Af góðviðri og Hari Krishna mat

Síðasta helgi var nú ekki viðburðarrík en samt sem áður afar, afar fín. Það var um 30 stiga hiti, sól og smá gola sem sagt frábært veður. Við röltum helling, fórum t.d. á Portabello, allt of langt síðan við fórum síðast. Á Portabello er alltaf jafn gaman og þar er líka uppáhaldsbúðin mín í öllum heiminum "Books for Cooks". Ég hef ekki mikla þolinmæði í búðum yfirleitt en í þessari búð gæti ég búið í marga mánuði. Þetta er pinkulítil búð (og kaffihús) og bækurnar ná frá gólfi og upp í loft. Það er hægt að finna allar uppskriftabækur frá öllum heimshornum og eftir öllum dyntum sem fólki gæti dottið í hug. Þar er meira að segja að finna "Cool Cuisine" eftir Nönnu Rögnvalds (held hún heiti það). Var meira að segja við kassann á áberandi stað. Ég keypti mér auðvitað bók og hún heitir Super Soya. Mjög fín. Ég á orðið allt, allt of margar uppskriftabækur og er alltaf að setja sjálfa mig í "bann" en það virkar aldrei. Ég fletti uppskriftabók og sé einhverja góða uppskrift og um mig fer fiðringur (svona vægara dæmi af spilafíkli sem sér spilakassa eða áfengissjúkling sem sér vínflösku). Ég verð æst inn í mér og lofa mér að ég ætla bara að skoða bókina, ekkert meir. Svo stend ég mig að því að vera búin að raða bókum í bókabúð í kringum mig í 3 bunka: 1. Bækur sem mig langar ekki í eða á (sem gerist dáldið oft þ.e. seinni hlutinn), 2. Bækur sem mig langar í en ætla ekki að kaupa, 3. Bækur sem mig langar í og ætla að kaupa (með samviskubiti). Málið er að ég á orðið um 100 matreiðslubækur sem ég hef keypt síðan ég flutti út aftur í janúar 2005. Ég á um 200 heima í kassa sem ég sakna á hverjum degi þó ég hafi tekið mínar kærustu bækur út með mér. Ég veit að ég er farin að kaupa einhverjar 2var... Ég setti sjálfa mig í uppskriftabókakaupabann fyrir jólin og ætlaði að vera mjög, mjög ströng en keypti samt 7 bækur *roðn*. Ok nú hætti ég....þangað til næst.

En já helgin var ægilega fín. Við keyptum okkur æðislegan mat á föstudagksvöldinu á Govinda's, Hari Krishna staðnum. Alveg magnaður matur og ofsalega gaman að smakka. Hrææææódýrt og jafn gott og það er ódýrt. Yfirleitt er hlutfallið ekki svona á gæðum mats og verðlagi í London en þetta er nú samt svona þarna. Maður velur úr matnum í borðinu og á endanum sagði ég við stelpuna bara að velja eitthvað fyrir mig því þetta leit allt svo girnilega út og ég gat ekkert valið úr. Við fengum okkur hrísgrjón (brún) og alls kyns grænmetis- og baunakássur,  ásamt sallatsósum og einhverju fleiru allt hverju öðru betra. Allt í kringum mann eru skrýtnir menn í appelsínugulum eða bleikum eða hvítum mussum, með nauðarakaðan koll og fléttu á miðjum hausnum. Ég er að spá í að gerast Hari Krishna því ég held að þeir fái ókeypis að borða á staðnum. Leyfa þeir konur?

Á laugardagskvöldinu keyptum við svo mat í heilsubúðinni fínu, Fresh and Wild, æðislega gott. Við sátum í Soho Square garðinum og létum sólina skína á okkur á meðan við hlustuðum á dúndrandi danstónlist og borðuðum kvöldmat inn um lífsglatt fólk sem var að fá sér að borða í garðinum eða að sötra kampavín, bjór, rauðvín o.fl. Það hafði einhver pöbbinn ákveðið að færa hátalarana út og blasta þá í botn....þetta var svona mini-danshátíð því fólk var á fullu að dansa, bert að ofan eins og á ströndinni bara. Mergjað.

Ég var ekki að öfunda ykkur heima í rigningunni, það er nokkuð ljóst. Jóhannes langaði samt í pylsu og pönnsur með rjóma.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It