Kambódískar kengúrur, páfuglar, súkkulaðihúðaðir sporðdrekar og engisprettusalat
Hvað eiga ofantöld atriði sameiginleg ásamt krókódílum og fjallafroskum frá Jamaica, afrískum gnýjum og 24 kt gullhúðuðum mat? Jú þetta var allt á matseðlinum á staðnum sem við Jóhannes fórum á síðastliðinn laugardag. Hann var alveg MAGNAÐUR. Staðurinn heitir Archipelago (gríska og þýðir Eyjaklasi skilst mér). Staðurinn er samsuða af austur-evrópskum, afrískum, indverskum og thailenskum áhrifum og á matseðlinum kennir sko ýmissa grasa get ég sagt ykkur. Matseðillinn var ekki það eina sem var sérstakt við þennan stað. Tónlistin var seiðandi, litirnir sterkir og andrúmsloftið spennandi. Matseðilinn fær maður upprúllaðan í fallegri öskju og eftirréttarseðilinn er festur innan í eldgömlum bókum. Vínlistinn kemur í strútseggi. Það er nákvæmlega ekkert í stíl og veggirnir eru þaktir dóti og myndum. Margt af því til sölu. Stólarnir eru svona gylltir konungsstólar með milljón púðum. Það er erfitt að útskýra staðinn og hann er svona staður sem maður verður að fara á til að trúa. Við mælum hiklaust, hiklaust með staðnum þó hann sé frekar dýr. Hann er alveg þess virði fyrir t.d. sérstakt tilefni. Hann var valinn sérstakasti veitingastaður London fyrir nokkrum árum og hefur verið valinn einn af bestu veitingastöðum heims. Maturinn okkar, með 1 lítra af vatni (sem er álíka dýrt og vín í London), brauði, smárétti, 2 aðalréttum og eftirrétti kostaði 55 pund (um 6000 krónur). Varla nóg fyrir einum aðalrétti heima á Íslandi!
En já, aftur að matnum, Jóhannes fékk sér kengúru (sem honum fannst frábær) og ég fékk mér thailenska núðlu-tofu súpu (líka frábær). Við fengum svo brauð og einhverja millirétti líka sem allt saman var mjög flott og gott. Jóhannes fékk sér svo í eftirrétt einhverja súkkulaðimús. Hann ákvað þó að smakka ekki súkkulaðihúðaðan sporðdreka, hafði smakkað sporðdreka í sushi einhvers staðar og lét það gott heita (fannst það reyndar mjög gott). Mig langaði heldur ekki í engisprettu- og sporðdrekasalat sko eða eitthvað húðað með 24 kt gulli. He he.
Fyrir þá sem eru að fara til London þá er staðurinn á 110 Whitfield Street, W1T 5ED og síminn er 020 7383 3346. Best er að panta borð því það getur verið erfitt að fá borð annars. Athugið að það er 25 punda sekt ef maður pantar borð og mætir svo ekki. Athugið einnig að það er lokað sunnudaga. Það voru aðrir Íslendingar að setjast inn á veitingastaðinn þegar við vorum að fara, kannski vinsæll staður hjá Íslendingum, veit ekki? Mælum allavega með honum.