Hollustupælingar

Ég lenti í smá umræðum í gær á vinnustaðnum hérna úti. Svo sem ekki óeðlilegt þar sem hér vinna 14 manns. Inni á skrifstofunni minni (sem ég deili með yfirmanni mínum) var einn sem vinnur hér að spyrja hvað ég væri eiginlega að borða. Ég sagði honum að ég væri að borða lífrænt framleiddan döðlu/carob orkukubb án sykurs, aukaefna, eitthvað sem væri voða hollt. Hann horfði skringilega á mig. Hann vissi ekkert hvað hann átti að segja. Það er mjög óalgengt fyrir hann að verða orðlaus, hann hefur góðan orðaforða og notar munninn töluvert allan daginn :)

Hann spurði mig:

"Afhverju borðarðu ekki bara Twix". Ég spurði hann til baka "Hvað er Twix". Aftur kom þögn. "Það er svona súkkulaði" sagði hann. "ha ha já svoleiðis" sagði ég. "Ég borða ekki súkkulaði". Þá kom ha og hum og afhverju og allar spurningarnar sem því fylgja. Ég sagði honum sem sagt að ég hefði ekki borðað hvítan sykur í 20 ár. Með vorkunn- og furðusvip spurði hann: "En kökur", "Nei", "En ís", "Nei", "En eftirrétti á veitingastöðum", "Nei", "En gosdrykki", "Nei" o.s.frv., o.s.frv. Það fyndna var að hann stoppaði hér og þagði í langan tíma. Ég veit að þennan tíma var hann að nota til að finna EINHVERJA holu í því sem ég var að segja, reyna að finna eitthvað tilvik þar sem ég hefði verið með tyggjó, nammi, köku, gosdrykk, safa með sykri, kex o.s.frv. Hann fann það sem sagt ekki. Þetta er náungi sem hefur afar gaman af því að rökræða, er fluggáfaður og eins ég segi, er alltaf með munninn fyrir neðan nefið. Þetta er náungi sem hefur gaman af því að vera ósammála bara af því honum finnst það gaman. Honum finnst t.d. endalaust gaman að gera grín að fólki sem spáir í endurvinnslu, lífræna framleiðslu o.s.frv sem honum finnst hið mesta bull. Ég kalla það reyndar leti, hroka og ábyrgðarleysi.

"En fyrir hvað lifirðu?" spurði hann eftir langa, langa þögn. Ég gat nú ekki annað en hlegið að honum.

Þess ber að geta að þessi maður er 24ja ára. Hann hefur búið einn (leigt með öðrum) frá því hann var 18 ára. Hann hefur á öllum þessum tíma ekki átt disk eða hnífapör úr öðru en pappa eða plasti. Hann á ekki matardisk, hann þarf ekki eldhús, annað en vask og örbylgjuofn og hans matarinnkaup einskorðast við pakkaðan mat í verslunum (tilbúna rétti). Hann kaupir sér skyndibitamat á hverjum degi í hádegismat. Hann hreyfir sig aldrei, hann er allt of þungur, hann getur ekki gengið upp stiga án þess að drepast úr mæði, líklega með of háan blóðþrýsting miðað við rauðu kinnarnar og svo mætti lengi telja. Hann segir að lífið sé "...tilgangslaust án MSG, fitu, salts, kjöts og sykurs...." Gott og vel sagði ég við hann en líklega munt þú lifa til um 45 en sennilega deyja úr hjartaáfalli um það leyti. Honum var sko alveg sama.

Ef ég gæti látið hann borða einhverja af hollu kökunum mínum og ef honum fyndist einhver þeirra góð, þá væri það þvílíkur sigur að heimsyfirráð CafeSigrun væri vís. Það er verkefni næstu mánaða!! Mér skal takast það. Ég mun prófa að láta hann borða eitthvað gott og girnilegt.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sólveig S. Finnsdottir
15. jún. 2006

HÆ gefðu manninum eitthvað sem þu gerir t d orkustöng eða ég tala nu ekki um gulrótarköku bara eina sneið kv m