Bloggið

Þögnin

Já í gær fengum við boð um að fara út fyrir skrifstofubygginguna til að minnast þeirra sem dóu síðasta fimmtudag. Það var 2 mínútna þögn kl 12 á hádegi. Það var fullt af fólki úti á götu og á slaginu 12 datt allt í dúnalogn. Ég sá myndir í sjónvarpinu af Piccadilly Circus, þar sem umferðin er venjulega eins iðandi og eins og slagæð í manneskju, stoppar aldrei nema akkúrat kl 12 þá stoppaði allt, eins og London hefði verið sett á pásu á myndbandstæki. Mjög skrýtið.

Hann var mjög óheppinn ungi maðurinn sem kom labbandi að okkur fyrir utan bygginguna. Óheppinn að því leytinu að hann var af þeim litarhætti að hann hefði getað verið hryðjuverkamaður (er ekki að alhæfa, ég veit fullvel að múslimar eru ekki hryðjuverkamenn og að það eru aðeins örfáir sem eru svona klikk á meðal þeirra). Hann kom skælbrosandi að okkur og spurði hvað væri í gangi, akkuru fólk væri úti á götu? Hann fékk nokkuð mörg stingandi augnaráð og á milli samanbitinna vara var einhver sem svaraði honum: „vviðermaðvottfólkinsemdóvirðnguokkarnúáðveraÞÖGN“ (eða „Við erum að votta fólkinu sem dó virðingu okkar og nú á að vera ÞÖGN“). Hann varð voða skömmustulegur greyið og steinþagði. Erfiðar tvær mínútur fyrir hann.

En já mér finnst þetta gott og blessað sko að sýna fólki virðingu sína en ég SKIL ekki svona þagnir. Hverju eiga þær að áorka? Þarf fólk almennt að taka frá eina mínútu eða 2 mínútur til að minnast þeirra sem dóu? Ég minnist þeirra í einhverju mæli á hverjum degi og þarf ekki að taka frá tíma til þess. Ég hef aldrei skilið svona þagnir. Þær hjálpa kannski einhverjum en fyrir mér er þetta bara þögul múgsefjun. Er ekki þögn sama og samþykki? Erum við að samþykkja að fólk hafi dáið? Ég skil að fólk vilji votta virðingu sýna en mér finnst mun gáfulegra að gera það í bók eða vefsíðu (skilur eitthvað eftir sig svo sem eins og hlýleg orð), leggja pening inn á reikning (hjálpar þeim sem hjálpa öðrum til dæmis læknum, sjúkrahúsum og þess háttar). En þögn skil ég ekki.

Þetta þagnardæmi er álíka óskiljanlegt fyrir mér og þegar fólk segir „Góða helgi“ á laugardagseftirmiðdegi. Ég skil það ekki, það KEMST bara ekki inn í hausinn á mér. Sko helgin byrjar á föstudegskvöldi og endar á sunnudagskvöldi. Það er ekki hægt að segja „Góða helgi“ á laugardagseftirmiðdegi. Það er eins og að segja „Njóttu myndarinnar“, í hléi eða að segja „Góða ferð“ á næstsíðasta degi ferðalags. En það er bara ég sem er svona pirruð og aumingja Jóhannes fær oft ræðurnar frá mér. Hann gnístir eflaust tönnum þegar hann les þetta hí hí :) Það er bara sumt í lífinu sem ég skil ekki. Það er líka allt í lagi að vera ósammála, það er bara skemmtilegt.

Annars er það að frétta frá London að í gær var stuðnings- og mótmælafundur á Trafalgar torgi. Þar var meðal annars strætóbílstjórinn í strætó nr. 30 sem varð fyrir sprengingunni og hann minntist á bjagaðri ensku þeirra sem dóu og vildi koma þeim skilaboðum á framfæri að fólk myndi „hvorki bugast né brotna“. Hann var auðvitað miður sín yfir fólkinu sem dó, sérstaklega dóttur vinnufélaga hans sem hafði verið í strætónum. Borgarstjórinn Ken Livingstone hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði að það sem þessir hryðjuverkamenn hefðu ætlað sér að áorka, að stía trúarhópum í sundur og egna kristnum gegn múslimum í þeirri von um að boðskapur heittrúaðra múslima kæmist í gegn þá mistókst þeim gjörsamlega því á Trafalgar torgi komu saman allir helstu trúarleiðtogar Bretlands og fólk af öllum kynþáttum, trúarbrögðum, stærðum og gerðum og stóð bökum saman og fordæmdi árásirnar. Þeim bersýnilega mistókst ætlunarverk sitt. Ég sá þetta í sjónvarpinu og það voru engin læti, fólk var bara að hlusta og tala saman, sýna samstöðu. Mun betra en að þegja bara.

Jæja ég ætla að hætta að rífast og fara að þegja.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Bila hné

Jæja ég fór til læknis í gær, svo sem ekkert merkilegt. Í stuttu máli þá þarf ég þessa blessuðu aðgerð, það þarf að bora inn í hnéð, fara með myndavél og skoða skemmdina og svo þarf að laga eitthvað. Ég er komin á biðlista og ég veit ekki nákvæmlega hvenær ég þarf að fara í þessa aðgerð. Ég ætla þó að láta gera hana hér í UK þar sem annars er mikið vesen tryggingarlega séð. Það sem ég veit þó, og það sem ég er frekar brjáluð yfir er að ég má ekki reyna á hnéð að ráði sem þýðir að ég get ekkert hlaupið í ræktinni (eða tekið neðri hluta) í um 2-3 mánuði þannig að ég MUN enda eins og Nigella Lawson. Er viss um það. Ég verð hölt þangað til ég kem frá Afríku, svo verður þetta lagað nema það getur tekið um 6 vikur að verða ok. Það er ferlega svekkjandi að þurfa að missa þolið svona niður (ekki það að ég sé neitt svakalega þolgóð, er með minnstu lungu í heimi) en svona er lífið víst. Er bara svekkt að ég geti ekkert reynt á mig í Afríku, er alveg farin að sjá fyrir mér 4 burðarmenn sko. Það er ekki eins og ég sé með ólæknandi sjúkdóm svo ég verð bara að vera þakklát.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Bráðni, bráðni, bráðni

Er að bráðna úr hita. Kannski ekki akkúrat núna en var að bráðna í dag. Ég var með fyrirlestur í Verðbréfamarkaði London (London Stock Exchange) og við reyndar tókum minicab þangað (ég og önnur sem vinnur með mér). Það var fínt því ég er enn þá að skakklappast á hnénu og get ekki labbað langt. En jæja við komum á staðinn og við vorum með fartölvu og töskur með okkur (bara svona stelputöskur) og við erum nú ekki mjög terroristalegar sko en það mætti halda að við værum eftirlýstar svo mikil var gæslan. Fyrst tók á móti okkur öryggisvörður utandyra sem sagði eitthvað merkilegt í talstöð og hleypti okkur inn. Hann hafði ekki augun af okkur (og ekki af því honum fannst við svo sætar sko, held ekki). Svo tók á móti okkur svona innandyraöryggisvörður sem sagði okkur að það þyrfti að leita á okkur og leita í töskunum okkar. Það var allt í lagi. Það var leitað á okkur og engar byssur né sprengjur fundust. Svo voru töskurnar okkar skannaðar með sprengjuleitartæki. Við vorum sem sagt ekkert hættulegar og öryggisverðir (innandyra sem utan) gátu andað léttar. Þangað til við þurftum að fara að pissa, þá varð upp smá fótur og fit því við gátum ekki farið báðar án þess að taka töskurnar með okkur, þá hefði orðið rosa öryggisuppþot og töskurnar sennilega sprengdar áður en við værum búnar að spræna. Við þurftum sem sagt að fara ein í einu, í fylgd örygissvarðar. Við vorum að bíða eftir því að fara á fundinn þegar ég kláraði jógúrtdrykkinn minn (kom með hann að heiman og var að drekka hann þarna). Það er að sjálfssögðu engin ruslatunna (yfirleitt aldrei í svona byggingum vegna hættunar á því að einhver skilji eftir sprengju) og þá voru góð ráð dýr. Ég fékk fyrir náð og miskunn að henda jógúrtílátinu hjá móttökuritara en ekki fyrr en búið að var að opna og skoða í það. Þeir sáu bara leifar af íslensku jógúrti sko. Ég hefði sennilega ekki fengið að henda ílátinu hjá móttökuritara nema af því hún vorkenndi mér fyrir að hafa svona langt eftirnafn (hún ætlaði aldrei að vera búin að skrifa Thorsteinsdottir í tölvuna sína) og þetta er ekki einu sinni svo langt nafn. Það þýðir reyndar ekkert að útskýra það í Englandi.

En já fyrirlesturinn gekk vel og þetta eru fínustu skrifstofur sem ég hef komið inn í. VÁ. Allt úr harðviði (skamm skamm LSE) og flati skjárinn sem var notaður var ofan í stórum kassa sem opnaðist þegar maður ýtti á takka. Væri alveg til í svoleiðis sko. Klósettin voru hljóðeinangruð (ekkert skrítið sko, fólk er jú svo stressað á þessum verðbréfamörkuðum sko) og mér leið eins og ég væri á 5 stjörnu hóteli. Svo var bakkelsi fyrir svona 20 manns (ekki á klósettinu heldur á fundinum) þó við værum bara 8 og besti appelsínusafi sem ég hef smakkað held ég. Nýkreistur og ískaldur. Langaði að taka könnuna með mér.

En já eftir fundinn þá tókum við lestina áleiðis heim og tókum svo leigubíl síðasta spölinn því ég gat ekkert labbað. Það var svoooooooooooo heitt, um 30 stig og stingandi sól. Ég skakklappaðist líka beint á Starbucks og fékk mér íslatte. Hefði alveg verið til í að sitja í garðinum með Jóhannesi í dag en hann er í Prag akkúrat núna :(

Það var dáldið skrýtið að vera í lestunum í dag. Skrýtið að því leytinu að það var ekki hægt að sjá eða finna neitt óeðlilegt. Það eru að vísu 4 línur niðri sem þýðir aukið álag á aðrar línur og voru lestarnar pakkfullar kl 14.30 í dag sem er mjög óvenjulegt. Fyndið líka að mest af þessu voru túristar. Það voru líka listamenn að spila á stöðvunum og allir bara rólegir. Ég gleymdi því fljótlega að einhvers staðar í námunda við okkur er enn þá verið að grafa lík upp úr göngunum. Díses, svo er ég eitthvað að þykjast að vera flughrædd???? Er alveg að spá í að skipta um paranoju sko.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Lent

Jæja þá erum við lent í London, borg hryðjuverkanna. Það var nú ekki að sjá að neitt hefði átt sér stað. Allt var eins og venjulega í gærkvöldi, meira að segja var ítalski kvartettinn að spila við veitingastaðinn hérna á móti í gærkvöldi þegar við komum svo ekki var að sjá að þessar sprengjur hefðu truflað líf margra.

Fólki er samt ekkert sama. Yfirmaður minn hérna úti var 1 mínútu frá sprengingunni. Hann var að ganga upp stigann í lestarstöðinni þegar hann heyrði í sprengingunni. Hann hefði annars verið niðri í göngunum. Annar var 10 mínútum frá því að lenda í því að vera í göngunum á meðan sprenging átti sér stað.

Eini munurinn sem maður sér á fólki er sá að þegar sírenur fara í gang (sem gerist yfirleitt á svona mínútu fresti í London) þá horfir fólk upp og er með smá áhyggjusvip. Maður er löngu hættir að heyra í sírenum svona dags daglega en þegar svona stendur á, þá heyrir maður allt í einu í þeim, reynir jafnvel að fylgja hljóðunum.

Annars er ágætt að vera komin aftur en ég sakna þó alltaf Íslands um leið og ég flýg yfir hafið. Svo langt þangað til ég kem aftur til Íslands, tæpir 2 mánuðir. Gæti þó verið að ég þyrfti að fara fyrr því hnéð á mér er eitthvað bilað. MRI skann sem ég fór í á Íslandi sýndi að ég er með rifinn liðþófa í vinstra hné, að innanverðu. Búin að vera illt í hnénu lengi (nokkur ár) en samt farið tvisvar til læknis sem sögðu ekki neitt. Svo labbaði ég Laugaveginn og var að drepast og fór eftir það í skann/röntgen og þetta var niðurstaðan. Það þarf að bora í hnéð, setja inn myndavél og laga þennan liðþófa eða fjarlægja hann. Langar helst að láta gera þetta heima en ég þarf að athuga með tryggingar og fleira fyrst ég er með lögheimili hér í Bretlandi. Ég ætla samt í ræktina, tek bara efri hlutann. Verð þá kannski eins og Nigella Lawson í laginu hí hí. Finnst alltaf jafn fyndið að hún er aldrei mynduð fyrir neðan mitti :) Æi ég kemst örugglega ekki að samt áður en ég fer til Afríku en það hefði samt verið gott að geta klárað dæmið áður. Ég verð bara að fara varlega í Afríku, hlaupa ekkert á eftir ljónum og svoleiðis he he.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Terroristar

Ég er voða fegin að vera heima á Íslandi akkúrat núna. Langar varla út til London aftur sko. Sprengjurnar voru ekkert nálægt íbúðinni okkar þannig séð en samt allt í kring og strætóinn var hvað næstur okkar íbúð eða í um 10 mínútna göngufjarlægð frá okkur. En samt, Londonbúar eru svo vanir því að einhver sé að ergja þá með sprengjum (aðallega IRA) að þeir kippa sér ekki mikið upp við þessar sprengjur. Ég er ekki að segja að þeir taki létt á málunum samt, þeir eru bara frekar æðrulausir.

Við frestuðum fluginu okkar fram á mánudag, áttum sko að fara í dag. Æi það er svo glatað að vera kannski fastur á flugvellinum ef þeir ákveða að loka lestarstöðvum allt í einu, betra að láta allt komast í sinn farveg.

Æi langar mest að fara bara á fjöll með Jóhannesi og liggja í tjaldi í svona mánuð, bara í afslöppun. Nenni ekki þessu terroristaveseni.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Laugavegurinn

Jæja þá erum við komin af Laugaveginum. Það var rosa gaman nema það var pínu leiðinlegt veður. Ekkert sem skemmdi stemmninguna samt. Við tókum 55 kílómetra á 2 dögum í staðinn fyrir 4 og það var dálítið heavy. Vorum með bakpoka með öllu draslinu svo það var ekkert að gera okkur auðveldara fyrir. Mikið eigum við samt fallegt land!

Fyrir þá sem vilja lesa nánar ferðalýsingu bendi ég á bloggið hjá Jóhannesi www.urbanmania.com/blog/?p=64

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Flugferð helvítis

Já við upplifðum flugferð helvítis í gær. Hún byrjaði voða vel í sól og blíðu á Heathrow flugvelli. Við að fara í sumarfrí, rosa glöð og kát. Eftir um klukkutíma, milli klukkan 19 og 20 var ein mesta rigning sem ég hef séð og rokið var víst eitthvað rosalegt. Ekki nóg með það heldur voru þrumur og eldingar. Svo rosalegar að það var eins og væru milljón ljósmyndarar á himninum að taka myndir með flassi. Við spáðum ekkert meira í þetta, okkur fannst þó rosa skrýtið hvað veðrið breyttist allt í einu úr fínu veðri í brjálað veður.

Nú svo líður og bíður og við erum svona að fara síðustu yfirferð yfir flugvöllinn, vorum að kaupa svona hitt og þetta nema við tyllum okkur og búumst við því að fara fljótlega upp í vél. Klukkan var um 20.30. Svo verður klukkan 21 svo 21.30 og þá vorum við orðin frekar pirruð, fluginu greinilega seinkað en enginn látinn vita, stóð bara „Delayed“ á skiltinu. Svo var klukkan orðin 22, 22.30, 23 og við orðin nett pirruð. Þá kemur loksins tilkynning um að það verði seinkun (surprise!). Engin ástæða tilgreind, enginn tímarammi á væntanlegri töf tilgreindur og enginn væntanlegur brottfaratími tilgreindur. Vá hvað þetta var pirrandi.

Við komum okkur fyrir og upp úr miðnætti var öllum orðið ljóst að um mikla seinkun yrði að ræða. Hvernig vissum við það? Jú við eltum uppi öryggisverði og aðra starfsmenn flugvallarins sem tjáðu okkur það að vélin okkar væri á öðrum flugvelli (Luton) og kæmi ekkert í bráð. Heyrðum við þetta í gegnum hátalarakerfið? Nei nei nei, við FRÉTTUM af þessu með því að spyrja einhvern Jóa Jóns. Þetta var SVO glatað. Klukkan 01 eftir miðnætti voru flestir lagstir í stólana til að reyna að sofna. Það var reyndar mjög erfitt þar sem smiðir voru akkúrat að bora, negla og saga á þessum tíma. Um þetta leyti var fólk farið að spyrja um mat þar sem allar búðir höfðu lokað klukkan 22 og flestir orðnir svangir. Okkur var auðvitað tjáð að „Allar búðir væru lokaðar og því ólíklegt að einhver matur væri til en að hún ætlaði að reyna að finna eitthvað“. Allt sem fannst voru dúkkustærðir af sódavatni í dós og barbístærðir af kexi í pokum. Þetta var okkur boðið upp á frá því klukkan 21 (áætluð brottför) til klukkan 3 um nóttina. Sem betur fer er ég alltaf með nesti fyrir 4 daga hrakfarir hvert sem ég fer (þó ég sé bara að fara á pósthúsið sko) og við vorum þess vegna með eitthvað að narta í og meðal annars orkustangir sem komu sér vel. Við höfðum líka keypt okkur vatn fyrr um kvöldið. Eini staðurinn sem var opinn var barinn og var mikil gleði með að geta keypt bjór (sem var auðvitað gagnslaust fyrir okkur þar sem við drekkum ekki) en sumir Íslendingar sátu þar allt kvöldið, ansi blautir undir lokin.

Klukkan 3 var okkur tjáð að vélin væri komin og að fólk mætti fara um borð. Flestir voru sofandi (eða að reyna að sofa). Við vorum ekkert búin að þá heyra um afdrif vélarinnar í um 2 klukkutíma. Það voru auðvitað allar flugvélar farnar af Heathrow. Við vorum einu farþegarnir á öllum flugvellinum í um 4 tíma. Jæja við vorum að búa okkur undir að fara í landgang vélarinnar en nei þá þurftu allir að fara út, og í rútu, þurftum að standa í biðröð úti og bíða eftir rútu. Mér var orðið kalt, ég var þreytt og ég var svöng. Á þessum tímapunkti var fólk orðið ansi pirrað, sérstaklega eldri útlendingarnir sem voru með í þessari vél. Okkur var troðið í rútu og það var „farið með okkur eins og rollur“ eins og einn farþegi komst að orði. Útlendingarnir hristu bara hausinn.

Við komumst svo loksins í vélina. Yfirflugfreyjan var alveg mega pirruð (þó að enginn annar væri pirraður). Haldið þið að við höfum verið beðin afsökunar? Nei ekki á íslensku en á ensku var beðist afsökunar. Hvað er með það?

Eftir pirringinn, þreytuna og hungrið vorum við að vona að okkur yrði boðið upp á þó það væru nú ekki nema samlokur eða eitthvað. Mikil (ó) gleði greip um sig (eða þannig) þegar ógeðsmaturinn sem mér hefur verið tíðrætt um hér áður var borinn fyrir okkur (sami viðbjóðurinn endalaust, er ekki enn þá viss eftir 4 mánuði hvort þetta er svín eða kjúklingur. AFHVERJU er matnum ekki breytt í 4 MÁNUÐI????) og meira að segja matargatið Jóhannes, að drepast úr hungri gat ekki hugsað sér að borða þennan viðbjóð. Við reyndum bara að sofna og við dottuðum eitthvað enda allir um borð orðnir örþreyttir og allir að reyna að sofna bara.

Nú við lentum sem sagt kl. 5 í morgun í Keflavík og fengum töskurnar okkar eiginlega strax (hvaða heppni var það eiginlega?) þegar ég rak augun í rifu á nýja bakpokanum hans Jóhannesar. Þvílíkt svekkelsi. Jóhannes er búinn að vera að dást að pokanum sínum í meira en mánuð, búinn að horfa á hann, snúa honum, strjúka honum, raða í hann, taka úr honum, raða í hann aftur, prófa hann á bakinu og þar fram eftir götunum en nú var pokinn ónýtur. Þetta var svooooooo ekki eins og sumarfríið átti að byrja. Til að gera langa sögu stutta þá reifst Jóhannes og skammaðist í Flugleiðum þangað til hann fékk pokann greiddan, á staðnum. Eitthvað hefur Jóhannes orðið reiður því þetta er eitthvað sem Flugleiðir gera aldrei. Meira að segja fór konan á viðgerðarstofunni sjálf að ná í pening fyrir Jóhannes (það vita allir hvernig þessi kona er sem hafa reynt að fá eitthvað bætt). Þeir ætluðu nefnilega að gera við pokann en Jóhannes tók það ekki mál enda pokinn ónýtur. Þetta er svona Rolls Royce bakpokanna, heitir Osprey Crescent og fæst ekki einu sinni hér á landi. Hann er húðaður að innan með sérstöku efni til að gera hann vatnsheldan og það dugar ekkert að „Zikk Zakka“ í rifuna eins og konan ætlaði að gera. Jóhannes hélt yfir þeim tölu um hvernig pokinn er uppbyggður, úr hvaða efni hann er og þau gáfu eftir á endanum eftir að Jóhannes hafði rifist í einhverjum yfirmanni sem ætlaði að halda því fram að pokinn væri notaður af því að hann hafði farið út á flugvöll. Díses. Jóhannes sagði sem var að þjónustan hjá þessu fyrirtæki (Flugleiðum) væri svo skammarleg að hann færi ekki fet fyrr en þetta væri borgað. AÐ FULLU. Samt hrikalegt svekkelsi að geta ekki prófað bakpokann um helgina, alveg ömurlegt.

Já en sem sagt ástæðan fyrir því að seinkunin varð svona mikil var sú að þrumuveðrið var svo rosalegt að Flugleiðavélin gat ekki lent á Heathrow (samt furðulegt að allar aðrar flugvélar gátu bæði lent og farið í loftið. Eru Flugleiðavélarnar úr gulli? Er það þess vegna sem ferðirnar eru svona dýrar???), þurfti að sveima í klukkutíma áður en þeim var beint á annan flugvöll nema hvað að óveðrið færði sig þangað og þeir gátu sig ekkert hreyft. Veit alveg að þetta var ekkert þeim að kenna en drottinn minn dýri hvað fólk er eftir á í upplýsingagjöf til fólks sem og almennri þjónustu eins og að bjóða fólki eitthvað vott eða þurrt á meðan það bíður.

Við lentum þó ekki verst í þessu. Það var þarna fólk með lítið ungabarn og svo voru einhverjir að koma frá Mexico nýbúnir í 11 tíma flugi, búnir að bíða á flugvellinum í 6 tíma og lenda svo í þessari seinkun. Aumingja þau.

Það sem kom mér mest á óvart í þessu öllu saman er hversu rólegir Íslendingar eru í svona aðstæðum. Kannski er ekki hægt að alhæfa í því en þessir Íslendingar sem þarna voru gerðu að gamni sínu, sögðu brandara, spjölluðu, sumir fóru á barinn og höfðu ægilega gaman. Einn Breti sem var í hópnum byrjaði að æsa sig þarna fyrst en held hann hafi gefist upp því enginn annar var að æsa sig. Annað hvort eru Íslendingar svona geðgóðir eða þeir láta trampa á sér og eru of bældir til að rífast.

En endirinn er sá að ég er búin að sofa í rúman klukkutíma um það bil samtals síðan klukkan 7 í gærmorgun og við erum því ansi lúin, ekkert sem lagast ekki með góðum nætursvefni svo sem. Ég er búin að skrifa bréf til Flugleiða og skammast og get ekkert gert meira í bili.

Verst með bakpokann þó, er ferlega svekkt fyrir Jóhannesar hönd yfir að hann komist ekki með hann með sér á Laugaveginn.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Skítakuldi

Iss, það er skítkalt í London. Ok það eru 20 stig en eftir undanfarna vikur þá virka 20 stig mjög kalt. Við fórum í labbitúr í gær og vorum eitthvað voða bjartsýn, fórum bara á bolunum út og ég hélt ég yrði bara úti. Við náðum að hlýja okkur í búðum og svona (reyndar hjálpaði frosna jógúrtin ekki, hefði frekar átt að fá mér heita mjólk en jæja, var þess virði). Þetta hitastig er reyndar mjög þægilegt því maður getur verið bara í léttri peysu og þarf ekki úlpu.

Já við vorum sem sagt á rúntinum í London í gær, við vorum að kaupa eitt og annað fyrir Afríkuferð. Það er betra að kaupa svona einn og einn hlut heldur en að kaupa allt í einu þá virkar það svo mikið eitthvað. Ég keypti mér bol og léttar buxur frá North Face sem er hægt að festa upp á hliðunum. Já ég keypti mér reyndar regnbuxur líka fyrir Laugaveginn. Keypti Berghaus Goretex buxur. Þær eru mjög þunnar og léttar en eiga að vera alveg vatsnheldar, enda úr Goretex efni. Sjáum hvernig þær reynast í íslensku rigningunni :) Nú liggjum við á bæn um að verði gott veður helgina sem við ætlum Laugaveginn. Sem er reyndar næstu helgi..... Amen

Ég held að Jóhannes sé búinn að pakka niður og upp úr blessaða bakpokanum sínum svona 7 sinnum, labba með hann um íbúðina, hoppa upp og niður þannig að ljósakrónurnar hristist, vigta hann, setja meira dót í hann, labba aðeins meira með hann...... Ég er svo hissa á því að hann sofi ekki með bakpokann á sér, eða í gönguskónum. Kæmi mér ekkert á óvart þó hann hafi gert það þegar ég var ekki heima :) Hann er nú meiri útivistarperrinn :)

Ég þarf þó ekki að hafa áhyggjur af því að krókna úr kulda á morgun, það er spáð 27 stiga hita og sól þannig að ég ætti að geta farið út á bol án þess að skjálfa. Ég ætla að fá Jóhannes til að hitta mig í hádegisgarðinum góða með nesti. Þetta verður svona mini-lautarferð. Ekkert betra á svona dögum en að sitja undir tré með nesti og góðan félagsskap.

Svo er það bara Ísland á þriðjudaginn. Jibbíííííí.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Jóhannes heim

Jibbí, Jóhannes kemur í kvöld. Ég hef ekki séð hann síðan á mánudaginn. Svo sem ekkert langur tími en þar áður vorum við ekki búin að hittast í rúma 10 daga á meðan ég var á Íslandi. Það er heldur ekki seinna að vænna að við hittumst, þurfum að fara að skipuleggja Laugaveginn. Við erum búin að kaupa allt nema sólarvörn (verður ekki örugglega sól??? Vonandi, svo lengi sem er ekki grenjandi rigning og rok þá er ég sátt. Við erum búin að kaupa ullarföt fyrir mig og svo á ég varaullarföt. Svo fékk ég dúnsvefnpokann í afmælisgjöf sem verður tekinn út í þessari ferð. Svo erum við líka búin að kaupa svona hitagel til að setja ofan í svefnpokann svo að Borgar og Jóhannes þurfi ekki að grilla steina *roðn*. Já já já, ég veit, ég er kuldaskræfa. Ég labbaði meira að segja aðeins út áðan, það er 27 stiga hiti og smá gola og mér varð kalt???? Það stóð reyndar stutt yfir, mér varð orðið heitt eftir smá stund og ég þurfti að fara í skuggann.

Ég var með næturgest síðustu nótt, Fríðu Maríu sem var að farða fyrir einhverja auglýsingu í Cambridge. Hún framlengdi um einn dag til að versla í London. Það var rosa gaman að fá hana í heimsókn og við fórum og fengum okkur að borða á Sergios sem er ítalskur staður beint fyrir utan gluggann okkar (svo nálægt að ég finn lyktina af matnum þegar fólk borðar hann úti). Það var rosa fínt, ekta ítalskir þjónar sem töluðu voðalega slæma ensku sem skamma mann ef maður bendir á réttina en segir ekki nafn þeirra, ekta ítölsk mamma sem stjórnaði öllu og var rosa frek og rauð í kinnum, í pilsi og með hnút í hárinu og ekta ítalskur pabbi með rosa bumbu sem saup vín allan tímann og tautaði eitthvað á ítölsku. Ekkert of hátíðlegur veitingastaður sem hentaði okkur vel. Ég fékk mér sjávarréttapasta (náði að setja 5 tómatsósubletti í bolinn minn) og Fríða fékk sér rjómasveppapasta eitthvað, líka rosa gott. Við vorum allavega rosa saddar og klukkan var um 23.30 þegar við fórum heim aftur (ekki langt að labba sko). Við vorum að spá í að rúlla okkur bara heim. Þó að staðurinn sé voða heimilislegur þá hefur fullt af frægu fólki borðað á honum og það eru myndir af þjónunum með fólkinu upp á öllum veggjum. Maturinn var líka ódýr, við fengum risa skammta, með brauði á undan, vatnsflösku og Fríða fékk sér rauðvínsglas og allt kostaði þetta 25 pund (um 2800 krónur). Það er álíka og einn réttur á veitingastað heima og varla það.

Hlakka svo til að fá Jóhannes heim, loksins. Erum að spá í sushi á morgun. Það verður í fyrsta skipti sem við höfum tíma til að fara að borða síðan ég átti afmæli 25. apríl. Við höfum ætlað að fara hverja helgi en það hefur allt verið kreisí. Kannski að við drullumst nú loksins.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Smog

Ég vona að Jóhannes kafni ekki í smogginu á leiðinni heim. Smog er ógeðslegt fyrirbæri. Smog stendur fyrir Smoke (reykur) og Fog (þoka) þannig að á íslensku gæti það heitið þreykur eða álíka (viss um að það er til eitthvað betra orð yfir þetta samt). Þetta myndast yfirleitt í svona hitabylgjum eins og hefur verið að undanförnu, þ.e. loftið verður svo þungt af mikilli mengun, heitu lofti og frjókornum og í logni kemst þessi blanda ekkert og allt blandast saman í eina súpu. Fólki með öndunarfæravandamál eins og asthma og viðkvæmu fólki er ráðlagt að halda sér innandyra. Þetta var afskaplega mikið vandamál hér á tímum kolakyndingar þegar mengunin í London var sem mest en loftið í London hefur lagast mjög mikið síðustu árin af því að búið er að hefta umferðina mikið um miðbæinn (fólk á einkabílum þarf að borga um 700 krónur íslenskar til að keyra inn í London). Maður er hættur að finna þessa miklu mengunarlykt sem maður fann fyrir svona 5 árum (nema ég sé bara orðin vanari henni, gæti verið). En já þetta smog dæmi er að ganga frá þeim sem eiga erfitt, aumingja rónarnir að kafna. Það dóu 800 manns í hitabylgjunni 2003 og talið er að mörg þúsund manns hafi lent illa í því og orðið veikt. Það er ógeðslegt að sjá myndir af þessu fyrirbæri því London liggur bara í gulri súpu og það sést varla í byggingar. Ég finn ekkert fyrir þessu en tók eftir því áðan þegar ég labbaði úti að ég hnerraði stanslaust í 10 mínútur og ég gat beinlínis tuggið loftið (líka mjög rakt akkúrat núna, spáð þrumuveðri). Ekkert grín sko og ég er ekki með nein ofnæmi né asthma og ekki neitt. Oj bara. Hlakka ekkert smá til að anda að mér hreina loftinu á Laugaveginum. Það er reyndar spáð aðeins kólnandi núna næstu viku eða 23-26 stiga hita. Það er þó strax skárra en 30 stig. Ég hlýt að vera komin í rosa góða æfingu fyrir Afríku? Svo lengi sem ég get verið í skugga, með sólgleraugu, sólhatt, sólarvörn, léttum buxum, bol og með eitthvað kalt að drekka. Er reyndar mjög sátt við svona 25 stiga hita og skugga, það er fínt hitastig.
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It