Bloggið

Að vera grænmetisæta í pylsulandi

Í hnotskurn, fyrir mér, er Búdapest land sólbaðsstofa, strippbúlla, sígaretta, fallegra bygginga og James Bond skúrka. Búdapest er líka land gúllassúpunnar og pylsanna. Áður en við fórum til Búdapest var búið að vara mig við. „Sigrún það er ekki hægt að vera grænmetisæta í Ungverjalandi, það eru bara kjötbollur og gúllassúpur í boði“. Jóhannes var að vinna með einni grænmetisætu sem lifði hollustulíferni heima í Californiu en þegar hann fór í vinnuferðir til Búdapest, datt hann í kjötát því ekkert annað var í boði. Ég leitaði upplýsinga í ferðahandbókum og á vefsíðum og yfirleitt var svipað upp á teninginn þ.e. „Grænmetisætur, gerið ykkur engar vonir með að finna eitthvað ætt“. Ég get samt ekki sagt að ég hafi verið áhyggjufull því alveg sama hvar ég hef verið á jörðinni, hef ég alltaf fundið eitthvað gott að borða sem hentar grænmetisætum. Það er ekki víst að rétturinn sé á matseðlinum og ekki víst að hann komi jafn fljótt og matur hinna gestanna, en t.d. í Afríku hef ég alltaf (utan einu sinni á afskekktum stað í fjöllum Usambara í Tanzaníu) fengið hrikalega gott að borða. Í Japan er þetta auðvelt því maður bendir bara á myndir en í Ungverjalandi eru engar myndir af mat og ekki svo mikið á ensku. Enskan er líka svona upp og ofan hjá fólki. Ein afgreiðslukona (sem hinar afgreiðslukonurnar sögðu vera góða í ensku), strauk t.d. um höfuð Afkvæmisins, horfði í forvitin augu þess og sagði háum rómi „Oh you have suuuuuuch beautiful feet“ og hún horfði á mig og sagði „Very beautiful smiley feet“. Ég brosti bara…hún meinti auðvitað „face“.

Það væri auðvelt að gefast upp en maður verður að vera duglegur að spyrjast fyrir, leita upplýsinga á netinu og reyna að skilja það sem skrifað er með astoð orðabóka. Óneitanlega er mikið um kjöt og gúllassúpur eru á öllum matseðlum þó að hitastigið sé yfir 30°C. Ég verð samt að segja að allur matur sem ég hef fengið hingað til hefur verið góður. Oft er hægt að biðja um að kjöti sé sleppt (t.d. í salötum) og maður getur verið með skrifað niður á blað það sem maður ætlar að segja t.d. „ekki með kjöti“ svo það fari ekki á milli mála.

Ég er búin að labba mikið um nánasta umhverfi, enda stórgaman. Það er ekki nóg með að ég hafi fundið litla útgáfu af heilsubúð hérna, heldur var heil heilsudeild í matvörubúðinni (þar sem ég sá bara kjöt og mjólk í fyrstu ferðinni enda viss um að finna ekkert ætt) og Jóhannes bætti svo um betur og fann ungverska útgáfu af heilsu-grænmetisstað sem var stílaður sérstaklega inn á jurtaætur (vegan). Algjörlega brilliant. Við fengum frábæra speltpizzu, risotto og köku. Reyndar kæmi mér ekki á óvart að sjá Grænan kost hér því í næsta húsi er World Class líkamsræktarstöð! Jebb….án gríns (sama keðja og heima). Ég er líka búin að finna frábæran sushistað og mörg yndisleg kaffihús. Ég þyl meira að segja upp mína flóknu kaffipöntun og fæ hana rétta. Reyndar lyftast augabrúnir starfsmanna en kaffið er gott.

Ég kem sem sagt ekki horuð heim (og ekkert okkar). Punkturinn minn er sem sagt, þó að maður sé að fara eitthvert þar sem ekki er mikið um grænmetisstaði þá má alltaf bjarga sér. Stundum er leiðirnar flóknari en gengur og gerist en áskoranir eru skemmtilegar.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Svolítill misskilningur

Ég er sérfræðingur í að mislesa umhverfi mitt. Þegar bíll flautar, tek ég flautið til mín og hoppa hæð mína af því mér bregður svo mikið (þó ég sé fyrir aftan bílinn). Ég ýti líka alltaf á hurðar þó að standi skýrt og greinilega „toga“ og öfugt. Ég er manneskjan sem fer alltaf í vitlausa röð t.d. á flugvöllum og bíð, og bíð, og bíð og þarf svo að bíða tvöfalt lengur í réttri röð. Ég er líka alltaf viss um að einhver ætli að gera mér til miska, sérstaklega í útlöndum (finnst allir líta bófalega út) og er þess vegna paranoid gagnvart t.d. peningum og myndavélum, geymi allt í öryggishólfum o.s.frv.

Í fyrradag var ég á gangi eftir götunni sem íbúðarhótelið okkar stendur við. Gatan er róleg íbúðargata og ég var á ferð um hábjartan dag, í einni öruggustu borg Evrópu, Búdapest. Ég gekk áleiðis heim eftir stutta innkaupaferð og var annars hugar (eins og venjulega). Í fjarska sá ég móta fyrir 3 karlmönnum. Svona karlmönnum sem mann langar ekki að mæta í dimmu húsasundi að kvöldlagi. Mig langaði að færa mig yfir götuna en það hefði verið svolítið augljóst og þeir hefðu örugglega elt mig. Þeir nálguðust ískyggilega hratt og ég fékk hnút í magann. Þeir störðu á veskið mitt sem hékk á kerrunni sem Afkvæmið var í. Þegar ungverskir menn stara, rennur manni kalt vatn milli skinns og hörundar. Þeir eru jú allir eins og skúrkarnir úr James Bond. Þessir 3 karlmenn gengu í humátt að mér, í stuttbuxum, greinilega vel duglegir í ræktinni (pottþétt á sterum), í hlýrabolum, með dökkt og vatnsgreitt hár, ljósblá og stingandi augu, stórt nef, kinnarnar inndregnar, augabrúnirnar þungar og mjög sólbrúnir (það eru sólbaðsstofur á öllum hornum hér). Það vakti sérstaka athygli mína (og kvíða auðvitað) að þeir voru allir tómhentir (tilbúnir að lúskra á einhverjum). Þeir voru líka með hendurnar út til hliðanna (eins og flestir svona kraftlyftingamenn).

Ég er svakaleg mús, viðurkenni það alveg og var að losa töskuna mína af kerrunni til að rétta þeim (engin ástæða til að streitast á móti)? Þeir komu nær, og nær, og nær og loksins alveg að kerrunni. Ég lokaði augunum, kipraði saman varirnar, ríghélt í töskuna, tilbúin til að láta hana af hendi en ekkert gerðist. Ég pírði annað augað og sá engan í gegnum örmjóa rifuna. Fyrr en ég leit aðeins neðar og þá heyrði ég líka ungverska útgáfu af „gúttsjí, gúttsjí, gú“. Allir þrír James Bond skúrkarnir voru á hnjánum að kjá framan í Afkvæmið sem skríkti og hló yfir þessum skemmtilegu mönnum. Þeir voru aldrei að stara á veskið mitt, heldur á Afkvæmið. Ég brosti vandræðalega og þóttist vera að ná í varagloss ofan í töskuna.

Jóhannes hlær alltaf jafn mikið að því hvað ég er óskaplega stressuð (hans hjartsláttur er í svona 50 í streituvaldandi aðstæðum) en ég segi alltaf að ég sé við öllu búin. Ég held bara að það sé svakalega gott að ég er ekki vopnuð svona dags daglega.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Innfædd í Ungverjalandi

Það er ekki hægt að segja að ég sé týpískt íslensk í útliti (ekkert frekar en margir Íslendingar virka ekki íslenskir í útliti). Eitt sinn hélt einhver að ég væri pólsk og það var fyrir löngu síðan, þegar það þótti ekkert ókúl að vera eitthvað tengdur við það sem pólskt (eða austur evrópskt) er. Ég er þó ekki með aflitað hár, eða í snjóþvegnum gallabuxum, ekki með glingur á fötunum og reyki ekki. Þetta eru hreinir fordómar og ég veit það. Ég sem er alltaf að segja að ég sé laus við fordóma hmmmm..... Ég hef samt aldrei lent í  neinu slæmu af hendi þeirra þjóða sem frá þessum svæðum koma. Í íbúðinni sem við eigum á Íslandi voru svakalegar framkvæmdir í kjallaranum í marga mánuði og ég bölvaði alltaf vinnumönnunum (sem voru pólskir eða þar um kring, því þetta var jú 2007) því það var svo svakaleg svitalykt af þeim. Það kom ekki í ljós fyrr en að vinnumennirnir voru farnir og svitalyktin var að drepa okkur að þetta var ekkert svitalykt. Þetta var risahvönn sem var að kæfa allt og alla með óþverra-svita-kattahlandsfýlu. Svo kannski ilmuðu vinnumennirnir eins og blóm án þess að ég vissi nokkurn tímann af því. Þeir reyndar reyktu allir sem einn svo það er ólíklegt að þeir hafi ilmað vel.

Ég er búin að rölta aðeins um nánasta umhverfi. Allir sem einn tala við mig ungversku. Í öllum búðum, í lyftunni, úti á götu, (ég missti hatt Afkvæmisins úr höndunum og einhver maður kom hlaupandi á eftir mér og þuldi upp eitthvað á ungversku). Í gær var ég á gangi og það komu tvær konur blaðskellandi. Önnur þeirra stóð til hliðar svo ég sá hana ekki vel og hin stóð fyrir framan mig og þuldi mikla romsu upp. Svo brosti hún og beið eftir svari...sem kom auðvitað ekki því ég brosti bara og sagðist ekki skilja neitt. Hún horfði á hina og gerði svona „skera á háls“ merki og ég hélt að nú fengi ég það óþvegið. Ég tók þá eftir myndbandsupptökuvélinni sem hin hélt á. Hún ætlaði ekki að skera mig á háls heldur var hún að biðla til hinnar um að stoppa upptökuna. Konan sagði eitthvað meira, hló svo og labbaði í burtu með myndbandsupptökukonuna í eftirdragi. Ég missti þarna líklega af mínum 15 mínútum í ungverskri frægð.

Búðarferðir eru svolítið ævintýri í landi sem maður þekkir ekkert. Ég fór í litla kjörbúð í gær og reyndi að giska á innihald þess sem ég setti í körfuna. Þetta er mun erfiðara en t.d. í Kenya þar sem allt er á ensku og Swahili sem ég skil þó krafl í. Ég get alveg viðurkennt að það að vera grænmetisæta í landi pylsanna og kjötfarsins er áskorun. Sem betur fer eru áskoranir skemmtilegar. Það eina sem ég veit hvað þýðir á ungversku er sykur og kjöt. Sumir læra strax hvernig maður pantar bjór í því landi sem þeir eru ferðamenn í, ég læri hvernig maður á að forðast sykur og kjöt. Áherslurnar eru greinilega mismunandi he he. Ég raðaði í körfuna nauðsynjum eins og mjólk, avocado, gulrótum, vatni, rúsínur úr lífrænni ræktun o.fl. Heilsuhillan samanstóð reyndar bara af 3 vörum; rúsínum, glúteinlausu pasta og tyggjói. Þetta var pínulítil búð og öryggisvörðurinn elti mig nánast á röndum sem mér fannst hrikalega óþægilegt því ég er ekki týpan til að stela úr búð...og ykkur myndi ekki gruna það heldur, lítil, ljóshærð, með sítt hár og brún, saklaus augu. Mér finnst allir karlmenn í Búdapest geta verið skúrkar úr James Bond mynd og hefði haldið að þeir væru grunsamlegri en ég (ég veit að þetta eru fordómar). Það var nóg af James Bond-skúrkalegum karlmönnum í búðinni en öryggisvörðurinn var ekkert að pæla í þeim. Ég tók reyndar eftir því miðja vegu að hann var svona upptekin af því að skemmta litla dýrinu og ég hefði líklega getað hreinsað allt úr búðinni.

Á kassanum tók við vörunum kona sem var allt sem ég hefði búist við af eldri, ungverskri konu, með snúð í hárinu, brún í framan af sólinni, með krummafætur í kringum ljós-brúngræn augun sem voru með dökkri umgjörð (Ungverjar hafa afar fallegan augnlit margir hverjir), svolítið brúnar tennur vegna reykinga en brosandi. Nema ég hefði ekki búist við að sjá hana drekka kaffi svona á meðan hún var að afgreiða. Hún talaði ungversku við mig allan tímann (líklega um daginn og veginn). Ég brosti bara. Þegar kom að því að setja vörurnar í poka vandaðist málið því það voru engir pokar. Það var löng röð fyrir aftan mig og ég klóraði mér í hausnum. Vörurnar voru á víð og dreif um færibandið og allir að bíða. Ég vissi sem sagt ekki að ég þyrfti að setja vörurnar ofan í körfuna aftur, fara með körfuna á innpökkunarborð og setja vörurnar þar í eigin poka. Ég flýtti mér sem mest ég mátti og sneri bara kerrunni við á meðan svo röðin gæti skemmt sér við að horfa á Afkvæmið. Sem röðin gerði...öll sem ein, með öryggisverðinum í fararbroddi. Það vantaði bara tónlist undir og að allir væru samtaka í dansi.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Kaffipöntunin

Ég fór á Starbucks um daginn. Ekki í frásögur færandi, fer þangað oft því það eru jú nokkrir hér í hverfinu. Venjulega er pöntunin mín: “Tall, decaf soja latte, with sugarfree vanilla please“. Pöntunin myndi útleggjast á íslensku nokkurn veginn svona: “einfaldur, koffeinlaus, soja latte, með sykurlausri vanillu“. Jóhannes svitnar úr skömm í hvert skipti sem hann pantar fyrir mig kaffi á Íslandi því hann er jú kaffidómari og að þurfa að panta KOFFEINLAUSAN OOOOOGGGGGG EINFALDAN (það þýðir þunnur, koffeinlaus!!!!!), latte með SOJAmjólk er fyrir neðan hans kaffivirðingu…svona eins og það er fyrir bílasala eðalvagna að keyra um á ryðguðum Trabant. Ok ég viðurkenni að drykkurinn er meiri mjólkurdrykkur en kaffidrykkur. Ég hætti nefnilega að geta drukkið koffein fyrir einhverjum árum síðan...Ég skildi aldrei hvers vegna ég þurfti að hlaupa eins og blettatígur um hálfa Kringluna eftir kaffibollann minn sem þá var venjulegur latte og það tvöfaldur í þokkabót. Ég skildi heldur ekki hvers vegna hjartslátturinn var svona ör, ég átti erfitt með að sofna og var alltaf að hrynja í blóðsykrinum. Það tók nokkur ár að leggja saman tvo og tvo. Ég myndi drekka koffein ef ég gæti það en það er bara ekki fræðilegur séns.

En hvað um það. Ég var MJÖG annars hugar þennan dag…með hugann við vinnuna því ég var að skila af mér verkefni, og  við væntanlega gesti sem voru á leiðinni frá Íslandi. Einnig var ég með hugann við litla afkvæmið sem var á góðri leið með að naga sig í gegnum oststykki, í plastinu (hún fær alltaf að halda á einhverju á leiðinni heim úr búðinni og osturinn fékk að finna fyrir þessum tveimur tanntítlum sem hún er með). Ég gekk að afgreiðsluborðinu….var að lesa sms í leiðinni og sagði við stúlkuna: Góðan dag…..ég ætla að fá glúteinlausan, sojalatte með sykurlausri vanillu og hafa hann einfaldan, takk. Stúlkan starði á mig….öööö við erum ekki með glúteinlaust kaffi?.....Ég var auðvitað mjög hissa….jú víst? öööööö nei…. Hmmmm ok það er sem sagt búið hjá ykkur (og í léttum pirruð-en vil samt vera kammó og ekki leiðinleg-tón….. VÁ Það hefur aldrei komið fyrir áður!)….ööööööö það hefur aldrei verið til? Ha…aldrei? Og á sama augnabliki rak ég augun í ‘DECAF’ á flókna kaffimatseðli Starbucks (sem er eins og upplýsingaskilti fyrir lestarstöð og ekki fyrir fólk með valkvíða) fyrir ofan afgreiðsluborðið. Ég meinti Decaf auðvitað…. og stúlkan glotti.

Mér til varnar var ég (um leið og ég bjargaði ostinum) að hugsa um kaffið mitt sem ég drekk á hverjum degi. Sem er eiginlega ekki kaffi (ég má eiginlega ekki kalla þennan heita, brúna drykk, kaffi). Drykkurinn er eins og ég hef áður sagt frá, búinn til úr fíkjum, hveiti, byggi og einhverju fleira (Bambu kaffi)….og inniheldur því glútein. Bróðir minn kallar drykkinn sokkasafa því honum finnst hann svo ógó. Hann segir að drykkurinn sé búinn til úr safa af sveittum fótum sem hafa verið í sokkunum of lengi og eru orðnir blautir. Svo eru sokkarnir undnir, safinn er þurrkaður og settur í krukkur og kallaður Bambu. Mér finnst drykkurinn aftur á móti mjög góður því ég þoli nánast ekkert koffein (fjórir sopar í hádeginu geta haldið mér vakandi að kvöldi). En þið sjáið að ég var ekki alveg snargalin þegar ég var að biðja um glúteinlaust kaffi..bara utan við mig.

P.s. þetta var fyrsta bloggið á nýju tölvuna mína húrra!!!!!!!!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ég þarf ekki lengur...

  • ...að krossa fingur og vona að tölvan fari í gang á morgnana (hver dagur er óvæntur sigur..kveikir hún á sér, kveikir hún ekki á sér?)
  • … að vera pirruð yfir því að geta ekki horft á video (hún getur bara alls ekki sýnt þau)
  • … að naga neglurnar ef ég óvart kveiki á videoi (því það þýðir endurræsing og þá er aftur að krossa fingurna og vona að hún fari í gang)
  • … að ákveða að morgni hvort ég ætla nota vafra EÐA opna Powerpoint (ekki hægt að opna bæði forritin í einu)
  • … að bíða í a.m.k. 3 mínútur frá því ég opna vafra þangað til hann birtist (er svo lengi)
  • … að vera leið yfir því að geta ekki unnið ljósmyndir úr nýju myndavélinni (höndlar þær ekki)
  • … að reyna að finna takkana sem dottnir eru af eða reyna að festa þá sem eru lausir (sem betur fer kann ég fingrasetningu því annars væri ég illa stödd)
  • … að hafa áhyggjur af því að horfa allt í einu á svartan skjá (því ég vogaði mér að opna Facebook)
  • … að ákveða a.m.k. 30 mínútum áður en ég hætti í tölvunni hvenær ég ætla að slökkva á henni (því það tekur svo langan tíma)
  • … að vera viss um að það sé þyrla að lenda fyrir utan gluggann (vegna hávaðans í henni)
  • … að reyna að fela tölvuna ef koma gestir (því ég skammast mín of mikið fyrir hana)
  • … að taka æðiskast þegar ég er að vinna og er að skila af mér verkefnum og á síðasta snúningi (ég get orðið galin)
  • … að taka afrit af vinnu gögnum hverjar 5 mínútur (því harði diskurinn hlýtur að vera að hrynja)
  • … að vera viss um að ef innbrotsþjófar ætluðu að grípa tölvuna að þeir myndu lyppast niður úr hlátri (og skil það mjög vel)
…því ég er komin með nýja tölvu!
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Póstkóði óþekktur

Það var útigangsmaður á tröppunum við næsta inngang í morgun þegar ég fór út. Hann var að dýfa tepoka ofan í pappamál. Útigangsmenn þurfa líka te. Ég bauð honum góðan daginn svona til öryggis. Jóhannes labbaði frekar seint um kvöld hérna á milli húsa í fyrradag og tvær stúlkur í pilsum og háhæluðum skóm stóðu við vegg. Önnur þeirra sveiflaði síða, slétta hárinu þegar Jóhannes gekk fram hjá, hin blikkaði löngum augnhárunum og hló….en ekki kvenmanshlátri. Ó já það er litríkt umhverfið sem við búum í núna!

Ég hef einu sinni síðan ég byrjaði að halda heimili sjálf, átt hvergi heima. Þá er ég ekki að meina að ég hafi verið heimilislaus (sem er nú töluvert alvarlegra mál). Það sem ég meina er, að við vorum að flytja af einum stað á annan og vorum ekki komin með húsnæði í millitíðinni. Árið 2001, þegar við fluttum í fyrsta skipti til London vorum við ekki búin að finna íbúð þegar við komum út. Það hófst á endanum en á meðan við vorum að leita gistum við á hinum ýmsustu stöðum. Við vorum á gistiheimili, við vorum í viku hjá bróður mínum í Suður-Englandi, og svo fórum við til systur Jóhannesar í Danmörku í nokkra daga. Það var þá sem við vorum án póstkóða. Mér finnst óþægilegt að eiga engan póstkóða. Ég vorkenni alltaf missyndismönnum sem ég les um í blöðunum sem eru “of no fixed abode“ (án heimilisfangs) sem þýðir að þeir eru heimilislausir. Það er auðvitað verst af öllu…að eiga ekki þak yfir höfuðið.

Við erum búin að vera í skammtímakompu síðan við fluttum hingað 1. maí. Næstum því í mánuð. Ég hef áður lýst því yfir að stærð húsnæðis skipti ekki máli svo lengi sem að íbúar séu hraustir og heilir heilsu. Stærð skiptir þannig séð litlu máli, sérstaklega í skamman tíma. Ég held auðvitað fast í þá skoðun EN ég væri til í stærra eldhús. Eldhúsið er nefnilega minna en baðherbergið (sem er afar lítið). Reglulega fer ég í matvöruverslunina og sé alltaf eitthvað girnilegt, t.d. tilboð á kílói af jarðarberjum….og langar þá að gera jarðarberjaís, eða poka af granateplum…. og mig langar að gera salat með granateplasteinum í. Oft þarf ég að bíta í vörina og muna að eldhúsið er skókassi. Allt þetta girnilega grænmeti og girnilegu ávextir er svo sem ekki á leið burtu en t.d. um daginn var tilboð á aspars og mig langaði svo mikið að gera asparsrétt og nú er aspars ekki lengur in season svo ég missi af honum þetta árið.

Síðustu daga hefur verið hrikalegur hiti (30 stig) og af því ekki er hægt að opna nema einn glugga í íbúðinni hefur hún verið bæði gufubað/íbúð/vinnustaður. Mæli ekki með þessari blöndu. Reyndar var aumingja Jóhannes rekinn heim úr vinnunni í Disney í gær því hitinn var óbærilegur (loftkælingin var biluð). Það tók ekki betra við þegar hann kom heim. Ég er voðalega fegin að það er farið að kólna aftur. Aumingja afkvæmið hefur örugglega haldið að hún væri komin til Afríku…..Ekki síst vegna þess að hér í næsta nágrenni er Stephanie (sem rekur hótelin þar sem við gistum síðast þegar við vorum úti í Kenya…Stephanie er sú sem er í samstarfi við Borgar bróður og Elínu og stjórnar öllu með harðri hendi þarna um slóðir. Hún er kölluð vélbyssukjafturinn og þegar hún gengur um svæðið hleypur fólk undan henni eins og vatn af nýbónuðum bíl. Hún afskaplega indæl þó svona þegar maður kynnist henni og er bara ein af þeim sem tekur engu rugli....Alltaf svo gott að þekkja svoleiðis fólk. Það er SVO, SVO skrítið að sjá þetta kunnuglega andlit á allt öðrum stað en við erum vön (hún með flagsandi hárið í hafgolunni, í stuttum kjól og sandölum að gefa skipanir eins og þokulúður)….svona eins og að það yrði að sjá Mónu Lísu málverkið hangandi í Kringlunni). Það er auðvitað reglulega gaman að sjá kunnugleg andlit og von er á fleiri kunnuglegum andlitum því tengdó og mágkona eru á leið hingað líka í stutta heimsókn.

En aftur að íbúðum. Við erum búin að tryggja okkur húsnæði til lengri tíma og við fáum það 13. júlí. Við verðum í þessari kytru til 7. júní en þá höldum við í tæpar 3 vikur til Búdapest. Við þurfum svo að finna okkur eitthvað til skamms tíma þangað til 13. júlí. Íbúðin er ekki í Marylebone (dammmm mig langaði svo að vera svoleiðis) heldur í Fitzrovia, okkar hverfi þar sem okkur leið svo vel. Það er er stutt í allt…samgöngur eins og lestar og strætó, stutt í búðir (rétt hjá Oxford Circus og Regent Street), stutt til læknis, stutt í skóla, stutt á bændamarkaðinn á sunnudögum….og staðurinn er í rólegri götu.

Já, Búdapest…..Disney er að senda Jóhannes og yfirmaður hans sagði að það væri upplagt að við mæðgur færum með (Jóhannes fær íbúð og svoleiðis)….ég sagði auðvitað já takk því vinnu minni get ég sinnt hvar sem er svo lengi sem ég hef tölvu og nettenginu. Ég hef aldrei komið til Ungverjalands en Jóhannes hefur farið nokkrum sinnum fyrir Disney. Ég lýsi hér með eftir upplýsingum um eitthvað áhugavert að skoða sem og grænmetisstaði o.fl. ef einhverjir eru (í Pest hlutanum). Geri mér samt litlar vonir, mér skilst að Ungverjar séu afar hrifnir af kjötmeti, pylsum o.fl. Kemur í ljós…..ég get alltaf soðið mér pasta í versta falli.

En á meðan þessari dvöl okkar stendur munum við sem sagt ekki eiga heima neins staðar nema á þessu hóteli. Það er alltaf jafn skrítin tilfinning að geta ekki tilgreint póstkóða eða heimilisfang (svona til lengri tíma en 3ja vikna). Mér hefur samt einu sinni á ævinni liðið skrítnara í þessu tilliti og það var á landamærum Uganda og Rwanda. Á landamærunum er nefnilega svokallað einskis-mannsland þ.e. það tilheyrir hvorki Rwanda né Uganda. Ég hugsaði, þegar ég gekk þessa 100 metra eða hvað þessi litli bútur er langur, að ég væri eiginlega hvergi, hvorki í Rwanda né Uganda. Ef einhver hefði hringt í mig og spurt mig hvar ég væri, hefði ég hvorki getað sagt Rwanda né Uganda. Mér finnst það alltaf svo skrítið og ég hugsa oft um það. Það er svolítið eins og að vera í svona bát með hjólum…ef maður væri að keyra upp úr sjó og væri hálfur í fjöruborðinu og hálfur í sjó og ef einhver myndi hringja í mann og spyrja hvar maður væri staddur…..myndi maður segja í sjó eða á landi, í bíl eða á báti?

Ég hlakka mikið til að fá almennilegt eldhús loksins og geta farið að bralla eitthvað í eldhúsinu……það eru SVO margar uppskriftir sem bíða mín. Þangað til þarf ég bara að slefa og kaupa nestisbox (ok ekki einu sinni ég sé samhengið þar á milli en ég get samt alltaf keypt nestisbox. Keypti einmitt þessi nestisbox um daginn og ég hef ekki enn þá tímt að taka þau úr pakkningunum því þau eru svo falleg bara eins og þau eru):  En ég hef líka verið að slefa yfir uppskriftasíðunni hjá Lísu vinkonu minni…ég er viss um að þið getið slefað svolítið líka…er t.d. búin að ákveða að gera lasagna réttinn hennar sem fyrst…hann lítur bara of vel út!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Marylebone fólkið

Fitzrovia í London er okkar hverfi. Það er álíka miðsvæðis og t.d. Þingholtin í Reykjavík. Gott hverfi og er mitt á milli Bloomsbury og Marylebone sem eru bæði voðalega fín hverfi. Fitzrovia er svolítið gleymt svæði þ.e. af því að fyrrnefndu hverfi eru svo rosalega flott (Madonna og fleiri eiga t.d. hús í Marylebone) að hverfið gleymist. Það er mjög nálægt West End (leikhúshverfinu) og maður er 10 mínútur að labba í næsta leikhús. Okkur hefur allavega alltaf liðið vel í Fitzrovia. Það er samt dýrðlega fyndið hvað allt breytist þegar maður gengur í u.þ.b. 15 mínútur í suðurátt…þ.e. í átt að Marylebone. Þar gengur maður m.a. þvert á Harley Street sem er aðalstaðurinn fyrir andlitslyftingar og fleira. Við sáum ótal fínar konur með plástra á nefinu og í kringum augun á leið okkar í matvörubúðina (sem er einmitt í Marylebone). Bílarnir voru líka fljótir að breytast úr t.d. Mazda yfir í Bentley, Rolls Royce, BMW, Mercedes Benz, Ferrari, Lambourghini o.fl, o.fl. Meira að segja hef ég sé Bugatti.

Það sem okkur fannst þó alltaf lang fyndnast var fólkið sem gengur (þrammar ekki) Marylebone. Þar eru alls kyns búðir fyrir svona heldur efnameira fólk. Til dæmis er þar White Company sem er eins og gullhúðuð og demantsskreytt IKEA. Þar inni er allt hvítt, ljósblátt, ljósbleikt, ljósbrúnt, úr cashmere, hör og 100% egypskri bómull með alvöru þráðum (thread count). Þvottapoki getur alveg kostað 3000 krónur. Þetta er ein af uppáhaldsbúðunum mínum og ég tími samt ekki að kaupa neitt í henni. Reglulega fer ég þangað inn til að þefa af kertunum sem kosta 5000 krónur og snerta rúmteppin sem kosta hátt í hundrað þúsund á núverandi gengi. Búðin er dýrðleg. Í búðinni eru aldrei konur/foreldrar með organdi börn í eftirdragi, í flíspeysum og með hor. Nei þar inni eru bara konur í mokkasíum og ljósbrúnum bómullarbuxum, með bleikar cashmere peysur á öxlunum, sem ekki eru snjáðar eða þæfðar. Konurnar eru ljóshærðar með rennislétt hár, ljósbrúnan hörundslit eftir síðasta skíðafríið/siglinguna/sólarströndina og neglurnar eru með franskri áferð. Þetta er svona fólk sem fer á skútur og kann að sigla (meðfæddir hæfileikar) en fær aldrei úfið hár. Karlarnir eru líka í mokkasíum, í dökkbláum buxum og bláröndóttum skyrtum, með dökkbláar cashmere peysur á öxlunum, sem ekki eru snjáðar eða þæfðar. Þeir eru allir með dökkt hár og krullur, sem liðast aðeins yfir ennið. Fólkið hlær í lágum tónum (því það er svo siðmenntað). Það hefur alltaf nógan tíma (því barnapíurnar eru heima með börnin) og það talar um að fara í lönsj einhvers staðar í hádeginu. Það kyssir líka út í loftið þegar það heilsast. Fólkið er aldrei með gubbubletti á fötum eða aðra bletti og aldrei skrámur eða brotnar neglur. Ef börnin eru með (sem er sjaldan) má gjarnan finna fjölskyldurnar á Starbucks Marylebone, líklega eina Starbucks með salerni þar sem ekki er gert ráð fyrir eiturlyfjafíklum (alvöru speglar, ekki járnplata og ekkert blátt ljós). Þar er heldur aldrei pissulykt því Marylebonekarlarnir pissa aldrei út fyrir. Marylebonebörn eru alltaf með spékoppa og krullur; drengirnir með dökkar krullur og stúlkurnar með ljósar krullur. Stúlkurnar eru alltaf í hvítum bómullarkjólum og þeir eru alltaf drifhvítir. Það er alltaf sól þegar Marylebonefólkið er úti við og öll börnin eru vel upp alin og þau hlægja lágt. Þau rífast ekki, þau segja Please og Thank you og Pardon og þau sparka ekki í hvort annað, né foreldra sína sem eru ávallt niðursokkin í helgarblöðin (fjármála- og fasteignahlutann).

Mig dauðlangar að búa í Marylebone en þær íbúðir sem við höfum skoðað í Marylebone eru á verði sem myndi þýða að við værum starfandi á gangstéttum borgarinnar…..ekki alveg að gera sig. Ég held samt að ég yrði aldrei gjaldgeng hvort sem er. Ég brýt hluti, ég er alltaf með trilljón bletti á fötunum, er oft tætingsleg um hárið, er oft með brotnar neglur, örugglega með grenjandi, horugt smábarn í eftirdragi þegar þar að kemur (reyndar grenjar sjaldan en alltaf með hor), er stundum í flíspeysu (ekki oft samt og hún er ekki svo ljót), alltaf í snjáðum fötum og snjáðum skóm, missi mat niður á mig….o.fl. Það eina sem ég hef sem passar undir Marylebone staðlana er að ég er hljóðlát og tala í lágum rómi yfirleitt. En ekki af því að ég er siðmenntuð heldur af því að ég er óttaleg mús.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Mary Poppins róninn

Það er alveg hreint magnað hvað maður getur haft mikla fordóma gagnvart öðrum. Samt tel ég mig ekki fordómafulla manneskju.  Fyrir nokkrum dögum síðan var ég úti á gangi með litla Skrípið. Hún var í lítilli kerru. Það var þungt yfir og dropar voru farnir að detta úr lofti. Ég var á leið heim og gekk rösklega með fram stórri umferðargötu (sem húsið stendur við). Á móti mér gekk maður með innkaupapoka. Það var bundið fyrir pokann og hann hélt í hnútinn og mér sýndist hann ganga hægt og aðeins riða. Karlinn var með regnhlíf og var svolítið fram yfir síðasta söludag. Þegar ég bruna fram hjá honum, benti hann á mig og sagði "Heyrðu....þú þarft regnhlíf svo að hann verði nú ekki votur greyið" (ok það er önnur saga...Afkvæmið er EKKI strákur...hvað er eiginlega að Bretum? (og reyndar Kenyabúum líka)). „Þetta er allt í lagi“ sagði ég..."ég bý hérna í húsinu" og benti upp. "Hmmm ertu nú viss....það er alveg að koma hellidemba". "Já já" sagði ég. "Viltu ekki fá regnhlífina mína, þú mátt fá hana....ég get orðið mér út um nýja?". "Nei nei það er nú óþarfi" sagði ég og sneri mér við til að draga kerruna upp. Karlinn kemur tindilfættur og lyftir undir kerruna. "Þakka þér fyrir" sagði ég. Karlinn brosti og veifaði framan í Afkvæmið. "Ég á því miður ekkert smálegt til að gefa þér" sagði ég. "Ha?" sagði karlinn og starði á mig . "Ég á engan smápening, því miður en ef þú býður get ég náð í einhverjar krónur sem ég á uppi". Maðurinn var steinhissa á svipinn og þegar ég fór að horfa aðeins betur sá ég að karlinn var enginn róni. Hann var í svo til óslitnum skóm, í flauelisbuxum (ekki einn einasti róni er í flauelisbuxum), með tandurhreinar neglur (rónar eru alltaf með sorgarrendur), pokinn (sem ég hélt að innihéldi hans veraldlegu verðmæti) var ruslapoki sem hann var með á leið í ruslatunnuna (3 skrefum frá okkur) og regnhlífin hans var nýleg og karlinn notaði hana fyrir göngustaf því hann var aðeins farinn að tina. Karlinn var bara að vera sætur í sér og hjálplegur.....en ég afskrifaði hann áður, á um 3 sekúndum og var búin að dæma hann sem gamla fyllibyttu. Lexía dagsins var: Stundum borgar sig að pússa aðeins "fordómagleraugun".
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Við teipum þetta bara

[caption id="attachment_1577" align="aligncenter" width="300" caption="Teipbuxur"]Teipbuxur[/caption]

Það væri synd að segja að vandvirknin væri að drepa Breta. Að minnsta kosti þegar kemur að skammtímaleiguhúsnæði. Við erum í ágætis húsnæði reyndar, svo sem ekki mikið hægt að kvarta yfir því, er á 4ðu hæð með minnstu lyftu í heimi (það komast bara 2 fyrir í henni í einu). Það er líka frekar kalt í íbúðini miðað við að hún er svona ofarlega og það er t.d. gat og kaldur blástur undir gluggasyllunni í herberginu og enginn að pæla í því að loka gatinu þó það kosti lifur og lungu að kynda húsin. Gluggatjöldin ná heldur ekki niður og orkueyðslan því mikil þar. Hlutir sem maður myndi augljóslega laga ef maður byggi lengur en í mánuð á staðnum en er alveg sama um ef allir reikningar eru innifaldir. Íbúðin er snyrtileg og hrein, nema hvað í íbúðinni er allt sem hefði þurft að laga almennilega, teipað (límt). Gólflistarnir eru teipaðir niður með glæru teipi. Hluti af gereftum er teipaður fastur. Einn stóllinn er teipaður saman. Skaft á hníf hefur fengið sömu meðferð. Það glittir í teip á sturtuhenginu. Harmonikkuhurðin inn í eldhús er teipuð aftur. Í dag kom viðgerðarmaður vegna þvottavélarinnar sem lak. Hann dró fram teipið „við teipum þetta bara“. Hann hefur greinilega séð efasemdarsvipinn á mér því hann sagði „engar áhyggjur, þetta er extra sterkt teip, hannað fyrir vatn“. Ég glotti. Mér er alveg sama þó þvottavélin leki, bara ef hún dugar þennan mánuð. Ég er bara glöð að ég þurfti ekki að kalla til lækni í neyð...hann hefði líklega mætt með UHU....eða glært teip.

Eins og áður sagði erum við á afar góðum stað, svona miðað við uppáhalds, uppáhalds heilsubúðina mína. Mér fannst heldur ekki leiðinlegt að fara inn í matvöruverslunina hérna í hverfinu því inn í henni er Starbucks {Hrund....þú finnur ekki svoleiðis í Bónus þarna fyrir austan ;] Ég rölti því með innkaupin heim (meðal annars kíló af lífrænt ræktuðum gulrótum á 99p eða um 200 krónur á núverandi gengi) og drekk latte í leiðinni. Það finnst mér allt í lagi. Ég get ekki sagt að ég sakni þess að versla í matinn heima, í Bónus, Krónunni eða hvað þessar búðir heita allar. Það var fátt sem ég hataði meira og af jafn mikilli dýpt og búðarferðirnar. Ég nánast táraðist í hvert skipti sem ég eyddi peningunum mínum. Ég áttaði mig líka á því þegar ég skoðaði Delicious í dag (eitt af uppáhalds matarblöðunum mínum), að tilboðin sem eru í gangi, eiga núna við mig. Ég fékk póst áðan frá Japan Centre (ein af uppáhalds búðunum mínum í London) að tilboðið á sushi hráefni, gæti ég nýtt mér. Ég get farið að skoða alla spennandi veitingastaðina, allt spennandi hráefnið, allar nýju matarbúðirnar. Ég bý nefnilega á staðnum og þarf ekki lengur að láta mig dreyma. Það er eins og ég hafi farið í leiser aðgerð á augunum og sjái loksins skýrt aftur. Þokan fyrir augunum er farin. Þó að allt sé teipað saman í Bretlandi klikka gæði á hráefni og matvöruverslunum ekki.

En núna er ég grasekkja. Fyrsta daginn hans Jóhannesar í vinnunni var hann sendur til Budapest. Þetta verður langur fyrsti dagur í vinnunni því hann verður fram á föstudag. Við mæðgurnar erum því einar heima en það er allt í lagi því ég hef Starbucks, uppáhalds heilsubúðina mína, uppáhalds matarblaðið mitt og fullt af lífrænt ræktuðu grænmeti og ávöxtum til að japla á. Ég ætla ekki að fara í heilsubúðina á morgun því starfsfólkið er farið að kannast við mig. Einn kinkaði kolli til mín í gær. Sem mér fannst fyndið því þetta er jú stærsta heilsubúð Evrópu. Það sama er upp á teningnum með Jóhannes þegar við förum í útivistarbúðir hér í London.

Við erum óðum að koma okkur fyrir þó við séum í skammtímahúsnæði. Búin að eignast mína fyrstu matreiðslubók (húrra!!!!). Moroccan and the Foods of North Africa. Hún var gjöf frá Jóhannesi svo hún telst ekki með...ekkert frekar en nestisboxin sem ég keypti um daginn sem eru svo venjuleg að þau teljast ekki með í nestisboxainnkaupum.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Í Bretaveldi....í öllu sínu veldi

Í gær fórum við í uppáhalds, uppáhalds heilsubúðina mína í öllum heiminum (í 1. sæti og heilsubúðin í Nairobi er í 2. sæti) og fylltum matarkörfuna af lífrænt framleiddu/ræktuðu hráefni (ávextir, grænmeti, snarl, alls kyns dótið fyrir litla Skrípið) og það kostaði hvorki lifur né lungu. Þegar heim var komið, var hráefnið ekki skemmt að innan. Það var jafn fallegt að innan og það var að utan. Eplin voru sæt og safarík og það brakaði í því þegar ég beit bita. Skærappelsínugulu gulræturnar voru enn þá með skærgrænu laufunum á og voru seld í búntum. Þær voru einstaklega safaríkar og góðar. Avocadoið var eins og þykkur rjómi, skærgrænt í miðju sem fór út í dökkgrænt og það var þétt en mjúkt. Ég er nefnilega orðin skilyrt fyrir því að allt svona lífrænt ræktað grænmeti (og ávextir) sé skemmt að innan. Miðað við innkaup síðustu mánuði á Íslandi. Það var líka 20 stiga hiti og sól í gær. Það skemmdi ekki fyrir og gerði okkur létt í spori. Við keyptum líka fína kerru fyrir afkvæmið á Ebay, á mjög góðum prís. Þetta var sem sagt fyrsti dagurinn okkar í London. Ég hef á tilfinningunni að þetta verði bara fínt. Við erum í skammtímahúsnæði (eldhúsið er reyndar minna en baðhergið okkar á Íslandi) en þröngt mega jú sáttir elda.

Ég áttaði mig líka á því að ég þarf að birgja mig upp af nestisboxum og matreiðslubókum (sem ég "gleymdi" að taka með mér frá Íslandi)..... hmmmm en ótrúlega svekkjandi að "þurfa" þess.

Það er alltaf svolítið sjokk að flytja, hvert sem maður flytur. Þó maður sé búinn að hlakka til endalaust....í mörg ár í rauninni. Það er aðallega af því það er breyting. Breyting frá því að skærin voru í skúffunni til vinstri en ekki í stofunni og eldhúsrúllan var við vaskinn en ekki uppi á skáp. Litlir hlutir. En líka stórir hlutir eins og vinir og vandamenn. Maður þarf þess í stað að reiða sig á að allar heimsóknir séu gæðaheimsóknir. Það er líka munur á fermetrum að sjálfsögðu en eins og ég hef svo oft sagt skiptir það okkur ekki máli hvort að við erum í litlu rými, svo lengi sem okkur líður vel á annan hátt. Svo er bara að sjá í hvernig íbúð við endum. Við förum að hefja leitina miklu.

En allavega.........hér er draumeldhúsið....og er líklega stærra en það sem við erum með núna he he.

Eldhús
Myndin er af vef Tesco.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It