Norski læknirinn umhyggjusami
Já ég fór í endurkomu í gær, út af hnénu. Það gekk svo sem vel, þó hnéð mætti alveg vera betra. Ég stend í 10 mínútur á sama stað og get ekki beygt hnéð á eftir. Ég hélt að þetta tæki 6 vikur og svo væri ég farin að hlaupa og klifra á fjöll og ég veit ekki hvað. Það á að skoða hnéð aftur eftir 3 mánuði og einnig þarf kannski að mynda hitt hnéð. Það sem læknirinn skilur ekki er hvers vegna þetta gerist þar sem ég er í góðu formi líkamlega, er ekki með gigt og allt virðist í lagi svona á yfirborðinu. Ég er ALLT OF ung til að svona eigi að geta gerst. Ég nennti ekki að útskýra fyrir honum skautaslys, vélsleðaslys, hrossaslys (milljón), hjólaskautaslys, reiðhjólaslys, fimleikaslys og mörg önnur slys. Hann taldi ólíklegt að þeir hefðu getað lagað skemmdina þar sem ég væri ekki enn þá orðin góð. Við sjáum hvað setur. Nú fer ég að byrja í sjúkraþjálfun og svoleiðis rugli þannig að þetta hlýtur að koma allt saman.
Annars var læknirinn sem skoðaði mig í gær ekki Abdúllah eða hvað hann hét sá loðni, indverski sem gerði aðgerðina. Er farin að hallast að því að hann hafi, í aðgerðinni misst hár af handleggnum eða augabrúnunum eða skegginu eða höfðinu eða bringunni eða hálsinum eða eyrunum, úr nefinu eða bakinu þess vegna (hann var MJÖG loðinn), ofan í sárið og það sé þess vegna sem hnéð er ekki orðið almennilegt he he.
En já í gær hitti ég annan lækni, ungan, norskan, ljóshærðan mann (svona týpískur maður sem fólk hér í London segir um "já hann er svona víkingslegur" eins og sagt er um Jóhannes) með rosa sterkan hreim. Hann var alveg fínn sko. Hann benti mér á að reyna að fara í sund en ég benti honum á í staðinn að ég kæmi frá Íslandi þannig að það væri ekki fræðilegur séns í helvíti að ég færi að synda um í þessum köldu bakteríupollum sem eru í boði hér. Hann skildi mig reyndar vel.
Anyway, hann potaði í mig og meiddi mig eins og lækna er siður og þegar ég var að fara, staðfesti hann við mig heimilisfangið eins og er alltaf gert. Já ég kvaðst búa í þessari götu. Svo sagði hann, "já fín gata"? Þar sem venjan er að tsjitttsjatta um ekki merkilegri hluti en hvar maður býr og veðrið hér í UK (ekki margt hægt að tala um annað við ókunnuga) þá spáði ég ekkert í það og sagði "já, fín gata nema þegar er brotist inn til manns". Ég er EKKI að grínast, maðurinn hoppaði upp úr stólnum!! "HAAA ,VAR BROTIST INN?????" "ööö já sagði ég, dáldið MIKIÐ hissa á viðbrögðunum". Næstu 15 mínútur fóru í það að hann spurði mig í þaula, með áhyggjusvip um innbrotið, undanfara, hvernig ég hefði komið að því, hvað lögreglan hefði sagt o.s.frv. Hann fórnaði höndum, greip um höfuðið á sér, stundi, dæsti, iðaði í stólnum og sagði hluti eins og "nei, trúi þessu ekki, en hræðilegt", "hvað segirðu bara, jesús minn" og "daginn fyrir aðgerðina? þú hefðir getað verið ein heima þegar þeir komu" og blah blah. Ég benti honum á að það væru 25 milljón öryggismyndavélar í heiminum og 10% af þeim í Bretlandi og að það væri ekki EIN myndavél í okkar götu. Við það hélt ég að hann færi bara að gráta. Á þessum tímapunkti var mér hætt að standa á sama um umhyggjusemi læknisins, hann var búinn að spyrja okkur hvað við störfuðum við, hvaða dót við hefðum keypt, hversu mikið tjónið hefði verið, hvort við hefðum verið heima o.s.frv. Mér varð hugsað til einnar sem ég þekki heima á Íslandi sem á mann sem lærði læknisfræði í Noregi. Hafði hugsað mér að hafa samband við hana og spyrja hana um "umhyggjusemiskúrsinn" sem maðurinn hennar hefði sennilega þurft að taka. Ég sagði lækninum líka að eldhússkærin okkar hefðu verið tekin og ég uppskar "NEI NEI NEI en hræðilegt, ERTU BARA að segja mér satt" við það. Hér var ég var farin að iða svolítið í sætinu, orðin svona "jæææææææja.....má ég faaaaara núna". Svo kom löng þögn. Svona óþægileg þögn því ég vissi ekki afhverju hann var svona voðalega umhyggjusamur og áhyggjufullur, hvort hann væri eitthvað skrýtin, svona voða góður inn við beinið eða hvað eiginlega gekk að honum. Svo segir hann upp úr þurru...."ég á sko heima í sömu götu". Furðulegt hvað umhyggjusemin getur verið raunveruleg þegar málið snertir mann sjálfan. "Þetta er svo róleg gata, hvernig getur þetta gerst?" sagði hann ennfremur. Ég sagði honum bara að tryggja sig vel og loka gluggum og læsa hurðum. Samt fyndið í 8 milljón manna borg að skurðlæknirinn manns búi í sömu götu.
O jæja, ég losnaði loksins frá honum og ég er viss um að fólkið á biðstofunni hafi haldið að það hafi verið eitthvað mikið að hjá mér vegna óhljóðanna sem komu úr lækninum...alveg frá dýpstu hjartarótum...með tilfinningu og allt saman.