Komin á Klakann

Jæja þá er ég komin á Klakann eina ferðina enn. Ég vaknaði í morgun og mundi ekkert hvar ég var, í hvaða heimsálfu, í hvaða landi, hvort var sumar eða vetur eða hvað. Ok veit að þetta hljómar dáldið eins og ég sé þvílíkur jetsettari en ég var bara eitthvað ringluð, það var allt og sumt. Ég áttaði mig nú samt á því að ég væri á Íslandi þegar ég fékk fyrsta kaffibollann minn hjá Röggu á Kaffitári nammi namm. Það fór ekkert á milli mála hvar ég var.

Ég hélt annars í gær að ég væri að verða eitthvað rugluð. Í flugvélinni í gær hafði ég pantað grænmetismat (þ.e. ef "mat" skyldi kalla) eins og alltaf. Ekki það að ég borði þennan viðbjóð (ég narta í brauðið kannski) heldur geri ég það vegna þess að flugfarið er andskoti nógu dýrt, ég flýg mánaðarlega eða oftar og þeir mega alveg hafa svolítið fyrir mér he he. Allavega. Það stenst nú alltaf að ég fái grænmetið og þegar það klikkar þá skiptir það svo sem engu en í gær var það verra en ekkert. Ég fæ bakkann í hendurnar og byrja að pikka í matinn og hræra í honum, pikka út gular maísbaunir til að narta í eins og ég geri stundum. Þá rek ég augun í langan kjötstrimil, líklega svínakjöt. Það hjálpaði ekki að ég var akkúrat á þeirri stundu að lesa lýsingarnar á því í Alive bókinni þegar þeir voru að skera fyrstu sneiðarnar af vinum sínum eftir flugslysið í Andesfjöllunum. Kjötið borðuðu þeir til að lifa af (þvílík hetjusaga). Þar sem ég dró út langa sneið af kjöti úr mat sem átti að vera úr grænmeti, varð mér dáldið óglatt. Ég ákvað að skila matnum og flugþjónninn var alveg miður sín og sagði að þetta ætti að vera pottþétt og að líklega væri þetta tofu. Þetta var ekki tofu. Tofu hefur t.d. ekki trefjar og er ekki lagsskipt eins og kjöt og það er hægt að brytja það með gaffli. Þetta var ekki strákgreyinu að kenna og hann gerði það sem hann gat og fór og náði í annan bakka. "Nú lítur þetta betur út, þetta er sko alveg pottþétt grænmeti". Hann var voða sætur að gera þetta og ég brosti bara. Ég opnaði bakkann og hrærði aðeins í innihaldinu og þá skutust upp kjötbitar (soldið eins og fingur). Ég lokaði bakkanum og beið þangað til ógleðin fór (var sko enn þá að lesa bókina og þeir voru að lýsa því að þeir væru farnir að grilla mannakjötið til að fá betra bragð) og borðaði svo bara ávextina sem ég hafði tekið með mér. Hefði getað valið mér heppilegri bók en mikið ofboðslega er hún góð, og vel skrifuð líka.

Annars hlakka ég til að fá Jóhannes hingað á föstudagskvöld, við ætlum að hitta marga og það verður nóg að gera.

 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It