Misheppnaða froðan

Já ég er sem sagt komin í hlýjuna aftur, í London. Við vorum á röltinu í gær í 20 stiga hita (það var 0 stiga hiti þegar ég fór frá Íslandi á laugardagsmorgun).

Pabbi keyrði mig á flugvöllinn (Takk fyrir farið pabbi) og það er hiti í sætunum á jeppanum þeirra, mmmmm. Ég skil ekkert í því að hanna bíla sem hafa EKKI hita í sætum. Það er bara fáránlegt. Allavega það var hellingsröð á flugvellinum og ég fer aldrei aftur í morgunflug, það er allt of mikið af fólki alls staðar. Miklu þægilegra að fljúga á kvöldin sko. Ég tékkaði mig inn og allt í góðu, hafði tíma fyrir kaffibolla á Kaffitár. Ég veit að ég er rosa hrifin af Kaffitári og er óspör við að hrósa þeim en almáttugur Kaffitár á Flugstöð Leifs Eiríkssonar þarf að fara í endurskoðun. Ég flýg í hverjum mánuði og fæ því ansi góðan samanburð milli Bankastrætis og Leifs og samanburðurinn er ansi slappur. Eins frábær og bollinn getur verið í Bankastræti eða í Kringlunni þá getur hann verið afleitur í flugstöðinni. Ég pantaði mér einn mildan koffeinlausan Da vinci (latte) með 1/2 skammti af Irish Cream. Samtalið við stúlkuna var svona

"Einn mildir koffeinlaus Da Vinci með Irish Cream gjörðu svo vel" -Já takk heyrðu geturðu bætt við smá froðu ofan á kaffið (það var ENGIN FROÐA) Snúðugt svaraði stúlkan "það gæti nú verið erfitt svona eftir á" -Já en það á nú reyndar að vera froða á latteinu "Nei það á ekki að vera á latte" -Öööö jú það á nú reyndar að vera froða "Nei okkur er kennt sérstaklega að eigi ekki að vera froða" -Hvernig er þá "latte art" búið til í latteið? "Latte hvað?"

(Hér var ég orðin nett pirruð og athugið að ég rífst ALDREI í afgreiðslufólki, hef sjálf unnið við afgreiðslu í búð og þoli ekki leiðinlega viðskiptavini og hvað þá besservissa) -Það þarf að flóa mjólkina rétt svo úr verði "microfroða" og loftbólurnar gera þér kleift að búa til mynstur í froðunni, t.d. hjörtu "Okkur er sérstaklega kennt að gera það ekki" (hér var hún reyndar farin að tauta eitthvað óskiljanlegt)

Ég var MJÖÖÖÖG pirruð.

En jæja ég hitti engan sem fékk hálsríg eftir mig í þetta skiptið. Ég gleymdi meira að segja að fá einhverja bók að lesa hjá Smára og Önnu Stínu og það eina sem ég hafði mér til dundurs var að pota í kartöflurnar í grænmetisréttinum í flugvélinni (held þetta hafi verið kartafla er samt ekki viss) og horfa á olíuna úr henni spýtast í allar áttir.

Tíðindalaust sem sagt

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It