Auka- og sumarvinnur

Samstarfsfólk og kunningjar hér í Bretlandi hefur oft orð á því að maður hljóti að hafa gert lítið annað en að vinna um ævina, sérstaklega þegar maður var yngri. Jóhannes er spurður að þessu líka. Fólk hváir við þegar maður segir: "já þegar maður var yngri þá afgreiddi maður í búð" og "þegar maður var yngri þá smurði maður nú samlokur með skóla" o.s.frv. Fólk hváir við því það þykir mjög furðulegt að hafa verið í vinnu með skóla svona almennt og hvað þá að hafa unnið öll sumur. Það þekkist ekki hér. Ég fór að rifja upp með Jóhannesi við hvað ég og hann höfum unnið um ævina (listinn hans Jóhannesar er svipaður með nokkrum undantekningum).

Ég hef m.a. unnið við:

  • Barnapössun, bæði sumarlangt og öðru hvoru þegar þurfti (leiðinlegasta starfið af þeim öllum).
  • Handlang og smíði (skafa timbur, mála, naglhreinsa).
  • Að selja rækjur og harðfisk, gekk í hús í marga mánuði og ég og Smári bróðir vorum söluhæst og mokuðum inn peningum.
  • Að bera út Dagblaðið í nokkur ár, var stór hringur og maður var drulluþreyttur.
  • Aðstoð í reiðskóla á yngri árum, fleiri sumur en ég get talið.
  • Reiðkennslu, tamningar og þjálfun erlendis (2 sumur).
  • Reiðkennslu á Íslandi, sumarlangt (við Jóhannes rákum reiðskóla fyrir hestamannafélag, var ógó gaman).
  • Tamningar og hirðingar á hestabýli úti á landi sumarlangt.
  • Vaska upp á fínum veitingastað sem var aukavinna með annari vinnu.
  • Þrif í heimahúsi (næstleiðinlegasta vinnan mín, sérstaklega þegar ábúendur bjuggu í 300 fm húsi og voru 5 karlmenn sem pissuðu allir út fyrir klósettskálina).
  • Að smyrja samlokur í heilt ár og 7 ár eftir það með skóla.
  • Að afgreiða í matvöruverslun (þriðja leiðinlegasta vinnan, ekki vinnan sem slík heldur umhverfið og yfirmenn).
  • Að afgreiða í barnafataverslun (nokkur sumur og með skóla á veturna).
Jóhannes er eins og áður sagði með svipaðan lista mínus nokkur atriði en hann er með unglingavinnuna, söðlasmíði og símsölu, bankastörf, o.fl. á sínum lista sem 'auka- eða sumarvinnur'.

Þetta er engan veginn óvenjulegt miðað við Ísland og íslenska krakka í þá daga en ég veit ekki hvernig þetta er núna, í okkar daga var lítið af innfluttu vinnuafli sem vildi vinna mikið fyrir lítinn pening en ég veit ekki, kannski er þetta alveg eins. Þetta gerir manni bara gott. Við unnum alla þá daga sem við gátum, jólafrí, sumarfrí, páskafrí og önnur frí. Við áttum alltaf pening, gátum borgað allt okkar nám án námslána (einnig erlendis, bæði með Mastersgráður), gátum borgað okkar áhugamál (hestamennskuna), bíl, bensín, skólagjöld, skólabækur o.s.frv. án aðstoðar. Það hjálpaði reyndar að við drukkum hvorki né reyktum. Maður lærði að spara og safna, leggja til hliðar fyrir því sem mann langaði í og ég hef aldrei notað visakortið nema til þess að spara (spariskírteini ríkisjóðs) utan einu sinni sem ég notaði það í raðgreiðslur og mér leið illa í 24 mánuði.

Ég fór líka að hugsa þetta því þegar við vorum að labba heim úr leikhúsinu í gær (við Jóhannes sáum sko Pam Ann í gær, nánar um það á blogginu hans Jóhannesar) þá gengum við fram á 4 lögregluþjóna sem voru að leita að þýfi eða dópi á einhverjum smástrákum sem sýndu engin svipbrigði og var líklega sléttsama um allt og alla. Þetta hefur sennilega verið þeirra auka- eða sumarvinna. Held að væri nær að láta þessa pottorma reita svolítinn arfa.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

hrundski
19. ágú. 2006

Ég myndi láta þá týna rusl - þeir hefðu þá sko meira en nóg að gera.