Flughræðsla Part II

Ég er að spá í að verða flughrædd aftur. Það eru núna daglega fréttir af flugslysum. Það er eins og flugvélafloti heimsins hafi ákveðið að gefa upp öndina. Fóru eftirlitsmenn í verkfall í öllum þessum löndum? Er fólk loksins að átta sig á því að það að fljúga í flugvél er bara órökrétt og rangt? (hef ekki annan kost, ég veit, en það er samt rangt).

Las grein um daginn þar sem var verið að tala um hvað svokölluð tölfræði á bak við flugslys gefur manni falska öryggiskennd. Jú auðvitað er maður í meiri hættu við að verða fyrir bíl á leiðinni út á flugvöll en að lenda í flugslysi en það er allt miðað við vegalengdir sem flognar eru. Langar vegalengdir jafna út tíðni flugslysa á styttri vegalengdum og gera þær „öruggari“. Miðað við tölfræðina er mesta hættan við að taka á loft og lenda. Það þýðir að maður er í mestri hættu þegar maður er að millilenda í lengri flugum (miðað við tölfræðina). Þetta er dálítið skondið þegar maður tekur inn í myndina ferð með geimfari til tunglsins. Miðað við vegalengd er það svakalega öruggt þó að það séu talsverðar líkur á því að maður drepist á leiðinni. Þó að sé farin ein ferð sem heppnast bara aðra leiðina (þ.e. ef geimfarið springur á leiðinni heim) þá er það samt mjög öruggt miðað við vegalengd. Skiljið þið hvað ég meina? Ég er hætt að trúa á tölfræðina, mína einu stoð og styttu í flughræðslunni.

Það er samt klárt mál að til að auka lífslíkur mínar þá forðast ég lágfargjaldaflugfélögin eins og ég mögulega get. Ef þeir eru að skera niður peninga þá hljóta þeir að skera niður varðandi öryggi, einhvers staðar. Það hlýtur bara að vera. Ég vil líka frekar hafa brosandi, sætar flugfreyjur frá Flugleiðum (þó ég þoli ekki fyrirtækið) heldur en flugfreyju frá Iceland Express í vondu skapi (eins og svo oft er raunin).

Dömur mínur og herrar, við erum nú að búa okkur undir hrap, vinsamlegast spennið sætisólar, gætið þess að fótskemlar og sætisbök séu í uppréttri stöðu og borð fyrir framan ykkur séu föst. Fyrir ykkur sem viljið gera síðustu kaup (SÍÐUSTU KAUP) í Djútí Frí verslun okkar, vinsamlegast gerið það núna. Áætlaður tími á komustað (fjall) er eftir 2 mínútur. Icelandair þakkar samfylgdina.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It