Læknir nr. 4 (eiginlega nr. 10)

Jæja, ég fór til læknis í síðustu viku og fyrir þá sem deyja ekki úr leiðindum við að lesa sjúkrasögur þá mega þeir lesa áfram.

Þetta var sem sagt læknir nr. 4 sem ég hitti síðan eftir aðgerðina á hnénu. Eiginlega er þetta læknir nr. 10 (með 1 íslenskum lækni inn í því) sem ég hitti síðan fyrir tæpu ári. Það gerir um 1 nýjan lækni á mánuði (og ekki af því að ég leita til nýrra lækna, svona virkar kerfið hér bara). Ég held einhvern veginn að það hjálpi ekki til sko varðandi bata og annað.

En allavega. Eftir 6 vikna algera hvíld samkvæmt læknisráði fór ég í endurkomu. Á móti mér tók kvenlæknir sem hefur líklega verið frá Tyrklandi eða Úrugvæ en hún talaði reyndar varla neina ensku og það litla sem hún sagði var svo bjagað að ég átti í erfiðleikum. Heimsóknin var svona: (* táknar lækninn)

*Halló. Er þér illt?

Já eiginlega, mér hefur ekkert batnað í 6 vikur og er verri ef eitthvað er. Ég er verulega þreytt á þessu.

*Viltu sprautu?

Ööööö sprautu? Til hvers? Hvernig sprautu?

*Bara sprauta sem lagar. Viltu hana? (það voru ekki neinar aðrar útskýringar).

Ég þarf að vita aðeins meira held ég um þessa sprautu og hvað hún gerir og þess háttar?

*Hún eyðir bólgu og þér batnar. Viltu sprautuna?

Hmmm já ef þú heldur að hún lagi eitthvað sko þá er það kannski sniðugt en það segir mér samt ekkert hvers vegna mér er illt eða hvernig það lagar og gerir það ekki illt verra með því að bæla raunverulega vandann? Geturðu útskýrt aðeins nánar fyrir mér þetta  mál? Mér er til dæmis illt frá rist upp í bak, hvers vegna er það?

*Þú labbar skringilega (You walk funny)!

Labba ég skringilega?

*Já því þér er illt, þess vegna labbarðu skringilega.

Já eiiiiiinmitt......hmmm en það segir mér ekkert af hverju mér er illt í fyrsta lagi. Ég þarf nánari útskýringu á því.

*(Handapat), sko...hnéð.... svona....og vont utan um....hnéskelin er skrýtin.. Æi.... (skrifar á blað)...þú getur flett upp á Netinu bara.

?????? Á netinu?

*Já það er alveg hægt að finna nánar um þetta þar. Það er sko allt hægt að finna á Netinu

(REALLY)

*Ég sprauta núna og svo kemurðu eftir 4 mánuði.

Dugar sprautan í 4 mánuði?

*Já eða þangað til þér verður illt aftur.

Sem verður hvenær?

*Veitiggi....þegar sprautan hættir að virka bara

Ég get ekki sagt að mér hafi liðið vel þegar hún dró upp risa nál og stakk mig. Það var sárt, sérstaklega þegar hún sprautaði vökvanum inn í og ég labba út frá lækninum stokkbólgin en bjartsýn á að þetta ætti eftir að hjálpa mér (hvað gat ég annað gert).

Það hjálpaði ekki tiltrú minni gagnvart þessari konu að um leið og ég labbaði út, kom hún hlaupandi með dagblað og flissaði eins og 13 ára gelgja. Hún benti stelpunum í móttökunni á einhvern fyndinn brandara sem var rosa dónalegur og svo flissaði hún meira. Þeir sem hafa séð Green Wing þættina þá er hún alveg eins og Sue White, 'Staff Liason' sem haaaaaaatar allt og alla í kringum sig. Sérstaklega furðuleg týpa.

Síðan er liðin vika og ég er verri ef eitthvað er. Ég fór reyndar í ræktina í morgun og hjólaði í 5 mínútur, í fyrsta skipti í 3 mánuði og það er eins og ég hafi verið slegin í hnéð og það er eins og ég sé með þrefalt teygjubindi vafið utan um það, ég get ekki einu sinni beygt það. Arrrrghhhhhhhhhh.

Hvað næst spyr ég bara :( Reyndar fer ég í MRI skann í lok ágúst, það er aldrei að vita hvað kemur út úr því. Það verður líklega læknir nr. 123 eða 124 sem fær það til meðferðar. 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sólveig S. Finnsdottir
08. júl. 2006

hæ þu veist að heima er best !!!!!!!!

kv mamma