Bloggið

Kaffihúsafrumskógur

Joe and the juice kaffihúsið í London
Við erum beinlínis að drukkna í frábærum kaffihúsum. Það er svo sem ekki ástæða til að kvarta yfir því og erum við dugleg (einum of) við að sækja staðina. Jóhannes er sérstaklega glaður yfir þessari þróun því hann hatar Starbucks (kaffið þeirra) en af því mér finnst þunnt (koffeinlaust) kaffi gott, þá elska ég Starbucks. Mig langaði bara að benda ykkur á þessa staði, svona ef þið eigið leið um London og viljið gott kaffi á skemmtilegum kaffihúsum. Þetta eru staðir sem fáir túristar vita um og eru meira svona hverfisstaðir, sérstaklega þrír þeirra. Þarna sér maður alls kyns fólk og oftar en ekki er glatt á hjalla. Síðast þegar við fórum á Joe & The Juice heyrðu afgreiðslumennirnir ekki í okkur því dansinn dunaði svo mikið, á bak við afgreiðsluborðið. Svo máluðu þeir hvít strik í andlitið og héldu áfram að dansa. Þar eru allir hressir, alltaf. Hinir staðirnir eru meira svona rólyndisstaðir. Þeir eiga allir sameiginlegt að vera með gott espresso og góðan latte. Þegar ég segi gott espresso þá er ég að meina "Jóhannes-sem-er-kaffidómari-og-hrikalega-sérvitur-á-espresso-segir-að-það-sé-afbragð" gott. Þá er mikið sagt. Allir staðirnir eru nálægt Oxford Street en samt það vel faldir að maður sér aldrei nokkurn tímann túrista (nema á Joe & The Juice).
 • Kaffeine: Er á næsta götuhorni og er lítið en voðalega sætt kaffihús. Gott kaffi og góður matur. Enginn íburður og manni líður svolítið eins og maður sé í kaffi hjá vinafólki. Maður sér aldrei nokkurn tímann túrista.
 • Lantana: Svo vinsæll að það er alltaf biðröð út á götu (eftir sæti á kaffihúsi). Við förum yfirleitt snemma laugardags- eða sunnudagsmorgna og fáum okkur kaffibolla utandyra. Reglulega gott kaffi. Hér kemur ekki nokkur túristi heldur enda er staðurinn ekki í fjölfarinni götu heldur falinn í pínulítilli hliðargötu.
 • Joe & The Juice: Afar svalur staður og einn sá flottasti í London. Myndin hér að ofan er þaðan (af efri hæðinni). Þetta er reyndar dönsk keðja en það er akkúrat ekkert sem minnir á Danmörku þarna inni (nema stundum heyrir maður dönsku á meðan gestanna). Þeir eru með rosa góða djúsa (útbúna á staðnum) og gott kaffi. Er á einni fjölförnustu götu London svo oft eru túristar á ferð.
 • Packed and Tapped (No. 26): Æðislegt kaffihús, gott kaffi og frábær matur. Maður slefar yfir hádegismatnum þeirra og það er mjög gott verð á öllu. Heimilislegur staður og ekki í alfaraleið. Hér koma aðeins þeir sem búa í nágrenninu því það er ekkert annað þarna opið á þessum tíma.
Það eru örugglega fleiri kaffihús sem ég er að gleyma en þessi 4 eru í uppáhaldi þessa stundina.
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ekki er allt gull sem glóir (æðislega misskilinn matur)

Ég fékk mér kaffi í dag, á Starbucks sem er nú ekki svo óvenjulegt. Við afgreiðsluborðið stóðu tvær konur og voru að velta fyrir sér gulrótarköku sem lá í borðinu, sparileg og sæt í fallegu bréfi. Þær ræddu kosti og galla gulrótarkökunnar og komust að þeirri niðurstöðu að gulrótarkakan væri dálítið hollari en aðrar kökur því hún innihéldi gulrætur (skítt með að gulræturnar ofan á kökunum væru úr lituðu marsipani). Þær fengu sér báðar gulrótarkökur, glaðar í bragði og ég glotti við tönn. Þær voru að fá sér eitthvað sem þær töldu vera hollt og voru eflaust ekki með neitt samviskubit. En skilja líklega ekkert í því að buxurnar halda bara áfram að þrengjast? Ekki er allt gull sem glóir, það er nokkuð víst. Æi ég er kannski búin að tala um þetta svo oft að þið eruð komin með nóg upp í kok en allavega, læt flakka.

Gulrótarkaka Gulrætur eru ekki ávísun á hollustu. Í gulrótarkökum er oftar en ekki flórsykur, hvítur sykur, smjör og rjómaostur og jafnvel marsipan (dulbúið sem gulrætur).

Döðluterta Döðlur eru hollar en ekki ef þeim er blandað saman við hvítan sykur, hvítt hveiti og smjör.

Tilbúið salat með salatsósu Gætið þess að salatsósur innihalda oft hátt hlutfall af fitu og majonesi. Salat á skyndibitastað getur verið töluvert hitaeiningaríkara en t.d. samloka úr grófu brauði með áleggi. Salöt sem innihalda brauðteninga eru einnig lævís í óhollustunni. Gætið ykkar sérstaklega á cesar salötum svokölluðum.

Pastasalat Pastasalöt innihalda yfirleitt hvítt pasta, pastasósu sem búin er til úr olíu og majonesi ásamt kjötáleggi einhvers konar (skinku, pepperoni o.fl.).

Heilsukaka Það kemur ykkur líklega á óvart að í svonefndum heilsukökum á kaffihúsum er oft púðursykur, hvítur sykur og gríðarlegt magn olíu eða smjörs. Spyrjist fyrir um innihaldið áður en þið ráðist til atlögu við Heilsuköku. Það er algjörlega óþolandi misskilningur að púðursykur sé hollur.

Orkubitar/Hollustuklattar/Orkustangir Yfirleitt er fyrsta innihaldið í innihaldslýsingu smjör og það næsta púðursykur. Hvorugt er hollt fyrir mann. Ég þoli ekki púðursykur.

Próteinstangir (oft í einhverjum silfurlituðum umbúðum) Tilbúnar próteinstangir innihalda oft alls kyns furðuleg efni (og örugglega púðursykur...pirr pirr pirr). Mér finnst sjálfri ekki notaleg tilhugsun að lesa aftan á umbúðir þess sem ég borða og skilja hvorki upp né niður. Þetta eru afar ónáttúrulegar vörur og maður ætti að forðast þær (að mínu mati).

Jógúrtrúsínur Það er ekkert og ég endurtek ekkert hollt við jógúrtrúsínur. Þær eru hálf hlægilegar þar sem þær liggja með hollustuvörunum því jógúrtrúsínur eru eitt af því óhollasta sem maður getur látið inn fyrir varirnar. Transfitusýrur, sykur, bindiefni og alls kyns furðuleg efni eru yfirleitt ofarlega á lista innihaldsins.

Heilsunammi Heilsunammi á oft voðalega lítið skylt við heilsu þannig séð. Lesið vel aftan á umbúðirnar....oft er um að ræða súkkulaði af lélegum gæðum, með transfitusýrum, E-efnum, sykri o.fl.

Speltpizza Þó að eitthvað innihaldi spelti er það ekki ávísun á hollustu. Að drekkja spelt grænmetispizzu í olíu eða feitum osti er ekki hollt (þó hún sé hollari en pizza með kjötáleggi). Heimatilbúnar speltpizzur eru þó allt annað mál og athugið að tilbúnar speltpizzur GETA vel verið hollar ef þær eru þunnbotna með hollri pizzasósu og grænmetisáleggi og ekki að drukkna í hvítlauksolíu.

Kjúklingavefjur Kjúklingurer ekki ávísun á hollustu. Vefjurnar geta verið úr óhollu hráefni (oftar en ekki raunin ef þær eru keyptar), t.d. transfitusýrum, hvítu hveiti, sykri og E-efnum. Innihald vefjunnar er oft steiktur kjúklingur og sósa úr majonesi.

Skyrbúst Þó að eitthvað innihaldi skyr og heiti búst eða boozt eða eitthvað í þá veruna, þýðir það ekki að þið getið svolgrað það í ykkur og beðið eftir vöðvunum. Bragðbætt skyr inniheldur oft helling af sykri (litarefnum og bragðefnum) og ef það inniheldur ekki sykur inniheldur það aspartam. Langbest er að búa til sér góðan skyrdrykk heima úr hreinu skyri, svolitlu agavesírópi, ávöxtum o.fl.

Púðursykur Púðursykur er ekki á neinn hátt hollur. Oft er búið að lita hvítan sykur og selja sem púðursykur. Hann er t.d. mun óhollari en hrásykur svo dæmi sé tekið. Ég vildi að væri hægt að fangelsa púðursykur fyrir lífstíð.

Ok, hætt að röfla í bili...

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Hjálparlínan

Litla Afkvæmið var lasið um daginn. Í fyrsta skipti á sínum 11 mánuðum ef frá er talin smá nokkurra klukkustunda hitavella eftir langt ferðalag til Afríku um 6 mánaða aldurinn. Hún var búin að vera voðalega lítil í sér og ómöguleg og þrátt fyrir verkjalyf, bráði ekki almennilega af henni og hitinn var orðinn óþægilega hár að okkar mati (og hennar). Haft var samband við vinkonur mér reynslumeiri og góð ráð fengin. Að því búnu fann ég til símanúmer á NHS Direct sem er eins konar hjálparlína eins og Læknavaktin (nema ekki einkarekin). Þar svaraði í símann kona sem var mjög líklega að vona að síminn myndi springa í eyrunum á henni svo hún þyrfti ekki að mæta í vinnuna daginn eftir. Eftir langt spurningaflóð þar sem meðal annars tók langa stund að stafa nafn Afkvæmisins og foreldranna, var mér gefið samband við hjúkrunarkonu sem var voða hjálpleg. Hún fór í gegnum langt spurningaflóð líka og var greinilega að lesa úr handriti eða af skjá. Ég veit að það skiptir máli að fylgja stöðluðum spurningalistum fyrir bestu greininguna en það mætti kannski aðlaga spurningarnar eitthvað að yngri kynslóðinni sem og aðstæðum? Sem dæmi voru spurningar eins og:
 • Hefur hún nýlega kvartað um önnur vandamál en þau sem hún glímir við núna? (Já...eins og t.d. þegar hún nær ekki að tæta tölvur foreldra sinna, eða þegar foreldrarnir eru að þrífa hana í framan)... Nei hún er bara 11 mánaða svaraði ég.
 • Hefur hún átt erfitt með mál?... (orðaforðinn er 2 orð...)... Hún er 11 mánaða.
 • Dettur hún og er óstyrk í fótum?... (Já... svona 3 þúsund sinnum á dag)... Hún er bara 11 mánaða.
 • Hefur hún verið á iði eða óróleg síðustu daga?...Já....hún er 11 mánaða (stoppar ekki eina sekúndu).
 • Andar hún eðlilega?... Hún er sofandi.
 • Sýnir hún viðbrögð þegar þú talar við hana?... Hún er sofandi.
 • Nærðu augnsambandi við hana?... Hún er sofandi.
 • Bregst hún illa við ljósi?... Hún er sofandi, (í kolniðamyrkri eins og henni finnst best).
 • Er hnakkinn stífur?... Uuuuu hún er enn sofandi.
 • Er hún ringluð á einhvern hátt?... Ja sko hún er að vakna núna og er ringluð (eins og alltaf þegar maður er nývaknaður) og mjög pissed off (eðlilega, enda vakin)...Ha er hún pissed on? Nei pissed off sagði ég... Ó, svoleiðis....ticked off (fínna orð en pissed off).
 • Hefur hún grátið í dag eða grætur hún núna (nú alveg vöknuð og afar óhress)?... Fyrirgefðu ég heyri ekki almennilega hvað þú segir, hún grætur svo hátt.
Og svona hélt samtalið áfram.....Þetta er mun einfaldara á Íslandi þar sem maður hringir bara í Læknavaktina eða á Barnalæknavaktina. Það er samt skemmtilegt að upplifa samtöl þar sem maður er glottandi allan tímann.

Afkvæmið jafnaði sig og er orðið samt við sig...dettur 3 þúsund sinnum á dag, pirrað yfir vandamálum eins og að mega ekki tæta tölvur foreldra sinna, að þurfa að fá þvottapoka í andlitið o.s.frv. Það er erfitt að vera lítill.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Kirsuber af bændamarkaði

kirsuber í gluggagistu
Á sunnudögum förum við oft á Bændamarkaðinn á Marylebone. Við komumst ekki alltaf en þegar við getum farið er alltaf jafn gaman að skoða. Þarna er hægt að finna svo margt og mikið af góðu hráefni. Maður gengur um básana og fyrir innan þá standa stoltir bændur með hendur á mjöðmum og kynna glaðir í bragði vörurnar sínar. Þeir eru allir með roða í kinnum og úfið hár og eru bæði kvenkyns og karlkyns, ungir og gamlir. Þetta er fólkið sem kemur beint af bóndabænum með vörurnar sínar, jafnvel í stigvélunum þó að það sé glaðasólskin. Ég sá einu sinni svolítinn bút af heyi fast í krullu á höfði eins bóndans, fjaðrirnar eru oft enn þá á eggjunum og í gær tók ég eftir því að konan sem seldi okkur kirsuberin sem myndin er af, var með koldrullugar hendur. Hún var um 35 ára líklega eða yngri og hendurnar voru grófar, sigggrónar og allar neglurnar voru stuttar en með sorgarröndum. Maður veit þess vegna að það sem til sölu er, er selt af fólkinu sem hlúði að hráefninu frá upphafi. Þú getur spurt um allt ferlið, frá sáningu og til uppskeru. Þetta er sem sagt alvöru bændamarkaður í miðri London (rétt hjá Oxford Street eða þeim megin sem Selfridges er) og ef þið eigið leið hjá, skuluð þið gera ykkur far um að kíkja. Það er opið 10-14 á sunnudögum og þið beygið niður hægra megin ef þið standið fyrir framan Starbucks á Marylebone High Street.

Kirsuberin eru þau bestu sem ég hef smakkað á ævinni (eða nálægt því) og þau kostuðu 2.5 pund, allt boxið.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Vanræksla á háu stigi!

Afsakið vanræksluna. Hún er tilkomin vegna þess að við erum upptekin við að njóta þess sem London hefur upp á að bjóða. Við erum búin að vera dugleg að koma okkur fyrir í nýja húsnæðinu sem er við Riding House Street í London. Nú erum við hætt að búa í ferðatöskum og við erum farin að sjá í gólfið. Við þurfum heldur ekki lengur að spila Tetris með allt okkar hafurtask og reyna að koma því fyrir þar sem ekkert pláss er. Hverfið er rólegt og gatan sömuleiðis. Hér á næsta horni er dásamlegt kaffihús, Kaffeine (uppgötvuðum það við mikla gleði Jóhannesar). Við erum stutt frá öllu og við erum 5 mínútur að nálgast flest það sem við þurfum, hvort sem það er læknir, matvörur eða annað. Það er líka notalegt að rekast á vini sína, þau Mariu og Pete. Það er notalegt því London er jú 8 milljón manna borg og við þekkjum ekki svo marga þrátt fyrir að hafa búið hér lengi.

Við fórum annars á þennan stað (Zilli Fish) síðasta laugardag (Maria átti afmæli) og ég mæli með honum fyrir þá sem vilja prófa góðan fisk í London. Fiskurinn er ferskur og maturinn er reglulega góður.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ísinn og litla barnið

Ég sat fyrir utan Natural History Museum um daginn því skammtímaíbúðin sem við erum í, er í göngufæri. Ég sat í grasinu fyrir utan safnið, aðeins að viðra mig eftir vinnulotu. Afkvæmið var með í för og við sátum í skugganum af trjánum. Ég drakk lífrænt framleiddan gosdrykk með hreinum epla- og trönuberjasafa og litla dýrið brosti út að eyrum með Cheerios hringina sína (sér innflutt af ömmum og öðrum fjölskyldumeðlimum því Bretar kunna ekki að borða Cheerios sem ekki er húðað með sykri). Í grasinu rétt hjá mér var par með lítið barn sem var á nánast sama aldri og Afkvæmið (með nokkrar tennur, gat ekki staðið sjálft en gat setið upprétt og skriðið o.s.frv.). Ég gaf fólkinu lítinn gaum (ég er SVO ekki manneskjan til að ná augnsambandi við annað fólk með börn) fyrr en ég sá ísana sem þau héldu á. Pabbinn var með stóran mjólkurís í formi og barnið færðist nær þessu hvíta, skrítna sem pabbinn hélt á (enda er allt spennandi sem mamma og pabbi eru með..og fær Afkvæmið ósjaldan hráa gulrót úr munni mínum, til að naga og leika með). Þetta var venjulegt fólk, snyrtilegt og virtist hafa ráð á t.d. góðum ítölskum skóm á pabbann, dýrri handtösku fyrir mömmuna og dýrri barnakerru. Þetta voru ekki Bretar sem tilheyrðu lágstétt.

Þar sem þetta var einn af fyrstu sólardögunum í London og barnið það ungt, reiknaðist mér til að það hefði aldrei smakkað ís áður. Ég sá það líka á viðbrögðum foreldranna að þetta var eitthvað nýtt og spennandi í lífi barnsins, og þeirra. Pabbinn rétti ísinn að barninu (takið VEL eftir hér að barnið færði sig ekki nær ísnum. Þetta er algjört lykilatriði). Barnið sleikti ísinn. Svipurinn var fyrst svolítið skrítinn (kuldinn) og foreldrarnir æptu úr spenningi. Það var sérlega áhugavert að fylgjast með framhaldinu og ég hafði ekki augun af fólkinu (og passaði vandlega að þau sæu ekki að ég væri að fylgjast með því). Barnið nánast umturnaðist. Fyrst var það brosandi og fór svo yfir í að verða afar pirrað þegar pabbinn var ekki nægilega fljótur að rétta ísinn. Barnið greip því næst í súkkulaðikexið sem stóð upp úr ísnum og át. Pabbinn sleikti ísinn sinn og rétti barninu aftur á meðan mamman tók myndir á símann sinn í gríð og erg, organdi úr hlátri enda barnið útatað í ís og súkkulaði. Barnið endaði á því að klára ísinn, í brauðforminu og með súkkulaðikexinu. Barnið varð að lokum brjálæðislega pirrað á því að fá ekki meiri ís og það orgaði hátt. Það hefur líklega orgað með magapínu eftir að heim var komið enda var sykur-, súkkulaði-, og mjólkurmagnið mikið miðað við lítinn búk.

Það er svo margt rangt við þessa mynd. Barnið hefur ekki huuuuugmynd um hvað ís er. Barnið hugsar ekki vá hvað ég á skemmtilega foreldra sem gefa mér ís af því það er sól og við erum í garði. Barnið hugsar SÆTT, SÆTT, SÆTT, SÆTT, SÆTT, GOTT, GOTT, GOTT, MEIRA, MEIRA, MEIRA, NÚNA, NÚNA, NÚNA, NÚNA. Börn eru með ólíkindum fljót að læra og hvað haldið þið að eigi eftir að gerast í náinni framtíð þegar foreldrarnir fá sér ís? Akkúrat þegar tennurnar eru að koma upp? Ég er ekki að segja að börn eigi ALDREI á sinni ævi að fá sykur og ALDREI á sinni ævi að fá ís. Það er jú staður og stund fyrir allt. Hins vegar, ef barnið veit ekki hvað ís er, er ekki ágætt að bíða með að gefa slíkt þangað til það er orðið aðeins eldra og getur allavega beðið sjálft um ís? Það að gefa barninu ís eða sælgæti á þessum aldri er einungis fyrir foreldrana, eitthvað sem þeim finnst sniðugt og fyndið og halda að sé skemmtilegt fyrir barnið. Barnið gerir t.d. engan greinarmun á rjóma og ís. Ef foreldrarnir fá sér ís væri þess vegna hægt að setja þeyttan rjóma í skál, með t.d. maukuðum bönunum og láta barnið borða. Það yrði alsælt, myndi fá vítamín og fitu í kroppinn og maginn yrði líklega sáttur.

Afkvæmið kláraði þessa nokkra Cheerios hringi sem ég hélt á í lófanum og gæddi sér svo á heimatilbúnu mauki með lífrænt framleiddu mangoi, bönunum og svolitlu af grísku jógúrti. Þetta var svo gott mauk að það sem hún kláraði ekki gæddi ég mér á. Það hefði þess vegna mátt frysta maukið og nota sem ís. Það er allt betra en að gefa svona ungu barni hvítan sykur, rotvarnarefni og annað í þeim dúr. Kannski gefa þau barninu aldrei aftur ís, kannski fær barnið ís einu sinni í viku, hvað veit ég. Það var bara þetta með að rétta ísinn að svona litlu barni (sem vissi ekki hvað ísinn var) sem truflaði mig svo mikið.

Þetta er þó bara mitt persónulega mat og ég er óendanlega þakklát þeim sem ýta ekki sykri að Afkvæminu....Ég er sjálf enn þá með heilar og óskemmdar tennur (og glerungurinn eins og í 13,5 ára sagði tannlæknirinn mér) og ég ætla að gera mitt til að stuðla að því að þannig verði það líka hjá þeirri stuttu..Það verða líka næg tækifæri síðar þegar hún er orðin eldri, að heimta sælgæti. Það verður reyndar aldrei keypt á heimilinu (fyrr dytti ég dauð niður) en í staðinn verður ávallt til hollt konfekt, ávextir o.fl. og vonandi verður það til þess að tennurnar verði fínar!!!!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Óvænta spurningin

Í búðinni sem er næst skammtímaíbúðinni okkar er stór matvöruverslun (með Starbucks innan í, mér jú til mikillar gleði). Í versluninni er einnig apótek og þangað átti ég erindi í dag. Litla Skrípið hefur hingað til ekki fengið kvef, hita né nokkuð annað....7, 9, 13... Enda fær það afspyrnu hollan, gufusoðinn mat em og lífrænt ræktað og framleitt hráefni, allt vel samsett og útpælt. Það hlýtur að hafa sitt að segja. Daman fékk reyndar svolítinn hita og stíflað nef eftir sólarhrings ferðalag til Afríku en það er held ég eðlilegt. Hún var aldrei lasin, bara smá slöpp í einn dag. Það er alveg týpískt þegar maður er orðinn slakur, að einhver veikindi koma upp. Þess vegna fór ég í apótekið svona EF eitthvað kæmi upp á að ég ætti eitthvað við beinverkjum, stífluðu nefi og þess háttar. Ég á reyndar stíla (frá Íslandi) svona í neyð en mig vantaði meira svona eins og fyrir tannverki því Litla dýrið er að taka tennur og er allt annað en hamingjusamt yfir því. Ég er með öll ráð og brögð á minni könnu varðandi tanntöku (kaldir naghringir, kaldar gulrætur, blautir og kaldir þvottapokar o.s.frv.) en vildi fá eitthvað sem gæti komið henni yfir það allra, allra versta. Litla Skrípið er sjaldan í vondu skapi en þegar tennurnar eru að láta á sér kræla...þá vei þeim sem er nálægt. Þeir sem hafa verið í tannréttingum vita að allt sem hefur með hreyfingar á tönnum að gera, er algjört helvíti og það að þær rífi sig í gegnum holdið hlýtur að vera allt annað en þægilegt.

En hvað um það. Ég vel úr hillunni og trítla í átt að sjálfsafgreiðslukössunum. Þar skannar maður sjálfur vörurnar sínar og setur í poka og greiðir fyrir. Afskaplega þægilegt og einfalt. Ég skanna inn verkjalyfið (sykurlaust verkjalyf með jarðarberjabragði en engin aukaefni eða bragðefni, voðalega náttúrulegt). Umsvifalaust pípir kassinn og kvenkyns starfsmaður kemur askvaðandi. Það er ekki óvenjulegt að tölvugerða kassadaman (röddin úr sjálfsafgreiðslukössunum, týpískt að röddin sé kvenkyns en það er annað mál) segi við mann t.d. „Varan er ekki rétt skönnuð inn, reyndu aftur“ eða „Vinsamlegast sláðu inn fjölda“ eða „Notar þú eigin poka“ og svoleiðis. Allt góðar og gildar spurningar. Það sem tölvugerða kassadaman sagði við mig í dag var „Vinsamlegast sannreynið“ (please validate). Yfirleitt þegar einhver svoleiðis skilaboð koma þá kemur einhver starfsmaður hlaupandi og skannar passann sinn inn og þá getur maður haldið áfram. Tekur um eina sekúndu. Konan (grönn, eldri kona, gráhærð og með gleraugu í dökkbláu plíseruðu pilsi), kemur, eins og áður sagði askvaðandi og skannar passann sinn. Ég ætlaði að taka næstu vöru upp úr körfunni þegar hún slengir framan í mig spurningu sem ég var SVO, SVO, SVO ekki viðbúin: „Hvað ertu gömul“. Ég var svo fullkomlega, eitt hundrað prósent, algjörlega ekki viðbúin þessari spurningu og hún kom SVO flatt upp á mig að í flaustri kom ég ekki upp orði. Ekki.einu.einasta.orði.

Ég starði á konuna og þurfti að HUGSA, virkilega að hugsa, hvað ég væri gömul. Tvær sekúndur liðu (sem er óratími í svona aðstæðum). „Uuuuuuu 24?“ var það fyrsta sem mér datt í hug.. (og ég er ekki rass í bala 24 ára).....2 sekúndur liðu.....„nei ég meina....29 ára?“ Aðrar 2 sekúndur liðu á meðan ég reiknaði út fæðingarárið mínus 2010...„Nei ég meina sko 36 ára....Í alvöru“..... Konan horfði á mig mjög furðulega...horfði svo á Litla Skrípið í kerrunni og hefur líklega vorkennt þessu barni sem átti FÁVITA (eða dóphaus) fyrir móður. Það leið smá stund og ég tók af mér sólgleraugun því mér finnst óþægilegt að svitna á nefinu (sem ég var farin að gera). Mér leið virkilega, virkilega illa því ég var svo fullkomlega ekki með á nótunum. Ég var í svona „ég ætla að fá glúteinlaust kaffi“ ástandi þ.e. annars hugar. Um LEIÐ og ég tók af mér sólgleraugun brosti konan og sneri sér við.

Ég stóð eftir, með sólgleraugun í höndunum og fannst ég ótrúlega gömul í framan. Mig langaði helst að fara og kaupa mér hrukkukrem. Hún spurði mig um aldur minn (maður þarf að vera eldri en 20 ára) þegar ég var með sólgleraugun Á mér en um leið og hún sá framan í mig brosti hún og þar með var málið dautt. Hvað á maður að halda? Á maður að kaupa sér hrukkukrem í næstu búðarferð?

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Kvennaeyjan

Maður sér margt skrítið í London.

Ég fór í klippingu í morgun og inni á stofunni blasti við mér einn af aðstoðarstrákunum sem er hýrari en allt sem hýrt er. Hann var með 40 sm háan hanakamb frá enni og aftan á hnakka sem var í orðsins fyllstu merkingu í regnbogans litum. Enda fór gleðigangan í London fram í dag og hann var að hafa sig til. Hann var mikið skreyttur með pallíettum, glimmeri, litríkum borðum og var með stóran fána í stíl við hárið og naglalakkið. Hann fer líklega ekki fram hjá neinum í göngunni. Yfirmaður hans og eigandi hárgreiðslustofunnar sagði „vá þú ert hýrari en allt hýrt sem ég hef séð á ævinni...og þá er nú mikið sagt“. Hanakamburinn fór stráknum (sem er hálfur Spánverji og hálfur Filippseyingur) mjög vel og hann trítlaði út, glaður í bragði, tilbúinn í skrúðgönguna.

Í dag sá ég líka útigangsmann sem var spariklæddur. Hann var dragfínn, með bindi og í jakkafötum og skyrtu. Hann var eldrauður í framan og í inniskóm. Ég hafði helst á tilfinningunni að hann hefði labbað út af skrifstofunni og út á götu, með allar sínar veraldlegar eigur í pokanum,búinn að gefast upp á 9-17 vinnunni.

Í gær sá ég líka fulla umferðareyju af konum. Þar var á ferð múslimskur karlmaður með heilan her af eiginkonum í eftirdragi. Það hryggir mig alltaf jafn mikið þegar þessar karlfýlur eru léttklæddir og á eftir þeim er halarófan af eiginkonunum sem ekki sést í nema rétt svo augun og varla það og í steikjandi hita....urrrrrr. Umferðareyjan var á stórri umferðargötu sem ég var að ganga eftir. Allt í einu heyri ég mikið bílflaut og allt í pati (ekki óalgengt á þessari götu en það keyrði alveg um þverbak). Ástæðan fyrir bílflautinu og umferðarteppunni var sem sagt að þessi her af eiginkonum fyllti heila umferðareyju og gott betur því rassar og brjóst (mikið af þeim) og hendur og lappir stóðu alls staðar út fyrir, á miðri akbrautinni (sem er álíka umferðarþung og Miklabrautin). Eiginmaðurinn var að reyna að smala þessum svartklæddu konum upp á eyjuna en þær voru eins og óstyrilátar rollum í réttum og æstust allar upp við bílflautið sem þýddi að þær ýttu hvor annari lengra út á akbrautina. Það fór þannig að afar reiðir ökumenn (það þarf virkilega lítið til að koma þeim úr jafnvægi) steyttu hnefa og hreyttu ókvæðisorðum að karlinum sem hottaði á konurnar þangað til þær komust allar yfir götuna, í heilu lagi..... Svei mér þá ef glitti ekki í ökkla einhvers staðar þarna í öllum æsingnum.

Við búum líka við hliðina á húsi þar sem Alfred Hitchcock bjó í, í rúm 13 ár. Húsið er virkilega draugalegt og drungalegt með skítugum rúðum og rauðri útidyrahurð sem er byrjuð að flagna. Það getur ekki verið tilviljun að hurðin sé blóðrauð. Ég sé aldrei sama fólkið koma inn og út úr húsinu en kannski ekki að marka því ég flýti mér alltaf dálítið mikið fram hjá húsinu og bíð alltaf eftir að sjá fugla fljúga úr því eða heyra í æpandi konu í sturtu eða einhverju svoleiðis. En ekkert gerist. Kannski er hugmyndaflugið bara að hlaupa með mig í gönur... og það er þá ekki í fyrsta skipti.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Vöfflupinnar

Ég verð hreinlega að eignast svona:
Vöfflupinnar
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Hvað er með rólegheitin?

Þið haldið eflaust að ég sé búin að koma mér fyrir í sófanum, með sjónvarpsfjarstýringuna og með tærnar upp í loftið. Ég lofa nýjum vef og ekkert gerist? Eða hvað? Jú sko….hann er í smíðum og við erum á fullu, öll kvöld, allar helgar og allan frítíma okkar (þann litla sem við höfum). Nýr vefur CafeSigrun ER þokast í rétta átt (meira bullið að þurfa að vera í vinnu líka!). Aumingja Jóhannes er sveittur hverja mínútu sem hann hefur lausa (sem eru nú ekki margar) og ég stend yfir honum með kökukeflið. Hann á inni smákökur að eigin vali fyrir lífstíð.

Vefurinn verður gjörólíkur því sem þið þekkið en verður samt kunnuglegur, með sömu flokkum og sama skipulagi. Það verður þó mun auðveldara að leita eftir hinu og þessu og t.d. verður hægt að sníða leit eftir t.d. glúteinlausum uppskriftum, mjólkurlausum, eggjalausum, hnetulausum o.fl. Einnig verða nýjustu uppskriftirnar og þær vinsælustu. Ég er líka að uppfæra allar uppskriftirnar og lagfæra orðalag, villur o.fl. Uppskriftirnar eru nú orðnar rúmlega 540 talsins svo það tekur tíma! Einnig verður hægt að skrifa komment við hverja uppskrift. Svo verða auðvitað ýmislegt fleira sem bætist við. Okkur vantar bara andsk. hafið það fleiri tíma í sólarhringinn!

Það hjálpar heldur ekki að vera að flytja á milli landa, að vera endalausum ferðalögum og aldrei kyrr á sama stað. Við erum núna búin að búa á samtals 6 stöðum síðan 1. maí og við erum búin að búa í ferðatösku í 3 mánuði. Ég er ekki búin að hafa aðgang að eldhúsi nema í skókassastærð og það er svo heitt í íbúðinni sem við erum í (þ.e. þegar hitabylgja er í gangi) að ég svitna bara við að skrúfa lok af mjólkurbrúsa. Sem betur fer eigum við viftur sem eru í gangi allan daginn.

Við fáum húsnæðið sem við komum til með að vera í, í Fitzrovia í London, um miðjan júlí. Þá fæ ég loksins eldhús, get farið að elda, taka myndir og gera eitthvað af viti. Nú er ég líka komin með svakalega fína myndavél (og er að safna mér fyrir draumalinsunni) og mér er ekki til setunnar boðið. Ég hef ekki einu sinni þorað að skoða uppskriftasíður í langan tíma því ég fæ bara sting í magann. Þetta hlýtur að vera svipað og fyrir Formúlu ökumann að missa bílprófið (ekki það að ég sé jafn klár að elda og formúlu ökumaður er að aka en þið vitið hvað ég meina).

En já, ef ég er óvenju þögul á blogginu mínu, þá er þetta ástæðan…..!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It