Matarlyktin góða
Þetta er rosa skrýtið. Næstum því á hverju kvöldi þegar við erum lögst upp í rúm og erum að fara að sofa þá byrjar að streyma inn um gluggann þessi ótrúlega góða matarlykt. Þetta er svona eins og í Tomma og Jenna, þar sem lyktin lætur mann svífa í loftinu. Svona hér um bil. Þetta er svona hvítlauks-, karrí-, engifer-blanda (eflaust með milljón fleiri kryddum) og maður verður svoooo svangur af lyktinni því þegar maður er að fara að sofa þá er langt síðan við borðuðum og við borðum yfirleitt ekki eftir kvöldmat nema kannski ávexti. Ekki það að mann langi að borða svona mat á kvöldin (já hver borðar kvöldmatinn eiginlega svona seint???) en lyktin er svo ótrúlega góð og freistandi að ég segi nú bara eins gott að ég er komin undir sæng. Mig langar að vita hver það er sem eldar þennan góða mat og fá uppskriftir hjá viðkomandi. Ég læt mér nægja að skoða uppskriftabækurnar sem eru á náttborðinu og fá vatn í munninn.
Ég ætla ekki að skrifa meira, mér er nefnilega svo illt í vinstri hendinni. Ég var að hita mér te í gærkvöldi og var að teygja mig eitthvað fyrir framan ketilinn og fór beint í gufuna þegar vatnið var um það bil soðið. Djöfull var það vont. Er eldrauð og bólgin núna en held ég sleppi við blöðrur. Ég get ekki komið nálægt svæðinu þar sem húðin er rauð því það er svo ótrúlega sárt. Svona er þetta, slysin gerast í eldhúsinu! Samt glatað að slasa sig á gufu! Það er eins og Jóhannes segir, það á að geyma mig í bómull.