Ekki lengur grasekkja
En já talandi um tilhlökkun. Ég horfði á nýja heilsuþáttinn á Skjá einum (í gegnum netið) og var full tilhlökkunar enda búin að fylgjast dáldið með þessum 10 grunnreglum þeirra, finnst þær sniðugar að mörgu leyti. Ok ég vil helst ekki setja út á þetta framlag því það er mjög flott og þarft. Ég set hins vegar nokkur spurningarmerki við innihaldið og framsetningu. Ég er ekkert að tala um skemmtigildi þáttarins né frammistöðu þáttarstjórnanda sem mér finnst ekki vera aðalatriðið (íslenskir þættir bara ERU pínlegir, svo pínlegir að ég held um magann stundum ef ég horfi á þá. Ég horfi það sjaldan á sjónvarp að kannski er þetta allt pínlegt en ég fæ ekki þessa tilfinningu í gegnum breska þætti).
Sko. Þegar fólk er að umturna mataræðinu sínu, kannski frá grunni, eftir 30 ár, þá eiga rúsínur í vatni EKKI eftir að heilla sem eitthvað girnilegt. Meira að segja mér finnst það ógeðslegt. Niðurskorin epli í sítrónusafa eiga heldur ekki eftir að heilla fólk sem er vant því að borða kannski 100 gr af súkkulaði eða 200 gr af lakkrís á dag. Það þarf að trappa það niður og t.d. ávaxtakonfekt (úr þurrkuðum ávöxtum og hnetum, eða grillaðir niðurskornir bananar með carob bitum, alls kyns jógúrt/berja drykkir o.s.frv.) væri heppilegra sem fyrsta skref (finnst mér persónulega allavega).
Talað var um að strásæta væri eitur. Strásæta eins og Aspartam hefur verið margrannsökuð í tugi ára og aldrei neitt komið fram sem bendir til þess að það sé hættulegt líkamanum (nema það sé borðað í bílförmum, á dag). Upplýsingar er hægt að finna t.d. á Vísindavef Háskólans. Sykursjúkir borða til dæmis strásætu eins og aspartam og þessar tugir milljóna sykursjúkra í heiminum myndu vera í eiturefnaáfalli á hverjum degi miðað við hversu rosalega eitruð strásætan á að vera. Það er ekki svo. Ég hef notað hana í 15 ár og aldrei orðið meint af. Ástæðan fyrir því að ég nota strásætu í mat er til að fækka hitaeiningum ef ég vil gera eitthvað sætt.
Í þættinum er talað um að nota Xylitol en ekki megi nota ávaxtasykur. Hvoru tveggja hefur svipaðan áhrif á blóðsykur, fer hægt út í blóðið og ávaxtasykur finnst jú í öllum ávöxtum (en er óunninn þar að vísu). Ég sé ekki afhverju eigi ekki að nota ávaxtasykur í stað xylitols þar sem t.d. mikil neysla xylitols getur haft slæmar afleiðingar á magann (mikill niðurgangur). Ég hef oft notað xylitol og það er fínt en mér finnst ávaxtasykurinn líka heppilegur. Það er heldur ekki gott að mínu mati að ráðleggja fólki sem er að reyna að létta sig að nota xylitol því það eru jafn margar hitaeiningar í xylitol og venjulegum sykri (þó maður noti 30% minna af honum en venjulegum sykri). Það er fullt af fólki sem er að spá í að breyta um lífstíl og mataræði og horfir á þáttinn og heldur að xylitol sé 'megrandi'. Það er ekki svo. Xylitol er líka skaðræðisdýrt, dollan sem þau héldu á í þættinum er á 600 krónur!!! Fyrir fólk með lítið á milli handanna er þetta varla raunhæfur möguleiki.
Annað, í þættinum var mælt með því að nota hunang en ávaxtasykur og hunang er voða svipað að uppbyggingu svo ég veit ekki alveg afhverju hunangið á að vera betra? Mér finnst rosa gott að nota lífrænt byggsíróp og lífrænt hrísgrjónasíróp úr brúnum hrísgrjónum en það var ekkert minnst á þannig sætuefni.
Æi eins og ég segi þá á ég ekki að vera að röfla yfir einhverju svona framtaki, sem er glæsilegt og hugmyndin er flott. Ég held bara, að eftir að hafa verið með vefinn minn núna í 4 ár, þá finnst mér bara mikilvægt að sýna fólki að hægt sé að elda góðan og hollan mat, jafnvel kökur og að þetta sé samt girnilegt. Bara afsakið, rúsínur í vatni eru ekki að gera sig fyrir mig og ég er ekki viss um að fólk sem hefur lifað á óhollustu í 40 ár hoppi hæð sína af gleði yfir þeim. Þetta er þó aðeins mín persónulega skoðun og ekki taka mark á þeim frekar en þið viljið :)
Ok, hætti að röfla núna, ætla að skoða Swahilian Kitchen bókina mína. Furðulegt hvað safnast að mér afrískar uppskriftabækur þennan mánuðinn hí hí.
Ummæli
26. feb. 2006
Sæl Sigrún
Gott að lesa þetta komment. Er mjög sammála þér. Mér fannst pínlegt að horfa þar sem mér fannst þáttastjórn viðvaningsleg (eins og aðrir ísl þættir á þessari stöð).
Mjög sammála þér varðandi sykurinn.
Er einmitt búin að vera að pæla í sykurmálum þar sem ég var að böggla saman sykurgrein.
Gaman að heyra þína skoðun
kveðja Alma (sem skrifar á islenskt.is).