Umkomulaus vefur

Vefurinn minn er umkomulaus, ég hef ekki hugsað um hann í marga daga, ekki sett inn neina nýja uppskrift og hann er bara eins og munaðarlaus flækingur....ekki hægt sko. Satt best að segja erum við búin að vera á haus síðan við komum að pakka upp úr kössum, fá fleiri kassa, pakka upp úr kössum, pakka ofan í kassa (því sem fer í Góða hirðinn) og henda í endurvinnslu því sem þurfti að henda. Sem er slatti.

Við erum loksins komin með Netið heim. Við sóttum um það þann 9. mars og í dag er 29. mars. Sem sagt 20 dagar. Það er löng, löng, löng saga á bakvið þetta mál sem ég ætla ekki að rekja hér enda væri það bara röfl út í eitt. Í stuttu máli þá er það svona:

Vodafone gerir um 30 mistök í allt, meðal annars:

  • Láta okkur ekki vita að við þyrftum að tilkynna 'gamalt númer' á íbúðinni sem var algerlega nauðsynlegt til að þetta gengi hratt.
  • Láta okkur fá símanúmer.....sem var í eigu einhvers annars
  • Við hringdum 4 sinnum í þeirri viku til að láta vita
  • Viku SEINNA var Netið tengt á þetta númer (hjá konu út í bæ)
  • Daginn var hringt í okkur og okkur var sagt frá því að það væri einhver annar með númerið okkar (REALLY???)
  • Svo fór af stað hringingalota þar sem við hringdum og kvörtuðum til skiptis (samt kurteislega)
  • Okkur var lofað margsinnis að þetta "væri að detta inn" en aldrei kom það
  • Viku eftir þessi mistök var okkur tjáð að við ÞYRFTUM eldra númer á íbúðinni til að geta tengt númer og ADSL
  • Önnur hringingarlota fór af stað
  • Í lokin hringdi ég og byrsti mig MJÖG í símann (sem ég geri aldrei). Mér var nóg boðið
  • Starfsmenn lugu, klöguðu hvern annan, þóttust ekki kannast við starfsmenn úr sinni deild (nei hann hefur aldrei verið hér o.s.frv.) og sögðu eitthvað út í loftið eins og "heyrðu þetta er bara komið" þó að væri vika í að þetta kæmi inn hjá okkur??? Þegar spurt var daginn eftir hvernig viðkomandi gat sagt þetta án þess að fótur væri fyrir því þá voru svörin fá.
Í grófum dráttum var þetta svona. Þetta er náttúrulega algerlega óþolandi. Bílastæðasjóður er orðinn álíka...þegar eitthvað á að taka 1-2 daga og það tekur 10-12 þá á maður að minnsta kosti rétt á því að starfsmenn segi "afsakið" í staðinn fyrir að vera með fýlusvip. Ég er vandlega búin að skoða hvort að það sé frekjutónn í röddinni eða hvort ég sé ágeng (tók meira að segja með mér samstarfskonu til að gera tékk á því) en nei, hún sagði að ég væri bara mjög kurteis og ekki frek við afgreiðslufólk eins og þessa hjá bílastæðasjóð (þessi með krullurnar og síða hárið er dúlla en hún hefur ekki verið við síðustu daga).

Þannig að þetta er ég búin að vera að bralla síðustu daga, fyrir utan að vinna eins og hestur og reyna að finna stað á stofugólfinu sem er ekki með kössum eða drasli. Sá staður hefur ekki fundist enn þá.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It