Tími til að blogga

Jæja, þá er maður kominn á Skerið eina ferðina enn. Það er rigning sem kemur svo sem ekki á óvart. Það var reyndar ótrúlegt veður í gær, sól, logn og um 15 stiga hiti. Mér fannst eins og ég væri í London því það er ekki oft sem maður fær ekki á sig nístingsnorðangadd þegar maður gengur yfir Lækjargötuna. Það var hreinlega logn! Veðrið í London er svo sem ekki búið að vera upp á marga fiska, rok og rigning á laugardag og farið að kólna þ.e. um 20 stig.

En nóg af veðurfréttum. Það er svo sem ekkert í gangi (og þá talar maður um veðrið ekki satt). Við erum að plana gönguna í Skotlandi, Jóhannes ætlar að reyna að kaupa tjald í dag og svo þarf ég að skipuleggja mat fyrir gönguna. Það er heilmikið skipulag því það þarf að sameina það sem er létt, próteinríkt, næringarríkt (holl fita og flókin kolvetni) og auðvitað bragðgott.

Við tökum auðvitað orkubita og próteinbari einhvers konar, helst heimatilbúna, útilegunúðlurnar verða sennilega á boðstólum og svo ætla ég að taka kúskús líka. Kúskús er sniðugt því það er létt, dregur í sig vökva og margfaldast því að þyngd og svo er það gott sem grunnur fyrir alls kyns sniðuga rétti. Það væri gott að útbúa kúskúsrétt í kvöldmat og svo er hægt að búa til eftirrétt með kanil, kúskús, þurrkuðum eplum og rúsínum. Ég prófaði um daginn að þurrka epli í ofninum og það tókst svona glimrandi vel og væri fínt með bæði muesli og haframjöli. Hafragrautur er reyndar mjög sniðugur líka en Jóhannes vill bara kalt haframjöl, ekki heitt :(

Talandi um mat. Mér verður oft tíðrætt um þessar blessuðu flugferðir mínar til Íslands sem eru nú orðnar um 16 að tölu síðan 2004. Ég held að ég geti fullyrt að maturinn sem við fengum með British Airways frá London til Kaupmannahafnar um daginn hafi jafnvel náð að toppa Flugleiðir í ógeði. Þeir buðu upp á samloku með sultu og rjómaosti fyrir grænmetisætur. Samlokan var óæt, brauðið var þurrt, sykursultan var viðbjóðsleg og osturinn svo klígjulegur að ég gat varla kyngt honum. Ég tók einn bita. Það skemmtilega var að eftirréttur fylgdi. Innihaldið var rautt hlaup með berjum inn í og eitthvað hvítt, fljótandi ofan á. Þetta hét einhverju fínu nafni (rasperry compote) eða álíka. Á dósinni var innihaldslýsing. Ég hef sjaldan séð jafnmörg E-númer á einni lítilli dós. Við töldum um 20 E-efni og einhver önnur viðbjóðsefni til viðbótar. Það eina sem var náttúrulegt voru berin sem voru langt frá því sínu besta. Þetta var skemmtileg lesning he he og ég var svo ánægð að vera meðvituð um þetta allt saman. Ég held svei mér þá að Flugleiðir geti ekki toppað þetta.

Annars er ekkert markvert í gangi nema ég selebpottaði áðan. Ég sá Marisu Tomei leikkonu á gangi hér í bænum.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It