Fjúkandi vond

Ég varð alveg perubrjáluð áðan (reyndar inn í mér, ég er ekki mikið fyrir að sleppa mér á almannafæri, sérstaklega ekki við afgreiðslufólk). Ég reyndar sleppti mér ekkert og var sallaróleg og kurteis en dííííííses hvað afgreiðslufólk getur stundum verið ömurlegt.

Ég er sem sagt komin á Klakann eina ferðina enn. Trúði því ekki í morgun þegar ég vaknaði að það væri virkilega svartamyrkur. Maður er svo fljótur því að venjast að klukkan 6 á morgnana eigi að vera bjart, ekki kolniðamyrkur og það alveg til klukkan 11. Þetta er bara ekki 'rétt', að minnsta kosti er ekki auðveldara að staulast fram úr.

En jæja í gær var snjóstormur og í dag úrhellisrigning. Maður þolir margt við Ísland. Það er samt eitt sem ég þoli mjög illa og það er léleg þjónusta við viðskiptavini (hvort sem það er hérlendis eða annars staðar svo sem). Ég hef sjálf afgreitt í verslun í mörg, mörg ár og ég lagði mig alltaf fram um að veita viðskiptavinum góða þjónustu, vera kursteis, það eru jú þeir sem á endanum borga launin okkar. Mér var kennt að segja aldrei "ég veit ekki" ef ég var spurð að einhverju og mér var kennt að hlusta þolinmóð ef einhver var að pirrast yfir einhverju, bíta á jaxlinn og sýna samúð, svolítið eins og að vera fararstjóri. Þetta er jú allt þjónusta. Yfirleitt var auðvelt að gera fólki til hæfis en svo stundum fékk maður viðskiptavini sem sögðu "mig vantar eitthvað flott" eða eftir að maður hafði hjálpað fólki "nei mér finnst þetta ljótt". Það var alltaf leiðinlegt, sérstaklega þar sem þetta fólk hafði ekki grænan grun um hvernig það var að standa hinu megin við afgreiðsluborðið og lesa ekki hugsanir en vera miður sín yfir því að geta ekki lesið hugsanir. Það er ofboðslegur dónaskapur að koma illa fram við starfsfólk og því mun ég aldrei gleyma.

En já áfram með söguna. Ég fór í bókabúð á Laugaveginum í morgun því mig vantaði afmælispappír. Ég reyni að vera hagsýn "húsmóðir" og skoða yfirleitt nokkrar gerðir. Ég vel yfirleitt pappír sem er bæði fallegur en ekki kannski þann dýrasta því pappír er jú bara fyrir augað (nema maður noti hann aftur, eins og ég geri við jólappír :). Ég sá tunnu fulla af pappír og á tunnunni var hvítur verðmiði. Á honum stóð: "100 kr". Ég hugsaði með mér að þarna gæti ég fengið fínan pappír á góðu verði og þar sem engin rúllan var merkt þá hlaut hann að kosta 100 kr. Ég trítla að afgreiðsluborðinu með pappírsrúlluna, 3 afmæliskort og eitthvað meira.

Þetta gera 945 krónur sagði konan sem var að afgreiða. Ég hváði kurteislega við og spurði hvað pappírinn kostaði. Hann kostar 495 sagði konan, fýlulega. Ég horfði á hana í smástund og sagði svo: Það stóð reyndar á tunnu sem pappírsrúllan var í að hann kostaði 100 krónur (og sagði þetta alls ekki reiðilega), getur verið að það hafi verið vitlaust merkt. Konan sagði ekkert. EKKERT. Ég sagði svo við hana að það væri ekkert verðmerkt þarna í tunninni. Hún þagði áfram.????????? Ég bað hana um að geyma hitt dótið sem ég var með og fór að finna stúlkuna sem var að afgreiða á neðri hæðinni í von um smá hjálp. Þegar hún loksins hafði tíma til að sinna mér þá sagði ég við hana að það væri ekkert verðmerkt og mig vantaði að vita verð á pappírsrúllunum. Vitið þið hvað hún sagði? "Ja sko....konan sem sér um þetta hérna niðri, vill ekki verðmerkja neitt því það er alltaf að BREYTAST verðið og hún NENNIR ekki alltaf að vera að plokka verðið af og merkja upp á nýtt????? Alltaf að breytast verðið? Þegar ég sagði við hana að það væri frekar óþægilegt fyrir viðskiptavini sem vildu bera saman verð að þurfa að biðja um að láta skanna allt inn, sérstaklega ef maður er á hraðferð, líka óþægilegt fyrir afgreiðslufólk. "Já.... kannski óþægilegt" og svo plokkaði hún hvíta 100 kr miðann af tunnunni. Það kom svo í ljós að ódýrasti pappírinn var á 345 krónur.

Ég var orðin fokvond og fór að skoða pappírsarkir því þessir afmælispakkar mínir eru nú frekar smáir. Ég valdi eina örk en þurfti að giska á verðið því það var ekkert verðmerkt. Ég fór með þetta að afgreiðsluborðinu og sagði við konuna, mjög kurteislega. "Pappírinn er ekkert verðmerktur, hvorki arkirnar né rúllurnar vissuð þið af því". Konan sagði áfram ekkert, ég var farin að halda að hún væri mállaus. Hún tautaði svo "ætlarðu að kaupa örkina". Hún hefði líklega verið glaðlegri ef ég hefði sagt henni að fæðingarbletturinn sem var framan í henni væri illkynja.

Ég verð alltaf jafn bit yfir því að fá svona þjónustu. Án viðskiptavinanna er engin verslun og þar af leiðandi engin vinna, það er eitthvað sem er innprentað í mig síðan ég var sjálf afgreiðslustúlka. Mér var skapi næst að hefta hárið án henni við dagblöð og hella lími og glimmeri yfir hana. Ég var öskuvond. Urrrrrrrrrrrrrrrrrr.

Er þjónustan á Íslandi að verða svona slök? Ég fór á Kaffitár í gær á leiðinni hingað (þ.e. í flugstöðinni) og afgreiðslustúlkan fnæsti á mig þegar ég bað um meiri froðu á latteið mitt (hún hefur sagt við mig áður að EIGI ekki að vera froða á latte). "Þú VERÐUR að biðja um það strax (sem ég geri alltaf) og það á ekki að vera froða ofan á latte (gæti hún þá útskýrt latte art fyrir mér? og nú ÞARF ÉG að búa hann til aftur (ég var eini viðskiptavinurinn bæ ðe vei). Hún veit greinilega ekki við hvern hún er að tala (ég kaupi latte á hverjum EINASTA degi og ég veit alveg hvernig latte á að vera) og hvað þá að ég hef sennilega borgað allavega þrenn ef ekki fern mánaðarlaun hjá henni bara með því að vera fastur viðskiptavinur (og líklega meira). Hún getur því ekki komið fram við mig svona, sérstaklega ekki ef ég er kurteis og er búin að biðja um eitthvað sem ég fæ svo ekki. Þetta er í þriðja skiptið sem hún fnæsir á mig á einhvern hátt. Alveg án þess að ég hafi verið á neinn hátt leiðinleg. Að öðru leyti elska ég Kaffitár og kaffið er æði eins og ég hef alltaf sagt. Kaffitár í Leifsstöð (allavega sumt starfsfólk) er bara eins og saumspretta á vel saumaðri flík.

Hmmm klukkan er 2 en samt er komið myrkur. Ég held svei mér þá að það hafi ekki orðið bjart í dag. Aumingja útlendingarnir sem voru í flugvélinni í gær á leiðinni hingað. Einn sagði "where the hell are we?" ("hvar í fjandanum erum við eiginlega") þegar við flugum yfir gráhvítu auðnina í snjóstorminum eða dönsku krakkarnir sem stóðu í andyrinu og sögðu "jeg skal sko fandme ikke gå ud i dette vejr" ("Ég fer sko fjandinn hafi það ekki út í þetta veður"). Það var reyndar blindbylur og krakkagreyin alveg í kleinu. Æi ég er svo sem sammála.

O jæja hætt að rífast í bili. Búin að pústa út. Think happy thoughts.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Helen Garðarsdóttir
13. nóv. 2006

Mikið er ég sammála þér! Mér finnst þetta líka alveg hryllilegur dónaskapur. Líka til dæmis þegar maður segir "góðan daginn" og afgreiðslufólkið svarar ekki! Stundum enda ég með að segja það aftur og hærra.. bara svona til að segja "halló ég er hérna!" :)

kveðja,

Helen

Kristín
13. nóv. 2006

Það þýðir ekkert að vera að pirra sig á veðrinu hér heima á elskulega Íslandinu okkar, það breytist ekkert við það, en það er leyfilegt að pirra sig á leiðinda afgreiðslufólki !