Bloggið

Karlremban

Jóhannes er búinn að liggja upp í sófa alla helgina og hrjóta. Hann sefur fram eftir og leggst svo upp í sófa. Ég er búin að vera að færa honum djús, teppi, laga koddann hans, elda; baka piparkökur og búa til kjúklingasúpu o.s.frv. Ekki alveg að stemma þessi mynd miðað við okkur er það nokkuð he he. Miðað við þessa lýsingu er Jóhannes mesta karlremba, vantar bara 'boltann og bjórinn' inn í þessa lýsingu. Sannleikurinn er sá að Jóhannes er búinn að vera með flensu yfir helgina og er búinn að vera drulluslappur, hnerrandi, hóstandi, með hita, beinverki og allt saman. Verður afskaplega sjaldan veikur svo eins gott að hugsa vel um hann þegar það gerist!!! Hann er annars minnsta karlremba í heimi bara svo það sé á hreinu. Vona að ég verði ekki lasin, hef svoooo ekki tíma í það (ekki frekar en Jóhannes reyndar)!
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ný uppskrift á CafeSigrun: New York Salat

New York Salat á CafesSigrun Var að setja eina uppskrift í gær. Hún er undir áhrifum frá New York enda mikið úrval þar af salatbörum og fersku hráefni. Þetta er sem sagt salat með grilluðu grænmeti (paprikum, sveppum, maísbaunum), hnetum, kirsuberjatómötum, avacado o.fl. Punkturinn yfir i-ið er samt grilluðu maísbaunirnar sem hafa verið penslaðar með fiskisósu, soyasósu og sesamolíu. Það er eins og snakk og hægt að borða eintómt. Namm. Það er hægt að nota alls konar grænmeti í þetta salat og um að gera að prófa bara.

New York Salat með grilluðu grænmeti og hnetum

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

NY ferðasagan

Kvöld á Broadway, New YorkJæja þá erum við komin aftur frá New York. Hef ekki haft tíma til að skrifa neitt þar sem ég hef verið algjörlega að drukkna í báðum vinnunum mínum.

New York var frábær. Ég er hrifnari af London reyndar en NY var samt yndisleg. Ég held að við gætum hugsað okkur að búa þar í svona nokkra mánuði á ári (þ.e. eiga íbúð þar) en komast samt alltaf til meginlands Evrópu svona megnið af tímanum. Ástæðan fyrir því að ég (og við) er hrifnari af London er sú að London hefur einhver veginn meiri sjarma, húsin eru yfirleitt fallegri og meira í okkar stíl, krækklóttu göturnar (sem voru byggðar fyrir hestvagna) eru svo skemmtilegar og svo er allt einhvern veginn miklu skipulagðara og beinna í NY, við erum hrifnari af óreiðu í stórborgum :) Sé núna hvað er fáránlega erfitt fyrir útlendinga að rata nokkurn skapaðan hlut í London. Það er fáránlega auðvelt að rata í NY. Sá sem villist í NY, hlýtur að þurfa götukort á baðherberginu sínu.

Hótelið okkar var fínt, enginn háklassi en aldeilis nóg og á góðum stað, á Broadway (aðalgötunni) rétt hjá Empire State svo útsýnið var á turninn út úr glugganum okkar. Mjög flott. Þaðan örkuðum við þvers og kruss um Manhattan og tókum aldrei leigubíl nema út á flugvöll og til baka. Fórum reyndar með neðanjarðarkerfinu ef vegalengdirnar voru miklar.

Það er margt hægt að sjá og gera í NY auðvitað, eins og í London en við versluðum ekki mikið. Ég er lélegasta verslunarmanneskja í heimi og hata ekkert meira en að versla föt og skó (er að búast við bónorðum frá þeim karlmönnum sem lesa þetta bara út af þessari setningu hí hí). Við fórum samt í nokkrar búðir eins og Esprit, Bloomingdales og svo í útivistarbúðir.

Matarmenningin er auðvitað sérkapituli, mjög gaman að skoða í hinum og þessum búðum en ein búðin var eins og Flugmóðursskip á við aðrar búðir bæði hvað varðar stærð og gæði. Verslunin Whole Foods Market er sá staður þar sem ég myndi vilja vera á í svona 3 vikur og til í að flytja til NY bara út af honum. MMMMMM þar er hægt að finna ALLT sem hugurinn girnist svo lengi sem það er hollt, lífrænt ræktað og gott. Það er svona smá útibú í London, Fresh and Wild en ekki í líkingu við það himnaríki sem hin búðin er. VÁ. Þar er líka hægt að finna íslenskt vatn, lambakjöt og fisk. Fyndið að sjá íslenska fánann stingast úr úr lambahryggnum í kjötborðinu (sem var álíka langt og 5 sinnum fisk- og kjötborðið til samans í Hagkaupum Kringlunni).

Við tókum eitt kvöldið mat með okkur heim, hollt og gott sushi og svo salat og úr salatbarnum (sem er sko með alls kyns pasta, karríréttum, grænmetisréttum o.fl. Það er ekki verið að opna baunir úr dós og hella í skálar eins og er í sumum stórum búðum á Íslandi og London. Nei þarna er allt ferskt og gott).

Af öðrum mat sem við borðuðum má nefna sushi á stað sem heitir Co Co sushi, mjög fínn og á góðu verði. Svo fórum við á stað sem sérhæfir sig í mat frá Suður-Ameríku, mjög góður líka en ekki eins hollur hí hí.

Útsýni úr Empire State byggingunniEn já við gerðum margt og mikið, fórum auðvitað upp í Empire State, fórum í siglingu meðfram neðri hluta Manhattan og að Frelsisstyttunni, fórum í sight-seeing, fórum að staðnum þar sem World Trade Center turnarnir stóðu og löbbuðum svo út um allt og skoðuðum. Svo hittum við Mumma vin hans Jóhannesar sem var svo góður að koma með tölvuna sína á Starbucks þar sem við þurftum að senda skjal frá okkur nauðsynlega en ekkert hafði gengið á netkaffihúsunum sem við fórum á. Mummi fór m.a. með okkur inn í Central Park sem var mjög gaman. Ofsalega fallegur garður í haustlitunum og svipað og Regent Park í London fyrir utan háhýsin.

Séð yfir afgreiðsluborðið á Pick Me Up Cafe á horni 9. strætis og 1. breiðgötuVið þræddum svo kaffihús auðvitað en heppnin var ekki svo mikið með okkur. Jóhannes var með lista af kaffihúsum sem við ætluðum að prófa en einn staðurinn var lokaður, einn var of langt í burtu og hinn var ekki með neitt svo spes kaffi (alltof mikið brennt eða eitthvað álíka). Einn staður sem heitir Pick Me Up Cafe var samt eiginlega bestur og líklega er það eitt sætasta kaffihús sem við höfum komið á. Með ágætt kaffi, ótrúlega kósí stemmningu og frábæra tónlist (m.a. Tom Waits). Maður datt alveg inn í Parísarstemmningu við að koma þangað. Af mínum kaffiferðum er kannski best að segja sem fæst. Hmmmmm. Starbuckskaffi í NY er sennilega versta kaffi sem ég hef smakkað á ævinni :( Það er svoooo vont í samanburði við kaffi á Starbucks í London! Svo þó að drykkirnir heiti það sama þá er ekki sama bragð. T.d. var Eggnog Latte ódrekkandi, eitthvað sem ég drekk nánast bara spari hér því það er svo gott. Ég missti sem sagt 4 daga úr Eggnog tímabilinu og er ekki sérlega kát með Starbucks, í NY það er að segja. Svo var þjónustufólkið með lægri greindarvísitölu en hænur, þau ná bara ekki pöntunum, gleyma þeim eða gleyma því að láta vita að drykkurinn sé tilbúinn og sulla öllu út um allt án þess að afsaka það né þurrka burt. Annað en hér í London.

Ég saknaði Bretlands hvað kurteisi og mannasiði varðar. Ég er orðin vön því að fólk segi afsakið ef það rekst utan í mann. Ég er orðin vön því að karlmenn haldi hurðinni opinni ef ég er að fara eitthvert inn og ég er orðin vön því að fólk skelli ekki á mig hurðum ef ég er að koma á eftir því inn í búð. Íslendingar eru svo sem alveg eins og jafnvel verri. Held að Bretar séu einstakir með þetta og eitthvað sem flestir gætu lært af þeim. Auðvitað má finna dóna inn á milli að sjálfsögðu.

Eitt sem við bjuggumst ekki við, var hversu kalt það var í NY. Ég var hér um bil dáin úr kulda, samt í ullarfötum upp úr og niður úr. Reyndar gleymdi ég að fara í angórusokkana mína fyrsta daginn og ég hélt bara hreinlega að ég væri kalin (ekki alveg að marka mig). Sight seeingið sem við fórum í tók líka 2 tíma og við sátum helminginn af tímanum á efri hæðinni í opnum vagni og hríðskálfum bæði. Meiru kjúklingarnir. Vorum samt vel klædd sko.

Þegar við lentum á Heathrow og sáum mynd af Piccadilly Circus á flugvellinum þá litum við Jóhannes á hvort annað og hugsuðum bæði það sama, brostum og sögðum "oooohhhhhhhh Londoooooooon". Við sem sagt söknuðum London. NY var samt frábær líka og ekki hægt að miða bara út frá einni heimsókn :) Við eigum örugglega eftir að fara þangað aftur, það er alveg pottþétt.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Kuldakast og tásludúnsængin

Ok enn ein kuldasagan frá mér. Það er ógó kalt sko, meira að segja miðað við Ísland. Það er sko um frostmark og vindur svo það er í raun mun kaldara. Meira að segja fólkinu á skrifstofunni er að verða kalt. Það er búið að fjárfesta í 4 ofnum. Miðstöðvarnar í húsinu eru sem sagt bilaðar segir húsvörðurinn og verða lagaðar 'bráðum' he he. Við erum með einn svona háfjallalampa sem varpar fallegum rauðum bjarma á skrifstofuna. Sá sem situr næstur honum er orðinn eins og grillaður kjúklingur á hægri kinninni. Svo erum við með 3 aðra ofna. Einn er við hliðina á mér og vei þeim sem reynir að taka hann. Gallinn er hins vegar sá að öryggin springa dáldið vegna álags og eins gott að vista allt sem maður er með á tölvunni nokkuð reglulega. Tölvan mín dó áðan enda kannski ekki skrýtið að öryggin þar hafi sprungið því ofninn minn var í sambandi við fjöltengi sem var í sambandi við 3 önnur fjöltengi áður en það fór í vegg.

Fyrir utan ofninn hér við hliðina á er ég í angórusokkum, ullarbuxum, síðerma ullarbol, öðrum langermabol og í angórupeysu, með ullartrefil. Mér er ekki einu sinni heitt. Aðrir á skrifstofunni eru svo í skyrtum eða bolum :(

Vitið þið hvað ég keypti í New York. Réttara sagt skipaði Jóhannes mér að fjárfesta í því. Það voru sem sagt heimsins bestu sokkaskór. Það eru svona skór til að sofa í, svona mjúkir enda úr dún. Þeir eru viðkomu eins og besta dúnsæng mmmmmm. Táslusængin, dúnsængin mín, náttfötin og hitapoki auk kyndingar í íbúðinni er svona rétt til að halda í mér lífinu á kvöldin.

Sáum annars Polar Expedition búning (fyrir extreme aðstæður eins og t.d. á Norðurpólnum) í útivistarbúð í New York. Horfði girndaraugum á hann sko. Fólkinu í vinnunni fyndist a.m.k. ekkert skrýtið þó ég fengi mér einn svoleiðis. Það er nokkuð ljóst. Held samt að Jóhannes myndi eitthvað fara hjá sér við það ef ég labbaði um í svona búning. Æi kannski ekki, hann er svoddan útivistarnörd he he.

Það er annars spáð snjókomu í London! ÍS-land hvað.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

1 ár

Vá hvað tíminn líður hratt.

Það er akkúrat ár síðan Jóhannes flutti út til London til að byrja í nýrri vinnu (eftir að við vorum búin að vera í ár á Íslandi og þar á undan 3 ár í London). Tíminn líður svooo hratt. Nú er líka bara mánuður til jóla veiiiii. Það eru 1,5 mánuður í að það sé ár síðan ég flutti til London aftur!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Frí, frí, frí

Veiiiii hvað ég hlakka til að fara til New York. Hlakka líka til að fara í frí frá tölvunum. Við erum búin að vera að vinna rosalega síðasta mánuðinn og varla búin að líta upp frá skjánum. Það er dálítið slítandi að vinna 12-14 tíma á sólarhring (í 2 vinnum) í langan tíma. En maður á ekki að kvarta þegar maður hefur nóg að gera. Það er betra en að hafa minna að gera. Maður þarf bara að passa sig að hvíla sig öðru hvoru. Eins og við erum að gera núna.

Sagði við Jóhannes í gær að mig langaði að taka mér 2 vikna frí til að dútla í eldhúsinu, gera ekkert annað en að prófa uppskriftir, baka, elda eitthvað gott og gera alls kyns tilraunir. Hann tók sérlega vel í það he he, ekki við öðru að búast svo sem af honum :) Held samt að það gangi ekki upp, að taka sér 2ja vikna frí frá vinnu til að dútla í eldhúsinu.

En já við erum búin að plana margt og mikið og kominn heillangur listi af dóti sem okkur langar að skoða og gera. Það kemur svo bara í ljós hversu mikið við getum gert og svoleiðis. Við ætlum samt að vera dugleg að skoða okkur um enda erum við ekki svona "sofa fram eftir á hótelherbergi í útlöndum" fólk. Hef aldrei skilið hvernig fólk tímir að sofa lengi frameftir þegar það er í útlöndum í fríi. Þá getur maður alveg eins sofið heima hjá sér.

NY here we come. Þarf bara að pakka ullargammóunum og ullarbolnum og þá er ég góð og fær í flestan sjó sko.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ísöld

Veit ekki hvar þetta endar eiginlega. Það er orðið dáldið kalt í London. Það er spáð næturfrosti á morgun. Brrrrrr. Það er búið að kaupa 4 litla blástursofna til að hita skrifstofuna. Þeim líst ekkert á bláa böggulinn með trefilinn í öllum peysunum í horninu (mig). Þeim finnst ég eitthvað kuldaleg. Reyndar komst ég að því að loftkælingin er búin að vera á í nokkra daga. Ekkert skrítið þó mér hafi verið kalt. Slökkti reyndar á henni. Fann samt engan mun :( Ég fór í ræktina í morgun og setti hitann í botn á sturtunni. Það var ekkert nóg. Ég er búin að horfa löngunaraugum á saununa í ræktinni þegar mér er svona kalt og í morgun fór ég bara inn í saununa og þurrkaði mér þar. Mmmmmmmm. Það var um 40 °C hiti þar inni og ég er búin að komast að því að það er kjörhitastig fyrir mig þegar mér er svona kalt. Langaði ekkert út úr saununni, langaði bara að leggjast á bekkinn, með handklæðið ofan á mér og hvíla mig í smá stund, í hlýjunni. Það var skammgóður vermir þó því mér var orðið kalt aftur þegar ég kom fram :(

Jóhannes er viss um að ef að kviknaði í húsinu, þá myndi ég bjarga dúnsænginni minni (mmmm dúnsængin) áður en ég myndi bjarga honum. Ég benti honum á að það væri alls ekki rétt, hann þyrfti að halda á dúnsænginni minni út svo hún kæmist örugglega út heil og ósködduð svo ég myndi eflaust sparka í hann ef kviknaði í :)

Er að spá í, þegar ég fer í hnéaðgerðina 8. desember, að biðja þá um að endurþræða alla víra í mér og athuga hvort það lagi ekki eitthvað hí hí. Já aðgerðin, komst að því að ég verð ekkert á fína spítalanum :( verð hérna í næstu götu (það eru 15 spítalar í 1 km radíus í kringum okkur). Erum svona að spá í hvernig ég komist heim eftir aðgerðina því það er eiginlega of stutt að fá leigubíl (tekur 2 mín að labba) en ég á eflaust ekki eftir að geta labbað. Kannski spurning um að stela innkaupakörfu og rúlla mér bara.

En jæja ég ætla að fá mér te og kveikja á öllum ofnunum á skrifstofunni, kannski að ég komist í eðlilegan líkamshita he he.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Grænu nærurnar á þakinu

Það var maður upp á þaki húss beint á móti skrifstofunni í morgun. Húsið beint á móti er Holiday Inn hótel og þar uppi var maður, á grænum nærbuxum. Við hlupum öll út í glugga því við héldum að hann ætlaði að stökkva niður af þakinu (6 hæðir). Þegar við sáum hann svo betur tókum við eftir að hann var í grænum nærbuxum og með græn gleraugu á hausnum. Maður sem er í þann mund að stökkva ofan af húsþaki klæðir sig örugglega ekki í grænar nærbuxur, nema að hann haldi að hann sé afbrigði af Super-Spider-Batman. Það var næsta áhyggjuefni. Var hann kannski klikk og ætlaði þess vegna að stökkva? Grænu gleraugun gerðu svo útslagið. Þetta var ekki gríma heldur voru þetta gleraugu og það er enginn nógu klikk til að vera með græn, kringlótt gleraugu.

Þegar betur var að gáð reyndist einhver vera að taka mynd af manninum. Var reyndar orðin forvitin að vita hvort hann gæti flogið, hann leit nógu skringilega út til þess a.m.k.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Gestir og gangandi

Jæja þá eru gestirnir okkar gengnir upp að hnjám eftir London. Sigrún, Freysi og Máni Freyr eru búin að gera margt og mikið, fara í Hjólið, í Sædýrasafnið, skoða Big Ben og þinghúsið, fara á mörg kaffihús meðal annars Vergniano til að fá góðan espresso og Starbucks þar sem þau drukku eggnog og Toffee Nut Latte. Þau eru líka búin að kíkja í búðir, sjá jólaljósin á Regent Street og í gær fórum við á Gili Gulu (færibandasushistaðinn góða). Við höfum eigendur staðarins grunaða um að vera að fylgjast með Jóhannesi og hans áti, allavega var færibandið alltaf tómara okkar megin en hinu megin. Ok þeir höfðu kannski ekki við Jóhannesi. Á föstudagskvöld fórum við svo á Rainforest Cafe sem er veitingastaður/ævintýraheimur fyrir krakka. Þar er áhersla lögð á dýr og frumskóginn og var Máni duglegur við að klappa fílunum (úr plasti reyndar) og klappa górillunum (líka úr plasti). Maður þarf víst ekki mikið hugmyndaflug þegar maður er lítill til að ímynda sér að þetta sé lifandi dýr í alvöru frumskógi. Voða gaman að fara með krökkum á þennan stað.

Í kvöld fengu Sigrún og Freysi svo kaffinámskeið hjá Jóhannesi þar sem hann sýndi þeim taktana við kaffivélina sína og hvernig á að búa til gott espresso. Ég reyndi að búa til kaffi en mistókst eiginlega, ég var of óþolinmóð, eins og alltaf.

Á morgun fara svo Sigrún og Freysi og þá er ansi stutt í að við förum til New York, aðeins 3,5 dagar!!! Við hlökkum mikið til.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Kambódískar kengúrur, páfuglar, súkkulaðihúðaðir sporðdrekar og engisprettusalat

Staðurinn sérstaki, Archipelago í LondonHvað eiga ofantöld atriði sameiginleg ásamt krókódílum og fjallafroskum frá Jamaica, afrískum gnýjum og 24 kt gullhúðuðum mat? Jú þetta var allt á matseðlinum á staðnum sem við Jóhannes fórum á síðastliðinn laugardag. Hann var alveg MAGNAÐUR. Staðurinn heitir Archipelago (gríska og þýðir Eyjaklasi skilst mér). Staðurinn er samsuða af austur-evrópskum, afrískum, indverskum og thailenskum áhrifum og á matseðlinum kennir sko ýmissa grasa get ég sagt ykkur. Matseðillinn var ekki það eina sem var sérstakt við þennan stað. Tónlistin var seiðandi, litirnir sterkir og andrúmsloftið spennandi. Matseðilinn fær maður upprúllaðan í fallegri öskju og eftirréttarseðilinn er festur innan í eldgömlum bókum. Vínlistinn kemur í strútseggi. Það er nákvæmlega ekkert í stíl og veggirnir eru þaktir dóti og myndum. Margt af því til sölu. Stólarnir eru svona gylltir konungsstólar með milljón púðum. Það er erfitt að útskýra staðinn og hann er svona staður sem maður verður að fara á til að trúa. Við mælum hiklaust, hiklaust með staðnum þó hann sé frekar dýr. Hann er alveg þess virði fyrir t.d. sérstakt tilefni. Hann var valinn sérstakasti veitingastaður London fyrir nokkrum árum og hefur verið valinn einn af bestu veitingastöðum heims. Maturinn okkar, með 1 lítra af vatni (sem er álíka dýrt og vín í London), brauði, smárétti, 2 aðalréttum og eftirrétti kostaði 55 pund (um 6000 krónur). Varla nóg fyrir einum aðalrétti heima á Íslandi!

En já, aftur að matnum, Jóhannes fékk sér kengúru (sem honum fannst frábær) og ég fékk mér thailenska núðlu-tofu súpu (líka frábær). Við fengum svo brauð og einhverja millirétti líka sem allt saman var mjög flott og gott. Jóhannes fékk sér svo í eftirrétt einhverja súkkulaðimús. Hann ákvað þó að smakka ekki súkkulaðihúðaðan sporðdreka, hafði smakkað sporðdreka í sushi einhvers staðar og lét það gott heita (fannst það reyndar mjög gott). Mig langaði heldur ekki í engisprettu- og sporðdrekasalat sko eða eitthvað húðað með 24 kt gulli. He he.

Fyrir þá sem eru að fara til London þá er staðurinn á 110 Whitfield Street, W1T 5ED og síminn er 020 7383 3346. Best er að panta borð því það getur verið erfitt að fá borð annars. Athugið að það er 25 punda sekt ef maður pantar borð og mætir svo ekki. Athugið einnig að það er lokað sunnudaga. Það voru aðrir Íslendingar að setjast inn á veitingastaðinn þegar við vorum að fara, kannski vinsæll staður hjá Íslendingum, veit ekki? Mælum allavega með honum.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It