Tónleikarnir

Jæja, tónleikarnir búnir. Þeir voru aldeilis fínir og var mjög skemmtilegt að heyra tónlistina hennar Bjarkar "live" og ekki síst röddina hennar sem ég held að verði bara sterkari og sterkari með árunum. Svei mér þá ef hún kom ekki bara á óvart. Það var líka æðislegt að sjá og heyra í Antony úr Antony and the Johnsons. Hann var reyndar dauðstressaður og heyrðist varla í honum fyrstu sekúndurnar en svo lifnaði hann heldur betur við. Það er pottþétt að við förum á tónleika með honum næst þegar við getum.

Annars gengur ágætlega með að koma íbúðinni í sæmilegasta horf. Jóhannes (sem var reyndar lasinn meira og minna alla páskana) er búinn að saga og negla og bora og er að undirbúa kaffiplássið sitt. Þetta verður mjög flott hjá honum og fær Elektra að njóta sín til fulls, böðuð í ljósinu sem hann ætlar líka að setja upp. Síðan myndin var tekin, er risastór malari búinn að bætast við sem er stærri en Elektra. Þetta verður rosalegt og eins gott að þær fá sína eigin "íbúð" he he.

Ég hlakka til þegar allt er komið í stand og ég er búin að fá nýja vél, þá get ég farið að búa til eitthvað almennilegt og gott í matinn. Hrökkbrauð og skyr gengur ekki alveg endalaust.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It