fram að ávöxtur inniheldur bæði frúktósa og glúkósa en það veltur á ávextinum, hvernig hlutfallið er.&;

Þriðja gerð einsykru er svo mjólkursykur (galactose) sem finnst nánast einvörðungu í mjólk.

Tvísykrur (disaccharide) verða svo til þegar tvær einsykrur bindast.

Þegar glúkósi og frúktósi bindast fáum við súkrósasameind (sykursameind). Hvítur sykur er til dæmis hreinn súkrósi (sucrose) sem þýðir að venjulegur, hvítur sykur er 50% glúkósi og 50% frúktósi. Sem dæmi, það sem í daglegu tali kallast sykur t.d. á innihaldslýsingu kexpakka er sem sagt súkrósi.

Þegar tvær glúkósasameindir bindast, verður útkoman maltósi (maltose).

Laktósi (lactose), sykurinn sem við fáum úr mjólk, er úr glúkósa og galactose. Galactose er yfirleitt ekki sérstæður og er nánast alltaf bundinn glúkósa svo að úr verður laktósi. Þess vegna finnum við yfirleitt ekki krukkur af galactose í búðinni [ólíkt laktósa sem er stundum notaður til að lækna hægðartregðu].

Hvað gerist þegar við borðum þessar sykrur?

Þegar við borðum einsykrur (glúkósi, frúktósi) notar líkaminn hann beint og skilar honum í blóðrásina. Frumur geta notað glúkósa strax (líkaminn kýs glúkósa helst). Frúktósi er brotinn niður fyrst, af lifrinni og breytist þar í glúkósa.

Ef um tvísykrur er að ræða (súkrósi, maltósi, laktósi) verðum við að melta þær áður en líkaminn getur notað þær. Enzími brjóta niður tvísykrur í einsykrur og þannig notar líkaminn hann beint eins og hann væri að innbyrða einsykrur.

Með öðrum orðum, þegar við borðum einhvern af þessum sykri, brýtur líkaminn hann niður í glúkósa nokkuð fljótt.

Hefðbundna svarið

Hvað segja ofangreindar upplýsingar okkur? Er einhver sykur betri (eða verri) en annar?

Næringarfræðingar [mat Andrews] segja yfirleitt að sykur sé bara sykur því hann umbreytist í glúkósa hvort sem er. Þeir segja gjarnan að það skipti ekki máli hvaða sykur við borðum.Þeir myndu segja (og er auðvitað alveg rétt) að það skipti mun meira máli að MINNKA sykurmagnið, frekar en hvaða TEGUND við erum að borða.

[Þetta er það sem ég er búin að vera að reyna að segja í langan tíma].

(Staðreynd: Bandaríkjamenn neyta um 22 teskeiða af sykri á dag en ráðlagður dagsskammtur er um 6-9 teskeiðar (eftir því hver næringarþörfin almennt er)).

Nýjar vísbendingar

Að þessu sögðu, þá gæti hugsanlega skipt máli HVAÐA sykur við erum að borða. Vandamálið er að vitum það ekki alveg enn þá en sumir halda fram að frúktósi sé verri fyrir okkur en glúkósi.

Fjöldinn allur af rannsóknum styður þessa niðurstöðu (sjá t.d. fyrirlestur Robert H. Lustig, MD frá 2009 (“Sugar: The Bitter Truth“), þar sem hann vill meina að sykur og sérstaklega frúktósi sé að drepa okkur. Aðrir eru á öndverðum meiði hvað frúktósann varðar. [Það fer eftir því hvern maður spyr og hvernig maður spyr en báðir hafa eitthvað til síns máls].

Grein í Time frá 2009 útlistar litla rannsókn þar sem niðurstöður bentu til að of mikill frúktósi (frekar en sama magn glúkósa) gæti aukið líkurnar á því að fólk þrói með sér hjartasjúkdóma og sykursýki [athugið að rannsóknir af þessu tagi er oft erfitt að túlka og þyrfti að endurtaka rannsóknina með fleiri þátttakendum o.fl. Til dæmis voru einungis karlmenn athugaðir og þeir voru allir í ofþyngd eða mikilli ofþyngd sem gæti skekkt niðurstöður töluvert. Er ekki að segja að niðurstöðurnar séu rangar heldur að rannsóknin hafi verið svolítið gölluð og það þurfi að endurtaka hana og einangra þá þætti fyrir sem gætu skekkt niðurstöður.

Nýleg rannsókn sýndi einnig að krabbameinsfrumum þættu frúktósi betri en glúkósi. Þessi rannsókn var ekki framkvæmd á mannslíkama heldur í tilraunastofu [og gefur því aðeins vísbendingar en ekki fullar niðurstöður].

Í mars, 2011 var sýndi rannsókn með 9 einstaklingum að glúkósi jók virkni í sumum svæðum heilans en frúktósi dró úr henni. [Þetta getur haft þýðingu fyrir „verðlaunastöðvar” heilans (sem gæti þýtt að glúkósi er meira ávanabindandi en frúktósi) en spennandi verður að fylgjast með þessum rannsóknum í framtíðinni en ég hef reyndar séð rannsóknir sem fara í sitt hvora áttina þ.e. að frúktósi sé meira ávanabindandi].

Og að lokum er að finna grein Gary Taubes sem nýlega dró saman upplýsingar fyrir New York Times Magazine og titilinn var: Er sykur eitraður? ("Is Sugar Toxic?"). Taubes segist vera sannfærður um að allur sykur sé skaðlegur heilsunni og að við þurfum að forðast hann. Svo sem engar nýjar fréttir.

Nú er úr vöndu að ráða

Hvað eigum við þá að gera? Eigum við að halda okkur við að sykur sé sykur og hætta algjörlega að neyta hans? Það væri ekki verra fyrir okkur líkamlega en líklega er það ekki raunhæft. Líklega er skársta lausnin að neyta ávaxta þ.e. heilla ávaxta með trefjum og öllu í staðinn fyrir sykur sem hefur verið unninn (sama hversu lítið). En ef við ætlum að nota einhvern sykur þá eru vísbendingar (ekki gallharðar) um að glúkósi sé betri kostur en frúktósi. En ef við skoðum málið nánar þá er þetta ekki svo einfalt.

Í hluta tvö eru algengustu sykurtegundirnar teknar fyrir og þær aðeins skoðaðar.

[Athugið að ég tengdi þær greinar sem Andrew tengir því þær eru auðlesnari en upphaflegu greinarnar. Ávallt er best að meta sjálfur niðurstöður rannsókna í upphaflegu greinunum (til að meta hvar villur eru í rannsóknarsniði og fleira) og má fletta þeim upp t.d. á Google með því að slá inn nöfn höfunda, ártal og heiti rannsóknanna].

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It