Baunaspírur

Það þarf voðalega lítið til að gleðja mig. Ég verð til dæmis ótrúlega glöð þegar ég finn 1 pund úti á götu. Ég verð himinlifandi við að drekka góðan latte. Ég verð líka himinlifandi við það að vera í hlýjum sokkum þegar er kalt úti. Ég verð alveg tryllt úr gleði við að eignast matreiðslubók. Ég verð alveg asnalega glöð við að eignast matreiðslubók (af því ég á ekki fleiri hundruð sko......). Það getur reyndar margt smátt pirrað mig (svona eins og þegar fólk segir Stansteððððð en ekki Stansted) og þegar fólk ryðst fram fyrir mig í röðum eða rekst í mig og segir ekki afsakið (lesist Íslendingar því Bretar segja afsakið ef ÞÚ rekst í þá).

Mynd af baunum og baunaspírum Ég er alveg óskaplega glöð þessa dagana. Ég nefnilega var að gera tilraunir með baunaspírur. Mig hefur langað svoooo lengi að prófa en hélt alltaf að þetta væri svo mikið mál. Vitið þið hvað ég þurfti til að spíra þessar baunir? Krukku, vatn og baunirnar. That's it. Ég spíraði Mung baunir (þessar grænu) og Aduki (Adzuki) baunir, sem eru brúnrauðar að lit. Á myndinni hér til hliðar sjást upprunalegu baunirnar og svo spíraðar. Athugið samt að þessar grænu voru ekki alveg tilbúnar. Þessar baunir fást í öllum heilsubúðum og fyrir 1 bolla af baunum fær maður fjórfalt magn af baunaspírum og því sérlega hagkvæmt. Það sem þarf að gera er að leggja baunirnar í bleyti í stóra krukku í um 8-12 tíma (fer eftir hvaða baunategund maður er að nota), hella vatninu af og skola baunirnar nokkrum sinnum á dag í svona 3-5 daga. Ótrúlega einfalt.

Vandamálið núna er að ég er svo ótrúlega stolt af baunaspírunum mínum. Þær eru eins og fallegt listaverk. Fyrir utan það þá er ég búin að fylgjast með þeim vaxa, vökva þær, tala við þær og hugsa um þær og núna tími ég ekki að borða þær :(

Já svo var enn eitt viðtalið vegna Cafe Sigrun í blöðunum í dag, í þetta skipti í Blaðinu. Það er bara gaman. Verð alltaf jafn hissa þegar einhver hefur áhuga á vefnum mínum og minni sérvisku. Held að viðtalið hafi komið allt í lagi út, reyndi að niðurhala Blaðinu í dag en skjalið var eitthvað skemmt.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It