Og þá erum við komin heim til London

Jæja, þá erum við lent eftir frábæra ferð. Ég ætla ekki að tíunda sérstaklega ferðina þar sem bæði ég og Jóhannes blogguðum um ferðina samhliða veru okkar þar og þið getið því kíkt til baka í blogginu ef þið viljið lesa daglega viðburði.

Við komum í gærkvöldi, lentum í London eftir 12 tíma flug klukkan 15 en það var 12 á miðnætti í Japan. Við vorum komin heim í íbúðina hér í London kl 17.30 (hálf þrjú að nóttu til í Japan). Þar sem við vorum orðin vön tímanum í Japan fannst okkur skrítið að allar búðir væru opnar þ.e. líkaminn var alveg að láta okkur vita (allavega minn) að það væri í raun mið nótt. Ég var alveg búin á því, burstaði tennurnar, fór í náttfötin, lagðist upp í rúm klukkan 18 og svaf til klukkan 6 í morgun. Ég var því alveg steinrotuð í 12 tíma án þess að rumska.

Það er eitt og annað sem stendur upp úr eftir ferðina, eins og gengur. Það er auðvitað alltaf skemmtilegt að fara til annarra landa, sjá menningu og lífið á götum borganna en Tokyo var bæði alveg eins og ég hafði ímyndað mér en líka allt öðruvísi. Hér er Tokyo eins og við upplifðum hana:

 • Fólk talar mjög litla ensku. Það skilur hana ágætlega en á mjög erfitt með að tala hana. Þeir sem kunnu hana, fannst voða gaman að tala hana.
 • Fólk snýtti sér alveg í lestunum (við höfðum lesið að það væri afar dónalegt og við vorum alltaf að passa okkur).
 • Fólk krosslagði alveg fæturnar í lestunum (sama hér, við höfðum lesið að það væri líka dónalegt).
 • Fólk er alls staðar SVO almennilegt og kurteist. Alls staðar var okkur hjálpað (eða það reynt) með bros á vör og oft bauð fólk fram aðstoð sína án þess að við bæðum um hana. Í Kamakura (klukkutíma lestarferð frá Tokyo) vorum við villt og við spurðum til vegar í einhverju apóteki/snyrtivörubúð/heimahúsi. Þar var konugreyið alveg heillengi að teikna upp kort fyrir okkur og þegar hún var ekki nógu sátt við kortið sitt, dró hún son sinn út á afturlöppunum og skipaði honum að labba með okkur áleiðis. Hann talaði ekki orð í ensku en allt gekk þetta upp og eins og venjulega, allir með bros á vör og ætlaðist ekki til neins í staðinn (t.d. í Kenya hefði fólk rukkað mann um schillinga en það stjórnast nú eflaust af efnahag fólks).
 • Það er brandari að hlusta á fólk bera fram r og l á ensku. Japanir (og a.m.k. Kikuju menn í Kenya ásamt örugglega fleirum) eiga fáránlega erfitt með að bera fram þessa samhljóða. Þeir annað hvort sleppa þeim (fer eftir því hvar í orðinu þeir eru) eða segja l í staðinn fyrir r. Dæmi um það var: Yol loom is leady (Your room is ready). It is lelly, lelly gleat. Á einhverjum stað stóð að staðurinn væri aðeins open to the pubic (höfðu sleppt l) og eitthvað var black and gley. Það er líka ógurlega fyndið að lesa þýðingar úr japönsku yfir á ensku. Við lágum oft í hláturskasti yfir einhverju sem stóð á skiltum. Þegar tollvörðurinn spurði hvort ég hefði anythi to decrel? átti ég rosalega erfitt með mig. Hann ætlaði sko að segja anything to declare?
 • Það var ótrúlega erfitt að finna mat fyrir grænmetisætur eða bara hollan mat yfirhöfuð. Þeir setja meira að segja svínakjöt í krabbakjötssúpur. Þeir eru ekkert að spá í heilsumálum, virðist alveg vera 20 árum á eftir. Ég bjóst satt að segja við því að alls staðar væru grænmetissúpur (var með misosúpur í huga) en það var ekkert auðvelt. Við gengum alltaf bæði aðalgötur og hliðargötur svo við vorum aldrei bara þar sem túristarnir voru. Hins vegar hjálpar ekki að skilja ekki stakt orð á innihaldslýsingum eða að þekkja ekki hvar réttu staðirnir eru. Alveg eins og með allar borgir þarf maður að vita hvar maður á að leita. Þetta er því örugglega að hluta til okkur að kenna.
 • Það virtustu afar fáir vera of þungir í Tokyo, það er helst yngri kynslóðin og mig grunar að þekktar hamborgara- og skyndibitakeðjur hafi þar stórt hlutverk. Eldri kynslóðir borða mikinn fisk, hrísgrjón og magurt kjöt og lítur líka mjög vel út. Við sáum margt eldra fólk úti að skokka (um 70 ára), eitthvað sem maður sér aldrei hér.
 • Það var ekki auðvelt að taka strætó. Í fyrsta lagi er voða lítið á ensku (t.d. staðarhættir o.fl.) og í öðru lagi á maður að borga eftir á. Það stríðir gegn öllu því sem maður er vanur en auðvitað bara gaman að upplifa.
 • Það er mjög auðvelt að nota lestarkerfið í Tokyo. Það er þó aðeins flóknara en í London því í London er sami rekstraraðilinn með allar línurnar (Piccadilly, Central, Circle o.s.frv.) og svæðum er skipt upp í 1-6. Maður getur því keypt lestarkort sem gilda fyrir ákveðin svæði. Í Tokyo hins vegar eru ekki sömu eigendur að t.d. Ginza línunni eða Yamamote línunni sem er ferlegt vesen ef maður ætlar að kaupa lestarkort fyrir daginn. Maður getur þurft að kaupa 3 lestarkort til að ferðast um á svipuðu svæði. Það er FÁRÁNLEGT. Það er einn eigandi fyrir 4 línur, annar fyrir 8 og enn annar fyrir aðrar línur. Þetta er svipað því að Central, Circle og Piccadilly í London væri rekin af einum aðila en Metropilitan, Bakerloo og Jubilee línurnar væru t.d. reknar af öðrum). Þó að lestarnar í Tokyo séu hreinar, stórar og aldrei seinar, þá fá þeir mörg mínusprik fyrir þetta atriði.
 • Það eru ekki allir leigubílsstjórar með hvíta hanska. Það virðist vera staðalmynd úr túristabókum.
 • Lestarverðir eru hins vegar alltaf í fínum jakkafötum, með hatta og hvíta hanska. Sé það í anda í London.
 • Lestarnar eru ALDREI seinar. Ef þær eru seinar fær fólk miða þess efnis til að taka með sér í vinnuna. Það þykir til tíðinda ef lestar í London eru á réttum tíma. Almennt er ekki einu sinni notuð tímatafla í London fyrir neðanjarðarlestarnar, það virkar ekki.
 • Tokyo getur verið algerlega kreisí. Að labba fram hjá stöðunum þar sem fólk er í spilakössunum, fær hárin til að rísa af stressi. Þvílíkur hávaði og þvílík læti.....
 • Að sama skapi er yndislegt að fara aðeins út fyrir borgina. Ef maður er 4 daga eða lengur í Tokyo ætti maður að reyna að fara a.m.k. til Kyoto, Nikko skoða Fuji eða til Kamakura. Af nógu er að taka.
 • Við höfum sjaldan séð eins ljót hús eins og í miðborg Tokyo. Við erum vön litlu sætu múrsteinshúsunum í London, eða bárujárnshúsunum heima. Húsin í Tokyo eru meira í ætt við miðborg Nairobi, ljót, skítug, illa hirt og enginn stíll yfir neinu. Engin gömul, sæt hús í miðborginni.
 • Við höfum heldur aldrei séð svona lítil einbýlishús eins og í Tokyo, ég sver fyrir það að þau voru um 20 fermetrar sum húsin (20 fermetrar í allt, á 3 hæðum!!).
 • Sushi (þ.e. aðallega makirúllur, Nigiri og sashimi) var ekki eins algengt og við héldum, núðlur með alls kyns eggjum og djúpsteiktu kjöti eða grænmeti (tempura) virtist afar vinsælt, meira að segja þar sem túristar virtust ekkert venja komur sínar. Aftur er mjög líklegt að við höfum ekki þekkt réttu staðina. En maður minn þar sem við fundum sushi. Sjitt hvað það var gott.
 • Þetta er nú bara svona smá upptalning á okkar reynslu. Við værum alveg til í að búa í Tokyo í eitt ár og læra mál og menningu (eða brot af því allavega) og þá hefðum við eflaust aðra sögu að segja enda upplifir maður staðina allt öðruvísi við að búa á þeim. Við eigum allavega alveg örugglega eftir að fara aftur!
 • Við erum að vinna í myndunum frá Tokyo, þær koma vonandi innan skamms.

Ég keypti eina uppskriftabók í Japan og það verða kannski einhverjar uppskriftir sem ég birti innan tíðar með áhrifum frá Japan, það verður þó ekki neitt í Tempura deigi he he.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It