Önnur drottning á Wembley og nostalgíuheimsókn

Jæja ekki alveg og hann yrði eflaust brjálaður ef hann læsi þetta he he. Við erum sem sagt að fara á tónleika með George Michael á Wembley 11. desember. Það verður gaman. Það eru 15 ár síðan hann hélt tónleika hér í Bretlandi og við nældum okkur í miða í dag. Hlakka alveg vooooooooðalega mikið til.

Helgin var róleg hjá okkur og ekki næstum því eins kalt hér eins og á Íslandi. Hér er búið að vera sól og 10 stiga hiti, upplagður hiti til að fara út og gera eitthvað skemmtilegt og draga mann frá tölvunni. Við fórum í smá nostalgíuheimsókn upp í Harrow í gær þar sem við bjuggum 2001-2004 meðan við vorum í mastersnámi. Það var fínn staður en allt, allt öðruvísi en London auðvitað. Í South Harrow búa um 300 þúsund manns, aðallega Indverjar (enda fær maður langbesta indverska matinn þarna) og hvítir einstaklingar í algerum minnihluta (nema maður fari um 500 metra upp á hæðina þar sem glæsivillurnar eru og einkaskólinn Harrow Boy School er til húsa. South Harrow og Harrow bærinn eru nú svolítið sjoppulegir staðir en allt í lagi samt að búa þar, pínu depressing reyndar þar sem tók okkur klukkutíma að komast inn til London. Ég fékk alltaf smá kvíðakast þegar ég skrifaði heimilisfangið okkar þá sem var 'Middlesex' en ekki 'London'. Það var hrikalegt því mér fannst að ég gæti alveg eins búið á hjara veraldar. Við erum svoddan miðbæjarrottur. Staðsetningin var eingöngu valin með tilliti til skólans sem við sóttum. Það sem bætti upp leiðinlega staðsetningu var Waitrose, matvörubúðin sem ég sakna sárlega (bara lítið útibú rétt hjá okkur hérna í London). Þeir sem fara einu sinni í Waitrose verða varla samir í innkaupum á eftir. Þvílík gæði og þvílíkt úrval. Alveg úr takti við margt þarna í South Harrow þar sem eftirlíkingar á skyndibitastöðum og indverskar skartgripabúðir réðu ríkjum.

Árið sem Elva vinkona og Óli maðurinn hennar bjuggu við hliðina á okkur var samt sérlega ánægjulegt og þau voru auðvitað bestu nágrannar í heimi :) Við söknuðum þeirra alveg voðalega þegar þau fluttu heim eftir námið hennar Elvu. Er ekki viss um að Elva sé sama sinnis þar sem að oft þurftu þau að prófa mjög misheppnaðar matreiðslutilraunir, meðal annars pizzu sem var með um 10 cm botni (óvart). Alveg hrikalegt. og Við fórum einmitt í þessa nostalgíuheimsókn með þau í huga, tókum myndir af húsunum sem við bjuggum í, götunni og mörgu fleira. Við erum að spá í að endurtaka leikinn eftir svona 20-30 ár eða svo.

Þetta sæta hús er til sölu á 1,3 milljónir punda! Það er útsýni yfir alla London og víðar úr húsinu.En eins og ég segi, 500 metrum fyrir ofan okkur byrjuðu peningarnir. Þar býr allt ríka fólkið og upp á hæðinni er annar frægasti og dýrasti einkaskóli Bretlands (fyrir drengi). Þangað eru litlir pjakkar sendir af foreldrum sem hafa allt of mikið af peningum (önnin kostar um 3 milljónir) og þeir læra að verða voða fínir herramenn (enda er mottó þeirra "we teach gentlemen"). Eitt sinn þegar við vorum að labba þarna um sáum við tvo Rolls Royce bíla af dýrustu gerð, annar var gylltur, hinn silfurlitaður. Sá gyllti bar númerið A1 og sá silfurlitaði A2. Það voru sem sagt foreldradagar í skólanum þann sunnudaginn. Það er líka ótrúlega fyndið að heyra mun á mállýsku barna eftir því sem maður færir sig ofar í brekkuna. Fínustu enskuna heyrir maður auðvitað uppi á hæðinni.

Hluti skólahúsanna. Það glittir í London á milli bygginginna. Útsýnið er stórfenglegt þó það sjáist ekki almennilega á þessari mynd. Þetta er heimavistarskóli og skólahúsin sjálf eru ævaforn og ógurlega falleg. Það eru efnaðir drengir allt frá Bandaríkjunum til Saudi Arabíu sem skólann sækja. Staðurinn sjálfur, Harrow on the Hill þar sem skólahúsin eru (eitt húsanna, bókasafnið var notað í fyrstu Harry Potter myndinni), er ótrúlega fallegur, húsin algerlega gorgeous, sum í miðaldastíl og besta útsýni af nokkrum stað á 'stór-London' svæðinu er þarna. Skólinn sjálfur hefur gefið af sér 7 af forsætisráðherrum Breta (ekkert slor) og það er alger brandari að sjá nemendur eða kennara skólans á vappi. Kennarar ganga um með harða, ferkantaða hatta og í svörtum skikkjum eins og gáfaðir galdrakarlar. Strákarnir eru auðvitað í jakkafötum og með bindi og þeim ber skylda til að ganga alltaf með stráhatta á höfðinu (já stráhatta).

Harrow on the Hill með gömlu byggingunum sínum, Harrow Boy School, St. Marys Church og kirkjugarðinum. Að okkar mati lang fallegasti staður London. Maður hugsar alltaf 'Harry Potter' við að sjá þessa stráklinga. Þeir verða líka að syngja í kór á laugardögum og taka þátt í hallærislegri krikketþjálfun ásamt því að vera þjálfaðir í einka-herþjálfun. Skólinn hefur líka getið af sér mörg skáld og rithöfunda en sá þekktasti er líklega Lord-Byron (Byron lávarður) en þarna er talið að hann hafi uppgötvað að hann hafi frekar verið skotinn í strákum en stelpum og ljóðin hans frá þessum tíma eiga víst að bera vott um það. Hann sat löngum stundum í kirkjugarðinum og naut útsýnisins. Þar finnst mér voða, voða gott að sitja líka og gerði ég það oft þegar við bjuggum þarna.

St. Marys kirkjan. Hæsti punktur London að því að talið er. Kirkjugarðurinn er svo sérkapituli, sá allra, allra mest spúkí kirkjugarður sem ég hef komið í, með leiði og legsteina allt frá 1700, grafskriftin löngu máð af mörgum þeirra, faldir inn á milli trjánna sem fyrir mörg hundruð árum voru litlar hríslur við hvert leiði. Algerlega magnaður staður. Um hábjartan dag skín sólin varla inn á milli trjánna og alls staðar glittir í leiði á milli trjánna, mjög ógreinileg sum en önnur eins og grafhvelfingar að stærð.

Ef einhver á leið þarna um svæðið þá mæli ég eindregið með heimsókn upp á Harrow on the Hill. Kíkið endilega á nýja kaffihúsið sem var að opna (allt bleikt og blátt þar inni, man ekki nafnið) sem og indverska staðinn Connoisseur, alveg frábær (sem við köllum alltaf 'staðinn hans Óla' enda uppáhalds indverski staðurinn hans og þjónarnir voru farnir að þekkja hann með nafni).

Alveg ofboðslega, hrikalega spúkí kirkjugarður. Alls staðar rekur maður augun í leiði og þó það sjáist illa á myndinni eru 6 legsteinar á þessari mynd. Við hefðum betur átt að fara á hann síðasta laugardag, fórum í staðinn á Guachos sem er ódýr ítalskur staður og pizzabotninn hans Jóhannesar var tilbúinn (þ.e. keyptur í búð) sem hann var nú ekki mjög ánægður með. Ég fékk túnfiskpasta (sem ég prófaði í fyrsta skipti þarna fyrir mörgum árum) en ég veit að ég get gert svipað heima (þó ég segi sjálf frá). Það var samt gaman svona til að loka nostalgíuhringnum. Við tókum svo lestina heim og vorum voða glöð að sjá aftur ys og þys London.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sólveig S. Finnsdottir
20. nóv. 2006

hæ gaman að sjá myndirnar frá þar sem þið áttuð heima einu sinni við fórum með ykkur uppá hæðina. En það sem ég ætlaði að spurja um hvernig getur þu verið á tonleikum 11 desen kemur hingað 10 des. ??Fyrirgefðu ég er svo treg. Kv m.

CafeSigrun.com
20. nóv. 2006

Ég kem 12.

Sólveig S. Finnsdottir
22. nóv. 2006

ok

Elva
28. nóv. 2006

En æðisleg nostalgíuferð! Ég fór mörg ár aftur í tímann og átti ótrúlega auðvelt með að rifja upp samveruna okkar í Harrow. Ég vil leiðrétta eitt í færslunni þinni, maturinn þinn hefur alltaf verið ljúffengur og ég held því fram að matargerðin þín sé eina ástæðan fyrir því að ég náði fullri heilsu eftir veikindin. Það bókast hér með!