Rokrass

Það er "vitlaust veður" í London núna, lestarnar liggja margar niðri því það er svo mikið rusl á teinunum, fólk þarf þess vegna að taka strætó heim (sem þýðir að 20 mín ferð verður að 4ja tíma martraðarferð þar sem strætóarnir eru svo pakkaðir að þeir keyra bara fram hjá stoppistöðvunum. Flestir fara reyndar á pöbbinn og drekka frekar nokkra öllara heldur en að lenda í stöppuðum strætó. Margir á skrifstofunum hér í London eru alltaf með auka nærbuxur, tannbursta og sokka í skrifborðum sínum til að geta gist yfir nótt á hóteli því það tekur því ekki að reyna að komast heim ef það tekur kannski 4-5 klukkutíma. Þannig er það oft í snjókomu (smá föl), of mikilli rigningu (smá bleyta), of miklu roki (smá gustur), of köldu veðri (rétt um frostmark). Lestarkerfið er nefnilega 150 ára gamalt, það elsta í heimi og þolir akkúrat ekki neitt. Það má ekki anda á það. En frekar en að grenja og fara í mál, þá hafa Londonbúar aðlagað sig að þessu og bíta í vörina. Þeir nenna ekki lengur að kvarta og taka með sér viðlegubúnað og birgðir. Þeir þola mikla þjáningu ef þeir fá bara ölkrús eða "nice cup of tea". Þeir mega eiga það Bretarnir.

Það hafa 7 manns látið lífið í Bretlandi það sem af er degi. Aðallega þegar trén fjúka á fólkið. Er alveg viss um að trjáleysið heima á Íslandi er ástæða þess að við erum ekki útdauð. Ég setti vitlaust veður í gæsalappir því þetta er ekki einu sinni eins og almennileg haustlægð heima á Íslandi. Jú jú gluggarnir titra svolítið og trén sveiflast eða fjúka og það koma hressilegar vindhviður en EKKERT í líkingu við það sem við þurfum að þola heima. Ekki einu sinni nálægt því. Útlendingar sem koma heim til Íslands hljóta að verða fyrir áfalli þegar þeir lenda í almennilegri lægð eða snjóstormi. Ég man að einu sinni var vinafólk okkar (grískir Ástralir) hjá okkur á Íslandi um jólin 2005. Það kom smá skafrenningur og þau voru gáttuð á að fólk væri úti við í þessu óveðri (og ég meina smá skafrenningur í miðbæ Reykjavíkur).

Fór reyndar aðeins út í hádeginu og fauk aðeins til og lenti í holu. Jóhannesi fannst það fyndið (ég meiddi mig ekkert svakalega svo hann var ekkert að vera vondur).

Ég er svo fegin að ég þarf hvorki að taka lest né strætó í vinnuna og ekki Jóhannes heldur. Við getum bara "fokið heim til okkar". Nú er bara að vona að stóra tréð fyrir utan gluggann haldist á sínum stað!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

gestur
20. jan. 2007

hér er allt brjálað yfir að vera 50 mín í vinnuna í staðinn fyrir 20 mín þvílíkt stress í fólkinu því er EKKI viðbjargandi. En manstu þegar þú tókst á loft í alvörunni í Bæjargilinu þá var 13 vindstig sem sagt ROK og vel það það var 4 feb 1991 og allt rafmagnslaust ég eldaði á gasi í bílskúrnum (gaman þá  kv mamma