Bankamál
Bankamál í Bretlandi eru óheyrilega fyndin og flókin. (Það tekur marga, marga mánuði í fyrsta lagi að fá bankareikning en til þess þarf maður íbúð. Til að fá íbúð þarf maður vinnu. Til að fá vinnu þarf maður bankareikning og svo mætti endalaust telja áfram). Maður getur þurft að bíða í 3 mánuði eftir debetkorti. Það er ekki hægt að skipta gjaldeyri í banka nema að vera með bankareikning. Það er ekki hægt að skipta bankaávísun á sínu nafni nema að vera með bankareikning, þó maður sé með passa. Til að taka út meira en 1000 pund af reikningnum sínum þarf maður passa.
Ég tek ofan af fyrir svindlurum sem ná að hala inn peninga með alls konar brögðum í gegnum bankana. Þeir hljóta að vera fluggáfaðir og ótrúlega klárir. Ég keypti á netinu í morgun fyrir 400 pund (flugferð) sem er frekar mikið fyrir eina færslu svo sem þar sem yfirleitt er ég ekki að nota það í dýra hluti. Ég notaði debetkortið mitt. Ég fór í búð í hádeginu og þar var kortið mitt stoppað og afgreiðsludaman þurfti að hringja í bankann til að spyrja hvort að kortið mitt mætti fara í gegn. Konan í bankanum talaði heillengi við afgreiðslukonuna, bað svo um nafnið mitt (tók heila eilífð að stafa það) og bað að því loknu um að fá að tala við mig. Hún spurði mig alls konar asnalegra spurninga eins og t.d. hvar ég hefði notað kortið mitt í júní á síðasta ári (hver í rassi man það eiginlega?). Ég sagði samt UK og Ísland líklega. Þá spurði mig hún um götuheiti á Íslandi (WHY?). Ég tók erfiðustu götuheitin sem mér datt í hug þá sekúnduna og glotti við þegar ég sagði: "Bræðraborgarstígur" en það gæti líka verið "Skólavörðustígur", jafnvel "Bergstaðastræti". "Can you spell that" svaraði konan. Þá spurði hún mig hvar ég byggi í Bretlandi og að ég ætti að nefna götu í nágrenni við mig en ekki götuna sem ég byggi við. Bankakonan talaði svo aftur við afgreiðslukonuna sem hleypti kortinu loksins í gegn. Ok, svo er ég komin út, búin að fá mér kaffi og svoleiðis og þá er hringt í mig. Það er einhver önnur kona sem spyr mig alls konar öryggisspurninga þ.e. hvar ég hefði notað kortið mitt í morgun, hvort það hefði örugglega verið ég, hverjar færslurnar hefðu verði, hversu háar, svo þurfti ég að gefa upp leyniorð og ég veit ekki hvað.
Ok, heima á Íslandi hringir maður og biður um að láta hækka yfirdráttarheimild á debekorti og maður er bara spurður um kennitölu. Það er hægt að opna milljón bankareikninga ef maður er með kennitölu. Maður getur millifært heilu milljónirnar án þess að spyrja kóng né prest. Maður getur farið í bankann heima á Íslandi með útlent kort (geri þetta í hvert skipti sem ég er á Íslandi) og tekið út peninga og það er ekki einu tékkað á undirskrift. Í búðum er ALDREI litið á undirskrift. Í UK er maður með PIN númer sem maður þarf að slá inn þegar maður kaupir eitthvað.
Eins og ég segi.. ég dáist að þeim sem kunna að svindla. Þeir hljóta að vera gáfaðir.
Ummæli
19. jún. 2006
Sæl Sigrún, takk fyrir frábæra siðu! langaði að spurja að einu- þar sem þú borðar ekki hvítan sykur - en hvað með 70% og 86% súkkulaði??
19. jún. 2006
Sæl Helena
Ég nota stundum hreint súkkulaði en aldrei með viðbættum sykri. Ég nota súkkulaði með allt frá 40%-89% kakóinnihaldi. Ef það er ljóst súkkulaði er stundum notaður ávaxtasyku. Mér finnst alltaf best að nota dekkra súkkulaði þar sem það er enginn sykur, hvorki ávaxta né annar og maður þarf lítið af því þar sem það er bragðmikið. Einnig nota ég carob mikið, bæði dökkt og ljóst í föstu formi en einnig í dufti (eins og kakóduft). Ég kaupi alltaf lífrænt framleitt súkkulaði og carob.
Kveðja
Sigrún
19. jún. 2006
Takk fyrir svarið Sigrún - langði að spyrja að einu enn, hvar færðu sykurlaust 80% súkkulaði? Sjálf hef ég verið að kaupa 70 % og 86 % súkkulaði - bara í matvörubúð - þau innihalda sykur, en ekki mikinn / minna en í kornfleksi (synir hvað er mikill sykur í kornfleksi ;) ) ...
Kær kveðja Helena
20. jún. 2006
Ha ha já það er mikill sykur í kornfleksi, sérstaklega Special K sem er eiginlega bara nammi. Hmm ég man ekki alveg hvaða súkkulaði fæst í búðunum heima eða hvaða %hlutfall þau innihalda af kakói. Prófaðu heilsubúðirnar; Maður Lifandi, Yggdrasil og Heilsuhúsið. Ef er notaður Raw Cane Sugar þá er það þó betra en þetta venjulega súkkulaði frá íslenskum framleiðindum með hreinum sykri. Ef þú finnur ekkert án sykurs og þér finnst í lagi að nota sykur samt sem áður, keyptu þá Green & Blacks ef þú finnur það í heilsubúðum (lífrænt framleitt).
Ég kaupi alltaf 'Terence Stamp' súkkulaði í Bretlandi (80% minnir mig) og það er án sykurs, bara með ávaxtasykri. Ef þú finnur Terence Stamp þá mæli ég mest með því (lífrænt framleitt). Er samt ekki viss um að það fáist á Íslandi. Tékkaðu í heilsubúðunum!! Láttu mig vita hvernig gengur!
21. jún. 2006
Frábærar bankasögur. Ég upplifði nákvæmlega það sama þegar ég bjó í Hollandi á síðasta ári. Íslendingar eru frekar "chillaðir" á þessu, enn sem komið er amk.
Kveðja, Alma :)