Bloggið
Ný uppskrift: Macadamia- og trönuberjabiscotti
Þessar biscotti kökur eru upplagðar í aðventunni. Maður er enga stund að henda í þær og svo geymast þær svo vel (eða reyndar ekki því þær klárast svo hratt). Ég er eiginlega að drukkna í próflestri og ritgerðarvinnu (og auðvitað eru börnin veik á sama tíma....of course). Það er algjörlega lífsnauðsynlegt að eiga svona kökur í boxi uppi á borði á svona tímum, þær bjarga geðinu.
Gobbedí gobb
Að búa í London hefur ýmsa (og oft marga) kosti. Stundum eru reyndar óþolandi atriði sem tengjast því að búa í London. Til dæmis eins og vatnið sem er vont á bragðið, dúfurnar sem kúka út um allt, fólk með sveitta laukborgara í neðanjarðarlestinni, ófáanlegir almennilegir uppþvottaburstar o.fl. Einn af kostunum er að maður hefur aðgang að ýmsu eins og tónleikum (og maður hoppar bara upp í lest til að sækja slíka viðburði), leikhúsum (og maður trítlar bara 30 mínútum fyrir sýningu í leikhúsið) og svo eins og í gær, sýningu spænska reiðskólans í Vín. Þetta er í annað skipti sem við sjáum sýninguna (reyndar frábrugðin fyrri sýningunni sem við fórum á en jafn áhugaverð, mínus drottningin sem sat fyrir framan okkur á fyrra skiptið). Spænski reiðskólinn í Vín hefur á sínum snærum hið stórkostlega Lipizzans hestakyn. Þeir eru stórfenglegir og töfrandi, stæltir og fallegir. Þið getið lesið nánar um þetta magnaða hestakyn víða á netinu. Þeir framkalla gæsahúð hjá þeim sem hafa einhvern snefil af hestaáhuga. Reiðmennirnir (við undirspil sígildrar tónlistar eins og Mozarts) stjórna hestunum af mikilli fimi og án þess að sýna neitt fum eða fát. Þetta eru snillingar í klassískri reiðmennsku og á þessari reiðmennsku byggir sú sem við þekkjum í dag. Hefðirnar eru mörg hundruð ára gamlar og eru jafn strangar og í upphafi enda er fólki mikið í mun að hefðirnar deyi ekki út. Hlýðniæfingar (dressage) er eins og balletæfingar fyrir hesta og þessir hestar fara létt með að leika hinar ýmsu æfingar sem venjulegir hestar myndu aldrei geta. Fyrir þetta lifa bæði reiðmenn og hestar, það er unun að sjá þá vinna saman. Ef þið komist einhvern tímann á sýningu spænska reiðkskólans í Vín, mæli ég með að þið gerið ykkur far um að sjá hana. Hestarnir eru virtir og dáðir út um allan heim og það er ekki að undra.
Að spænska reiðskólanum ólöstuðum, voru til upphitunar Carl Hester og Lee Pearson, margverðlaunaðir í hlýðniæfingum hesta. Sá fyrrnefndi var með magnaða sýningu (hlýðniæfingar á hesti) og sá síðarnefndi (Ólympíumeistari í reiðmennsku fatlaðra) gerði mann eiginlega orðlausan. Hann var mikið fatlaður (með vöðvarýrnunarsjúkdóm þannig að hendur og fætur voru svo til gagnslausir) en sýndi hryssu sína þannig að ófatlaðir hefðu getað lagt taumana frá sér og farið að skæla í skömm. Það var með ólíkindum að sjá þennan litla og mikið fatlaða mann stýra hestinum með fingrunum, röddinni og stífu fótum sínum einum saman. Samvinna þeirra tveggja, hryssunnar og Lee var draumi líkast.
Ég tók nokkrar myndir á litlu imbavélina. Af því maður getur ekki notað flass þegar hestar eða reiðmenn eiga í hlut þá eru myndirnar ansi lélegar en sýna kannski svona pínulítið af hestunum og umhverfinu. Hefði ég mátt taka með flassi hefði ég tekið um 8000 myndir. Við sátum á fremsta bekk, alveg við gólfið og hefðum ekki getað verið í betri sætum. Ég var að vona að ég myndi fá pínulítið slef frá hestunum á kinnina (hefði verið kúl, hefði líklega fallið í yfirlið) en varð ekki að ósk minni he he. Ég gæti horft á hesta allan daginn, alla daga og myndi aldrei verða leið á því.
Ljósakrónan í loftinu á Wembley Arena
Reiðvöllurinn
Carl Hester á rauða hestinum en Lee Pearson á þeim gráa
Stóðhesturinn fær nammi fyrir dugnað
Þegar vel er að gáð sést að þetta eru tveir hestar en eru svo samstilltir að þeir virka einn
Einn stóðhestanna framkvæmir Levade sem reynir á styrk og jafnvægi hestsins, athugið að reiðmenn eru ekki einu sinni í ístöðum!
Þreyttir en ánægðir reiðmenn og hestar þeirra
Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Prufrock Coffee
Það má segja að þetta kaffihús sé rúsínan í pylsuendanum, sérstaklega hvað varðar kaffinörda. Jóhannes geymdi þetta kaffihús þangað til síðast og hér kemur umfjöllunin. Þetta er sem sé síðasta kaffihúsið sem gestabloggarinn Jóhannes tekur fyrir og þið þrjú sem hafið fylgst með (eða svona miðað við kommentin þá eru varla fleiri....þó ég viti að það séu nokkur hundruð (frekar lélegt hlutfall kommenta sko, ha....skamm skamm)). Jóhannes ætlar svo að fara yfir kaffihúsin í lokin, eins konar lokaumfjöllun og hún verður birt næsta sunnudag. En nú gef ég Jóhannesi orðið:
Prufrock Coffee
23 - 25 Leather Lane, EC1N 7TE
Glöggir notendur taka kannski eftir því að hurðahúnarnir eru kaffiþjöppur
Gestum boðið að taka þátt í „cupping”
Af þessu kaffihúsi hef ég vitað síðan það opnaði fyrir rúmu ári (það var mjög umtalað í kaffinördaheiminum). Ég hafði þó ekki gert mér ferð þangað fyrr en ég fór að skrifa þessa pistla þar sem það er ekki í göngufæri við þar sem við búum. Ég var meðvitaður um að þetta var ekkert alveg venjulegt kaffihús því einn af eigendunum, Gwilym Davies er fyrrum heimsmeistari kaffibarþjóna. Það sem er óvenjulegt við þetta kaffihús er að þeir eru mikið að leyfa gestum og gangandi að upplifa mismunandi aðferðir í að laga kaffi, ekki bara espresso baseraða drykki eða drip (uppáhellt) heldur er líka verið að bjóða upp á mismunandi uppáhellingaraðferðir og allt annað sem kemur nýtt inn í kaffiheiminn. Einnig eru þeir oft með „cupping” á kaffihúsinu og bjóða gestum að taka þátt. Þeir eru einnig með hálfgert tilraunaeldhús í gangi hvað kaffigerð varðar. Þar má nefna 2 mismunandi espressovélar, eina hefðbundna og svo eina “lever” vél (þar sem kaffibarþjónninn togar í stöng á vélinni til að búa til þrýstinginn sem þrýstir gufunni í gegnum kaffið) fyrir utan allt annað.
Eitt af því sem ég fékk hjá þeim núna um daginn sem er alveg nýtt fyrir mér og hef aldrei séð, bara lesið um, eru þurrkuð ber utan af kaffibauninni. Einn kaffibóndinn sem SquareMile kaffibrennslan (sem þeir Prufrock versla við) kaupir kaffið af hefur verið að gera þetta, taka berið sem umlykur kaffibaunina og þurrka og svo er soðið te úr því. Ég þurfti að sjálfsögðu að prófa. Teið sem slíkt var svolítið eins og maður hefði tekið berjate og blandað saman við English Breakfast eða annað svart te. Það var svolítill svona kirsuberjakeimur af teinu en svo var svolítið biturt eftirbragð sem ég kunni ekki alveg að meta. Það gæti reyndar verið að ég hafi bara látið berin vera of lengi í vatninu. Elva Brá vinkona okkar og samsmakkari af þessu tei var á svipuðu máli og fann sterkt berjabragð en fann ekki fyrir eftirbragðinu. Þessi tegund „kaffis” gefur mjög skemmtilega stemmingu og kveikir oft áhuga hjá fólki sem hefur annars ekki spáð mikið í kaffið sem það er að drekka. 
Þurrkuðu kaffiberin
Þeir hjá Prufrock eru líka alltaf tilbúnir í spjall um kaffi og kaffitengd málefni.  Einnig vinna þeir mikið með áðurnefndri Square Mile kaffibrennslunni en Gwilym var í læri hjá James og Anette þegar hann vann heimsmeistaratitilinn. Íslendingar geta samt eignað sér smá hluta í þessu skv. því sem Gwylim sagði mér, þar sem hún Jónína Tryggva, núverandi íslandsmeistari í fagsmökkun og fyrrverandi Íslandsmeistari kaffibarþjóna sem og í mjólkurlist kenndi honum og öðrum starfsmönnum kaffihússins til verka hér í „denn”. Gwylim sagði mér að Jónína hefði, óafvitandi, gegnt lykilhlutverki í útbreiðslu gæðakaffimenningar í Bretlandi. Ekkert smávegis hrós þar til Jónínu og fyllilega áunnið!
Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Vergnano 1882
Næstur í gestablogginu er Vergnano 1882 sem á sérstakan sess í kaffihjarta okkar hjónakornanna. Ef þið eruð nálægt Leicester Square þá eruð þið aðeins nokkrar mínútur að labba á staðinn. Ég gef Jóhannesi orðið...
P.s. það er gestaþraut falin í þessari umfjöllun. Finnið 2 tilvik af Afkvæminu með sólgleraugu að drekka Babychino :)
62 Charing Cross Road (Leicester Square)
Það eru 3 ástæður fyrir því að Vergniano fær að fljóta með hér í þessum lista yfir það sem ég tel vera bestu kaffihúsin í mið-London. Fyrsta ástæðan er sú að þetta var fyrsta kaffihúsið sem mér var bent á í London sem sörveraði ekki einhvern óþverra og kallaði það espresso. Sonja hjá Kaffismiðjunni benti mér á þetta kaffihús fyrst eftir að við Sigrún fluttum inn til mið-London og ég var þá eitthvað að tauta að það væri ekkert almennilegt í boði. Önnur ástæðan er að það er ekkert kaffihús hér í borg sem ég hef komið á sem slær þá út í framreiðslu. Maður fær lítinn svartan bakka með svörtum kaffibolla, litlu glasi af vatni og svo er alltaf pínulítið súkkulaðistykki með (sjá mynd). Þetta lítur bara svo vel út! Síðasta ástæðan er svo að þarna var fyrsta Elektra kaffivélin sem ég sá (sjá mynd, sjáið hana bara, er hún ekki falleg?!) og er ástæðan fyrir því að ég fór að skoða og endaði á að kaupa mér Elektru kaffivél líka (þó ekki af sömu stærð). Svo er yfirleitt sígild tónlist spiluð og maður dettur beint í rólegan gír þegar maður er að súpa af bollanum.
Þessi staður er við mjög fjölfarna götu rétt fyrir ofan Leicester Square og er því töluvert meiri túristastraumur þarna en á hinum stöðunum sem ég hef verið að fjalla um. Þeir gefa sig út fyrir að vera "alvuru ítalskt kaffihús" en ég verð bara að viðurkenna að ég hef ekki náð að stoppa nema rétt um sólarhring á Ítalíu og það í vinnuferð svo ég get ekki sagt hvort það sé rétt eða ekki. Bakkelsið er gott það sem ég hef smakkað og töluvert ítalskara en á hinum stöðunum. Ég mæli líka eindregið með heita súkkulaðinu þeirra, tókuð þið eftir að ég sagði ekki kakó heldur súkkulaði!
Vergnano er núna með 3 staði í London en þegar ég kom þarna sem mest var bara einn staður, þessi á Charing Cross Road. Þá var Luciano oftast sjálfur bak við vélina eða konan hans og því hægt að stóla á að fá gott kaffi hjá honum. Eftir að hann opnaði hina tvo hef ég ekki séð þau og greinilegt að kaffibarþjónarnir sem vinna þar þessa dagana hafa ekki alveg sama áhuga á kaffinu og þau gerðu. Kaffið er vissulega betra en hjá risunum þremur (Starbucks, Nero, Costa), en samt ekki þannig að ég geri mér ferð þangað til að fá mér kaffi (Monmouth og Sacred eru það nálægt að ég fer frekar á þá staði), en þetta kaffihús hefur samt smá sentimental gildi og fær því að fljóta með ;)
Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: The Espresso Room
Ég sagði síðasta sunnudag að þetta kaffihús yrði síðasta kaffihúsið til umfjöllunar en við mundum eftir tveimur öðrum sem við ætlum að taka til umfjöllunar. Annað þeirra er mesta nördakaffihús ever og hitt er kaffihús sem kveikti í Elektra blætinu hjá Jóhannesi forðum daga...spennandi sunnudagar framundan! En nú er það Espresso Room til umfjöllunar...
 31-35 Great Ormond Street í Bloomsbury
Ekki láta húsnúmerin 31-35 blekkja ykkur, þetta er minnsti staðurinn af þeim sem ég fjalla um (það voru held ég 2 sæti inni en eitthvað fleiri úti). Stærðin á honum minnir helst á Kaffitár í plássinu sem þau voru upphaflega með í Kringlunni (veit ekki hvort margir muna eftir staðnum, en það var áður en þau fluttu sig þarna undir rúllustigann. Þar, á gamla, litla staðnum smakkaði ég fyrsta espressoinn minn og varð „hooked”!). Eins og svo mörg önnur kaffihús sem ég hef fjallað um þá eru þau að nota kaffi frá Square Mile og ég var mjög ánægður með kaffið, mjög góður bolli (myndin var ekki nógu góð hjá mér). The Espresso Room er skemmtilegur staður (þau t.d. stilltu sér upp fyrir myndatökuna) en kannski ekki alveg í alfaraleið venjulegs túrista í London en þó bara nokkurra mínútna ganga frá British Museum. Fólk sem er að ferðast um London með krakka og langar að gera eitthvað skemmtilegt þá má benda á að Coram’s Fields (risa leikvöllur og svo eru geitur og kindur o.fl. á vappi) er bara rétt hjá þessu kaffihúsi. Bendi samt á að Espresso Room er einungis opið á virkum dögum.
Bjútíbollurnar íslensku
Sem nema í heilsusálfræði, sem móður tveggja barna, sem Íslendingi, sem manneskju sem hefur rekið heilsu-uppskriftavef til 9 ára, sem konu sem ekki hefur borðað sælgæti í 25 ár, finnst mér nýjustu upplýsingar um ofþyngd Íslendinga S.V.A.K.A.L.E.G.A.R. Ég sagði kennaranum mínum af þessu. Hún er doktor í sálfræði. Augu hennar og munnur galopnuðust og hún sagði orðrétt (á ensku reyndar): „Þetta eru, án efa, áhugaverðustu fréttir sem ég hef heyrt í langan tíma....Hvað gerðist?“ Það stóð á svörum hjá mér. Ég var ekki viss. Ég vissi bara að einu sinni vorum við fallegust en núna erum við næst þyngst. Við erum sem sagt bjútíbollur. Konur jafnt sem karlar, unglingar jafnt sem börn.
Afkvæmið er orðið rúmlega tveggja ára. Hún hefur aldrei smakkað sælgæti. Hún hefur aldrei smakkað ís. Hún hefur aldrei fengið kex. Hún veit ekki hvað sjoppa er og hún veit ekki hvað karamellur eru. Hún hefur aldrei fengið súkkulaði. Hún bendir á Duracell kanínuna í búðinni og segir „Kanína!!!!!!!“ og hleypur svo ofurspennt að myndinni af kanínunni. Duracell kanína er við hliðina á sælgætisrekkanum. Yfirleitt er Afkvæmið með spergilkál í höndunum, búin að bíta í það (svo ég verð að kaupa það). Hún setur gulrætur og appelsínur sjálf í körfuna og biður um epli til að setja í poka og halda á. Hún fær carob (án sykurs) þegar við hin fáum okkur súkkulaði með hrásykri, hún sér engan mun og er alveg sama...enda veit hún ekki hvað (hrá)sykrað súkkulaði er. Hún maular carobið afskaplega ánægð. Hún fær hafragraut með rúsínum og döðlum í morgunmat og hefur aldrei fengið morgunkorn úr „sælgætis-morgunkornadeildinni“. Mér líður eins og ég sé að ala upp tilraunadýr. Ég er alltaf að bíða eftir því að félagsmálayfirvöld banki upp á og spyrji mig út í uppeldið.
Alveg frá því hún fæddist hefur fólk sagt við mig að mér muni ekki takast að halda sælgæti eða annarri óhollustu frá henni. Það hefur varað mig við veislum. Það hefur hrætt mig með sögum um börn sem öskra í búðum þegar það sér nammirekka. Það hló þegar það afkvæmið fæddist og heyrði að henni yrði aldrei gefinn sykur af foreldrunum. Það hefur sagt við mig að það sé ekki hægt að ala börn upp án sælgætis. Helvítis rugl. Skoðum nokkur dæmi:
- Kaffihús: Það sem tíðkast er að kaupa kakó og súkkulaðiköku (yfirleitt kallað „barnakaka“) á kaffihúsum. Afkvæmið fær babychino á kaffihúsum (flóuð, volg mjólk í litlum bolla). Hún fær líka  rúsínur, eða vínber, eða epli. Það er hennar tenging við kaffihús. Stundum fær hún hreinan (en vatnsþynntan) ávaxtasmoothie og það er dálítið spari.
- Veitingastaðir: Börnin fá köku eða ís eftir matinn. Afkvæmið fær hreina ávexti.
- Lautarferðir: Börnin fá sælgæti. Afkvæmið fær nýja bolta eða annað til að auka hreyfifærni.
- Jóladagatal: Börnin fá súkkulaði. Afkvæmið mun fá leikföng, bækur eða annað sem þykir skemmtilegt.
- Páskar: Börnin fá súkkulaðipáskaegg. Afkvæmi mun fá leikföng eða hollt konfekt eða þurrkaða ávexti í pappaeggi.
- Sykraðar mjólkurvörur: Börnin fá jógúrt með einhverju gervibragði og sykruðum ávöxtum. Afkvæmið fær hreina jógúrt með söxuðum ávöxtum og smá slettu af agavesírópi út í.
- Verðlaun fyrir dugnað: Börnin fá sælgæti. Afkvæmið fær föt, bók eða leikföng.
- Bíltúr: Börnin fá sælgæti eða ís. Afkvæmið (fer reyndar aldrei í bíltúr því við eigum ekki bíl) en myndi fá vínber, rúsínur eða leikfang.
- Barnaafmæli: Börnin fá taugaáfall (ok verða allavega mjög æst) og hlaupa um eins og Duracell kanínur á spítti....boðið er upp á sykur + sykur + meiri sykur + sykur í föstu formi + sykur í fljótandi formi. Afkvæmið fær hrákökur eða þær kökur sem henta aldri (þegar hún var eins árs fékk hún speltköku með pínulítið sættu (með smá agavesírópi) avocadokremi. Hún ÞARF ekki súkkulaðiköku, Smarties, smjörkrem né lakkrís).
Athugið að ekkert af þessu hér að ofan þarf að kosta meira en svo að lang flestir ættu að hafa ráð á. Leikföng þurfa ekki að vera dýr (smábílar, plastúr, límmiðar, stimplar, skopparaboltar) og þegar ég meina föt, meina ég t.d. nýja sokka sem börn þurfa hvort sem er. Annað væri hægt að kaupa t.d. glingur, penna, tússliti). Afmæliskakan er hugsanlega kostnaðarsömust en það má gera annað en kökur fyrir afmæli.
Þið sjáið hvert ég er að fara. Þetta er spurnig um vana og það sem foreldrarnir venja sig og börnin á. Ef foreldrarnir eru ekki tilbúnir til að sleppa því að kaupa köku á kaffihúsum, fer sem fer. Eins er með allt annað. Ég veit að það sem er „bannað“ er yfirleitt spennandi svo ég fer aðrar leiðir. Það sem er gott/sætt, á ekki að vera meira spennandi en annað. Ég t.d. passa mig á því að verðlauna Afkvæmið aldrei með mat og sérstaklega ekki með neinu sætu. Það vita allir sem umgangast okkur að ég vil ekki að Afkvæminu sé boðið upp á óhollustu eða sælgæti. Fyrst að við borðum það ekki er engin ástæða til að bjóða henni upp á það. Ég hef hins vegar ákveðið að þegar sá dagur kemur að hún bragðar á sælgæti, ætla ég ekki að hlaupa til og rífa það úr munni hennar. Ég mun ekki segja orð og ég mun fylgjast með úr fjarska. Það verður MJÖG fróðlegt og ég lofa að láta ykkur vita hvernig það fer. Ef hún borðar á sig gat, verður það að vera þannig. Hún fær eflaust illt í magann. Ég mun fjarlægja svo lítið beri á sælgæti af borðum þar sem við erum gestkomandi....á meðan hún fattar ekki hvað sælgæti er. Þegar hún verður nógu gömul til að fatta það, mun ég segja henni að hún megi fá sælgæti en hún megi líka fá ávexti ef hún vilji. Hún mun þurfa að finna út úr því sjálf hvað hún vill. Það sem skiptir MESTU máli hér að mínu mati er að hún sér aldrei sælgæti heima fyrir né neina aðra óhollustu. Hún verður ekki skrýtna barnið í afmælunum sem má bara fá þetta og hitt. Hún verður sjálf að velja og hafna og svo lengi sem hún fær ekki óhollustu heima fyrir, hef ég ekki miklar áhyggjur. Reyndar verða afmælisveislur hennar stórskrýtnar því mér þykir líklegra að boðið verði upp á sushi (uppáhaldsmatinn hennar) og hráköku heldur en það sem hefðbundið þykir.
Ég hef verið að hugsa út í skýrsluna sem Velferðarráðuneytið var að gefa út. Ég hef líka verið að hugsa um orð Magnúsar Scheving. Hann hefur margt til málanna að leggja sem meikar sens enda var hann byrjaður að hugsa um þessa hluti fyrir mörgum árum síðan. Eitt rak ég augun sérstaklega í og það er alveg hárréttur punktur hjá honum. Börn verða ekki of þung af sjálfu sér. Ég held að þetta sé lykillinn en þó, eins og alltaf eru hlutirnir flóknari en þeir virðast í fyrstu. Þetta er eitthvað sem ég er búin að vera að hugsa um í mörg ár.
Forvarnir eru alltaf betri til langs tíma heldur en að reyna að bjarga málunum eftir á. Þess vegna held ég að lykillinn liggi í kennslustarfi, þar sem allir eru jafnir. Þarna held ég að Magnús klikki aðeins. Víst er að foreldrarnir hafa sterk áhrif á börnin sín, ekki síst mataræðið eins og ég kom að hér að ofan. Hins vegar er mikill fjöldi fólks sem VEIT EKKI ALLTAF BETUR og KANN EKKI og HEFUR EKKI ALLTAF TÆKIFÆRI TIL að gera betur. Þeir foreldrar sem hafa ekki mikið á milli handanna eru líklega ekki að velta eiginleikum speltis fyrir sér. Þeir eru líklega ekki að kaupa kókosolíu eða hollar, ósykurbættar orkustangir úr heilsubúð. Þeir hafa ekki efni á að setja börnin sín í fimleika eða fótbolta. Bara búningarnir hlaupa á fleiri, fleiri þúsund krónum fyrir utan önnur gjöld. Ég er kannski að alhæfa en ég er að tala út frá heildinni. Það að metta maga svangra barna er mikilvægara heldur en að velta fyrir sér hvort að fitukeðjur kókosolíunnar séu stuttar eða langar eða hvort að agavesíróp fari hægar út í blóðið en hefðbundinn sykur. Því miður er óhollur matur yfirleitt ódýrari en sá hollari. Nema maður eldi frá grunni en að elda frá grunni er svolítið tapaður eiginleiki að mínu mati. Ég veit ekki hversu oft ég var spurð að því í matvörubúðum á Íslandi hvað t.d. avocado væri, eða engifer eða rauðrófur eða steinseljurót..... „ha...steins-elju-rót?“
Ég held að lykillinn liggi hjá stjórnvöldum. Þetta er spurning um tilfærslu á fjármunum til skólanna og innan skólanna. Nú þekki ég ekki hvort að svona hlutir eru kenndir í Lífsleikni eða hvað þetta allt heitir en það væri eflaust upplagður vettvangur. Þetta er Jamie Oliver löngu búinn að sjá. Það að vita hvað transfitusýrur eru, á að vera jafn sjálfsagt eins og að vita að bláber séu rík af andoxunarefnum og að hvítur sykur eða ofþyngd sé ekki sniðugt upp á hugsanlega sykursýki eða aðra sjúkdóma síðar meir. Það á ekki að vera flókið að útbúa góða tómatssósu með spagetti og kjötbollum (úr hreinu hakki). Eða grænmetisssúpu og brauð. Þetta á ekki að vera vitneskja útvaldra. Þetta á að vera jafn sjálfsagt og að vita að 2 + 2 eru 4. Það besta er, ef krakkarnir hafa áhuga á að elda mat, finnst þeim hann yfirleitt betri á bragðið og eru áhugasamari um að borða hann.
Sama með hreyfingu. Hreyfing á að vera jafn sjálfsögð og að það að anda súrefni eða drekka vatn. Hreyfing þarf þó að vera skemmtileg og má ekki vera þannig að þeim þyngstu líði illa eða að fótboltastrákarnir fái mestu athyglina. Þar þarf að taka til í skólakerfinu.
Hér eru nokkur atriði sem ég myndi vilja sjá lagfærð eða sett á ef ég væri allsráðandi. Allt þetta er eflaust kostnaðarsamt en sparnaður fyrir heilbrigðisgeirann til lengri tíma er umtalsverður. Þetta eru ALLT atriði sem ég hef bloggað um áður, í mörg ár. Á þessum tíma hefur íslenska þjóðin orðið sú næst þyngsta í heimi:
- Fræðsla um mat og næringarefni í grunnskólum og síðar í gagnfræðaskólum. Það þarf að kenna krökkum að lesa utan á matvörur og þau þurfa að skilja saltmagn, trefjar, mettaða fitu, ómettaða fitu, viðbættan sykur og E-efni.
- Verkefni tengd hollustu t.d. ávaxta og skaðsemi sælgætis og skyndibita. Börn myndu þurfa að vinna heimavinnu og afla upplýsinga um t.d. ananas, eða bláber eða epli eða blómkál (o.sfrv.). Síðar myndu þau þurfa að upphugsa uppskrift í matreiðslu þar sem þetta grænmet og ávextir væru teknir fyrir.
- Einstaklingsmiðuð hreyfing. T.d. HATAÐI ég sund í skólanum (og er mjög lélegur sundmaður) en ég hefði getað sveiflað mér í köðlum eða verið á trampólíní í margar vikur samfleytt án þess að stoppa. Hvað með að kenna sund sem grunn og gefa svo færi á vali í hreyfingu?
- Fjarlægja gossjálfssala og selja ekki skyndibita néð sælgæti í grunnskólum. Kannski er búið að því...veit ekki.
- Skattleggja óhollustu upp í þak. Eins og sígarettur.
- Tilboð á sælgæti verði afnumin, sérstaklega á laugardögum.
- Lækkanir á ávöxtum og grænmeti á laugardögum.
- Mötuneyti skóla (og vinnustaða) verði tekin í gegn og næringarfræðingar sjái um að setja saman matseðla. Matur ÞARF ekki að vera dýr þó hann sé hollur. Það er þetta endalausa unna drasl sem er að drepa okkur, sykraðar mjólkurvörur, spægipylsur, skinkur, kæfur, kex, pakka þetta og pakka hitt.
- Lækka skatt á hollustu. Verð á heilsuvörum á Íslandi er skammarlegt.
- Betri merkingar á umbúðum varðandi innihald, sérstaklega aukaefna. Að fyrirtæki hafi komist upp með það (þangað til fyrir skömmu) að nota sulphur dioxide og fleiri ofnæmisvalda í vörur, án þess að þurfa að merkja það, er ofar mínum skilningi.
- Eftirlit með auglýsingum. Að þeir sem selja mat megi EKKI selja matinn sem „hollan og góðan“ nema hann sé það sannarlega og vottað af t.d. næringarfræðingi. Sbr. austurlenska veitingastaðinn sem auglýsti hollar (djúpsteiktar) rækjur. Hef rifist yfir þessu áður.
Fyrsta skref: Ef ómálga barnið kann ekki að biðja um köku/sælgæti/ís/aðra óhollustu, ekki stinga henni upp í munn þess. Því er enginn greiði gerður með því.
Amen.
Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Flat White
Flat White þýðir sterkt kaffi með mjólk en mjólkin er ekki flóuð (engin froða). Eða svo þýðir það hér í Bretlandi. Ef þið viljið kaffi með mjólk á kaffihúsum í London, biðjið þið ekki um coffee with milk heldur eigið þið að biðja um Flat White. Það er vegna þess að flest almennileg kaffihús í London eru rekin af Nýsjálendingum og Áströlum og þeir nota þetta heiti yfir kaffi með mjólk (eða reyndar eru skiptar skoðanir með nákvæma skilgreiningu á hvernig eigi að bera fram Flat White, sumir segja að það eigi að vera froða en Bretar eru ekki með froðu í Flat White). Ég tók eftir því að á Starbucks um daginn (já ég fer stundum þangað) bað fólk um Flat White (og fékk kaffi með mjólk) líka svo þetta er orðið rótgróið heiti.
En nú gef ég Jóhannesi orðið. Þetta kaffihús er það næst síðasta sem hann fjallar um sem Gestabloggari CafeSigrun.
17 Berwick Street í hjarta Soho
Athugið að efsta myndin kemur af vef Not Another Big Menu en þar má finna fleiri fínar myndir af kaffihúsinu.
Þetta var líklega fyrsti staðurinn sem ég fór á sem getur talist hluti af svokölluðu 3. stigi kaffimenningar hér í London. Þriðja stigið er svokallað gourmet stig. Fyrsta stigið var þegar fólk áttaði sig á að það var til annað en soðið, uppáhellt kaffi. Stig nr. 2 var Starbucks og fleiri í þeim flokki og þeir ruddu veginn fyrir alvöru kaffinu síðar meir. Fólk fór að spá meira í kaffi og í kjölfarið kom fram þriðja stigið; alvöru kaffi (þar sem kaffibaunin er í algjöru aðalhlutverki), þjónað af alvöru kaffibarþjónum sem vita upp á hár hvað þeir eru að gera og niðurstaðan er dásamleg. Flat White er í sömu götu og Foxcroft and Ginger en einhverra hluta vegna þá fer ég frekar á þann stað. Líklega bara vegna þess að það er alltaf svo rosalega mikið að gera þarna og það er aldrei pláss til að setjast niður. Síðast þegar ég vissi voru þeir að nota kaffið frá Monmouth Coffee Co. en mér finnst eins og ég hafi samt séð Square Mile poka þarna upp í hillu síðast þegar ég fór. Þarna er svolítið svipuð stemming eins og á Tapped and Packed, rignir pínu upp í nefið á kaffibarþjónum og gestum og það eru allt voða miklar týpur sem koma þarna inn, enda í hjarta Soho (í sóðagötu með rauðum lömpum í sumum gluggum og klámbúllum á hverju horni). Ég kom eitt sinn með dóttur mína inn á staðinn og mér fannst eins og ég hefði alveg eins getað komið með geimveru upp á handlegginn. Þetta er klárlega ekki staðurinn til að fara með fjölskylduna á en það má alltaf taka með sér góðan kaffibolla í götumáli og arka út í vit ævintýranna í London.
Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Sacred Café
Sacred Café er næstur á dagskrá. Þeir eru með útibú á 6 stöðum (eiginlega 5 og hálfum því einn staðurinn er lítill vagn í Bloomsbury ætlaður til að þjóna kaffiþyrstum háskólanemum). Sá staður sem við höfum helst farið á er sá sem er í Covent Garden. Ef þið eruð á ferðinni í Covent Garden og eruð í frekari ferðahugleiðingum um heiminn þá er gott að hafa í huga að Stanfords hýsir eitt stærsta úrval ferðabóka (leiðsögubækur sem og ferðasögur hvers kyns) og korta (maps) í heiminum. Það er endalaust gaman að skoða og láta sig dreyma. Þeir eru einnig með skemmtilegar krakkabækur tengdar London og ferðalögum.
12-14 Long Acre í Covent Garden (til umfjöllunar) en einnig víðar í London
Þetta er eina kaffihúsakeðjan sem ég leyfi að fljóta með hér og á kannski eftir að sjá eftir því seinna. Ég er ekki mjög hrifinn af keðjum í heild, vil frekar styrkja litlu einkareknu kaffihúsin í hverfinu mínu.  Það má samt ekki sniðganga þá sem eru að gera vel og það kaffi sem ég hef smakkað hjá Sacred hefur verið mjög gott (einn besti bolli sem ég hef fengið í langan tíma kom frá Sacred á Long Acre í Covent Garden, eru inni í Stanford bókabúðinni á Long Acre).  Það vantar samt alveg karakter þann sem má fnna í litlu kaffihúsunum, þeir eru keðja og ekkert að fela það. Bakkelsið er heldur ekki eins girnó og á litlu stöðunum en langt frá því að vera eitthvað „ó-girnó”.
Djúpsteiktur þorskur og sígarettur
Mér finnst fyndið að vera í heilsusálfræði, fara með bekknum í mat og horfa á þau úða í sig fiski (djúpsteiktum í deigi) og frönskum...og hella ediki og salti yfir....Ég fór í fyrsta skipti niður í matsalinn og leitaði lengi að ferskum ávöxtum...eða salati....eða einhverju yfir höfuð sem gæti talist hollt. Ég fann ekkert. Það hollasta á matseðlinum var kaffi. Svart og sykurlaust. Mér var eiginlega flökurt í steiktri fiskfýlu. Við vorum nýbúin á fyrirlestri um fíkn (addiction) og skaðleg áhrif reykinga (þetta vita auðvitað allir en hér var verið að tala um lífeðlisfræðileg viðbrögð líkamans og hvers vegna fólk verður háð alls kyns eitri). Og ég sá a.m.k. 5 nemendur (sem í fyrirlestrinum höfðu kinkað kolli yfir auknum líkum á lungnakrabbameini og alls kyns kvillum) fara út, stinga upp í sig sígarettum og kveikja í. Fyrirlesarinn viðurkenndi líka að hann reykti og gæti eiginlega ekki hætt. Mér fannst áhugavert að fólk stýrir sjálft skammtinum eftir því hvort það er stressað eða afslappað. Stressað fólk (t.d. á leið í atvinnuviðtal) sýgur lengi af sígarettunni í „einum bita“ á meðan þeim sem leiðist „narta“ í sígarettuna og draga stutt og hratt af henni. Allt þetta er hegðun og það er akkúrat hegðun sem heilsusálfræðingar (og aðrir sálfræðingar) fást við og hvernig má breyta henni. Sama gildir um mat og hvernig og hvað fólk borðar (eða ekki) Þetta er allt hegðun og hegðun er yfirleitt (ekki alltaf) hægt að breyta.
Við lærðum einnig um hvernig 12 spora kerfið getur (með áherslu á getur því það virkar fyrir marga) verið hættulegt fíklum því það gefur lítið rými fyrir mistök. Til eru önnur meðferðarfom sem gera ráð fyrir því að fólki mistakist og þó því mistakist er það ekki endir alheimsins. Ef viðkomandi fékk sér tvö staup í brúðkaupi dóttur sinnar en ekki fjögur ber að hrósa honum fyrir það, ekki álasta hann fyrir að fá sér tvö ef hann hefur haldið sig frá áfengi í langan tíma, varð sér ekki að athlægi í brúðkaupinu og fékk sér ekki 4 eða 6 staup. Mér finnst þetta sniðugt módel því það að fara út af brautinni er mannleg hegðun. Það er svolítið ómannlegt finnst mér að ætlast til þess að allir séu fullkomnir og ósveigjanlegir. Þannig virkum við ekki. Þetta er auðvitað mikið einföldun því lang leiddir fíklar geta líklega ekki fengið sér eitt staup eða eina línu af kókaíni og þá þarf kannski að tækla á annan hátt, þetta er hins vegar eitthvað til að pæla í. Ef fólk er að skipta yfir í nýjan lífsstíl á það ekki að missa svefn yfir einu súkkulaðistykkir. Það þarf að einblína á það sem vel er búið að gera og horfa fram á veginn, læra af mistökunum. Við erum jú mannleg.
Gestabloggarinn: Kaffihúsin í London: Monmouth Coffee
Monmouth Cafe er næstur á dagskrá. Þeir eru með útibú á þremur stöðum en sá sem er til umfjöllunar er í Covent Garden. Við höfum prófað staðinn á Borough sem er tvímælalaust heimsóknarinnar virði, aðallega fyrir umhverfið en kaffihúsið er við elsta matarmarkað Bretlands (Borough Market). Um að gera að kíkja þangað á laugardagsmorgnum þegar markaðurinn er opinn. Við förum ekki mjög oft á Covent Garden kaffihúsið þar sem það er aðeins úr alfaraleið miðað við okkar rútínu en engu að síður er heimsókn þangað vel þess virði, sérstaklega ef þið eruð í hverfinu. Fyrir Apple aðdáendur þá er stærsta Apple verslun heims ekki langt frá og fyrir túristana sem vilja öðruvísi upplifun á London þá mælum við með Neal's Yard sem er í seilingarfjarlægð. Þið verðið ekki fyrir vonbrigðum! En núna er það Jóhannes sem á orðið:
27 Monmouth Street í Covent Garden (til umfjöllunar) og einnig í Borough og Bermondsey
Ath að myndin hér að neðan er af vef Monmouth Coffee og af því ég gleymi alltaf að taka myndavél með mér þá verð ég að fá myndir lánaðar af netinu *andvarp*. VERРað muna þetta næst.....
Myndirnar tvær hér að ofan eru fengnar að láni frá Christina About Town.
Þessi staður var eitt sinn fyrst og fremst kaffibrennsla (þeirra aðal kaffibrennsla) og kaffihús nema núna er kaffihúsið er baka til í versluninni þeirra. Það er oftast nær biðröð út úr dyrum hvort sem er eftir borði eða bara kaffi til að taka með.  Ef þú ert að fara á kaffihús til að ræða þín dýpstu leyndarmál þá væri þetta eflaust ekki besti staðurinn þar sem þeir eru með það fá borð að fólk deilir borðum. Þetta virkar þannig að ef þú situr við borð og það er pláss fyrir fleiri þá er gestum bætt við þar til plássið er fullnýtt. Þetta getur verið mjög skemmtilegt fyrir þá sem hafa gaman að því að hitta nýtt fólk og er óhrætt við að brydda upp á samræðum við ókunnuga.  Það er líka hentugt fyrir t.d. okkur Íslendinga (og marga aðra auðvitað) því enginn skilur okkur þó að við séum að tala saman. Borðin eru líka meira eins og básar, þ.e. svo þröngir að það eru skilrúm milli borða til að fólk sitji ekki bara ofan á hvoru öðru. Kósí eða pirrandi, fer eftir skapinu sem maður er í þá stundina.
Monmouth er ekki með mikið magn af mat/kökum en eru samt með mjög girnilegar trufflur. Einnig er boðið upp á gamaldags filter kaffi, en þá er lagað í einn bolla í einu, ekki 20 lítra dunka eins og á sumum „grænlitum” kaffihúsum.  Þar sem þetta er kaffiverslun líka þá er að sjálfsögðu hægt að fá margar mismunandi tegundir af kaffi í filterinn, en þó einungis húsblandan í espresso vélinni. Monmouth Cafe er á skemmtilegum stað í London, á einu af uppáhalds svæðunum okkar, nálægt Covent Garden, Seven Dials nánar til tekið. Ég mæli með heimsókn og ef þið eruð á annað borð komin þangað er upplagt að skella sér á Neal's Yard Salad bar og fá sér gott í gogginn.