Sólarhringur from hell

Jæja þá er aðgerðin búin og hún gekk bara vel. Ég sit upp í sófa og hoppa um á hækjum. Mér leið vel eftir svæfinguna, var ekkert flökurt eða neitt. Það fyrsta sem ég sagði þegar ég var vakin var "mér er kalt", svæfingarhjúkkurnar héldu að ég væri eitthvað rugluð og létu mig hreyfa tærnar aftur og aftur og spurðu mig hvort ég vissi hvar ég væri og hvað ég héti og svona. Það var ekki fyrr en þær áttuðu sig á því að ég skalf undir teppinu að mér var raunverulega kalt. Í samanlagðri 40 ára vinnuævi svæfingarhjúkrunarkvennanna hafði enginn sagt við þær "mér er kalt" sem fyrstu orð eftir svæfingu. Einhvern tímann er allt fyrst svo sem.

Já en þetta voru annars ekki skemmtilegir 24 tímar. Þegar ég kom heim úr vinnunni miðvikudagskvöldið þá ætlaði ég bara að henda af mér dótinu og stökkva út aftur því við Jóhannes ætluðum að kaupa síðustu jólagjafirnar og hafa það kósí í bænum, fá okkur kaffi og rölta um. Það varð ekkert rosalega kósí. Þegar ég labba upp stigann þá sé ég að hurðin að íbúðinni er mölbrotin og ég heyri raddir og sé ljós þar inni. Ég varð auðvitað skelfingu lostin og hljóp niður stigann til að hringja á lögregluna. Ég fattaði samt ekki alveg hvað var í gangi, maður panikkar eiginlega bara. Ég var komin langleiðina út þegar maðurinn á efstu hæðinni (ofsalega indæll náungi) kom og náði í mig út. Þá var sem sagt búið að brjótast inn í íbúðina okkar og HREINSA út úr henni. Allt úr skúffum hafði verið rótað upp, allir skápar opnaðir og það var allt í rusli út um allt. Það hefur aldeilis verið fengur fyrir þetta lið því inni í íbúðinni var margt og mikið af tækjadóti, t.d. var glæný Canon EOS 20D stafræn myndavél, 3 linsur og meðal annars ein sem við keyptum í New York, linsa sem ég keypti sérstaklega fyrir CafeSigrun. Hún var ekki ódýr. Litla Olympus, stafræna vélin var tekin, báðar fartölvurnar (við erum með vinnuvél frá Jóhannesi í láni) og önnur fartölvan var innan við mánaðargömul. Öll gögnin mín eru horfin og ekki séns að þau komi aftur, það er nokkuð ljóst. Það sem mér finnst samt eiginlega sárast er að ég var búin að fá svo mikið af fallegum bréfum frá alls konar fólki varðandi CafeSigrun vefinn og það er allt farið, það finnst mér æginlega leiðinlegt. Eins eru myndirnar sem ég tók fyrir CafeSigrun úti í New York farnar. Ein lófatölva var tekin, ipod (gamall reyndar) og úrið mitt ásamt fullt af skartgripum (sem voru ekki dýrir en sama er, mig langar ekki að einhver annar sé með dótið mitt sko). Verstu fréttirnar? Ekkert af þessu var tryggt. Neibb, við héldum að hurðin væri trygg, hún er með 3 lásum en það virtist ekkert stoppa þá. Við erum að bíða eftir nýrri hurð með stálplötu að innan.

Það sem er samt mest svekkjandi er að þetta er 100% öðrum að kenna. Útidyrahurðin að húsinu lokast nefnilega illa þegar er kalt og það er búið að biðja alla íbúa hússins um að passa þetta rosalega vel, meira að segja var sent bréf á þessar 6 íbúðir í vikunni og þetta ítrekað. Við bíðum t.d. alltaf eftir því að hurðin lokist áður en við göngum í burtu og ef við erum með gesti þá er þetta það fyrsta sem við segjum við þá. Það var brotist inn í okkar íbúð nefnilega fyrir einhverjum árum síðan (meðal annars ástæðan fyrir því að við héldum að gengið hefði verið tryggilega frá hurðinni að íbúðinni okkar) og þess vegna pössuðum við okkur rosalega vel. Við vitum að allir íbúar hússins passa þetta líka, fyrir utan 2 konur, frekar nýjir leigjendur sem búa á jarðhæðinni. Þær eru svona týpur sem henda póstinum fyrir húsið í gluggakistuna en raða honum ekki eftir íbúðum eins og allir hinir gera. Oftar en ekki, þegar við förum í ræktina kl 6 á morgnana þá er útidyrahurðin opin yfir nótt. Það er eitthvað sem má ekki gerast, sérstaklega ekki í London. Til dæmis er ég að hugsa um það að ef ég hefði farið ein í ræktina að morgni (eitthvað sem mér er reyndar illa við og geri sjaldan hér) þá hefði einhver bara getað beðið niðri í gangi eftir mér, svo einfalt er það. Eins líka þegar ég kem heim á daginn þá er ég yfirleitt fyrst heim. Þess vegna er ég t.d. aldrei með ipodinn á mér þegar ég labba upp stigann. Maður er dáldið paranoid en það er alveg ástæða fyrir því hér í London. Þó hún sé friðsæl og við búum í góðu hverfi þá getur maður aldrei verið viss.

Já annað líka, ég kom heim í hádeginu þennan dag til að skila af mér böggli sem ég hafði keypt fyrir vinkonu mína fyrir manninn sinn í jólagjöf (sem betur fer var hann ekki tekinn því þetta var glænýtt tæki sem kostar pening). Hann var í bóluplasti og þjófarnir hafa ekki séð hann því pakkinn var ofan á eldavélinni með dóti ofan á. Þeir hefðu kippt honum með hið fyrsta ef þeir hefðu áttað sig á því hvað þetta var. En já ég kom heim í hádeginu og fór héðan út kl 13.15 cirka (andskotaðist ekki til að taka stóru myndavélina eins og ég ætlaði mér að gera, hefði betur átt að gera það) og einhver kom að þessu um 16.30. Sem þýðir að ef ég hefði farið seinna í mat (eins og ég ætlaði mér) og miðað við að þeir hafa sennilega farið um í björtu þá hefði ég getað lent á þeim. Það hefði ég ekki viljað takk fyrir.

Við erum svo brennandi reið yfir þessu öllu saman. Auðvitað áttum við að vera með tryggingar en í fyrsta lagi þá þarf maður að tryggja svona hluti sérstaklega hér í London og við vorum nýbúin að kaupa sumt af þessu og bara ekki búin að hugsa svo langt enda alltaf brjálað að gera í vinnunni og í öðru lagi töldum við að hurðin væri trygg. Þjófarnir fóru beint í okkar íbúð, annað hvort vegna þess að þeir sáu á einhvern hátt að hurðin var ekki eins trygg og hinar á 1. og 2. hæð eða þá að þeir eru búnir að vera að fylgjast með okkur :( Vona að það sé það fyrra.

Já frekar glatað að vera hálf vönkuð og hafa líka þetta til að hugsa um, endalaus straumur af löggum, Crime Scene Investigation lið, menn til að laga hurðina og mæla, menn til að taka skýrslur, menn til að setja nýja hurð í. Sem betur fer er Jóhannes líka heima svo hann getur dílað við mest af þessu. Hann er að dekra mig út í eitt eins og venjulega, krúttið.

Ok ég held ég sé búin að pústa nóg. Fyrir ykkur sem fáið dálítið skítuga pakka í ár, þá voru sumir þeirra sem voru komnir í jólapakkana rifnir upp af þjófunum svo þeir voru fingrafaraleitaðir. Get ímyndað mér að litlu frændunum finnist það spennandi :)

Best að fara að vorkenna mér smá núna :( Æi þetta hefði getað farið verr ég veit og við erum bæði heil, við reynum bara að hugsa um það.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Þóranna
13. des. 2005

Æjjji mér finnst þetta svo rosalega leiðinlegt. Vorkenni ykkur ekki lítið!! Knúúúúúúúúús :)

Hekla Guðmundsdóttir
13. des. 2005

Hræðilegt, ömurlegt. Helvítis lið! Aumingja þið, hvað í helvíti voru þeir að brjótast inn til ykkar. Veit ekki hvað ég á að segja meira um þetta.

kveðja Hekla..