Vin í eyðimörkinni

Neal’s Yard í Covent Garden (London) er eins og vin í eyðimörkinni. Alger perla. Við höfum ekki aulast þangað fyrr (svona almennilega) nema Jóhannes fann veitingastað sem honum fannst spennandi á einu röltinu sínu og hann ákvað að fara með okkur þangað síðasta laugardag. Þetta er sem sé staðurinn World Food Cafe , afar góður staður, látlaus en fjölbreyttur með grænmetisrétti frá öllum heimsins hornum. Veitingastaðurinn og eldhúsið, uppvaskið og allt heila klabbið er allt í einu herbergi svo þetta er svolítið eins og að sitja heima í stofu hjá einhverjum. Plaststólarnir eru nú ekkert æðislega skemmtilegir og hópur af indverskum gelgjum var að gera okkur gráhærð úr hávaða og látum en það skipti engu máli, maturinn var mjög fínn bara. Hummusinn minn er samt betri þó ég segi sjálf frá he he. Eina vandamálið var....þeir eru með uppskriftabók sko.... Ég verð að kaupa hana. Hún fellur í flokkinn: “Algerlega sérstök og gorgeous OG hefur fleiri en 3 girnilegar uppskriftir“ (sjá reglur um uppskriftabókakaup hér fyrir neðan) svo ég er búin að réttlæta kaupin. Svo er framhaldsbók en ég sé til hvort ég kaupi hana.

Við vorum nú orðin vel södd en álpuðumst samt inn á Neal’s Yard Salad Bar. Úff. Þar borðuðum við á okkur gat. Við keyptum okkur kökusneið og mangóís (allir eftirréttirnir eru með ávaxtasykri). Maturinn sem var á boðstólum var ótrúlega girnilegur og það sem við smökkuðum var gott. Við ætlum að kíkja næstu helgi og prófa staðinn almennilega.

Það er eiginlega fáránlegt að við höfum ekki farið oftar í Neal’s Yard. Fyrir þá sem ekki þekkja staðinn er ekkert endilega auðvelt að finna hann því hann er falinn inn á milli bygginga og portið er umkringt húsum (Yard þýðir port eða garður). Umhverfið er alfriðað enda eru húsin gömul og falleg og voða litrík líka. Þetta er alger vin í eyðimörkinni, þarna kemst maður burt úr skarkala London og inn í friðsælt afdrep með góðum mat. Það er skylda fyrir alla ferðamenn að prófa, sérstaklega þá sem finnst hollur grænmetismatur góður!

Talandi um vin í eyðimörk. Við fórum í göngutúr upp í Primrose Hill í gærsem er dásamlegur staður, sérstaklega þegar maður labbar í gegnum Regents Park. Það var 31 stigs hiti og er spáð svona hita út alla vikuna þ.e. frá 27 og upp í 32ja stiga hita. Það er ekki ónýtt að sitja í skugganum af stóru tréi, horfa yfir London og borða ferska ávexti. Það er reyndar allt að skrælna hér, grasið er orðið að dufti og trén farin að missa laufin. Þið mættuð senda smá af íslensku rigningunni yfir og ég skal senda smá sól yfir.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It