Læknavaktin

Jæja þá kom að því að ég fór í þetta blessaða viðtal við lækninn. Það gekk nú stórslysalaust fyrir sig, fyrir utan biðina sem var glötuð. Æi get nú svo sem ekki kvartað, ágætt að fá tíma fyrir hugsanir sína og svoleiðis. Já ég mætti, og var send niður og beint í röntgen þar sem ég fór að hugsa um, eina ferðina enn AFHVERJU er ekki tónlist eða sjónvarp á svona stöðum, afhverju gera þessar stofnanir þetta þannig að maður þarf að hlusta á hvert hóst, hvert fótatak, hverja manneskju sem kemur inn og talar við afgreiðsluna, það er SVO glatað að pína fólk til að vera í þögn. Og svona óþægilegri þögn líka eins og er á svona stöðum. Þetta er glænýr spítali, það vantar ekki en svo stofnanaleg að það hálfa væri nóg. Til dæmis stendur á öllum herbergjum til að skipta um föt í "cubicle" í staðinn fyrir "changing room". Hefði nú verið aðeins hlýlegra. Annað dæmi var að konan í afgreiðslunni sagði við mann í hjólastól "Já fáðu þér bara sæti og bíddu eftir að röðin komi að þér". Hann sagði "Ég SIT þakka þér fyrir og hef gert síðustu 20 árin". Konan varð eins og kleina í framan.

Já þarna beið ég í klukkutíma, var svo kölluð upp ásamt 3 öðrum og við vorum teymd (frekar glatað sko að vera leidd í hóp eitthvert, dáldið niðurlægjandi svo ekki sé meira sagt) og þar beið ég í 15 mínútur. Því næst vorum við leidd í annað herbergi þar sem við biðum í aðrar 10 mínútur. Loksins var svo komið að mér og hnéð var myndað í bak og fyrir. Hvernig er það, á maður ekki að hafa blýsvuntur á sér og svona? Ég hef nú farið í svona 8 þúsund röntgenmyndatökur á síðustu árum. Hmm allavega var ekkert svoleiðis í gangi.

Ég fór því næst upp aftur og beið í aðrar 10 mínútur og loksins var komið að mér. Þar tók á móti mér ungur læknir með "grúví" hár sem er ekki beint traustvekjandi. Hann sleppti því að bera fram eftirnafnið mitt eins og allir aðrir hér í Breltandi en það er ekkert traustvekjandi þegar læknir gera það. Sleppti hann því að læra öll læknisheitin kannski líka fyrst hann gafst upp á þessu? En já hann meiddi mig helling fram og til baka, sneri upp á fótinn, lamdi í hann, beyglaði hann o.s.frv. Honum þótti mikið til geisladisksins með MRI myndunum koma sem og þýðingunni sem ég var með á niðurstöðunum sem Ragnar kunningi okkar (læknir) reddaði mér. Nema ég þurfti að hjálpa honum að opna myndirnar á tölvunni því hann kunni ekki alveg á þetta allt saman. Aftur ekkert mjög traustvekjandi.

En já niðurstaðan var sem sagt sú að ég þarf þessa blessuð aðgerð víst, það þarf að svæfa mig, bora í hnéð á 2 stöðum og reyna að laga rifuna sem er í liðþófanum. Þar sem rifan er flókin og er á versta stað víst (bak við hné), það þarf kannski að fjarlægja helling af honum. Svo á eftir að koma í ljós hvort að eru fleiri skemmdir. Þetta verður sem sagt gert á næstu 6 vikum víst þannig að ég verð eitthvað haltrandi um jólin. Það versta er samt að það er ekki líklegt að ég verði nokkurn tímann góð í hnénu þar sem rifan er slæm og erfitt að laga hana. Það gæti batnað töluvert samt en lagast sennilega aldrei og ég mun alltaf finna til sagði læknababyið. EEEEEEEEEEENNNNNN ég ætla ekki að kvarta yfir því, aldeilis ekki, þetta gæti verið svo miklu, miklu, miklu verra. Þetta er ekkert sem ekki er hægt að lifa með, ég hef báðar fæturna, allar tærnar og aðra útlimi svo ég er þakklát fyrir það. Engan aumingjaskap. Hef svo sem kjálka-, 3 x handleggs-, mjaðma-, fót-, putta-, tá-, viðbeinsbrotnað svo ég er alveg ágætlega búin undir sársauka. Bara "give it to me sko" :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It