Góður dagur
Jæja þá er haustið komið. Það rignir að minnsta kosti og það er þungbúið úti og frekar kalt. Miðað við daginn í gær þá er þetta bara vetur. Það var sól, 28 stiga hiti og smá gola í gær. Hrikalega notalegt. Þau voru aldeilis heppin Borgar, Elín og strákar að fá svona veður í gær. Við gerðum allt samkvæmt áætlun. Við fórum á Gili Gulu, fórum á jógúrtísstaðinn, fórum í ferðabókabúðina, afrísku bókabúðina og Borgar tók út nokkra pöbba (hverfispöbbinn tvisvar) og fengu þeir almennt góða einkunn hjá honum. Held honum finnist mjög sniðugt að geta farið á inniskónum á hverfispöbbinn. Strákarnir fóru í strætó með Jóhannesi og Borgari og við píurnar fórum í smá verslunarleiðangur.
Svo fórum við aðeins yfir heimasíðumál og svona. Afríkuvefurinn þeirra er að verða tilbúinn á ensku og ég set slóðina inn á hann hér þegar hann verður tilbúinn.
Annars var ég að velta einu fyrir mér. Afhverju eru útvarpsmenn svona glaðir þegar er sól? Ég skil ekki alveg afhverju þeir eru svona ofsakátir þegar þeir sitja inni? Vita þeir ekki af sólinni? Ég verð að segja fyrir mig að ég verð bara leið þegar ég er inni í svona ofsalega góðu veðri og er alls ekki í góðu skapi. Ef er sól úti, þá langar mig ekki að vera inni. Ef er rigning þá er ég bara glöð því þá sit ég inni í hlýjunni, með te og kannski trefil? Ég hef aldrei skilið þetta en ég svo sem hlusta sjaldan á útvarp því mér finnst útvarpsmenn yfirleitt svo glataðir.