Grill með riffluðu járni til sölu, á íslandi

Við létum undan, eftir 8 mánuði. Við reyndum að sýna styrk en gátum það ekki. Þetta er löng saga og dáldið asnaleg. Þegar við Jóhannes fluttum hingað aftur til London í Janúar síðastliðnum þá sáum við ekki eftir mörgum hlutum sem voru í geymslu heima á Íslandi. Við söknuðum þó samlokugrillsins okkar. MIKIÐ. Sem er dáldið skrýtið því við notuðum það ekkert svo svakalega mikið heima á Íslandi, kannski tvisvar í mánuði. En sem sagt síðan við fluttum höfum við ekki hugsað um annað. Við sögðum stundum bæði upp úr þurru "ohhhh hvað ég vildi að við værum með grillið okkar" eða "Mig langar í samloku Jóhannes.....ég veit Sigrún, mig líka". Oft kom: "Kaupum grill, förum bara NÚNA og kaupum það" og við létum okkur dreyma. Þessi setning heyrðist oft í Soho og víðar: "Sjáðu Jóhannes (hálfpartinn hvísl, svona hást), þau eru að borða grillaða samloku" eða þegar ég horfi út um gluggann heima "Jóhannes ég held að þau séu að borða samloku þarna á veitingastaðnum, grillaða. Ég er eiginlega alveg viss. Nei Jóhannes ég notaði ekki kíki" o.s.frv., o.s.frv. Stundum þegar við gátum ekki meir fórum við á Starbucks og fengum okkur ristaða Panini með mozarella, ólífum, pestó og sólþurrkuðum tómötum.

Málið er að við eigum mjög gott samlokugrill heima á Íslandi, ekkert IKEA grill heldur gott grill sem gerir góðar samlokur svo það að kaupa samlokugrill er mjög ópraktíst og mikið bruðl. Ekki líkt okkur.

En við létum undan í gær. Við fórum og keyptum hrikalega gott samlokugrill. Grill sem er ætlað bara í að grilla samlokur og ekkert annað, svona Panini-kaffihúsa grill með sléttum flötum, sem grillar samlokuna í klessu þannig að osturinn lekur pínu út og verður grillaður. Hrein hamingja.

Við fórum heim með grillið með rosalegt samviskubit en þurftum auðvitað að prófa. Ég gerði 4 "Starbucks samlokur" og notaði pítubrauð (bara eins og ég geri alltaf) og við vorum að kafna úr spenningi. Við stóðum fyrir framan grillið eins og foreldrar horfa á nýfætt barn sofandi í rúminu sínu.

Við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Við táruðumst næstum því úr hamingju yfir grillinu okkar og auðvitað samlokunum. Þær. voru. hrikalega. góðar.

En já núna eigum við sem sagt 2 samlokugrill, annað með riffluðu járni (gerir ágætissamlokur) á Íslandi og annað svona kaffihúsasamlokugrill með sléttu járni sem gerir bestu samlokur í heimi.

Jóhannes borðaði 3 og ég 1.

Fyrir þá sem vilja uppskriftina þá er hún hér (fyrir 4):

4 gróf pítubrauð (cirka 1 á mann nema fyrir svona Jóhannesa, þá eru það 3-4), pítubrauð eru hollari en paninibrauð en það má nota þau auðvitað líka 4-5 mtsk léttmajones (6% fita) 2 mtsk grænt pestó 7-10 sólþurrkaðir tómatar, olían þerruð af og skorin í strimla 10-15 svartar ólífur, skornar í sneiðar Ostur eftir smekk (við settum MIKINN ost og hann bráðnaði út um allt), notið magran ost t.d. 11%, eða létt mozarella ost (nema ef þið viljið hafa þetta óhollara auðvitað)

Blandið saman pestó og létt majonesi og smyrjið á botn og lok pítubrauðanna Dreifið öllu saman jafnt á pítubrauðin 4 Grillið í góðu samlokugrilli (svona eins og við eigum he he. Fæst í John Lewis á Oxford Street fyrir þá sem eiga leið um London)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sólveig Finnsdóttir
22. ágú. 2005

hæ ég vil gjarnan kaupa grillið ykkar sem er hér heima ( á vægu verði) ef þið eruð ekki búin að lofa því ég á ekki samlokugrill en hef oft óskað þess ef maður veit ekki hvað á að vera í matinn, sérstaklega þegar pabbi þinn kemur óvænt heim og er svangur og að flýta sér. kv mamma.