Afríka

Jæja þá erum við komin eftir aldeilis vel heppnaða ferð. Við lentum reyndar síðastliðinn sunnudagsmorgunn en áttum að lenda laugardagsmorgunn. Það var um 26 tíma seinkun á fluginu þannig að við komum á sunnudags- í staðinn fyrir laugardagsmorgni. Við vorum sem sagt í Mombasa og ætluðum að fljúga til Nairobi þegar okkur var tilkynnt um þessa seinkun. Við ákváðum samt að fljúga til Nairobi þar sem upplýsingar í Mombasa varðandi British Airways flug voru takmarkaðar. Þar var sem sagt tilkynnt um seinkun og okkur var komið á hótel. Við ákváðum að nýta tímann og skoða okkur meira um í Nairobi og vorum bara í rólegheitunum þar sem vélin átti að fara kl 6 morguninn eftir. Við erum enn þá að reyna að átta okkur á því hvernig British Airways tókst að hafa upp á okkur á Hilton hótelinu þar sem við hittum Elínu mágkonu mína (hún var að fara í ferð með félagsfræðikennara). Einhvern veginn tókst þeim að senda skilaboð á hana um að við ættum að fara upp á hótel síðdegis þar sem vélin ætti að fara í loftið kl 22.45 (en ekki klukkan 6 morguninn eftir). Við skiljum ekki alveg hvernig þeir fóru að þessu þar sem okkar nafn var hvergi skráð á Hilton og hitt hótelið vissi auðvitað ekki hvar við vorum. Skilaboðin voru líka send á nafn Borgars en ekki á nafn Elínar. Okkur dettur helst í hug leigubílsstjórinn sem keyrði okkur inn til Nairobi, en það eina sem við sögðum honum var að við værum Íslendingar, við værum að hitta konu frá Rover Expeditions á Hilton en engu að síður þá er það langsótt. Hann hefur þá sjálfur farið og látið vita sem er afar fallega gert ef svo er. Borgar sig að gefa gott þjórfé greinilega!!!

Það góða við þetta allt saman var eins og áður sagði að við græddum aukadag í Nairobi sem við notuðum meðal annars til að skoða heimili Karenar Blixen, Snákagarðinn (var með lokuð augun mest allan tímann samt, nema þegar ég skoðaði stóru skjaldbökuna, hún var voða sæt), Þjóðminjasafnið og síðast en ekki síst heimili fyrir munaðarlaus HIV smituð börn sem var mjög áhugavert. Það var sérstaklega áhugavert að því leyti að börnin virtust heilbrigð, vel nærð og hamingjusöm. Greinilega vel hugsað um þau og engan veginn í samræmi við þá mynd sem gefin er upp svona venjulega af HIV smituðum börnum úti í heimi. Það væri auðvitað best ef þau væru ekki HIV smituð en miðað við þetta þá er margt jákvætt hægt að gera fyrir þessi grey. Þessi börn eru almennt skilin eftir á spítölum eða úti á götu eða að foreldrarnir deyja frá þeim, úr alnæmi yfirleitt. Það eru enn þá miklir fordómar gagnvart HIV smituðu fólki og til dæmis fá smituð börn almennt ekki að ganga í almenna skóla heldur þurfa að ganga í einkaskóla sem kostar auðvitað mun meira. Það gerir þeim lífið ekki auðveldara. Þetta er þó aðeins að breytast ekki síst fyrir tilstuðlan þessarar miðstöðvar sem við heimsóttum.

Ferðin hefði aldrei verið svona góð og vel heppnuð ef við hefðum ekki haft Borgar bróður og Elínu sem leiðsögumenn. Þau þekkja alla staðhætti vel í Afríku og margir eru kunnugir þeim líka sem gerir allt mjög auðvelt. Ég myndi hiklaust mæla með ferð með þeim fyrir alla aldurshópa. Ég fæ að sjálfsögðu ekki greitt fyrir að auglýsa þau, þetta er bara persónuleg skoðun og upplifun. Sem dæmi um hversu mikið góðir leiðsögumenn skipta máli þá hittum við voða indælt par frá Bandaríkjunum þegar við lentum í seinkuninni, Meg og Paul (vorum með þeim í gegnum þetta seinkunarvesen allt) og þau höfðu eytt 4 dögum í einum þjóðgarði í staðinn fyrir 1 dag sem hefði verið alveg nóg. Þau voru frekar svekkt yfir því að hafa ekki verið með einhverjum sem til þekkti. Þau lentu líka í afar ágengum Masaaium en í staðinn þurftum við hálfpartinn að biðja Masaaina sem við hittum um að selja okkur hluti. Þau borðuðu bara á hótelum, alltaf 3 máltíðir í hlaðborði og þau uppgötvuðu í lok ferðarinnar að þau höfðu aldrei bragðað á afrískum mat. Við aftur á móti smökkuðum fullt af local mat sem bragðaðist afar vel.

Við sáum svo margt og mikið sem við erum ekki vön að sjá til dæmis villt dýr (ljón, fíla, gíraffa, zebrahesta og margt fleira), alls kyns þorp og markaði, björgunarheimili (animal sanctuary) fyrir fílskálfa, björgunarheimili fyrir simpansa (átakanlegt að heyra um sögu hvers og eins), strákofa, glæsilegt handverk og jafnvel fallegar grafíkmyndir (á Þjóðminjasafninu).

Það voru nokkur atriði sem ég hafði gert mér í hugarlund um Afríku áður en ég fór þangað en þegar til stóð var ég greinilega ekki með rétta mynd í kollinum (kannski fordómar eða þekkingarleysi) og ég ætla að telja upp þessi atriði hér (þessi atriði eiga við um Austur-Afríku og endurspegla aðeins mínar skoðanir):

 1. Misskilningur 1: Það er alltaf heitt í Afríku: Alls ekki, það fer eftir því hvernær ársins er farið. Til dæmis var ég í flíspeysu nánast allan tímann. Ég er kuldaskræfa og allt það en hitastigið var yfirleitt afar þægilegt eða um svona 20-25 stig á daginn og yfirleitt gola enda upp á hásléttu (aðeins heitara við ströndina).  
 2. Misskilningur 2: Grænmetisætur finna ekkert við sitt hæfi: Alger misskilningur þrátt fyrir það sem sagt er í Lonely Planet. Afríkubúar lifa mikið á kjöti en það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að gera grænmetisætum til geðs. Ég fékk mikið af dýrindismat fyrir mig t.d. Githeri (baunakássu), spínatkartöflur, grænmetissúpur, brauð, alls kyns gómsætan indverskan mat, ávexti og margt, margt fleira.  
 3. Misskilningur 3: Veitingastaðir eru ekki á háu plani: Það eru sko heldur betur góðir veitingastaðir í Austur Afríku. Til dæmis er einn af 50 bestu veitingastöðum heims í Nairobi og heitir Carnivore (líka hægt að fá grænmetisrétti, sjá Misskilning 2). Það er hægt að fá allt frá baunakássum upp í flottustu og dýrustu rétti á flestum veitingastöðum. Eitthvað við allra hæfi, svo mikið er víst.  
 4. Misskilningur 4: Hótelin geta ekki verið fín: Ójú, Hilton hótelið í Nairobi er mjög flott 4ja stjörnu hótel og sömuleiðis má finna lúxushótel um gjörvalla Austur-Afríku. Við ströndina eru hótelin þannig að mann langar ekki að fara heim, EVER.  
 5. Misskilningur 5: Fólkið skilur varla ensku: Heldur betur, það tala nánast allir ensku og örugglega betur en margar þjóðir. Fyrsta málið er alltaf ættfbálkamálið (tribal), seinna málið er Swahili og það þriðja er enska.  
 6. Misskilningur 6: Það er dýrt og erfitt að nálgast drykkjarvatn: Vatn er hægt að kaupa í flestum búðum eins og matvöruverslunum, bensínstöðvum og sjoppum og er mun ódýrara en vatn á brúsum í Englandi!  
 7. Misskilningur 7: Það er allt morandi í skordýrum: Ég er pödduhræddasta manneskja í heimi en ég get staðfest að ég sá enga könguló (bara í búri, reyndar var ég með lokuð augun allan tímann svo ég sá í rauninni aldrei könguló allan tímann), örfáar flugur (voru ekkert að angra mann) og ég var bara einu sinni bitin af moskítóflugu (og ég var aldrei með neitt eitur). Moskítóflugur bíta fólk samt mismikið, ég er greinilega ekkert gómsæt. Það voru nokkrir maurar á stangli en bara þar sem þeir áttu að vera (á jörðinni, að bardúsa eitthvað) en hvergi á manni eða í dótinu manns.  
 8. Misskilningur 8: Fátækt fólk er óhamingjusamt og lifa við sult og seyru: Málið er að bæði fátækt og hamingja eru afstæð hugtök. Þó að fólk hafi ekki sjónvörp, bíla, nýjustu föt eða tískublöð og búi í strákofum, þá virðist fólk vera ánægt og lífsglatt svo lengi sem það á í sig og á. Ég ætla ekki að alhæfa en þetta var tilfinningin sem maður fékk.  
 9. Misskilningur 9: Það eru engin kaffihús í Afríku: Við fórum á 2 frábær kaffihús í Nairobi; Dormans og Java Coffee House. Bæði með mjög gott kaffi hvort sem það var espresso eða koffeinlaus latte. Hægt að fá góðan mat líka þ.e. samlokur og beyglur og þess háttar.  
 10. Misskilningur 10: Sölumenn á mörkuðum eru ágengir: Reyndar enginn misskilningur, þeir voru eins og mý á mykjuskán en kannski eðlilegt þar sem þetta er lífsviðurværi þeirra. Bara skemmtilegt að prútta!  

Þetta var svona það helsta!

Já ferðaleiðin var annars þessi (takið eftir öllum N-unum!!):

 • London-Nairobi
 • Nairobi-Nanyuki
 • Nanyuki-Nyarhuru (Sweetwaters sanctuary fyrir simpansa og nashyrninga)
 • Nyarhuru-Nakuru (Lake Nakuru m.a. nashyrningar, breiður flamenco fugla og margt fleira)
 • Nakuru-Naivasha (Lake Naivasha, sáum m.a. flóðhesta þegar við sigldum til Crescent Island sem er merkilegur staður)
 • Naivasha-Nairobi (Fórum til Hell's Gate og hittum Masaaia ættbálkinn)
 • Nairobi-Mombasa (m.a. Fort Jesus virkið, Gamli bærinn í Mombasa og Diani Beach ströndin)
 • Mombasa-Nairobi (Diani Beach- Paradís og ekkert annað, hvítar strendur, tær og heitur sjór, pálmatré, hótelin fyrsta flokks og það besta; ekki of margir túristar!)
 • Nairobi-London

Myndir koma síðar og ég skrifa meira þá um hvern stað og svoleiðis (ef einhver nennir að lesa!).

Við eigum örugglega eftir að fara aftur innan skamms!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sólveig Finnsdóttir
09. ágú. 2005

hæ ég ætla bara að segja að ég er ALVEG sammála þér ég var smá hrædd (með mitt ofnæmi) að fara til Afríku en nú mæli ég með að allir fari. Borgar líka (enda sonur minn) og Elín hugsa fyrir öllu þau eru frábærir fararstjórar kv mamma.

Anna Stína
11. ágú. 2005

Hæ hæ - virðist hafa verið fullkomin ferð í alla staði !! FRÁBÆRT !! Hvenær ætlið þið aftur ?? Kv. AKM

Sigrun
12. ágú. 2005

Já frábær ferð. Aftur? Helst í gær!