NY ferðasagan
Jæja þá erum við komin aftur frá New York. Hef ekki haft tíma til að skrifa neitt þar sem ég hef verið algjörlega að drukkna í báðum vinnunum mínum.
New York var frábær. Ég er hrifnari af London reyndar en NY var samt yndisleg. Ég held að við gætum hugsað okkur að búa þar í svona nokkra mánuði á ári (þ.e. eiga íbúð þar) en komast samt alltaf til meginlands Evrópu svona megnið af tímanum. Ástæðan fyrir því að ég (og við) er hrifnari af London er sú að London hefur einhver veginn meiri sjarma, húsin eru yfirleitt fallegri og meira í okkar stíl, krækklóttu göturnar (sem voru byggðar fyrir hestvagna) eru svo skemmtilegar og svo er allt einhvern veginn miklu skipulagðara og beinna í NY, við erum hrifnari af óreiðu í stórborgum :) Sé núna hvað er fáránlega erfitt fyrir útlendinga að rata nokkurn skapaðan hlut í London. Það er fáránlega auðvelt að rata í NY. Sá sem villist í NY, hlýtur að þurfa götukort á baðherberginu sínu.
Hótelið okkar var fínt, enginn háklassi en aldeilis nóg og á góðum stað, á Broadway (aðalgötunni) rétt hjá Empire State svo útsýnið var á turninn út úr glugganum okkar. Mjög flott. Þaðan örkuðum við þvers og kruss um Manhattan og tókum aldrei leigubíl nema út á flugvöll og til baka. Fórum reyndar með neðanjarðarkerfinu ef vegalengdirnar voru miklar.
Það er margt hægt að sjá og gera í NY auðvitað, eins og í London en við versluðum ekki mikið. Ég er lélegasta verslunarmanneskja í heimi og hata ekkert meira en að versla föt og skó (er að búast við bónorðum frá þeim karlmönnum sem lesa þetta bara út af þessari setningu hí hí). Við fórum samt í nokkrar búðir eins og Esprit, Bloomingdales og svo í útivistarbúðir.
Matarmenningin er auðvitað sérkapituli, mjög gaman að skoða í hinum og þessum búðum en ein búðin var eins og Flugmóðursskip á við aðrar búðir bæði hvað varðar stærð og gæði. Verslunin Whole Foods Market er sá staður þar sem ég myndi vilja vera á í svona 3 vikur og til í að flytja til NY bara út af honum. MMMMMM þar er hægt að finna ALLT sem hugurinn girnist svo lengi sem það er hollt, lífrænt ræktað og gott. Það er svona smá útibú í London, Fresh and Wild en ekki í líkingu við það himnaríki sem hin búðin er. VÁ. Þar er líka hægt að finna íslenskt vatn, lambakjöt og fisk. Fyndið að sjá íslenska fánann stingast úr úr lambahryggnum í kjötborðinu (sem var álíka langt og 5 sinnum fisk- og kjötborðið til samans í Hagkaupum Kringlunni).
Við tókum eitt kvöldið mat með okkur heim, hollt og gott sushi og svo salat og úr salatbarnum (sem er sko með alls kyns pasta, karríréttum, grænmetisréttum o.fl. Það er ekki verið að opna baunir úr dós og hella í skálar eins og er í sumum stórum búðum á Íslandi og London. Nei þarna er allt ferskt og gott).
Af öðrum mat sem við borðuðum má nefna sushi á stað sem heitir Co Co sushi, mjög fínn og á góðu verði. Svo fórum við á stað sem sérhæfir sig í mat frá Suður-Ameríku, mjög góður líka en ekki eins hollur hí hí.
En já við gerðum margt og mikið, fórum auðvitað upp í Empire State, fórum í siglingu meðfram neðri hluta Manhattan og að Frelsisstyttunni, fórum í sight-seeing, fórum að staðnum þar sem World Trade Center turnarnir stóðu og löbbuðum svo út um allt og skoðuðum. Svo hittum við Mumma vin hans Jóhannesar sem var svo góður að koma með tölvuna sína á Starbucks þar sem við þurftum að senda skjal frá okkur nauðsynlega en ekkert hafði gengið á netkaffihúsunum sem við fórum á. Mummi fór m.a. með okkur inn í Central Park sem var mjög gaman. Ofsalega fallegur garður í haustlitunum og svipað og Regent Park í London fyrir utan háhýsin.
Við þræddum svo kaffihús auðvitað en heppnin var ekki svo mikið með okkur. Jóhannes var með lista af kaffihúsum sem við ætluðum að prófa en einn staðurinn var lokaður, einn var of langt í burtu og hinn var ekki með neitt svo spes kaffi (alltof mikið brennt eða eitthvað álíka). Einn staður sem heitir Pick Me Up Cafe var samt eiginlega bestur og líklega er það eitt sætasta kaffihús sem við höfum komið á. Með ágætt kaffi, ótrúlega kósí stemmningu og frábæra tónlist (m.a. Tom Waits). Maður datt alveg inn í Parísarstemmningu við að koma þangað. Af mínum kaffiferðum er kannski best að segja sem fæst. Hmmmmm. Starbuckskaffi í NY er sennilega versta kaffi sem ég hef smakkað á ævinni :( Það er svoooo vont í samanburði við kaffi á Starbucks í London! Svo þó að drykkirnir heiti það sama þá er ekki sama bragð. T.d. var Eggnog Latte ódrekkandi, eitthvað sem ég drekk nánast bara spari hér því það er svo gott. Ég missti sem sagt 4 daga úr Eggnog tímabilinu og er ekki sérlega kát með Starbucks, í NY það er að segja. Svo var þjónustufólkið með lægri greindarvísitölu en hænur, þau ná bara ekki pöntunum, gleyma þeim eða gleyma því að láta vita að drykkurinn sé tilbúinn og sulla öllu út um allt án þess að afsaka það né þurrka burt. Annað en hér í London.
Ég saknaði Bretlands hvað kurteisi og mannasiði varðar. Ég er orðin vön því að fólk segi afsakið ef það rekst utan í mann. Ég er orðin vön því að karlmenn haldi hurðinni opinni ef ég er að fara eitthvert inn og ég er orðin vön því að fólk skelli ekki á mig hurðum ef ég er að koma á eftir því inn í búð. Íslendingar eru svo sem alveg eins og jafnvel verri. Held að Bretar séu einstakir með þetta og eitthvað sem flestir gætu lært af þeim. Auðvitað má finna dóna inn á milli að sjálfsögðu.
Eitt sem við bjuggumst ekki við, var hversu kalt það var í NY. Ég var hér um bil dáin úr kulda, samt í ullarfötum upp úr og niður úr. Reyndar gleymdi ég að fara í angórusokkana mína fyrsta daginn og ég hélt bara hreinlega að ég væri kalin (ekki alveg að marka mig). Sight seeingið sem við fórum í tók líka 2 tíma og við sátum helminginn af tímanum á efri hæðinni í opnum vagni og hríðskálfum bæði. Meiru kjúklingarnir. Vorum samt vel klædd sko.
Þegar við lentum á Heathrow og sáum mynd af Piccadilly Circus á flugvellinum þá litum við Jóhannes á hvort annað og hugsuðum bæði það sama, brostum og sögðum "oooohhhhhhhh Londoooooooon". Við sem sagt söknuðum London. NY var samt frábær líka og ekki hægt að miða bara út frá einni heimsókn :) Við eigum örugglega eftir að fara þangað aftur, það er alveg pottþétt.