Andleysi og heimboð

Veit ekki hvað það er með að koma til Íslands. Mér dettur bara ekki neitt í hug til að blogga um. Hér er ég líka yfirleitt að koma til að vinna og geri ekki mikið meira (sem er reyndar fínt því þá líður tíminn hratt). Ég kom 17. desember síðastliðinn og það er búið að vera myrkur síðan? Hvernig getur það bara verið? Sem betur fer mun daginn fara að lengja eftir nokkra daga, húrra. Það er bara ekki rétt að vera í svona miklu myrkri, maður verður bara syfjaður.

Nýja íbúðin sem við keyptum uppi á fjöllum í sumar (er ekki uppi á fjöllum, við keyptum hana þegar við vorum á fjöllum) er fín þó tómleg sé. Ég er með dýnur í láni frá mömmu, ég fékk hitateppi í innflutningsgjöf frá tengdó og svo er ísskápur á staðnum. Meira þarf ég svo sem ekki. Hlakka samt ótrúlega til að fá Jóhannes í kotið.

Mig langar að vera á Jamaica akkúrat núna (með Jóhannesi). Ég á líka heimboð þar. Leigubílstjórinn sem keyrði mig út á völl síðasta sunnudag var frá Jamaica. "Yu shudd go to Djamaica man" "It's too codd in London man". Ég vildi ekki samþykkja það þar sem ég kem frá Íslandi (hann hafði reyndar rétt fyrir sér þar sem það er asnalegt sumarveður hér en íslensk vetrarstilla í London). "Ohhh I thot you fom Polland". Ég neitaði því, sagðist vera frá Íslandi.

Ég lenti í 3ju gráðu yfirheyrslu alla leið því hann vildi vita ALLT um mig og alveg án þess að vera leiðinlegur eða pervisinn. Hann hafði bara einlægan áhuga á því að vita meira um þann sem hann var að keyra. Hann varð voða hrifinn af því að pabbi minn væri húsasmiður. Það fannst honum merkilegt...."ohhhhhh how niiice, he can bidd snowhouses yes?" uuhhhhh nei sagði ég, við búum reyndar í öðruvísi húsum. Hann varð voða feginn að heyra það... því það væri miklu betra að verjast ísbjörnum svoleiðis. Ég ætlaði fyrst að vera voða hneyksluð yfir fáfræði mannsins en svo hugsaði ég mig um... ég veit ekki baun meira um Jamaica en hann um Ísland.

Það eru 4 sinnum fleiri íbúar á Jamaica en Íslandi, þeir eru með kvenkyns forsætisráðherra og það tekur aðeins klukkustund að fljúga frá Miami í Bandaríkjunum og yfir til Jamaica. Þetta sagði hann mér í einni bunu þegar ég spurði hann um Jaimaica. Hann sagði mér líka að þeir borðuðu fullt af fiski, aðallega þorski og elduðu mikið af ávöxtum og hnetum sem væru hreinlega út um allt. Ég sagði honum að það væru engir ávextir á trjám á Íslandi..."ohhh godd bvess you man, vejy sojy to hir dat"". Hann benti mér svo á nokkra góða "West Indian" (karibíska) staði í London. Ég er reyndar ekki hrifin af karabískum mat yfir höfuð, of mikið steikt, djúpsteikt og sykrað fyrir minn smekk (samkvæmt þeim bókum sem ég á allavega).

En já ferðinni lauk fljótt, leigubílstjórinn var ánægður með það því hann var að drífa sig heim í sparifötin til að fara í kirkjuna. Hann tjáði mér að hann væri að flytja til Miami, til dóttur sinnar sem hann er afar stoltur af því hún vinnur á flunkunýju, risastóru hóteli. Frá Miami er svo stutt að fljúga til mömmu hans sem hann ætlar að heimsækja meira. Leigubílstjórinn ætlar aldrei að fara til Íslands því það er allt of kalt þar. Hann er búinn að búa í London síðan 1963 (sem var magnað miðað við sterka hreiminn sem hann var með) og ætlar ekki að búa þar aftur. Hann vill hita, hita og meiri hita. Hann bauð mér að heimsækja sig á Jamaica "wid jur husband" en gleymdi að segja mér heimilisfangið. Það er allt í lagi. Held samt að ég væri til í að vera á Jamaica núna (ekki í heimsókn, bara með Jóhannesi að dúlla okkur). 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It