Ekki minn dagur

Þetta var ekki minn dagur í dag, alveg á hreinu. í fyrsta lagi er ég með hálsbólgu og hita, ég verð rosa sjaldan lasin, varð síðast lasin í Afríku, í júlí á síðasta ári. Ég fór í ræktina í morgun (hélt að mér myndi líða betur, ekki spyrja mig afhverju). Mér leið ekkert betur, ég var eins og drusla. En jæja eftir að hafa verið svona dugleg ákvað ég að verðlauna mig með góðum latte, átti það alveg skilið. Gymmið okkar er í verslunarmiðstöð sem er á Oxford Street og í verslunarmiðstöðinni, á 2. hæð fyrir neðan gymmið er sem sagt Starbucks. Ég trítlaði þangað. Það gek nú ekki betur en svo að ég hrundi niður stigann. Ok, ekki alveg, ég datt niður um eina tröppu. Þetta var furðulegt, það var eins og ég hafi gleymt að nota hægri fótinn eða eitthvað því ég datt fram fyrir mig, á gólfið, báða lófana og á hægra hnéð. Það var mikið lán að ég lenti ekki á vinstra hnénu, það var nógu aumt eftir ræktina. Ég er reyndar vön því að "lenda" eftir fall þ.e. ég vandist því þegar ég flaug af hrossum, hjólum, skíðum o.s.frv. hér í gamla daga að hugsa um, í fallinu, hvernig best væri að lenda. Það sem maður gerir er að ákvarða hvar þykkasta beinið eða þykkasti vöðvinn er og reyna að lenda þar, snúa sér í loftinu. Það hefur oft komið sér vel en ég var eitthvað sein að hugsa (ég fattaði hreinlega ekki að ég hefði dottið fyrr en ég lá með nefið ofan í gólfinu). Ég lenti BEINT á hægra hnénu og báðum lófunum (og pínu á nefinu). Það var fullt af fólki sem sá þetta og kímdi þegar það sá að var allt í lagi með mig. Strákurinn sem kom aðvífandi (einn af öryggisvörðunum) spurði mig hvort að væri allt í lagi með mig "Já já" sagði ég með nefið ofan í trégólfinu (sem betur fer ekki steingólf). "Ég er bara svo sein að hugsa". Svipurinn á stráknum var þannig að ég VEIT að hann var að hugsa "Ok maður þarf nú ekki doktorsgráðu til að labba niður stiga... en hún er svo sem ljóshærð....". Æi, ég fékk mér bara kaffi og trítlaði heim, blá á hægra hnén og aum á því vinstra, hóstandi og aumingjaleg.

Þegar ég kom heim opnaði ég hurðina (hún er rosa þung) en þurfti eitthvað að halda henni meðan ég var að setja töskuna á bakið en það gekk ekki betur en svo að hún skall á hægri sköflunginn á mér þannig að nú er stærðarinnar kúla, og mar þar. Hægri fóturinn er orðinn nokkuð litríkur eftir daginn.

Þar sem ég get aldrei verið kyrr, ekki einu sinni þegar ég er lasin (mígreni er það eina sem kyrrsetur mig, svona yfirleitt) og þar sem það er enginn til að stoppa mig því ég er ein heima, þá ákvað ég fyrst að þrífa alla íbúðina hátt og lágt og svo fór ég að búa til Muesli orkustöng svo að ég ætti eitthvað gott í frystinum. Ég skar mig auðvitað, nema hvað :( Slasaði mig þó ekkert á ryksugunni. Furðulegt.

Ég ákvað að það væri komið gott í bili og ætla að taka því rólega það sem eftir er kvöldsins. Ég fer ekki í vinnuna á morgun, er enn þá með hita og hósta svo ég ætla að slappa af bara, eða reyna það allavega.

Jóhannes og co ættu núna að vera komin upp í 2. búðir, sem heita Shiptons Camp (4200m hæð) og á morgun ættu þau að leggja af stað á Lenana tindinn (4895m). Hlakka til að heyra frá honum aftur.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Jónsi
22. feb. 2006

Láttu þér batna elskan! Með von um góðan og skjótan bata!! kiss kiss og knúsar frá okkur á Klakanum!