Graskersævintýri
Já það gekk heldur betur með graskerið og granateplin get ég ekki hætt að borða mmmmm. Ég kalla granateplakjötið 'vítamínsdemanta'. Það er víst eitt það hollasta sem maður borðar og sem betur fer því ég borða svo mikið af þeim.
Sem sagt, við roguðumst heim með risa grasker. Af því ég hef aldrei prófað að elda grasker áður þá vissi ég ekkert hversu stórt það þyrfti að vera. Ég keypti því ALLT of stórt grasker og sá þegar ég kom heim að það stóð á því að það væri upplagt til útskurðar. Sem sagt ekki besta grasker í heimi og ég fann ekkert lífrænt ræktað heldur. Hef grun um að þetta grasker hafi ekki verið besta graskerið á svæðinu. En jæja ég réðist til atlögu við graskerið og hætti ekki fyrr en allt var orðið sundurskorið, þar með talið ég því ég er klaufi með hnífa. Ég gerði sem sagt graskerssúpu með ristuðum maískornum. Hún var rosalega góð og alveg frábær svona í kuldanum því nú hefur heldur betur kólnað hér í Bretlandi. Við kveiktum á ofnunum í gær í fyrsta skiptið í meira en hálft ár. Verður eflaust ekkert slökkt á þeim fyrr en næsta vor.
En já ég átti alveg heilan helling af graskeri eftir og ákvað því að búa til kryddað graskerskökubrauð. Það heppnaðist líka alveg prýðilega, var reyndar aðeins of blautt en allt í lagi. Svo ristaði ég graskersfræin þannig að þau eru tilbúin yfir salat eða í brauð nú eða sem snakk enda svakalega hollt, sérstaklega fyrir karlmenn!! Ég á í frystinum grasker fyrir tvo skammta af súpum (sem duga samtals í fjóra daga) og í eina köku. Kostakaup sem sagt á einu graskeri!.
Lét myndina af súpunni flakka með, er ekki búin að setja uppskriftina inn á vefinn þó, hún (ásamt fleirum) koma bráðum.