Bloggið

Æsispennandi fréttir frá CafeSigrun

Hrákaka sem verður í bókinni

Ég hef heldur betur spennandi fréttir. Ég (þ.e. CafeSigrun) er búin að skrifa undir bókasamning hjá Forlaginu! Ég auðvitað svakalega hlakka mikið til að deila með ykkur fullt af nýjum uppskriftum en útgáfudagur verður tilkynntur síðar. Á Facebook er ég búin að deila smá sýnishornum af myndum síðustu mánuði en nú fer ég að leggja lokahönd á handritið....endaspretturinn er í gangi. Ég leyfi ykkur að fylgjast með framvindunni. Þetta er svakalega spennandi!!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ný mynd af Zanzibar tómatsúpunni

Það er svo gaman að geta þess að svörtu skeiðarnar eru frá Tanzaníu, ljósa skálin frá Rwanda, kringlótta skálin frá Kenya og litla skeiðin frá Uganda.....!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ný mynd á tómatsúpu Höddu

Var að setja nýja mynd inn fyrir tómatsúpu Höddu :) Súpan er alltaf jafn góð!!!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Uppskrift á lifðu til fulls

Mig langar að prófa þessa svartbaunabrownies uppskrift. Núna......en hún er ein af uppskriftunum í sykurlausum lífstíl sem margir eru að prófa þessa dagana. Júlía hjá lifðu til fulls tók viðtal við CafeSigrun og fékk eina uppskrift líka. Kíkið á

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Grjónagrauturinn góði....ný mynd og uppfærð uppskrift!

Hæ hó. Ég er búin að liggja í dvala. Eða eiginlega, öllu heldur er ég búin að vera á milljón og hefur þessi hluti lífs míns setið á hakanum. Eins og mér þykir gaman að skrifa og elda og skrifa og elda og skrifa og elda.....þá gagnast það víst lítið í klínískri sálfræði. Til einkunnar meina ég...að tala um mat þegar maður á að vera að hugsa um geðklofarófsraskanir og áráttu- og þráhyggju og svoleiðis. Ég er orðin hálfur klínískur barnasálfræðingur. Pælið í því! Það finnst mér magnað því mér finnst ég bara nýbúin með MSc námið í heilsusálfræði. Enda er bara eitt ár síðan við fluttum hingað til Íslands og ég kláraði námið í nóvember síðastliðinn á meðan ég var að byrja í klínísku sálfræðinni. Svo það hefur verið nóg að gera með 2ja og 4ra ára lítil kríli sem eru farin að segja við hvort annað í leik „heyrðu nei ég er bara upptekin núna og get því miður ekki leikið við þig...ég er nefnilega að fara í próf”. Úff það var strembið að heyra. En þessi börnum er ekki hægt að vorkenna...það er verri vanræksla til heldur að móðirin afli sér frekari menntunar. Svo hefur pabbi þeirra verið á við 20 manns og ég hefði aldrei getað þetta án hans. Svo ég skulda honum 8,436 smákökur.

En nóg um það. Ég var að setja inn nýja mynd af grjónagrautinum góða ásamt uppfærðri uppskrift þar sem pottinum er pakkað inn í handklæði. Það er eina vitið við að elda grjónagraut.

En fyrir ykkur sem eruð á Twitter, Facebook og Instagram þá er ég þar líka ef þið viljið finna mig!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ný uppskrift: Ananas- og kókosís, sættur með Stevia

Ég hef, aldrei, í 10 ára sögu CafeSigrun, þegið greiðslu fyrir neitt sem ég hef gert. Ég hef keypt allt mitt hráefni, allan borðbúnað, myndavélar, linsur, tölvur, bara akkúrat allt með mínum peningum. Og ætti ég að reikna út tapið við að reka svona vef er líklegt að það velti á einhverjum milljónum (já, í fleirtölu). En ég hef aldrei reiknað út tapið því þá væri ég löngu hætt. Þetta hefur verið skemmtilegt (allavega yfirleitt, allavega þegar notendur hrósa manni fyrir það sem maður gerir). Leiðinlegast þykir mér að fá fyrirspurnir sem eru svolítið þurrar og jafnvel frekjulegar og fá aldrei takk til baka. Það finnst mér það allra leiðinlegasta. Eða þegar fólk nöldrar til að nöldra. En það gerist sem betur fer sjaldan.

Um daginn fékk ég fyrirspurn frá VIA-HEALTH, framleiðanda VIA-HEALTH Stevia dropanna sem fást víða á Íslandi. Spurt var hvort ég hefði áhuga á að fjalla um vöruna. Ég hikaði því ég hef aldrei gert það áður þ.e. að fjalla um eitt né neitt. En ég hugsaði líka með mér að þetta væri í raun stórsniðugt fyrir notendur vefjarins því þarna eru þeir að fá að kynnast því sem ég raunverulega nota. Annars hefði ég sagt nei strax eins og við hina um það bil 49 sem hafa beðið mig um að fjalla um eitt og annað í gegnum árin. Ef ég nota ekki hráefnið eða hlutinn mun ég aldrei fjalla um það. Ég hef t.d. engan áhuga á að nota einhverja potta sem eiga að „megra fólk“ eins og stóð í auglýsingu einni. Né hef ég áhuga á að vera í samstarfi við veitingastað sem heldur að hann selji hollan mat, en gerir það ekki.

Eins mun ég aldrei taka greiðslu fyrir nema í formi vöru sem ég er að kynna. Það eina sem ég í raun „græddi“ á stevia dropunum voru droparnir sjálfir en ég kom samt eiginlega út í mínus því ég notaði jú mitt eigið hráefni í bakstur og tilraunir. Svo þið sjáið að ég er heimsins versta viðskiptamanneskja þegar kemur að því að reyna að græða nokkurn skapaðan hlut. Enda hefur það aldrei verið tilgangurinn.

Ég er hrifin af Stevia og hef notað dropana í rúmlega ár. Þeir voru ekki svona fínir í London eða sko það fengust nokkrar tegundir í heilsubúðunum en voru yfirleitt með bitru og undarlegu eftirbragði. Droparnir frá VIA-HEALTH (íslensk framleiðsla!) eru það ekki. Annars hefði ég ekki notað þá í heilt ár og annars væri ég ekki að fjalla um þá núna.

Það sem ég hef notað Stevia mest í eru drykkir (smoothie), ís, smákökur, kökubrauð, muffinsa o.fl. Mér finnst best að nota lágmarkssætu (hrásykur o.fl.) í t.d. muffinsa og bæta svo upp á með Stevia til að áferðin haldist en þannig að lágmarkssæta sé notuð. Þannig hef ég notað vanillustevia í staðinn fyrir vanilludropa, kókosstevia í kókos- og ananaís o.s.frv. Það munar heilmiklu að geta sleppt sætuefni eins og hlynsírópi, hunangi, agavesírópi o.fl. og geta notað nokkra dropa af stevia í staðinn.

Stevia droparnir eru framleiddir úr lífrænum Stevia laufum. Stevian sjálf er jurt sem notuð hefur verið í lækningaskyni í Suður-Ameríku í mörg hundruð ár svo hún er ekki ný af nálinni og ekki framleidd á tilraunastofu, ólíkt gervisætum. Einungis er notað vatn við að vinna laufin sem þýðir að þau eru eins hrein afurð og mögulegt er, nema maður bryðji laufin sjálf (en mæli ekki með því endilega því þau hafa biturt bragð). Stevia droparnir eru 200 sinnum sætari en sykur svo það segir sig sjálft hvers vegna skammtarinn er dropateljari!

Kosturinn við Stevia dropana er að í þeim er enginn sykur og Stevian hækkar ekki blóðsykurinn. Ókosturinn við Stevia (og alla sætu) er að maður er ekki að venjast minna sætubragði eins og takmarkið ætti að vera hjá öllum þ.e. að minnka sætu í því sem maður borðar. Tvíeggja sverð kannski en þar sem t.d. ég er óttalegur kökugrís og ég mun ekki hætta að borða kókossykur, Rapadura hrásykur, döðlur, hunang og þess háttar sætu, þá er Stevian frábær viðbót sem ég mæli með. Hér er uppskrift að kókos- og ananasís sem sættur er einungis með Stevia dropunum frá VIA-HEALTH. Ég notaði kókosdropana en líka hefði verið hægt að nota vanilludropana. Ég hlakka til að nota og prófa hinar tegundirnar líka.

Kókos- og ananasís sættur eingöngu með Stevia dropum frá VIA-HEALTH

Stevia droparnir í alls kyns bragðtegundum

Stevia droparnir frá VIA-HEALTH

Dropateljari með VIA-HEALTH dropunum

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Árið 2013 kvatt

Árið 2014 er að ganga í garð og í fljótu bragði fannst mér ekki eins og ég hefði gert neitt af viti.....en fór svo að hugsa aðeins. Í grófum dráttum gerði ég (og fjölskyldan) þetta:

 • Fórum til Disneyland (ég er algjör sökker fyrir Disneyland.....Ég veit, ég veit). Hef farið þangað 3var og 2var án barna þegar Jóhannes var með 35% afslátt af öllu m.a. hótelum og varningi af því hann var að vinna hjá Disney....Það var reglulega gaman að fara með fjölskyldunni (auk mágkonu og tengdamömmu).
 • Við héldum jólin í fyrsta skipti í London frá árinu 2001. Það var bæði skrýtið og dásamlegt í senn. Það var skrýtið að vera svona langt frá öllu og öllum en á sama tíma dásamlegt að geta bara verið í náttfötunum meira og minna um öll jólin og farið á þau milljón frábæru kaffihús sem voru í nágrenni við okkur.
 • Fjölskyldan flutti til Íslands frá London eftir um það bil 10 ára veru (ekki samfellda). Þriðja skiptið sem við flytjum út og til Íslands aftur. Það tekur yfirleitt um 2 ár (fjárhagslega og andlega) að jafna sig á flutningum til Íslands. Ég græt pínulítið inni í mér á hverjum degi en reyni að vera bjartsýn og jákvæð barnanna vegna. Þau eru að elska Ísland og leikskólann sinn og það skiptir öllu. Veðrið er hins vegar að ganga frá mér og skammdegið. Ekki vegna einhvers óyndis, heldur vegna þess að ég get engar fjandans myndir tekið af mat. Það er myrkur fram til hádegis og svo er smá ljósglæta til klukkan 14, rétt svo að maður sjái út um gluggann...en svo kemur myrkrið bara 5 mínútum síðar. Fáránlegt. Ég sakna líka langa haustsins og langa vorsins í London. Á Íslandi er bara langt haust og svo vetur.
 • Ég lauk Mastersgráðu í heilsusálfræði við University of Westminster....og get með góðri samvisku sagt að ég hafi lokið henni með stæl.
 • Ég fékk inngöngu í klínísku sálfræðina við Háskóla Íslands. Sem aftur þýðir að ég er ekki eins dugleg og ég vildi hvað CafeSigrun varðar en verð þeim mun duglegri í sumar með meiri birtu og meiri tíma.
 • Ég eignaðist Vitamix og Magimix 5200XL. Er mjög ánægð með Vitamix-inn en síður ánægð með Magimix-inn...eða við skulum frekar segja að vélin og hnífurinn sé í úrvalsflokki en skálarnar D.R.A.S.L. Nánar um það síðar.
 • Gerði uppskrift að súkkulaðiköku sem er hrá og þannig að fólk fær aðsvif úr hamingju við að borða hana. Hún verður opinberuð síðar við gott tækifæri.
 • Eignaðist Excalibur þurrkofn fyrir hráfæði og er að byrja að nota hann núna með meira plássi. Hafði notað hann bara pínulítið í London sökum plássleysis en núna þurrka ég allt. Það má meira að segja þurrka tómatsúpu og jógúrt...(ok kannski tilgangslaust en möguleikinn er fyrir hendi).
 • Fór milljón sinnum út að borða í London...og borðaði líbanskan (nánar tiltekið beirútskan) mat, thailenskan, japanskan (fuuuullllt af sushi), ítalskan og fullt af hráfæði og öðru góðgæti. Staðirnir sem stóðu upp úr voru ROKA og Ottolenghi.
 • Var í fullt af viðtölum í einhverjum blöðum hér og þar og missti töluna um miðbik ársins....
 • Bakaði og eldaði alveg heilan helling með börnunum á árinu. Eiginlega á hverjum degi þegar ég var í London og var aðeins með dagvistun hálfan daginn. Það verður minna þannig að mig langi að stinga mér ofan í blandarann og kveikja og meira þannig að þetta sé eitthvað sem mig langar til að halda áfram að gera. Svo þið sem eruð með svona ung börn (2ja og 4ra)....ekki gefast upp og skipuleggið baksturinn vel (hafið allt tilbúið, hver með sitt verkefni o.s.frv). Reyndar er ekkert mál að baka með einu barni, sérstaklega yfir 3ja ára (svona að öllu jöfnu) en 2ja og 4ra ára saman (og bæði með sama einbeitta brotaviljann)....guð.minn.góður).

Árið 2014 verður spennandi og vonandi með meiri ferðalögum. Jóhannes er reyndar að byrja árið með því að leiða ferðahóp upp á Kilimanjaro í annað skiptið. Við fyrsta tækifæri munum við ferðast meira saman. Hef grun um að ljóta eldhúsinnréttingin verði þangað til við verðum elliær því ferðalög munu líklega alltaf hafa forgang. En ég gæti hugsað mér verri notkun á peningum.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir 2103!!!

Hlaupið í Coram's Field, London

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Jólakveðja

Kæru notendur CafeSigrun. Mig langar að óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Ég vona að þið eigið friðsæl og holl jól í faðmi góðra vina eða fjölskyldu!!! Ást og friður í kot og hjarta.

Jólakveðja
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Mastersgráða og Skype jól

Ég er orðin ¼ sálfræðingur. Nú eru afstaðnar 216 kennslustundir, 10 próf, 6 skýrslur/skilagreinar, 11 ritgerðir og önnur verkefni og 2 nemendafyrirlestrar og fyrir utan um 640 stundir (ekki minna en það en veitti ekki af) í lærdóm fyrir þessa önn. Allt þetta á þremur mánuðum. Það er alveg hægt að segja að ég hafi verið í meira lagi upptekin að undanförnu. En núna á ég einungis tvö verkefni eftir og svo ætla ég að demba mér í jólaundirbúning og bakstur og gera eitthvað skemmtilegt með börnunum sem halda að tölvan sé gróin föst við andlitið á mér. Sérstök heiðurs- og þolinmæðisverðlaun fara til Jóhannesar sem hefur verið í öllum hlutverkum heimilisins og staðið sig með sóma (en ég hef reyndar komist að því að salatgerð er ekki hans sterkasta hlið í matargerð. Okkur greinir verulega á um hvernig salat þurfi að vera til að vera gott). Ég hefði ekki einu sinni reynt þetta án hans. Og samnemendur mínir gera námið líka skemmtilegt, allt saman góðir krakkar. Þau láta mig allavega ekki finna fyrir því að ég sé risaeðlan í hópnum.

Og já svo útskrifaðist ég úr MSc í heilsusálfræði fyrir um viku síðan. En ég steingleymdi því, var bara að læra eins og venjulega og svo allt í einu poppaði upp áminning í tölvunni um að útskriftin væri eftir klukkutíma. Og það var pínulítið sorgleg stund….að gleyma útskriftinni sinni. En ekki mikið við því að gera þar sem ég var jú á Íslandi en útskriftin í London. Ég var hrikalega ánægð með að fá distinction fyrir MSc gráðuna. Við vorum tvær í bekknum sem fengum distinction og sú sem líka fékk hana er bresk í húð og hár. Það hefði verið gaman að vera í athöfninni með asnalegan hatt og skikkjuklædd eins og Harry Potter (bara til að geta hallæris-instagramað myndina). Mér þótti reglulega vænt um það að allt sem ég lagði á mig og okkur hefði skilað sér. Og aftur hefði ég ekki reynt þetta án Jóhannesar, né án Sigríðar (leigubílsstjóra og tréútskurðarmeistara) sem var hjónabandsbjargarinn okkar (hún passaði yngra eintakið þegar ég var í skólanum og hann ekki á leikskóla og sá til þess að ég missti ekki vitið. Og var einstaklega skemmtilegur félagsskapur líka). Ég er svo heppin að þekkja gott fólk, vera umvafin góðu fólki alla daga og endalaust heppin með að fjölskyldan styður mig í því sem ég er að gera.  

En núna er skafrenningur og myrkur og þegar mesta stressið er búið í skólanum (þegar ég hætti að greiða mér með tannburstanum og farin að muna hvað börnin mín heita. Það kom í alvörunni fyrir að ég gleymdi því eitt skiptið í leikskólanum) fer ég að hugsa til London og hversu mikið ég sakna jóla-London. Það fór hrikalega vel um okkur síðustu jólin þar. Það borgar sig ekki að hugsa of mikið um það samt heldu einbeita sér að því sem er gott við Ísland (ekki hafa eftir mér „að leita að nál í heystakki”). Og þetta verða undarleg jól. Einn bróðir búsettur í Kenya ásamt megninu af fjölskyldunni, annar bróðir búsettur í Danmörku ásamt fjölskyldunni og einn bróðir búsettur í Belgíu (eða Saudi Ariabiu) og börnin og hinn hluti fjölskyldunnar (fyrrverandi eiginkona og drengir) í Englandi. Þetta verða líklega Skype jólin miklu 2013!

 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Næstu skref.....dúddídúmmmm

Jæja. Allt of langt síðan síðast. Það er allt of mikið að gera en sem betur fer er þetta tímabundið. Ég er nýbúin að fá einkunn fyrir mastersritgerðina (Distinction) í Heilsusálfræði við University of Westminster. Þessir síðustu metrar voru gríðarlega erfiðir og sérstaklega af því við vorum að flytja á milli landa með fjölskylduna. Einn og hálfur mánuður í svoleiðis vesen er ekki að flýta fyrir manni!

Lengi vel, áður en ég byrjaði í náminu hugsaði ég með mér hvað ég ætlaði að nota gráðuna mína í. Það gefur auga leið að vera með MSc í Heilsusálfræði er gott upp á credibility fyrir vefinn minn. Ég er þá ekki alveg að tala út úr rassinum á mér ef ég segi t.d. að það að vera of þungur er oft (ekki alltaf) áhættuþáttur fyrir verri heilsu eiginlega alveg sama hvenær á lífsleiðinni. En núna get ég sagt að ég er búin að sitja kúrsa um efnið, lesa alls kyns greinar, vera í umræðutímum, taka próf, flytja fyrirlestra o.fl., o.fl. Svo ég er ekki eingöngu áhugamanneskja um heilsu og bætta líðan. Námið var einstaklega skemmtilegt og gefandi. Krefjandi og flókið og áhugavert allt í senn. Ég er ánægð með námið, lesefnið (mest megnis nýútgefnar vísindagreinar) og skólann. Síðustu misserin hef ég einbeitt mér að svefnvandamálum barna sem og ofþyngd (þ.m.t. fæðuval barna eins og ruslfæði) því þessir þættir tengjast óneitanlega. Of lítill svefn (og allt of mikill svefn) hefur tengsl við, og getur spáð fyrir um, ofþyngd síðar meir á ævinni. Börn sem sofa of lítið í kringum 3ja ára, eru oft of þung um 7 ára. Sem dæmi (en aðrir þættir spila að sjálfsögðu inn í líka). Hrikalega spennandi. Um þetta snerist MSc verkefnið mitt. Svo eru aðrir þættir sem tengjast inn í eins og t.d. ofvirkni en ofvirkni með athyglisbresti hefur ekki ólík einkenni uppsafnaðrar þreytu hjá börnum. Þess vegna ættu sjónvörp eða leikjatölvur eða yfir höfuð önnur tæki ALDREI að vera inn í svefnherbergjum barna.

En nóg um það.

Ég var eitthvað að sjá fyrir mér að börnin spyrji mig í framtíðinni hvað ég starfi við. Þau vita að pabbi vinnur við tölvur. Þau vita ekki almennilega hvað mamma gerir. Nema hún tekur myndir af mat og svo vinnur hún fullt í tölvunni. Ég sé fyrir mér samtalið þegar ég útskýri fyrir alvöru hvað mitt alvöru starf er (sem er sérfræðingur í aðgengismálum fatlaðra á netinu, eitthvað sem ENGINN veit hvað er...sem er óskaplega þreytandi í matarboðum og svoleiðis). Sem kemur að því sem ég ætla að gubba út úr mér. Ég hef nú hafið nám í klínískri barnasálfræði. Ég ætla að nota alla þekkinguna sem ég hef safnað að mér í öll þessi ár, alla menntun mína, um heilbrigði, óheilbrigði, ofþyngd, mataræði, svefn, um börnin mín, um börn annarra, allt sem þið lesendur góðir hafið kennt mér og ég ætla að setja þetta allt í einn pakka. Hvernig ég kem til með að nota menntunina kemur í ljós en ég veit að þetta nám mun nýtast mér á margan hátt. Og kannski einhvern tímann ykkur? Ef þið heyrið lítið frá fram að jólum þá vitið þið hvers vegna :) Ég verð samt ekki búin að gleyma ykkur og ég vona að þið gleymið mér heldur ekki. Þetta er tímabundið og svo fer ég á fullt að gera eitthvað spennandi sem tengir þetta allt saman og verður ykkur í hag frekar en óhag...stay tuned!

 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It