Jæja

Það er orðið allt of langt síðan síðast. Svona er þetta þegar maður er netlaus, uppi á fjöllum og í fríi, þá vill allt skolast til.

Vikan hér í fríinu með Jóhannesi var mjög ljúf, við fórum í 2 mini göngur, eina við Köldukvísl á Hellisheiði og hin gangan var Síldarmannagöturnar á Botnsheiði í Hvalfirði. Mjög skemmtilegt. Hnéð var til friðs enda var ég með göngustafi í góðum skóm og við fórum hægt. Ég meiði mig meira af því að labba niður Laugaveginn í Reykjavík og keyra beinskiptan bíl. Ég er sem sagt best geymd upp á fjöllum bara. Það var ágætis veður en rigndi einhverja daga. Það var allt í lagi, við vorum vel gölluð og höfðum það bara kósí. Ég eldaði hollan útivistarmat (ekki keyptan, tilbúin pakkamat) með heilhveitinúðlum og hollri pakkasúpu. Það var frábært því mér er svo illa við að borða þetta ógeð sem selt er í útivistarbúðum. Jóhannesi datt þetta í hug og þetta var frábær hugmynd hjá honum.

Við stóðum annars í viðskiptum upp á fjöllum, keyptum okkur íbúð svona mitt á milli dala og hæða. Gullfalleg íbúð í miðbæ Reykjavíkur sem við fáum afhenta í desember. Þorláksmessukaffið verður því líklega haldið eins og venja er :) Mig langar dáldið að bæta við sushi í þetta Þorláksmessukaffi en við sjáum til hvernig tíminn vinnst. Annars er ekkert víst að við verðum heima um jólin, aldrei að vita hvað okkur dettur í hug. Þýðir þetta að við ætlum að flytja heim í desember? Veit ekki sko, erum ekkert búin að ákveða. Mig langar að vinna á Íslandi (og þyrfti að búa hér vegna vinnunnar) en langar að búa í London en Jóhannes er í frábærri vinnu hjá Disney og erfitt að fara frá henni. Kannski að maður búi á 2 stöðum. Það er samt leiðinlegt að vera aðskilin svona lengi, mér finnst 1 vika í mánuði alveg nóg :(

Vorum annars að fá skemmtilega 'sumarvinnu' næsta sumar (reyndar bara í viku eða 10 daga). Tengdó bað okkur um að gæda með sér í hestaferð yfir Kjöl næsta sumar með 12 Þjóðverja. Það verður ógó gaman. Ég hef farið Fjallabak Nyrðri og Syðri á hestbaki en ekki farið Kjöl áður. Hlakka til.

Annars er ég bara bjartsýn fyrir Skotlandsgönguna (við skötuhjúin erum að stefna að 3ja daga göngu í Skotlandi), svo lengi sem ég fer varlega og labba ekki of langt með of þungan poka þá ætti ég að vera góð.

Nóg framundan sem sagt! Vildi bara að það væru fleiri klukkutímar í sólarhringnum, það væri gaman.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It