Vatnið góða
Við fengum bréf í gær, frá vatnsveitunni (Thames Water) sent heim þar sem íbúar London eru beðnir um að spara vatnið eins og þeir mögulega geta. Það er svokallað "draught" ástand eða viðvarandi þurrkar og hefur ástandið ekki verið jafn alvarlegt í 15 ár. Það stefnir í að verða enn alvarlegra ef ekkert verður að gert. Það eru ótrúlegustu hlutir sem maður notar vatn í og þykir sjálfsagt. Fólk notar vatn til að þvo bíla, vökva garðinn, fylla heita potta og sundlaugar, þvo hundinn sinn og ég veit ekki hvað. Flest af þessu er nú bannað og þarf jafnvel að fá sérstakt leyfi til að vökva skrúðgarða og fótboltavellli ef fer sem horfir. Það þarf að rigna ansi mikið til að jafnvægi komist á. Reyndar viðurkennir Thames Valley að margar leiðslurnar þeirri leki og um 3000 mílur af vatnsrörum eru 150 ára gamlar, úr járni og ekki skrýtið að þær séu orðnar ónýtar. Þetta er þó verið að laga smátt og smátt.
Það er gott að fólk er minnt á að vatn er ekki endalaust. Einhvern tímann verður háð stríð út af vatni víðsvegar um heiminn. Það verður barist um þennan lúxus sem við Íslendingar erum svo heppin að eiga. Við eigum hreint og gott vatn og það fer alveg óendanlega, óþolandi mikið í taugarnar á mér þegar fólk spreðar vatni hvort sem það er á Íslandi eða annars staðar. Það ER ekki nóg af vatni til (t.d. má kenna loftslagsbreytingum þar um) og þó að það væri nóg af því þá á maður að nota það af virðingu eins og maður á að gera við alla náttúruna. Ég SKIL ekki fólk sem skilur slöngur eftir í gangi á bílaplönum, ég skil ekki fólk sem burstar tennurnar og lætur vatnið renna á meðan (er eitthvað heimskulegra?) eða notar bað í staðinn fyrir sturtu dag eftir dag (sumir hafa í alvörunni tíma til þess he he).
Ég er hörð á því að það þarf að kenna börnum (og fullorðnum líka auðvitað) að koma þurfi fram við náttúruna af virðingu, að við séum með jörðina að láni (eins og leigjendur) og að okkur beri að skila henni í sama (en helst betra) ástandi en við tókum við henni. Ég skil ekki fólk sem á börn og endurvinnur ekki dósir, gler, pappír o.fl. Bara skil það ekki. Börnin taka við af foreldrunum og af hverju ættu foreldrar að skilja við eitthvað til barnanna sinna í slæmu ásigkomulagi?
Það má líka fara milliveginn í öllu og í það minnsta sýna viðleitni. Ég nota t.d. bíl á Íslandi, ég hef ekki tíma til að nota reiðhjól þó ég vildi það gjarnan. Í London labba ég allt eða nota almenningssamgöngur. Ég endurvinn allt og spara vatnið eins og ég get. Ég reyni að kaupa ávexti og grænmeti sem hefur verið ræktað innanlands og notar ekki aukaefni. Þannig er ég allavega að reyna að sýna viðleitni og þá veit ég að ég sem leigjandi þarf ekki að skammast mín fyrir umgengnina.
Ummæli
17. maí. 2006
HEYR HEYR!!
Vel sagt. Ég þoli heldur ekki þegar fólk lætur vatnið renna hrmfffff.
Ég er að stelast til að vökva kryddjurtirnar mínar eldsnemma á morgnana vona að nágrannarnir hringi ekki í lögguna - SW London á að verða verst úti í þessum vatnsskorti :I
17. maí. 2006
sammmmmála, amen.