Ramsgate (Rassgate)

Já við heimsóttum Svan bróður og fjölskyldu hans síðustu helgi. Það var rosa fínt og gott að komast aðeins út úr bænum, maður gerir allt of lítið af því. Við tókum rútuna og mér finnst það alltaf voða fínt, að geta glápt út um gluggann. Svanur sem sagt býr í Ramsgate (eða í Cliftonville sem er nálægt Ramsgate) og er bærinn sem sagt á Suður-Englandi, eiginlega í Rassgati (Ramsgate=Rassgate). Ramsgate er fyndinn, gamall bær sem lifir á fornri frægð og hvergi held ég að sé eins mikið af hjónum í samstæðum krumpugöllum, bingói, hárspreyi og "með sítt að aftan" klippingar. Bærinn sjálfur er fallegur og stendur við eina fallegastu höfn í Englandi. Höfnin sjálf er eina konunglega höfnin í Englandi og var sérlega mikilvæg í stríðinu. Það var æðislegt að sjá sjóinn, ég gæti keyrt í marga klukkutíma bara til að sjá sjó.

Mynd af höfninni í Ramsgate
(Ég tók reyndar ekki myndina sjálf, smá svindl).

Já það er nauðsynlegt að heimsækja fjölskylduna og það voru allir hressir og strákarnir Þorsteinn (2ja ára) og Óðinn (að verða 5 ára), í fullu fjöri. Þeir eru voða skemmtilegir strákar. Við höfðum ekki séð Þorstein áður sem er auðvitað fáránlegt þar sem við búum jú í sama landi. Svona er þetta, alltaf allt á fullu. Jóhannes sagði við mig á leiðinni heim í rútunni: "Við höfum ekki komið nálægt tölvuskjá í sólarhring". Þetta lýsir okkur best held ég :( sem er auðvitað sorglegt. Batnandi manni er þó best að lifa.

Við fengum ægilega gott að borða hjá Svani, hann grillaði íslenskan humar sem að rann ljúflega niður og svo gerði Lucy besta grænmetisrétt sem ég hef smakkað mjög lengi. Hann heitir Kitheri og þar sem Lucy er frá Kenya þá átti hún ekki langt að sækja hæfileikann til að búa til þennan rétt sem ég smakkaði fyrst í Afríku. Nammi namm. Ég man þá að ég yrði að fá uppskriftina að þessum rétti en það varð einhvern veginn aldrei úr því. Nú er ég búin að bæta úr því og uppskriftin verður birt fljótlega á CafeSigrun að sjálfsögðu.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It