80 selebstig á Wembley

Það bættist heldur betur á seleblistann okkar í gær (reyndar hafa bæst við nokkur stig á listann síðan síðast þ.e. 2 stig þegar við sáum Jack Osbourne um daginn og svo Marc Almond nokkrum sinnum (0,5 selebstig í hvort skipti) en svo eru önnur seleb sem hafa bæst á selebspottið mitt síðan um daginn. Sko þetta hefðu alveg verið 100 selebstig en af því að þetta var svona event og við rákumst ekki á selebið bara úti á götu (eða hittum selebið í persónu) þá detta selebstigin í 80. Þetta er með hæstu selebstigum sem hægt er að fá og margfalt fleiri en almenn selebstig. Hæstu stigin hjá mér væri að hitta U2 meðlimi (150 selebstig hvor fyrir sig og 600 stig fyrir alla) og ekkert að marka að sjá þá á tónleikum, stigagjöfin virkar ekki þannig. Hjá Jóhannesi væru það Angelina Jolie og Brad Pitt (150 selestig hvort og 300 saman). Hann er ekkert sérstakur aðdáandi, þau eru bara svo megafræg.

Skjannahvítir hestar og maður fær ofbirtu Við sem sagt sáum Lipizzana stóðhestana í gær. Þeir voru ótrúlegir og ég fékk gæsahúð hægra megin alveg frá toppi til táar nokkrum sinnum (gerist ef ég upplifi eitthvað sérstaklega fallegt). Þeir virðast svífa um gólfin í fullkominni symmetríu. Tæknileg fullkomnun og hestarnir voru einbeittir og vinnuglaðir eins og reiðmennirnir sem byrja 15 ára að þjálfa sig upp í þessari reiðmennsku hjá spænska reiðskólanum í Vín. Hestarnir sjálfir eru valdir úr 20 hesta stóði, aðeins 3 hverju sinni. Það eru því aðeins þeir allra bestu og það sést enda voru þeir vöðvastæltir og sterkir. Ég hef heldur aldrei séð svona hreina og hvíta hesta á ævinni. Þegar ljóskösturum var beint að þeim þá fékk maður ofbirtu í augun. Allt var svo framkvæmt við undirleik Mozart (á geisladiski auðvitað, ekki í persónu he he) og fleiri í fullkomnum takti við tónlistina.

Þeir framkvæmdu hinar og þessar æfingar, Capriole og Courbette, Levade, Piaff og Pirouette. Hestarnir voru greinilega missterkir og það var sérstaklega einn hesturinn sem var áberandi viljugastur og sennilega yngstur og líka sterkastur. Hann stökk hesta hæst í Capriole, magnað að sjá það. Þeir voru ótrúlega fallegir og einbeittir í vinnunni sinni, að springa úr orku og þeim virtist líða vel fyrir utan það að sveifla taglinu svolítið sem yfirleitt ber vott um pirring. Það gæti þó líka verið ávani eins og hjá sumum hestum. Það er auðvitað líkamlega erfitt að framkvæma Piaff og alls kyns hlýðniæfingar og hestar verða mispirraðir á svoleiðis. Það eru 50 þjálfaðir Lipizzane stóðhestar í heiminum og þar af er sá elsti 26 ára enn þá í fullu fjöri. Það ber vott um vellíðan og hreysti. Þeir fengu líka oft góðgæti, hrós og klapp frá reiðmönnum sínum þegar þeir voru búnir að standa sig vel. Maður sér aldrei reiðmennina hreyfa sig og þeir virðast nota hugaraflið til að stjórna hestunum. Á bak við það liggur þó einmitt þjálfunin og galdurinn við þetta allt saman. Að láta hesta vinna svona án þess að maður sjái það er bjútiful.

Það væsir ekki um hrossin og þetta eru með dýrustu hestum í heimi. Þeir byrja 4 fyrstu árin sín úti í haga þar sem þeir læra mikilvægi þess að vera sjálfstæðir og verja sitt pláss, safna kröftum og vöðvum og styrkja beinin úti í náttúunni. Þar eru þeir fyrst valdir úr hópi hinna því vel er fylgst með þeim, eftir styrk, persónuleika og fasi. Þeir eru það verðmætir að þeir ferðast aldrei margir saman í einu ef ske kynni að yrði slys og allir hestarnir myndi þurrkast út (og þar með ætt stóðhestanna sem er svo sérstaklega búið að passa upp á). Þeir fá risastórar og þægilegar einstaklingsstíur og undirlagið er alltaf sérstaklega flutt með þeim (sandurinn sem þeir sýna á). Þeir ganga á rauðum dregli á sýningarstöðunum sem er sérstaklega ætlaður til að vernda hófana þeirra. Birtan er mikilvæg og er kristalsljósakróna alltaf flutt með þeim hvert sem þeir fara. Fóðrið þeirra er sérstaklega flutt inn (hægt að fá í Harrods) og er án hafra (oat-free) sem er brjálæðislega fyndið (maður verður jú 'bloated' ef maður borðar of mikið af höfrum he he). Ég yrði ekki hissa á því þó þeir fengju nudd og heit böð því það er jú normið með dýra hesta í dag :) Þeirra er að sjálfsögðu gætt 24 tíma sólarhringsins. Held að hestarnir hljóti að vera óþolandi tildurrófur svona í heimi hestanna he he.

Drottningin nálgast En mesta stjarnan í gær (en alls ekki sú fallegasta reyndar, þar var jú hesturinn í aðalhlutverki he he) var heiðursgesturinn. Við sátum í um 25 metra fjarlægð frá einverju rosa flottri 'stúku' og við sáum sem sagt beint ofan í hana. Þegar allir voru sestir þá labbar eitthvað fólk inn og allir standa upp og fara að klappa.

Við vorum ekki alveg með á nótunum fyrr en við sáum litla, bláklædda konu með næstum hvítt hár staulast inn í salinn með fylgdarliði. Þetta var sem sagt drottningin sjálf. Það var eitthvað hálf ótrúlegt að sjá hana en mjög gaman samt og eitthvað sem margir lifa alla sína ævi til að reyna að upplifa. Hún var þarna hálf óvænt þ.e. ekkert auglýst því þetta er hennar sérstaka áhugamál, þessir hestar og var hún því í einkaerindum. Hún og systir hennar eru einu konurnar í heimi sem hafa fengið að snerta taumana á þessum hestum og hvað þá að setjast á þá. Drottningin nálgast Síðan 500 BC þegar Sókrates var að byrja að búa til þetta æfingaprógram þá hefur engin önnur kona (en þessar tvær) fengið að prófa þá. Mér finnst það auðvitað alveg glatað, sá sjálfa mig alveg á baki þessum hestum he he.

Þetta var sem sagt skemmtileg kvöldstund og með óvæntu selebspotting. Við vorum bara 25 metrum frá drottningunni en náðum því miður ekki góðum myndum þar sem við vorum bara með símann á myndavélinni. Hún virkar kannski langt í burtu en hún var bara alveg rétt hjá okkur :)

Drottningin sest

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sólveig S. Finnsdottir
18. nóv. 2006

sumir eru heppnari en aðrir þetta hefur verið frábær kvöldstund og gaman fyrir ykkur hestafolkið og svo lika að sjá Betu

Kv m.