Blá og marin eftir flugferðina

Ég komst loksins heim til Íslands eftir 2ja tíma seinkun hjá Flugleiðum. Til viðbótar við fasta klukkutíma 'Flugleiðaseinkun' þá bættist við annar klukkutími. Við fengum 10 pund á flugvellinum, upp í eitthvað að borða svo það var allt í lagi nema þegar aðrir eru að sækja mann (glatað þegar fólk þarf að mæta í vinnu) og maður þarf að vakna eldsnemma til að halda fyrirlestur. Þá er maður myglaður.....eins og ég var í morgun. Flugleiðaliðið hefur kannski tekið til greina kvartanir mínar og Jóhannesar síðasta sumar þegar við skrifuðum langt og sjóðandi bréf þegar við biðum 6 tíma á flugvellinum og fengum aðeins barbiestærð af djús og barbiestærð af kexköku að borða. Það var enginn matur því 'það voru allir farnir heim'. Really......skrítið?

Flugferðin gekk annars vel fyrir utan eitt mál. Ég er enn þá að reyna að skilja hvernig ég gat fengið um 86 olnbogaskot í mig frá næsta farþega á tæpum 3 tímum. Það eru tæp 30 olnbogaskot á klukkutíma, 1 á 2ja mínútna fresti að meðaltali. Þessi farþegi var um 100 ára, kona (allavega um 80 ára..hvað var hún eiginlega að þvælast í London?). Hún var ekki kyrr EINA mínútu af fluginu. Hún hallaði sér að mínu sæti þannig að í hvert skipti sem hún hreyfði sig þá voru handleggirnir á henni (beittir, mjóir, gamlir olnbogar) í andlitinu á mér. Gamla kellingin var búin að kaupa sér fína tösku og sturtaði 3var sinnum úr henni til að raða öllu ofan í aftur....missti heila klabbið í gólfið líka og ég þurfti að halda utan um hnéð (auma hnéð) svo hún gerði ekki árás á það líka. Sköflungurinn varð þó fyrir hennar beittu vopnum. Svo þurfti hún að pakka niður saltinu, piparnum, sykrinum, tannstönglinum, plastskeiðinni og þurrkunni....ofan í töskuna sína. Hún týndi líka smápeningana úr töskunni 3var sinnum en endaði á því að pakka bresku peningunum í klósettpappír (hún gaf ekki í Vildarbarnaumslagið takið eftir) og stinga ofan í töskuna sína.

Ég fékk olnbogaskot í rifbeinin, magann (já magann), í hnéð, sköflunginn og einu sinni lagðist konan með hægri olnbogann OFAN í vinstra lærið á mér þannig að ég kveinkaði mér. Ekki EINU sinni sagði kerlingartuðran fyrirgefðu eða afsakið (ég þoli ekki Íslendinga...þeir eru SVO ókurteisir og það þarf SVO að kenna þeim mannasiði). Ég gat ekki borðað matinn eða drukkið teið mitt þar sem handleggurinn á henni var yfir matnum mínum og ég hefði þurft að tyggja lopapeysuna hennar með. Ég gat ekki haldið matnum upp að mér þar sem hún hefði sturtað úr matnum mínum yfir mig. Ég reyndi að halla mér og lúra aðeins en nei hún vakti mig með því að bora öxlinni og olnboganum í mig.  Það var sárt meira að segja í gegnum flísteppið.

Ég var orðin fokvond. Ég bað hana einu sinni um að færa sig þar sem ég gæti ekki lesið bókina mína en hún tuttaði bara eitthvað og sagði að þetta unga fólk þyrfti alltof mikið pláss. HALLÓ??????

Yfirleitt gnísti ég tönnum ef krakkar sparka í bakið á sætinu mínu, ég hreinlega ÞOLI ekki spörk í bakið (eða ef fullorðnir hreyfa sig endalaust og sparka í sætið) og verð stundum fúl og segi foreldrunum að hafa hemil á krógunum (eða sjálfum sér) en þá er ég orðin mega pirruð og þarf mikið til reyndar. Mér er sama um grátandi smábörn því það er lítið hægt að gera við þeim og þau koma hvergi við mann (engin spörk) en sparkandi börnum á að vera hægt að hafa hemil á..jafnvel tjóðra þau niður ef út í það er farið he he.

Ég kvarta yfirleitt ekki mikið í flugi (nema yfir ógeðsmat) og sérstaklega ekki varðandi plássleysi því ég bið yfirleitt um að vera ekki við neyðarútgang því mér finnst of mikið pláss he he, finnst gott að vera svona lokuð af eins og maður er í venjulegum Flugleiðasætum en ef svona kerling sest aftur við hliðina á mér.... þá fer ég að skylmast við hana...með olnboganum.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It