Bloggið
Skapvonda heilsubeljan
En já ég borða að minnsta kosti á 2ja tíma fresti og stundum oftar. Ég borða ekki mikið í einu og borða mig aldrei pakksadda því mér finnst það óþægilegt. Ég fór allt í einu að velta fyrir mér hvað ef ég væri að vinna einhvers staðar þar sem ég MÆTTI ekki borða á vinnustaðnum? Sumir vinnustaðir leyfa hreinlega ekki mat við tölvurnar. Skil það svo sem þar sem ég þarf reglulega að losa lyklaborðið mitt af mylsnum og molum, þá hvolfi ég lyklaborðinu og myndarleg matarhrúga safnast upp á borðinu (ok ég ýki kannski aðeins). Skjárinn lendir dálítið í því líka, er iðulega með slettur og skvettur á sér og oftar en ekki þarf ég að kroppa eitthvað af tökkunum á lyklaborðinu.
Þegar ég fer á fundi út í bæ í London (vegalengdirnar eru nokkuð langar stundum) þá er ég alltaf með appelsínusafa, ávaxtastöng, hnetur, þurrkaða ávexti og jafnvel banana með mér. Ok ég er með fáránlega lágan blóðsykur en það hefur lagast heilmikið með því að borða svona lítið í einu og oft, heldur honum stöðugum. Ég lenti í því hér áður fyrr að vera nánast í dái einhver staðar þar sem ég gat ekki hreyft mig fyrr en ég fékk eitthvað að borða (gleymdi stundum að borða) og ég man eftir 2 skiptum sem Jóhannes kom að mér (eitt skipti í hlöðu í hesthúsinu og einu sinni í gamla Myndlista- og Handíðaskólanum þar sem ég lá bara, böðuð í köldum svita, í skjálftakasti, algerlega máttlaus og gat mig hvergi hreyft og ég rétt gat hvíslað að honum að hann þyrfti að fara og kaupa eitthvað handa mér NÚÚÚÚNA eða ég myndi drepa hann með mínum köldu, sveittu höndum. Um leið og ég fékk t.d. ávaxtasafa þá var ég spræk aftur (og blíð og góð). Mikil kaffidrykkja á þessum árum hjálpaði nú ekki heldur). Man eftir því að einu sinni var ég að keppa í hindrunarstökki og skildi ekkert í því afhverju ég datt svona oft af baki (var nú ekki vön því sko) en ég datt að minnsta kosti 4 sinnum. Fattaði svo að ég var ekki búin að borða í 12 tíma og bara drekka kaffi. Hmmmm var 14 ára þannig að mikið vatn (kaffi) hefur runnið til sjávar síðan og löngu hætt í þessu rugli.
Ein af ástæðunum fyrir því líka að ég þarf að passa mig á því að borða er að skapið í mér versnar svo hrottalega ef ég verð svöng eða ef blóðsykurinn er lágur. Jóhannes hótar að skilja mig eftir einvers staðar ef ég borða ekki (svona eins og er gert við litlu börnin stundum) eða ef ég tek ekki með mér "öryggismat". Honum finnst ég eitthvað leiðinlegt víst ef ég er svona hí hí. Ég er nefnilega með 2 persónuleika þ.e. svanga Sigrún (djöfullinn) og ósvanga Sigrún (ekki kannski engill en alla vega ekki djöfull). Ég er frekar róleg svona yfirleitt en það breytist heldur betur ef ég passa mig ekki. Þetta er ættgengt því Borgar bróðir er svona líka (áfengi getur víst gert hlutina verri he he). Þetta kallast bara lágur blóðsykur á íslensku (reactive hypoglecemia á ensku) og tengist víst insúlíni sem er jú hormón og breytir því skapinu ef ójafnvægi kemst á. Hreyfing hjálpar líka mjög mikið og þetta snarbreyttist eftir að ég byrjaði í líkamsrækt fyrir mörgum árum.
Það er bara svo asnalegt að vera með töskuna fulla af mat þegar maður opnar hana fyrir framan viðskiptavini á fundum, stundum er horft ofan í pokann minn og nokkrar augabrúnir lyftast! Ég tek fullan poka af nesti með mér á hverjum degi í vinnuna. Ég tek til dæmis soðin egg (borða reyndar bara eggjahvíturnar), hrískökur, epli, banana, appelsínur, vínber, salöt, þurrkaða ávexti, alls kyns afganga frá kvöldmatnum kvöldinu áður, gulrætur, hnetur og margt fleira. Ég kaupi ALDREI, ALDREI tilbúinn mat og örbylgjuofna legg ég hatur á (mér finnst ástæðan vera augljós og felast í nafninu þ.e. ör- BYLGJUR, er ein af þeim sem treysti ekki örbylgjuofnum, löng saga). Það verður líka allt of auðvelt og freistandi að kaupa tilbúna rétti og henda þeim í örbylgjuna þannig að ég sleppi því bara. Talandi um skyndimat þá lifa Bretar á honum. Það er ENGINN á mínum vinnustað (11 manns) sem tekur með sér nesti að heiman, það kaupa allir tilbúinn mat, í bakka, til að hita í örbylgjunni. Enda eru Bretar að verða feitasta þjóð í heimi og bresk börn eru orðin þau feitustu í heimi. Skelfilegt ástand og ég vona að Jamie Oliver nái að bjarga þjóðinni. Einn sem ég vinn með, strákur um 25 ára borðar ALDREI af leirtaui þ.e. af hörðum diskum því hann borðar einungis skyndibitamat. Hann hefur aldrei eldað mat á ævi sinni og stefnir ekki á það. Það stefnir hins vegar í slæman farveg hvað mittismál varðar! Honum hefur aldrei dottið í hug að spá í næringarinnihald og hann er afar ánægður með rjómasósurnar sínar, svínapylsurnar, beikonið, djúpsteikta fiskinn og franskarnar, flögurnar, kexið og allt í þeim dúr. Hann veit ekki hvað hitaeiningar eru og er alveg sama um þær (hann ætti alveg að spá í þær samt). Nefni þetta bara því við erum svo á algjörlega öndverðum meiði hvað mataræði og heilsuhugleiðingar varða, við erum eins svart og hvítt og mögulegt er (sem betur fer).
En já ég myndi held ég hreinlega deyja ef ég mætti ekki borða við tölvuna. Ég veit líka að Jóhannes myndi fara í verkfall á sínum vinnustað, held að það sé nokkuð ljóst.
Erum annars í góðu yfirlæti hjá Smára bróður og Önnu Stínu á Íslandi og fáum æðislega hollt og gott að borða enda fyrirmyndar heilsufólk og þau elda bara hollan og góðan mat. Hér verð ég næstu 2 vikurnar að vinna en Jóhannes fer heim í dag, mánudag :(
Apahor
Sælkerastaðurinn Mr Christian's
Það er svo mikið úrval af sælkerabúðum í London. Þær eru svo dásamlegar að maður trúir því varla þegar maður stendur inn í þeim, hversu mikið er til af girnilegum ólífum, brauði, alls kyns mauki á brauð, osti, kaffi og svo framvegis. Það er endalaust úrval og maður fær ekki nóg af því að skoða þessar búðir. Þessi búð heitir Mr Christian's og er á hliðargötu við Portabello götuna (þar sem markaðurinn er) og heitir Elgin Crescent. Ég keypti hrikalega góðar ólífur og Jóhannes keypti kaffi sem hann á eftir að prófa. Ef einhver á leið um Portabello Road þá mæli ég með hliðargötunum, svo ótal margt að sjá og smakka í litlu sælkerabúðunum.
Muffinsverjur
Þetta eru nú aldeilis sniðug ílát þessar möffinsverjur og eitthvað sem Jóhannes gleðst eflaust yfir að sé komið á markað. Þetta er ílát til að geyma svokallaðar „cupcakes“ sem er svona möffinsar (eða múffur). Þoli reyndar ekki orðið múffur því ég átti vettlinga sem voru kallaðar múffur og finnst asnalegt að kalla sama nafni. Svo eru breskar mömmur stundum kallaðar „muffa“ (svona letiútgáfa af „mouther“ borið fram á svipaðan hátt og múffa og þýðir „mútta“) svo það er bara glatað). Svona „cupkakes“ eru stundum með kremi eða einhverju öðru ofan á. Ég hef reyndar aldrei búið til svona „cupcakes“ en hver veit fyrst að þetta sniðuga ílát er komið á markað, að ég fari að prófa bara. Ég sé reyndar fyrir mér að Jóhannes þyrfti þá að taka svona 3-4 ílát með sér í vinnuna! Þegar ég bý til möffinsa þá tekur hann yfirleitt heilt nestisbox með sér (með 3-4 möffinsum í) þannig að þetta væri dálítið plássfrekt. Jóhannes kæmi eflaust með lausn á því ef ég þekki hann rétt, bara borða þessar „cupcakes“ áður en hann færi í vinnuna og baka þá hinsegin möffins til að taka með í nesti!!!! Jóhannes er nefnilega svo ráðagóður, sérstaklega þegar kemur að mat!
Enskur morgunverður
Göturúm í London
Við sáum þetta ótrúlega rúm fyrir utan gluggann hjá okkur einn morguninn. Þetta er alvöru rúm á hjólum! Við erum ekki alveg viss um tilgang rúmsins en mikið rosalega hlýtur að vera þægilegt að keyra um í rúmi! Er til betri leið til að ferðast? Elva vinkona sem var í heimsókn (ásamt Óla manninum sínum) renndi hýru auga á rúmið, held hún hefði alveg verið til í að fá far enda búin að þramma um alla London, fram og til baka!
Rörabjór
Þó ég drekki ekki sjálf þá skil ég vel fólk sem fær sér einn bjór eftir vinnu á föstudögum, það virkar voðalega mikil stemmning í því og greinilega skemmtilegt!
Allt á rúi og stúi
Gulur, rauður, grænn og blár...
Ok við áttum bara Yaris á Íslandi, litla gráa pútu sem bar okkur hvert sem við vildum fara og var alveg ótrúlega stór í sér (ekki sálrænt heldur í rúmmáli). Hann gat flutt búslóðir, borið stórinnkaup úr IKEA þar með talið bókahillur og alltaf var pláss. Hann var meira að segja smá torfærubíll sko þegar við vorum í rosa bjartsýniskasti. Við vorum sem sagt alveg sátt við Yarisinn okkar. Jóhannes vill reyndar Ford F-350 (eða GMC sierra 3500 eða GMC Siearra 2500.Getið ímyndað ykkur hvað ég þarf að þola við að hlusta á bílaupplýsingar!). Ég sé mig í anda, nota stiga til að klifra upp í bílinn.
En já Lamborghini. Við erum búin að sjá 5 Lamborghini bíla á þessu rölti okkar og þeir hafa allir verið í fáránlegum litum og höfum við til dæmis séð eiturgrænan, eiturappelsínugulan og sanseraðan, skærfjólubláan og sanseraðan, skærgulan og fleiri ægilega liti. Þetta væri nú svo sem ekkert merkilegt nema fyrir þá sök að þeir kosta 200.000 PUND hver. Það gera rúmlega 24 milljónir. Ég myndi ekki einu sinni vilja keyra Yaris sem væri svona á litinn? Svo er óttalega mikill hávaði í þeim þannig að ég held að Yarisinn sé bara bestur sko. Ég skil vel að David Beckham hafi skilað sínum Lamborghini sko (hann skilaði sínum víst, fílaði ekki að keyra hann, heyrðist of hátt í klukkunni eða eitthvað álíka).
Hér er slóð á Lamborghini síðuna þannig að þið getið séð hvað ég er að tala um: www.lamborghini.co.uk
Sushi-isti
Besta sushiið sem ég fæ er hjá Borgari bróður og Elínu, við gerum sushi næstum því í hvert skipti sem ég kem til Íslands (sem er einu sinni í mánuði) og þau eru sushi meistarar með stóru M-i. Þau gera besta sushi í heimi og lærðu af kanadískri konu sem er víst afar fær sushigerðarkona Ég hef borðað á mörgum sushistöðum en þau gera samt besta sushiið. Við reynum alltaf að prófa eitthvað nýtt og spenningurinn er svo mikill í okkur að við erum öll á iði, hálfpartinn dansandi með tryllingsglampa í augunum, brosum mjög skrýtnu brosi, nánast geðveikislegu. Þetta er svokölluð "sushieftirvænting".
Það er einn stórhættulegur staður í London því maður borgar sig inn og svo borðar maður það sem maður getur í sig látið af sushi. Það kostar 13.50 pund (um 1500 krónur) og fyrir þetta getur maður setið, við færiband og staflað í sig sushi. Svo getur maður líka fengið núðlur og misosúpur. Þetta er náttúrulega bara snilld. Staðurinn heitir Gili Gulu (þýtt sem "Færiband dauðans" af Freysa vini okkar) og er á horninu á Monmouth Street og Tower Street í Covent Garden.
Hér áður fyrr fórum við á Yo Sushi sem er líka færibandastaður en vandamálið með hann er að maður þarf að borga fyrir hvern disk og endar því upp með ansi háan reikning. Á Gili Gulu borgar maður sem sagt eitt verð og étur á sig gat. Yo Sushi er með fínna sushi (meira lagt í hvern bita) en Gili Gulu er samt alveg í góðu lagi fyrir þetta verð. Sérstaklega þegar maður er búinn að fara oftar en 25 sinnum *roðn* og er hættur að telja *roðn*, *roðn*.
Við erum nú ekki mikið fyrir að troða í okkur mat en maður getur ekki hætt að borða sushi á Gili Gulu. Reyndar þegar maður er orðinn það saddur að maður finnur gubbubragð í munninum þá langar mann ekkert voðalega mikið að horfa á sushibitana fara endalaust fram hjá nefinu á manni he he. Þá bíður maður bara smástund og byrjar aftur! Vil taka það fram að ég borða ALDREI svona mikið af öðrum mat, bara sushi. En hey ef maður spáir í það þá hlýt ég að verða voða langlíf fyrst Japanir eru einna langlífastir og þeir eru jú sushiuppsprettan!
Jóhannes á eftir að koma fyrirtækinu á hausinn, held að það sé nokkuð ljóst. Hann staflar iðulega um 25 diskum í fallega, litríka súlu við hliðina á sér. Ég er farin að dreifa diskunum á þá sem eru með okkur því ég skammast mín. Jóhannes er kallaður "Svartholið" eða "Gámurinn" af vinum okkar og það er enginn sem hefur við honum í sushiáti, þar er hann með svarta beltið (eða í áti yfirleitt). Sem betur fer þá fer hann í líkamsrækt 5 sinnum í viku til að brenna öllu þessu sushi. Þetta myndi enda illa annars.
Í fyrsta skipti sem við smökkuðum sushi, þá vorum við hér í London (í fyrstu London ferðinni okkar árið 1997). Við fórum inn á pínulítinn stað í Soho þar sem gamall kokkur stóð fyrir innan lítið borð og inni á staðnum var einungis pláss fyrir 5-7 manns. Við horfðum á gamla sushimanninn búa til sushi og svo kom að því að borða þennan skrítna mat. Við settum einn bita upp í okkur hvort og sennilega hafa bragðlaukar gamla mannsins verið ónýtir því við grenjuðum úr SÁRSAUKA. Hann hafði sett svo mikið wasabi (piparrót) að okkur varð verulega illt í nefinu, það lak allt úr því sem lekið gat, tárin stóðu úr augunum á okkur í stríðum straumum og við náðum varla andanum, sviti spratt fram í hársverðinum og við urðum eldrauð í framan. Þetta var þó ást við fyrsta bita því við gátum ekki beðið eftir að fá næsta skammt!
Mig langar svo mikið í sushi núna að ég er með svona nettan skjálfta (þarf ég hjálp?). Fékk samt sushi síðasta laugardagskvöld, á Gili Gulu í boði Gróu frænku (sem gisti hjá okkur um helgina með Siggu dóttur sinni). Takk fyrir okkur.
Vissuð þið að til að verða fullgildur sushikokkur í Japan þarf maður að stunda sushinám í 7 ár, í háskóla! Ég veit að ég væri sérlega dugleg að læra heima. Jóhannes myndi nú sennilega borða allt heimanámið mitt þó.