Bloggið
Jólakveðja
Svolítil jólakveðja.....og með sýnishorni úr bókinni sem væntanleg er á nýja árinu :)
Konfekt - ný mynd
Það er svo gaman að breyta og bæta! Ég gerði uppskrift að konfektinu góða sem er hérna á vefnum og smellti af þessari mynd í leiðinni :)
Ný mynd - gömul uppskrift
Það er voða gaman að skoða gamlar uppskriftir á vefnum, uppfæra þær og taka svo mynd líka. Þessi sjávarréttarsúpuuppskrift er 11 ára gömul og stendur enn fyrir sínu. Hún var myndalaus en ég bætti úr því síðustu helgi :) Hún er frábær á köldum vetrardegi en svo má líka gera hana sparilega og fína t.d. með því að bæta út í hana humri eða skötusel.
Jólakonfekt
Nú fara fjöllin af konfekti að fylla matvöruverslanir landsins. Það er upplagt að útbúa hollara jólakonfekt eins og hér að neðan til að eiga með kaffinu. Konfekt þarf nefnilega ekki alltaf að vera hlaðið sykri og gerviefnum til að vera ljúffengt.
Uppskrift að smjöri?
Það fór þó aldrei svo að á CafeSigrun yrði ekki uppskrift að smjöri!
Oft spyrja gestir hvaða smjör ég sé með á borðum. Ég borða reyndar ekki smjör en það gera börnin mín (og mikið af því). Vandinn er að finna eitthvað sem er án aukaefna en samt smyrjanlegt. Ég hef farið þá leið að útbúa mína eigin útgáfu í hlutföllunum: 60% hreint, íslenskt smjör og 40% jómfrúarolía. Það er líka frábært að geta stillt saltmagnið sjálfur og bætt út í smjörið t.d. kryddjurtum o.fl. Þessi hlutföll má líka nota með kókosolíu og jómfrúarolíu. Hefðbundið smjör er mjög saltríkt (nema það sé hreint) og er ein af ástæðunum fyrir því að það virðist nánast vananabindandi fyrir suma. Ef þið takið saltið út er allt annað uppi á teningnum!
Frozen kakan
Það er ekki lítil pressa sem sett er á mann þegar 4ra að verða 5 ára skotta biður mann með brúnu augunum sínum að útbúa FROZEN köku. Í fyrsta lagi að ég neita að bjóða upp á keyptar kökur, í öðru lagi af því ég nota ekki hefðbundna matarliti og í þriðja lagi af því sykurmagn hefðbundinna kaka með einhverju sem á að virka í barnaafmælum hleypur á 4ra stafa tölum í grömmum. Svo höfuðið var lagt í bleyti eins og oft áður. Ég hef notað cashew krem en þau eru ekki nægilega stíf fyrir köku eins og ég vildi gera, né verður kremið eins hvítt og ég myndi vilja. Svo ég hugsaði með mér að í kökuna myndi ég hreinlega nota rjómaost þó ég noti hann aldri í neitt annað. Hann er þó hrein afurð. Næsta skref var að minnka sykurmagnið en ég notaði erythritol frá VIA-Health í þeim tilgangi (flórsykurinn). Þriðja skrefið var svo að nota matarlit sem ekki er búinn til í efnafræðistofu og hann fann ég í London (natural food colouring) en ég hef verið hrifin af litunum frá India Tree og Waitrose. Indian Tree má kaupa á netinu.
Uppskriftin af kreminu fyrir frekar netta 2ja hæða köku er: 400 g hreinn rjómaostur, 600 g erythritol flórsykur, smá salt og 1 msk vanilludropar (má bæta við af flórsykri eða nota stevia fyrir meiri sætu). Ég notaði svo bláa, náttúrulega matarlitinn til að lita svolítið af erythritol sykri (grófum) til að útbúa fallegan bláan sykur.
Í hefðbundinni köku af þessari stærð væru um 900 g af hvítum sykri en í staðinn er aðeins hrásykur í botnunum sem verður að teljast vel sloppið! Skvísurnar voru lukkulegar með kökuna. Afganginn af kökunni (þ.e. það sem ekki var borðað eða fór í nestisbox), notaði ég í eins konar cookie dough vanilluís......það kom hreint ekki illa út :)
Hér má sjá afraksturinn en í botnana notaði ég frönsku súkkulaðikökuna hennar Lísu.
Búin að ýta á send!
Það er ekki aftur snúið, búin að ýta á send og handritið farið af stað! Útgáfudagur er reyndar ekki ákveðinn (gæti verið á næsta ári) en ég leyfi ykkur að fylgjast með!
Sýnishorn (sneak preview) úr bókinni
Hér gefur að líta pínulítið sýnishorn úr bókinni minni. Ég er orðin mjög spennt og sit sveitt við að skrifa og elda og taka myndir. Útgáfudagurinn er ekki ákveðinn hjá Forlaginu en ég mun leyfa ykkur að fylgjast með. Ég er líka dugleg að setja inn tilkynningar á Facebook svo endilega fylgið mér þar líka!
Einföld jarðarberjasósa
Það er lygilega einfalt að útbúa sína eigin jarðarberjasósu sem nota má á ís eða til dæmis AB mjólk. Það eina sem þarf er frosin jarðarber í 10 mínútur með viðbættri 1 teskeið af hreinu hlynsírópi (einnig má nota stevia). Dásemdarsósa sem inniheldur engin skrýtin efni.
Pride uppskriftin 2014
Við frumsýnum Pride uppskriftina 2014 - regnbogaís!
Á hverju ári núna í nokkur ár höfum við gefið út Pride uppskrift í tengslum við Hinsegin daga. Með þessu viljum við sýna stuðning okkar við réttindabaráttu samkynhneigðra og aðra þá sem þurfa stuðninginn. Á sama tíma gleðjumst við yfir hversu langt við erum komin hér á landi í þessum málefnum. Húrra fyrir Pride 2014!
Uppskriftin er mjólkurlaus, glúteinlaus og vegan ef þið notið ekki hunang. Ég nota náttúrulega matarliti frá Indian Tree og Waitrose (sem ég keypti í London). Kíkið í heilsubúð og spyrjist fyrir um náttúrulega matarliti.
Maukuð jarðarber eða rifsber geta gefið rauðan lit.
Maukað mango getur gefið appelsínugulan lit.
Smá klípa turmeric getur gefið gulan lit.
Spírulína getur gefið grænan lit.
Blái liturinn er erfiðastur og í náttúrunni finnast fáar afurðir sem maður getur notað fyrir bláan lit. Bláber gefa nefnilega fjólubláan lit.
Rauðrófusafi og bláberjasafi geta gefið fjólubláan lit.
Ef þið notið keypta, náttúrulega matarliti gætuð þið þurft að blanda litina sjálf fyrir appelsínugulan og fjólubláan lit. Athugið að fyrir appelsínugulan lit gætuð þið þurft að blanda sjálf rauðum og gulum saman en fyrir fjólubláan gætuð þið þurft að blanda saman bláum og rauðum.
Innihald:
- 325 cashew hnetur lagðar í bleyti yfir nótt
- 330 ml möndlumjólk eða önnur mjólk
- 130 ml kókosolía
- 120 ml hlynsíróp eða hunang
- Nokkrir dropar náttúrulegir matarlitir (rauður, appelsínugulur, gulur, grænn, blár, fjólublár)
Aðferð:
- Leggið cashew hneturnar í bleyti yfir nótt og hellið svo vatninu vel af (gott að setja í sigti).
- Setjið í matvinnsluvél eða góðan blandara ásamt möndlumjólk, kókosolíu og hlynsírópi (eða hunangi). Blandið í um 5 mínútur og skafið hliðar matvinnsluvélarinnar nokkrum sinnum. Því meira sem þið náið að blanda því skemmtilegri áferð verður á ísnum. Ef þið eigið Vitamix mæli ég með honum í þetta verkefni.
- Skiptið blöndunni í 6 jafnstóra skammta og bætið nokkrum dropum (eða meira eftir smekk) af lit út í hvern skammt.
- Takið til eins lítra ísform og hellið fyrsta skammtinum (rauðum eða fjólubláum) ofan í formið. Frystið í nokkrar klukkustundir og endurtakið svo í réttri röð: Rauður, appelsínugulur, gulur, grænn, blár og fjólublár.
- Frystið í nokkrar klukkustundir (án þess að hræra) og takið svo út til að láta þiðna aðeins. Eftir um 30 mínútur má losa allan ísinn úr forminu og setja á disk en annars má skera varlega ofan í formið til að fá sneiðar.
Börnin beinlínis hoppuðu hæð sína úr gleði þegar þau fengu sneið af ískökunni.